12. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Bókin mín. Hugleiðing um bækur og lækningar. Kristján Guðmundsson

Bækur hafa alltaf verið stór þáttur í mínu lífi. Á bernskuárum mínum var bókasafn í Kópavogi og hægt að nálgast þar allra handa lesefni. Þegar ég var kominn á unglingsár fannst mér ég hafa lesið stóran hluta safnsins og fór á menntaskólaárum að venja komur mínar á Borgarbókasafnið í Reykjavík. Ég las allt, ferðabækur, glæpasögur, góðbókmenntir, sagnfræði. Síðar fór ég að lesa á dönsku og ensku og hafði á þeim árum áhuga kúrekabókmenntum, sem var sería á dönsku um lífið í villta vestrinu.

Mér fannst háskólanámið í læknisfræði trufla mig verulega við bóklestur. Síðan hef ég haft meiri tíma til lestrar og les allt mögulegt en hef sérstakt uppáhald á bókum íslenskra höfunda.

Illviðrasumar í vegagerð í Fljótum norður las ég Kiljan og hef haft mikið dálæti á honum. En þó finnst mér hann enn betri sem þýðandi og bestur þegar hann þýðir önnur höfuðskáld eins og Hemingway í Vopnin kvödd eða Fjallkirkju Gunnars Gunnarssonar.

Á náttborði mínu þessi árin liggur gjarnan bókin, Í verum eftir Theódór Friðriksson, fæddan 1874. Þetta er ævisaga sjómanns. En jafnframt aldarspegill. Theódór ólst upp í Flatey á Skjálfanda og í Fjörðum. Hann var ungur maður á sjó í Bolungarvík fyrir aldamót á opnum árabátum. Hann lýsir af miklu innsæi fólki, mannlífi og þjóðháttum í Vörinni þar vestra. Hann fer víða og er á Sauðárkróki við sjósókn og á Siglufirði á síld, síðar í Vestmannaeyjum. Seinustu árin á vinnumarkaði er hann við að handgrafa skurði í Flóanum í bæjarvinnu í heimskreppunni. Hann skrifaði og gaf út bækur alla sína tíð. Má þar nefna Hákarlalegur og hákarlamenn. Hann fékk rithöfundastyrk frá Alþingi seinustu ár ævinnar.

Seinni ár hef ég haft mikinn áhuga á ævisögum ýmiss konar. Þar er í sérstöku uppáhaldi bók Sigurðar Magnússonar héraðslæknis á Þingeyri og víðar á Vestfjörðum en hann lauk starfsævi sinni á Ólafsfirði. Ingólfur Gíslason er annar læknir sem skrifar mjög góðar lýsingar á sínum læknisferli. Einnig má nefna í þessu samhengi hina ótrúlegu bók, Lífið er dásamlegt, eftir Jónas Sveinsson. Önnur ævisaga eru lýsingar Björns Jónssonar, sem kallaði sig Bjössa Bomm, á lífi og lækningum í Kanada. Og eru þar bæði lýsingar á námsárum hans í Reykjavík og síðan framhaldsnámi í Winnipeg og baráttu hans við lífið og tilveruna. Á forsíðu bókarinnar er viskíflaska sem fæðingartangir teygja sig um.

En bækur eins og Egilssaga eru alltaf við höndina og í sumarleyfum les ég gjarna hluta hennar. Enn liggur þó Sturlunga einhver staðar nærri. Hún er engu lík, slík afburða blanda málfars, stíls og sagnfræði sem hún er. Í mínum villtustu draumum fer ég ríðandi með hundruðum annarra í flokki Ásbirninga milli landshluta!

Sem læknir eru bókmenntir ekki síðri til innsæis og skilnings á fólki en sálfræði, og raunar til skólar í heimilislækningum sem byggja á sálfræðilegri meðferð þar sem læknirinn og sjúklingur lesa saman bókmenntir og nýta sér þær til túlkunar á tilfinningum.

En sálfræðin og geðlæknisfræðin eru oft ekki með góðar lausnir í erfiðum tilvistarlegum málum. Marg oft hef ég bent sjúklingum mínum á Sonatorrek þegar þannig stendur á. Ellegar Tunglið og tíeyring, eftir Somerset Maugham, þegar mikil örlög setjast að fólki og fjölskyldum. Tengslum bókmennta og læknisfræði má rekja til Grikkja, en Appólo var guð lækninga og bókmennta.1 Oft hef ég vitnað í Ilíonskviðu, þegar fjölskyldumeðlimir eru komnir á glapstigu, á óskiljanlegan hátt og orðnir gjörólíkir þeim persónuleika sem þeir stóðu fyrir; það þurfa allir að fara sína Ódysseifs för.

Ég skora á Karl Kristjánsson endurhæfingarlækni að skrifa næsta bókapistil í Læknablaðið.

 

Heimild

1. Why literature and medicine? McLellan MF, Hudson Jones A. Lancet, 1996;348(9020): 109-111.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica