12. tbl. 111. árg. 2025
Umræða og fréttir
Úr penna stjórnarmanna LÍ. Þurfum við ekki að tala aðeins um afköst? Ragnar Freyr Ingvarsson
Mat á afköstum (framleiðni) í heilbrigðis-þjónustu er flókið viðfangsefni. Það snýst ekki bara um magn heldur umfram allt um gæði. Við viljum öll skilvirkt og öflugt heilbrigðiskerfi sem notar verðmæti eins og mannauð, fjármagn, tækni og tíma vel til að veita eins góða þjónustu og völ er á. Mikilvægt er að greina afköst heilbrigðiskerfisins og safna upplýsingum um hvernig við getum bætt þjónustuna.
Sjálfstætt starfandi sérfræðilæknar
Í dag eru um 400 sérfræðilæknar á samn-ingi við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) og „framleiða“ mikla heilbrigðisþjónustu á hverju ári. Flestir sinna öðrum störfum samhliða, vinna á Landspítala, sinna vísindastörfum eða kennslu. Í fyrra keypti SÍ 533 þúsund læknisverk af sérgreinalæknum. Það er rúmlega þriðjungur af allri göngudeildarþjónustu á Íslandi. Starfsemin er víðfeðm og spannar allt frá viðtölum, rannsóknum og skurðaðgerðum og hefur aukist um 6% á milli ára. Flestir sérfræðilæknar á stofu sjá 10-25 sjúklinga á dag, breytilegt eftir sérgrein. Niðurstöður þjónustukannana eru yfirgnæfandi jákvæðar en árið 2020 voru 98% sjúklinga frekar eða mjög ánægðir með þjónustuna. Niðurstöður frekari kannana er að vænta.
Gigtarmiðstöðin
Ég starfa á Gigtarmiðstöðinni, ásamt átta gigtarlæknum, sem samanlagt manna tæplega þrjú stöðugildi. Árið 2024 sinntum við 7776 viðtölum og 5372 símtölum/rafrænum erindum. Hvert og eitt okkar sér daglega um 13 sjúklinga og hringir um 8 símtöl. Það sem af er ári hefur þjónusta okkar aukist um 20% miðað við sama tíma í fyrra. Ég hlakka til að birta niðurstöður þjónustukannana á næstu mánuðum.
Heilsugæsla Höfuðborgarsvæðis (HH)
Heilsugæslan á að vera fyrsti viðkomustaður í heilbrigðiskerfinu. Heilsugæslan stendur höllum fæti því einungis annar hver skjólstæðingur er með skráðan heimilislækni. Þjónusta heilsugæslunnar dróst saman á liðnu ári, þrátt fyrir að 66 stöðugildi hafi bæst við á sama tímabili. Síðan 2022 hefur komum á heilsugæslustöðvar fækkað samkvæmt ársskýrslu SÍ. Samkvæmt ársskýrslu HH frá 2024 voru komur til lækna heilsugæslunnar 239 þúsund. Miðað við 151,4 stöðugildi lækna þýðir það um 6,7 læknisheimsóknir daglega, auk annarra verka eins og rafrænna erinda, símtala og vitjana. Sé horft til starfsemi sálfræðinga HH og sömu aðferðum beitt, þá sjá þeir að meðaltali 0,6 skjólstæðinga daglega eða um 2,5 skjólstæðing á viku.
Landspítali
Vandasamt er að meta framleiðni Land-spítala með því að rýna í útgefnar starfsemistölur, enda er starfsemin flókin, fjölbreytt og umfangsmikil. Gögn um framleiðni einstakra eininga eru heldur ekki á reiðum höndum. Framleiðni spítalans hefur staðið í stað, mæld í DRG-einingum, þrátt fyrir að fjárheimildir til spítalans hafi aukist um 6-13% á ári síðustu fimm ár, samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunnar frá 2024. Síðasta áratug hefur fjöldi innlagna, legudaga, legutími og fjöldi skurðaðgerða haldist nær óbreyttur þrátt fyrir aukin fjárframlög. Legurýmum hefur fækkað umtalsvert á liðnum áratug þrátt fyrir mikla fólksfjölgun. Komum á bráðamóttöku hefur einnig fækkað. Stöðugildum við Landspítala hefur fjölgað mikið, eða um rétt rúmlega 750, síðan árið 2019. Árið 2016 voru tveir hjúkrunarfræðingar á hvert legurými en í fyrra voru þeir tæplega þrír.
Að lokum
Upplýsingar um afköst einstakra eininga ættu að vera aðgengilegar. Það ætti að vera ljóst hver gerir hvað og hversu mikið er framkvæmt. Birta ætti upplýsingar um gæði og ánægju sjúklinga. Slíkar upplýsingar myndu nýtast þjónustuveitendum við að bæta þjónustu sína. Þá myndu slík gögn einnig hjálpa ríkinu sem kaupanda heilbrigðisþjónustu að velja aðferðir sem líklegastar eru til að ná markmiðum hverju sinni. Ljóst er að sjálfstætt starfandi læknar veita umfangsmikla og hagkvæma þjónustu sem sjúklingar eru ánægðir með. Ef auka á heilbrigðisþjónustu í landinu væri skynsamlegt að efla enn frekar þjónustu sjálfstætt starfandi lækna. Það væri sjúklingum til mikilla heilla.
