12. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Liprir pennar. Þorum, viljum, getum. Ebba Margrét Magnúsdóttir

Nú þegar hálf öld er liðin frá fyrsta kvennafrídeginum koma konur og kvár saman með kröfuspjöld og vilja breyta því sem betur má fara. Man vel eftir þegar ég sjö ára tók þátt með móður minni að mér fannst margmennið yfirþyrmandi og kröfuspjöldin skrýtin. En gleðin, baráttan og stoltið sem skein úr augum kvenna þennan dag gleymist ei. Eitthvað stórt var í vændum. Þær þorðu, vildu og gátu.

Vissulega hefur jafnræði batnað og margir sigrar unnist í baráttunni á þessari hálfu öld. Við höfum breytt samfélaginu og íslenskar konur geta litið stoltar til baka. En samt  er verk að vinna. Á Íslandi í dag er fimmta hver kona með annað ríkisfang og talar ef til vill ekki íslensku. Þær og börnin þeirra njóta ekki sömu tækifæra. Mansal og ofbeldi er eitthvað sem verður að uppræta. Launamunur kynjanna þarf að heyra sögunni til.

Í dag eru konur í meirihluta í háskólum landsins og kynjahlutfall í læknisfræði hefur alveg snúist við. Á fyrsta ári núna eru einungis 20 drengir af 77, er það heillavænleg þróun?

Held ekki og það vekur upp spurningar hvers vegna ungir menn velja ekki læknisfræði eða eru það frekar konur sem ná inntökuprófinu með sinni seiglu? Skólakerfið er ekki hannað fyrir drengi og við höfum ekki hlúð nógu vel að börnum í vanda. Við, þessi ríka þjóð, eigum að hlúa mun betur að börnum þessa lands, þessum dýrmætu einstaklingum sem munu jörðina erfa. Þau eru vissulega með vanlíðan, kannnski vegna samfélagsmiðla háms. Þau eru kvíðin og þau sofa illa, eru ör og eiga erfitt með að sitja kyrr. Við leysum það ekki allt með greiningum eða pillum. Það er eðlilegt að finna fyrir kvíða og spennu í lífsins ólgusjó. Ættum kannski að leggja símann til hliðar og tala saman?

Konur eru mikilvægar nú á dögum sem leiðtogar okkar samfélags.

Við Íslendingar höfum á þessu ári skipt um kyn í brúnni, forseti vor og forsætisráðherra eru konur og í leiðtogasætum þriggja flokka í ríkisstjórn eru konur. Ný borgarstjórn er skipuð fimm fræknum konum. Valkyrjur og kryddpíur hafa þær verið nefndar. Forysta lækna er skipuð flottum konum, formaður Læknafélags Íslands, landlæknir og heilbrigðisráðherra eru konur.

En skiptir það máli að konur leiði í opinberum störfum?

Já, því þær hafa skipað leiðtogastörf í gegnum aldirnar. Inni á heimilum landsins eru það mjög oft konur sem sjá um að reka heimilið. Þær ganga með börnin í níu mánuði og hafa þau  á brjósti og sjá um heimilisstörfin oft með fullri vinnu. 

Valdabaráttu karla er ekki lokið þó 80 ár séu liðin frá lokum seinni heimsstyrjaldar.

Ennþá eru það karlar með skrítna sjálfsmynd sem ráða för. Leiðtogar sem hafa komist til valda vilja nefnilega ekki alltaf vel. Sumir vilja jafnvel illt gera og meiða aðra með öllum ráðum. Hvernig stendur á því að leiðtogar sumra ríkja hafi komist til valda í nafni lýðræðis en eru ekki með rétta sýn á sjálfa sig eða sitt hlutverk, eru nánast einvaldir og valda þjóð sinni og heimsbyggðinni skaða?

Það eru karlar sem vilja vera stærri en þeir eru sem beita vopnum eins og hnífum, taka land sem þeir eiga ekki, taka fólk í gíslingu, beita ofbeldi og drepa fólk.  Svífast einskis í græðgi sinni.

Þess vegna þurfum við sterka og mannlega kvenleiðtoga sem eru með hjartað á réttum stað, munninn fyrir neðan nefið og þora, geta og vilja.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica