12. tbl. 111. árg. 2025
Umræða og fréttir
Öldungadeildin. Haustferð Öldungadeildar LÍ 2025. Lára Halla Maack
Öldungadeildin fór í tveggja daga ferðalag í september 2025. Núverandi stjórn deildarinnar tók við í maí 2025 en inn-gilding nýrrar stjórnar tók marga mánuði, illskiljanlegt með áhugamannafélag. En allar skráningar tókust á endanum og ferðalagið var skipulagt með amríkuhraða, klíku og nepótisminn brúkaður út og suður.
Ákveðið var að fara um Reykjanes, gista á Selfossi og svífa um suðurströndina. Af þeim 34 sem fóru með, voru fjórir ferðamenn 92 ára og 91 árs. Sveinn Magnússon er lærður leiðsögumaður, auk alls annars sem hann kann, til dæmis stjórnun á heilbrigðisráðherrum og Landspítala. Hann sagði okkur frá öllu um alla, kjaftasögur frá 17. og 18. öld á Suðurlandi og Reykjanesi. Það var bara eins og maður hefði aldrei komið á Reykjanesið, slík var uppljómun Svenna í reisunni. Veðrið olli vonbrigðum, sól og lygna allan tímann, en allir vita að það á að vera rok og rigning á Reykjanesi. Besta var, að við gengum ekkert í þessari hitasvækju, fengum bara kaffi, fórum oft á klósettið, og settumst alls staðar niður.
Svaka fínn matur í boði á Golunni, – já, Golunni, –fengum að vita, að nafngiftin er gamalt djók úr rokrassinum á Garðskaga. Fínn líka í Rauða húsinu á Eyrarbakka, og River Restaurant, en það er veitingastaðurinn undir sama þaki og Hótel Selfoss. Humarsúpa er greinilega mikill tískumatur, og gömlu læknarnir gúffuðu miklu í sig af henni, bæði með og án karrýs, en alltaf með rjóma. Hvað er þetta með Íslendinga að það er engin sósa né súpa, nema allt sé með rjóma oní?

Ársæll og Gunnar Sig sækja kirkju
Gaman var að líta til Hvalsnesskirkju, sem langalangafabróðir Svenna byggði, en Svenni er líka smiður – þetta gengur greinilega í ættir. Leiðsögumaðurinn varð oft að skipta um áætlun í ferðinni, af því að fyrirheitnu staðirnir voru loklok og læs, en hann svissaði hópnum án fyrirhafnar inná aðra draumastaði. Margir höfðu hvorki komið að Urriðafossi, né á skrýtið safn útskorinna muna að Forsæti, Tré og list. Þar var spilað á orgel fyrir hópinn og allir svinguðu sér, aðrir dáðust að útsaumi á kjólum á útskurðarsafninu. Heimsóknin til Grindavíkur var áhrifamikil og eftirminnileg. Heimilin þar rugga á sprungum, göturnar í sundur og lyftast í ótal palla og bugður. Enginn var umgangur fólks en samt er þar fullt af fólki að lifa lífinu, sofa þar og vinna fyrir salti í grautinn. Ógerlegt er að setja sig í spor þeirra Grindvíkinga. Tómas Z og Fríða á Stokkseyri hresstu svo öldungana með víni, jarðarberjum og kökum, en þeir tóku því mjög fallega og hegðuðu sér sæmilega.
Leifur Jónsson og frú Guðrún við borðhald.

Veitt hafði verið áfengi í ferðum undanfarinna ára, út um lúgu á rútu, „góður íslenskur siður“ var mál manna. Vínveitingamálið var eitt fyrsta mál til umræðu hjá nýrri stjórn sem ákvað hins vegar að hvetja ferðalanga til að taka ferðapelana sína með sér. Formaðurinn var veikur í ferðinni, og svaf ekki neitt, en upplifði fossarigningu, jarðskjálftahrinur, þrumur og eldingar, lengri tíma nætur. Enginn vaknaði, og allir héldu því fram að hún væri að delera. Sérstaklega þar sem hún sá glitra fiskabúr í gólfflísunum á hótelherberginu. Getur allt verið sóttardeleríum, en Veðurstofan rapporteraði slíkt hið sama.
Í rútunni reif Siggi Árna af sér brandarana, alla mjög stutta, enda þurftum við að heyra meira af kaupmönnum og prestum. Halldóra veitti öl undir sætin og Vésteinn gat líka skemmt sér, því að hann var löngu búinn að rukka alla. Margir öldungar mæltu með og voru sammála um að stuttar ferðir innanlands væri málið fyrir liðið. Næst verður því farið í 2ja daga ferð um hverfi Reykjavíkur, byrja til dæmis á Efra Breiðholti. En ferðinni okkar lauk rétt fyrir mjaltir við Hlíðarsmára 8 og allir í fjósið.

Sveinn Magnússon, formaður Landspítalastjórnar, læknir, leiðsögumaður, afi, smiður og ritari ÖLDLÍ
