01. tbl. 112. árg. 2026

Umræða og fréttir

Dagur í lífi. Milli lífs og lærdóms: Dagur medisíners á gjörgæslu. Berglind Bergmann

06:00 Nótt að enda komin. Glugginn galopinn og herbergið ískalt. Fer í ullarsokka og þykka rúllukragapeysu. Fæ mér kaffibolla og sest við tölvuna. Myrkrið umlykur og ég næ klukkutíma í dýrmætri þögn við að fínpússa verkferil fyrir gæðaverkefnið mitt, blóðsykurhækkun vegna sykursterameðferðar.

7:15 Legg af stað úr Safamýrinni á Landspítalann í Fossvogi. Gamli Garðbæingurinn og fyrrum Borgnesingurinn kann að meta að sleppa við umferð, hvílík lífsgæði! Eini ókosturinn er styttri tími fyrir hlaðvarpsþátt dagsins um schistocyta. Sérnámslæknar í lyflækningum rótera inn á ólíkar einingar spítalans og í dag er förinni heitið á morgunfund svæfinga- og gjörgæslulækna. Hendi mér upp stigann og í þægilegustu vinnuföt spítalans.

07:30 Flensutíminn er hafinn. Nöfn forfallaðra svæfingalækna eru lesin upp á morgunfundi. Maður veltir fyrir sér hvort ekki þurfi að fresta aðgerðum. Nei, einhvern veginn ná þessir öflugu kollegar að láta dæmið ganga upp.

07:45 Á morgunfundi gjörgæslulækna fer næturvaktin yfir fulla gjörgæsluna. Læknar dagsins skipta með sér verkum. Ég fæ þrjá sjúklinga, sem er meira en vanalega, en ég þekki tvo þeirra vel og mér til halds og trausts er reynslumikill svæfingalæknir.

08:00 Fer yfir mér kunnuga sjúklinga A og B. Hvorugur þurfa þeir á gjörgæslu að halda en komast vonandi á legudeild í dag, sem er ekki sjálfsagt með rúmanýtingu spítalans ofan á flensutíma. 

08:05 Tilfelli sjúklings C er áhugavert, sér í lagi fyrir tilvonandi lyflækni og gigtarlækni. Alvarleg öndunarbilun og nýgreindur fjölkerfasjúkdómur. Eftir fljóta yfirferð hringi ég í ráðgefandi gigtarlækni, lungnalækni og nýrnalækni. Sérfræðingurinn hringir í kollega á Hring-braut þar sem sjúklingurinn þarf að gangast undir aðgerð og flytjast þangað í kjölfarið. Nú eru góð ráð dýr.

10:30 Aðgerðin hefst og ég fylgist með. Kynnist sænskum kollega og rifja upp ryðgaða sænskuna.

12:30 Ég les yfir nótuna sem ég skrifaði fyrir Hringbrautarkollega eftir að sjúklingur C fer. Sé nú að ég skrifaði að það hefði verið hringt F1 útkall vegna hás sökks. Úbbs. Ég kann greinilega ekki á tölvukerfið á gjörgæslunni og mistókst að stroka út málsgrein með þessum afleiðingum. Jæja, ég vona að kollegarnir hinum megin hristi höfuðið yfir þessum medisíner brosandi út í annað.

12:45 Á eftir að setjast niður með hjúkrunarfræðingi sjúklings B, borða, halda fjölskyldufund og mæta í kennslu kl. 13. Fyrst ég fylgdist með aðgerðinni, finnst mér eðlilegt að klára verkefnin á gjörgæslunni og mæta seint í kennsluna, enda ekki oft sem maður fær slík kennslutækifæri eins og ég fékk í dag.

12:50 Hitti góða kollega í matsalnum og við ræðum læknamönnunarkrísuna sem blasir við landsbyggðinni. Það er sorglegt að heyra lýsingar á ástandinu á kæra SAk. Eftir að hafa unnið við héraðslækningar síðastliðin ár hef ég áhyggjur af þróuninni víða um land.

14:20 Kveð gjörgæsluna og ákveð að taka kennsluna á Teams og fara í ræktina. Því miður virðist Teams ekki tengt, skipti yfir í peppmúsik.

16:00 Sæki börnin fyrr í dag. Glaður glókollur kallar ,,mammmmaaa!” og hleypur til mín en ég þarf að hafa fyrir því að fá stúlkuna til mín, enda upptekin við leik.

18:00 Eftir notalega fjölskyldustund og þvott elda ég Daddabollur og pasta. Ræði við manninn minn um daginn og veginn í gula eldhúsinu okkar. Allir sáttir og borða vel. 

20:30 Börnin sofnuð og maðurinn í badminton. Næ hugarró yfir glæpaþætti á Netflix sem jafnframt veldur mér vonbrigðum.

22:30 Góð hvíld er gulls ígildi fyrir komandi vaktaviku. Stilli á hálftímaspilun á Buried bones og sofna fljótt.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica