12. tbl. 111. árg. 2025
Umræða og fréttir
Dagur í lífi. Dagur á barnaspítala drottningar. Hrafn Hlíðdal
06:40 Ég vakna og staulast fram úr. Eiginkonan og börnin tvö geta sofið lengur vegna þess að við fáum bara leikskóla frá 9-14 hér í Gautaborg þar sem konan mín er í fæðingarorlofi með litla strákinn okkar. Ég fæ mér Corn flakes og tebolla í morgunmat. Hjóla svo af stað í gegnum skóginn til að komast á Drottnings Silvias barnsjukhus.
08:00 Mæti beint á bráðamóttökuna á barnasjúkrahúsi drottningarinnar. Þar sem bráðamóttökunni er skipt upp í medicin og kírúrgíu, þá tek ég bara við medicin rapportinu. Við fjölskyldan fluttum til Gautaborgar í sumar og ég byrjaði að vinna hérna fyrir einum og hálfum mánuði. Eftir mánaðaraðlögun, þar sem ég var aukamanneskja á hinum ýmsu deildum og mér komið inn í starfsemina, þá er ég farinn að geta unnið meira sjálfstætt. Maður er rosalega óvanur því að fá svona langan aðlögunartíma.
10:30 Sem hluti af sérnáminu í barnalækningum þá fylgist sérfræðingurinn með viðtali og skoðun hjá mér. Ég hitti fimm ára barn með hita sem reynist vera kvef. Þó að mörgum sé triagerað yfir á heilsugæsluna sem þurfa ekki á bráðamóttökunni að halda, þá er samt ýmislegt sem lekur í gegn. Þetta var nú kannski ágætt þar sem ég kemst að því að síðan ég byrjaði að vinna hef ég verið að spyrja börnin hvort þau séu í óráði þegar ég ætla að spyrja þau hvort þau finni fyrir svima. Þótt sænskan komi tiltölulega hratt þá kemst ég daglega að því að ég er að segja eitthvað rangt. Ég fæ þó stig frá sérfræðingnum fyrir sápukúluhæfileika mína.
12:00 Með því fyrsta sem ég tók eftir var að öll starfsmannarými sjúkrahússins eru umlukin örbylgjuofnum. Hér fer nánast enginn í matsalinn og allir koma með nesti að heiman. Ég fæ mér því afgang af lasagna og nýt þess vel. Fæ mér svo english breakfast tebolla, það er ekkert óskilgreint typhoo te í boði hér eins og á Landspítalanum.
14:00 Það er búið að vera óvenju rólegt fyrir hádegi en nú er farið að koma meira af börnum. Ég hitti einn 15 mánaða dreng með grun um hægðatregðu sem reynist svo vera með garnasmokkun (intussuception). Stuttu eftir það kemur akútpíp þar sem tveggja ára drengur fær skyndilega krampa í biðstofunni. Hann er búinn að vera með uppköst og niðurgang undanfarna daga. Við sinnum öndunarveginum og meðhöndlum krampann. Hann reynist svo vera lágur í blóðsykri. Legg þessi börn inn og hitti svo 1-2 í viðbót þar til ég næ að fara heim.
18:00 Við fjölskyldan erum komin í miðvikudagsklúbbinn með vinahjónum. Við erum fjórar fjölskyldur sem skiptumst á að bjóða vikulega í einfaldan mat. Við fáum tex-mex súpu og krakkarnir fá að leika og horfa svo á mynd. Það er svo gaman hvað maður eignast þétt net af vinum við það að flytja til útlanda.
19:30 Við erum komin heim og förum að vinna í að svæfa börnin. Konan mín sér um yngri gaurinn sem er fimm mánaða á meðan ég les Ronju ræningjadóttur fyrir 4 ára stelpuna okkar. Það er mikilvægt að halda Astrid Lindgren í heiðri í Svíaveldi.
23:00 Eftir að hafa horft á imbann allt kvöldið þá vaknar þessi fimm mánaða og kvartar yfir svengd. Hann minnir mann á að fara að sofa. Engar áhyggjur samt ef maður gleymir sér, hann mun minna okkur á það aftur eftir um það bil tvo tíma.
