11. tbl. 111. árg. 2025

Fræðigrein

Rannsókn. Höfuðáverkar á Íslandi: Greining á komum á Landspítala vegna höfuðáverka árin 2010-2023

Head injuries in Iceland: Analysis of visits to Landspítali University Hospital for head injuries, 2010-2023

doi  10.17992/lbl.2025.11.863

Fyrirspurnum svarar Karl Gunnarsson, karlfg@hi.is

Greinin barst 28. maí 2025, samþykkt til birtingar 23. september 2025

Ágrip

Bakgrunnur

Höfuðáverkar eru meðal algengustu ástæðna fyrir komu á bráðamóttöku og geta haft víðtækar afleiðingar fyrir einstaklinga og heilbrigðiskerfi. Markmið rannsóknarinnar var að greina tíðni, orsakir, alvarleika og kynjamun í höfuðáverkum á Landspítala á tímabilinu 2010-2023.

Aðferðarfræði

Afturskyggn rannsókn sem tók til allra koma á bráðamóttöku Land­spítala vegna höfuðáverka á tímabilinu 2010-2023. Gögnum var safnað úr heilbrigðisgagnagrunni Landspítala, byggt á ICD-10 og NOMESCO skráningum. Áverkaskor (ISS/AIS) voru reiknuð fyrir allar greiningar. Gerð var lýsandi tölfræði, Poisson aðhvarfsgreining, Kí-kvaðrat próf og Kruskal-Wallis próf með eftirágreiningum.

Niðurstöður

Alls voru 81.111 komur vegna höfuðáverka, á tímabilinu 2010-2023, að meðaltali 5794 árlega. Komum á bráðamóttöku Landspítala vegna höfuðáverka fækkaði á tímabilinu úr 19,4 að meðaltali á dag niður í 13. Nýgengi lækkaði marktækt yfir tímabilið (5,6% árlega á landsvísu), en hlutfall innlagna hækkaði úr þremur í fimm prósent. Algengustu greiningar voru mjúkpartaáverkar og heilahristingur. Vægum og miðlungs alvarlegum áverkum fækkaði en alvarlegum áverkum fjölgaði yfir rannsóknartímabilið. Karlar voru oftar með væga og alvarlega áverka, en konur oftar með miðlungs alvarlega áverka. Flestir áverkar meðal barna reyndust vægir. Dánartíðni breyttist ekki. Flest áverkatilvik voru vegna slysa og óhappa, ofbeldi var tíðara meðal 15-29 ára.

Ályktun

Þrátt fyrir fækkun tilfella með höfuðáverka á undanförnum árum eru höfuðáverkar enn verulegt lýðheilsuvandamál. Mikilvægt er að efla skráningu og öflun faraldsfræðilegra gagna sem nýtast við stefnumótun, sérstaklega fyrir viðkvæma aldurshópa. Vaxandi þörf er á samþættri þjónustu fyrir bæði aldraða og ungt fólk í áhættuhópum.

Inngangur

Höfuðáverkar eru meðal algengustu ástæðna fyrir komu á bráðamóttöku á heimsvísu.1 Um 6% allra bráðamóttökukoma á Landspítala á fyrsta áratug þessarar aldar mátti rekja til höfuðáverka2 sem er sambærilegt við tölur erlendis frá.3 Áætlað er að um 2,1 milljón einstaklinga verði fyrir höfuðáverkum árlega í Evrópu sem leiði til um 57,000 dauðsfalla.4 Heildarkostnaður vegna höfuðáverka er metinn á um 400 milljarða Bandaríkjadala á ári, eða um 0,5% af heimsframleiðslu, einkum vegna tapaðrar framleiðni og mikilla heilbrigðisútgjalda.5,6

Nýgengi höfuðáverka á Íslandi dróst saman á árunum 1970-2013 samkvæmt fyrri rannsóknum hérlendis.2,7 Rannsókn Eyrúnar Gísladóttur og fleiri2 á um 35.000 komum á bráðamóttöku Landspítala á árunum 2000-2005 og 2008-2009, sýndi 3.818 höfuðáverka á hverja 100.000 íbúa í Reykjavík. Flestir áverkarnir voru mjúkvefjaskemmdir (65%), næst algengastir augnáverkar (15%) og svo höfuðkúpu- eða taugaskaði (14%). Helstu orsakir voru föll og önnur slys, einkum meðal barna og aldraðra. Þó gæti heildartalan verið vanmetin þar sem vægir áverkar sem ekki leiddu til komu á Landspítala birtust ekki í gögnunum. Í annarri rannsókn,7 sem náði yfir 15 ára tímabil, reyndist innlögnum á gjörgæslu vegna höfuðáverka fækka úr 14 í 12 á hverja 100.000 íbúa. Á sama tímabili fækkaði umferðarslysum en fallslys urðu algengari, sérstaklega meðal eldri sjúklinga sem reyndust hafa verri horfur þrátt fyrir lægra alvarleikastig. Um 42% höfðu alvarlegan heilaáverka og dánartíðni þeirra var 18%. Glasgow Coma Scale (GCS) reyndist óáreiðanlegt forspárgildi í þessum sjúklingahópi samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar.

Höfuðáverkar spanna breitt svið, frá vægum mjúkvefjaáverkum til alvarlegra heilaskaða.2 Um 80-90% höfuðáverka teljast vægir, en í 20-50% tilfella þeirra sem hljóta heilaskaða leiðir það til skertra lífsgæða.8-10 Afleiðingarnar ná yfir bæði líkamlega og sálfélagslega færni, meðal annars aukna áhættu á geðröskunum, heilabilun og öðrum taugahrörnunarsjúkdómum,6 auk fjölþættra félagslegra og fjárhagslegra áskorana.11-14 Skortur er hins vegar á heildstæðum rannsóknum sem fanga alla flóru höfuðáverka, sem dregur úr getu fagfólks til að bæta greiningu, meðferð og forvarnir.3,15 Þetta á við um Ísland líkt og önnur lönd, þar sem nákvæm og reglubundin skráning lýðheilsugagna er grundvöllur markvissrar skipulagningar heilbrigðisþjónustu og forvarna.15,16

Rannsókn okkar miðaði að því að gera ítarlega úttekt á öllum komum á bráðamóttöku Landspítala vegna höfuðáverka, með sérstakri áherslu á orsakir, umfang og afleiðingar áverkanna. Slíkar upplýsingar eru lykill að markvissari íhlutunum, bættri þjónustu og skýrari forvarnastefnu, auk þess sem þær geta reynst nytsamlegur leiðarvísir fyrir framtíðarskipulag í íslenska heilbrigðiskerfinu.

Efniviður og aðferðir

Úrtak

Rannsóknin náði til allra einstaklinga sem komu á bráðamóttökur Landspítala (Hringbraut og Fossvogi) árin 2010–2023. Lýðfræðilegum upplýsingum var safnað um aldur, kyn, ICD-10 greiningar, orsakir, lengd komu, innlagnir, búsetu og afdrif. Rannsóknin var framkvæmd með leyfum frá Vísindarannsóknanefnd og Siðanefnd Landspítala (7/2022) og Persónuvernd (7/2022).

Aðferðir

Rannsóknin var afturskyggn og byggði á aðferð Eyrúnar Gísladóttur og félaga (2014). Úr rafrænni sjúkraskrá í gegnum Vöruhús gagna á Landspítala voru fundnar allar komur sjúklinga með skráða höfuðáverka samkvæmt ICD-10 greiningunum: mjúkpartaáverka (S00, S01, S08, T00, T01, T20, T33, S09.0, S09.1, S09.2, S09.8, S09.9, T28), augnáverka (T15, S05, T26), höfuðbeinaáverka (S02, S03, T02, T03), innankúpu- og heilataugaáverka (S04, S06, S07) og fjöláverka með áverka á höfði (T07, S09.7). Sjá má flokka og greiningarkóða í fylgiskjali ásamt öllum breytum rannsóknarinnar. Ólíkt rannsókn Eyrúnar Gísladóttur og félaga var í þessari rannsókn ekki stuðst við eina aðalgreiningu ICD-10 heldur voru allar ICD-10 greiningar hverrar komu notaðar við skilgreiningu úrtaks og úrvinnslu ganga. Með þessu var reynt að gefa breiðari mynd af tíðni allra skráðra höfuð-áverka á rannsóknartímabilinu og tengdum lýðheilsuupplýsingum. Áverkaskor, (Injury Severity Score, ISS)17 og áverkastig (Abbreviated Injury Scale AIS),18 voru fengin úr vöruhúsi gagna. Heildaráverkaskor voru sjálfvirkt skráð í tölvukerfi Landspítala,19 sem veitir yfirlit yfir alvarleika áverka hjá öllum þátttakendum. Niðurstöður Glasgow Coma Scale (GCS) voru ekki tiltæk úr vöruhúsi gagna.

Á rannsóknartímabilinu fór sjálfvirkri skráningu heildaráverkaskora fækkandi frá og með 2018. Höfundar endurreiknuðu því áverkaskor fyrir allar áverkatengdar ICD-10 greiningar samkvæmt verkferli Landspítala19 til að tryggja samræmi og áreiðanleika. Tvær breytingar voru þó gerðar frá verkferli: 1) í stað þess að fá summu þriggja hæstu áverkaskora, þriggja mismunandi líkamssvæða, var einungis notast við heildarsummu allra höfuðáverkatengdra ICD-10 greininga nefndar hér fyrir ofan. 2) Þrír áverkaflokkar voru notaðir í stað 6 við greiningu til einföldunar við greiningu, lítill (0-3 stig), miðlungs (4-8 stig) og alvarlegur (9 og yfir). Flokkarnir mikill, alvarlegur og lífshættulegur voru sameinaðir.

Að lokum voru orsakir höfuðáverka, samkvæmt Norræna orsakaskráningarkerfinu um orsakir slysa, óhappa og ofbeldis (Nordic Medico-Statistical Committee, NOMESCO), skoðaðar yfir rannsóknartímabilið.

Úrvinnsla

Upplýsingar um íbúafjölda voru fegnar frá Hagstofu Íslands til viðmiðunar við greiningu á nýgengi höfuðáverka eftir árum rannsóknartímabilsins, kyni og aldurshópum. Lýsandi greining (descriptive analysis) var gerð á öllum breytum úr fylgiskjali til að fá yfirsýn yfir dreifingu og einkenni höfuðáverka. Nýgengi var skoðað út frá tveimur sjónarmiðum: Annarsvegar var nýgengi í Reykjavík greint til að auðvelda samanburð við niðurstöður rannsóknar Eyrúnar Gísladóttur og félaga. Hins vegar miðað við heildaríbúafjölda á landinu öllu. Við nýgengisgreiningar var notuð Poisson aðhvarfsgreining þar sem breyting á fólksfjölda milli ára var notuð sem hliðrun (offset).7 Samanburður heildaráverkaskors á milli ára, kynja og aldurshópa var fenginn með Kruskal-Wallis greiningu, ásamt Dwass-Steel-Critchlow-Fligner (DSCF) prófunum. Til að meta breytingar í tíðni áverkaflokka yfir rannsóknartímabilið (ár × áverkaflokkur) var notað kí-kvaðrat-próf og í kjölfarið framkvæmd eftirágreining á staðlaðri leif (standardized residual) fyrir hvern reit (sjá Töflu V). Við túlkun voru notuð viðmið |z|>2 (p<0,05) og |z|>3 (p<0,01). Marktækni var skilgreind við alpha 0,05 í öllum öðrum tölfræðigreiningum rannsóknarinnar. Marktæknileiðréttingar voru framkvæmdar á bæði stikalausum og stikabundnum tölfræðiprófum þegar um margflokka samanburð var að ræða.

Niðurstöður

Fjöldi og nýgengi

Fjöldi íbúa á Íslandi jókst á rannsóknartímabilinu, úr 317.630 (2010) í 387.758 (2023). Fjöldi koma á bráðamóttöku Landspítala yfir sama tímabil voru 1.351.151. Í töflu I má sjá að á rannsóknartímabilinu 2010-2023 voru alls 81.111 komur á bráðamóttöku vegna höfuðáverka, árlega voru komur að meðaltali 5794±924 (meðaltal ± staðalfrávik). Komum og innlögnum fækkaði lítillega eða stóðu í stað hjá öllum aldurshópum nema hjá einstaklingum 70 ára og eldri en sú aukning var ekki tölfræðilega marktæk. Komur á bráðamóttöku vegna höfuð-áverka voru að meðaltali 6,0±0,8% allra koma á bráðamóttöku Landspítala. Sjá má í töflu I að nýgengi lækkar á rannsóknartímabilinu fyrir allt landið og Reykjavík. Þegar allar komur á bráðamóttöku voru skoðaðar mátti sjá marktæka lækkun, úr 19,4 komum á dag að meðaltali árið 2010 niður í 13,0 að meðaltali dag hvern árið 2023 (β=-0,058, SE=0,004, p<0,001). Veldisstuðullinn sem sýnir hlutfall nýgengis var 0,944. Það gefur til kynna að fyrir hvert ár lækkaði nýgengi um stuðulinn 0,944 eða um 5,6% á rannsóknartímabilinu. Í Reykjavík varð einnig tölfræðilega marktæk fækkun á komum á bráðamóttöku -(β=-0,048, SE=0,002, p<0,001). Veldisstuðullinn var 0,953 og því lækkaði nýgengi um 4,7% á rannsóknartímabilinu. Sama greining var gerð fyrir innlagnir.

Bráðainnlagnir koma fram á töflu II og má sjá að á rannsóknartímabilinu voru 3947 innlagnir en árlega voru innlagnir að meðaltali 282±32. Marktæk fækkun um rúm 2% (IRR=0,979, β=-0,021, SE=0,003, p<0,001) var á innlögnum sjúklinga af landinu öllu á tímabilinu. Sömu þróun mátti sjá á innlögnum Reykvíkinga, en þar varð marktæk fækkun (β=-0,024, SE=0,003, p<0,001) um 2% (IRR=0,976) á rannsóknartímabilinu. Aftur á móti má sjá í töflu II að hlutfall innlagna, út frá komum vegna höfuðáverka á bráðamóttöku, jókst úr rúmum 3% (2010) í um 5% (2023) á rannsóknartímabilinu. Þessi aukning var ekki tölfræðilega marktæk.

Mynd1. Komur á Landspítala eftir aldri, frá öllum landshlutum.

Mynd 2. Komur Reykvíkinga eftir aldri á Landspítala.

Á mynd 1 (landið allt) og mynd 2 (Reykjavík) má sjá komur á bráðamóttöku eftir aldri og kyni. Flestar komur voru meðal barna fimm ára og yngri og svo einstaklinga 18 til 24 ára. Einnig komu karlar oftar en konur á bráðamóttöku á tímabilinu.

Tafla III sýnir orsakaskráningu höfuðáverka meðal einstaklinga sem leituðu á bráðamóttöku Landspítalans. Gögnin eru flokkuð eftir aldurshópum og staðsetningu (allar komur á landsvísu og í Reykjavík), byggt á NOMESCO. Val á aldursflokkum var byggt á rannsókn Eyrúnar Gísladóttur og félaga. Höfuðáverkar vegna slysa og annarra óhappa voru algengasta orsökin í öllum aldurshópum, bæði á landsvísu (86,3%) og í Reykjavík (85,4%). Í aldurshópnum 0-9 ára var þetta hlutfall sérstaklega hátt, eða 98,8% á landsvísu og 98,6% í Reykjavík. Hjá einstaklingum 75 ára og eldri var sambærilegt hlutfall, eða 94,1% á landsvísu og 94,1% í Reykjavík. Í aldurshópnum 15-29 ára var hlutfall áverka sem rekja má til slagsmála eða ofbeldis hærra miðað við aðra aldurshópa, með 24,1% á landsvísu og 26,3% í Reykjavík. Orsakir tengdar sjúkdómum eða ástandi án beins samhengis við meinsemd af ytri orsök komu einnig fram, með hæstu hlutföllum hjá elsta aldurshópnum (5,1% á landsvísu og 5,2% í Reykjavík). Önnur orsök áverka, eins og sjálfsskaði og sjálfsvígstilraunir, voru sjaldgæf. Þessi tilfelli voru aðallega til staðar í aldurshópnum 15-29 ára (0,3% á landsvísu og 0,3% í Reykjavík). Áverkar tengdir lögmætri íhlutun, vímuefnum eða kynferðislegu ofbeldi voru mjög fátíðir í öllum aldurshópum.

Flokkun höfuðáverka

Á rannsóknartímabilinu var greiningin mjúkpartaáverkar algengust á bráðamóttökunni og hjá innlögðum einstaklingum. Þar á eftir komu innankúpu- og heilataugaáverkar og höfuð-beinaáverkar, bæði á bráðamóttöku og hjá innlögðum einstaklingum. Hjá þeim einstaklingum sem lögðust inn voru greiningar á mjúkpartaáverkum einnig algengastar og svo innankúpu- og heilataugaáverkar, svo höfuðbeinaáverkar (sjá töflur I og II). Algengasti innankúpuáverkinn var heilahristingur, með 11.947 tilfelli á landsvísu, þar af 5.850 í Reykjavík. Af þessum tilfellum leiddu 672 til innlagnar á landsvísu og 298 í Reykjavík (sjá nánar í töflu IV).

Áverkaskor var greint á þrjá vegu: milli aldurshópa, milli ára og milli kynja. Niðurstöður Kruskal-Wallis prófsins sýndu tölfræðilega marktækan mun á áverkaskorum milli aldurshópa (χ²=142, df=5, p< 0,001, ε²=0,0175), þar sem DSCF-samanburðarpróf sýndi að börn á aldrinum 0-9 ára höfðu lægra áverkaskor samanborið við alla aðra aldurshópa. Stigvaxandi munur sást milli unglinga (10-14 ára) og fullorðinna aldurshópa, með hæstu áverkaskorin hjá 30-50 ára og 51-74 ára, en munurinn milli elsta aldurshópsins (75+ ára) og 51-74 ára reyndist ekki tölfræðilega marktækur. Kí-kvaðrats prófun benti til marktækra breytinga á alvarleika áverka yfir rannsóknartímabilið (χ²(26, N=81,111) =194, p<0,001, Cramers V=0,03). Vægir áverkar voru tíðari á fyrri hluta rannsóknartímabilsins, en færri á síðari hlutanum. Alvarlegir áverkar voru hins vegar færri á fyrstu árum en tíðari á seinni hluta rannsóknartímabilsins. Miðlungs alvarlegir áverkar voru færri á fyrstu árum rannsóknartímabilsins (2010-2013), jukust um mitt rannsóknartímabilið en fækkaði svo aftur við lok tímabilsins (sjá töflu V).

Marktækt samband var milli kyns og alvarleika áverkans (χ²(2)=607, p<0,001) hjá sjúklingum sem voru ekki lagðir inn í kjölfar komu á bráðamóttöku. Karlar voru marktækt fleiri með væga áverka, en konur voru marktækt fleiri með miðlungs áverka. Enginn marktækur kynjamunur sást í flokki alvarlegra áverka. Að lokum var marktækt samband milli kyns og miðlungs áverka á meðal innlagðra sjúklinga (χ²(2)=40,9, p<0,001). Karlar voru marktækt fleiri í flokkunum vægir og miklir áverkar, en konur voru marktækt fleiri með miðlungs áverka.

Afdrif einstaklinga voru skilgreind sem andlát innan 90 daga eftir komu á bráðamóttöku með skráða ICD-10 greiningu með höfuðáverka samkvæmt sjúkraskrá. Samkvæmt þessari skilgreiningu létust 83 innan 90 daga eftir komu á bráðamóttöku, af þeim létust 58, sjö dögum eða skemur frá komu á bráðamóttöku. Á rannsóknartímabilinu voru andlát, 90 dögum eða skemur frá komu á Landspítala, álíka mörg á milli ára.

Umræða

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að á tímabilinu 2010-2023 voru 81.111 komur á bráðamóttöku Landspítala vegna höfuðáverka. Að meðaltali komu 5.794 á ári eða tæplega 16 einstaklingar dag hvern. Marktæk lækkun varð á nýgengi höfuðáverka bæði á landsvísu og í Reykjavík. Einnig voru innlagnir vegna höfuðáverka marktækt færri, þrátt fyrir að hlutfall innlagna af komum hafi hækkað lítillega. Algengustu höfuðáverkarnir voru mjúkpartaáverkar, innankúpu- og heilataugaáverkar, og höfuðbeinaáverkar. Heilahristingur var algengasti innankúpuáverkinn, en blæðingar innan höfuðkúpunnar voru næst-algengastar með háa innlagnartíðni. Athygli vekur að fjölmargir voru með skráningu í fleiri en einum flokki höfuðáverka.

Niðurstöður sýna hlutfallslega aukningu á innlögnum miðað við komur á bráðamóttöku vegna höfuðáverka, sem gæti tengst öldrun þjóðarinnar og aukinni tíðni fallslysa aldraðra í samræmi við fyrri íslenska rannsókn.20 Slíkt mátti einnig sjá þegar meðalaldur þeirra sem lögðust inn var skoðaður yfir rannsóknartímabilið. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að fallslys úr lágri hæð eru vaxandi orsök höfuðáverka meðal eldra fólks.5 Sú þróun kallar á markvissari íhlutanir í forvörnum og viðeigandi úrræði fyrir þennan viðkvæma hóp. Aukinheldur komu áhugaverðar niðurstöður fram varðandi áverkaskor sem sýndu marktækan mun bæði milli ára, aldurshópa og kynja. Fækkun varð á komum þeirra sem voru með væga og miðlungs alvarlega áverka samkvæmt áverkaskori Landspítala. Á sama tíma fjölgaði á áverkum sem flokkast sem miklir, þar sem komum einstaklinga með slíka áverka fjölgaði á síðari hluta rannsóknartímabilsins. Þetta er varhugaverð þróun sem innlendir rannsakendur hafa bent á áður.7 Aftur á móti er mikilvægt að taka fram að þó þessar niðurstöður hafi verið tölfræðilega marktækar var áhrifastærð lítil og mikilvægt að meta niðurstöðunnar með þær upplýsingar í huga.

Niðurstöður þessarar rannsóknar styðja fyrri rannsóknir sem hafa sýnt að börn á aldrinum 0-9 ára sé fjölmennur í heimsóknum á bráðamóttöku og að áverkar þeirra að jafnaði vægari en þeirra sem eldri eru.21 Stigvaxandi aukning á alvarleika áverka með hækkandi aldri, með marktækt hærri áverkaskor hjá miðaldra og eldri aldurshópum, er einnig í samræmi við niðurstöður fyrri rannsókna sem sýna að aldraðir eru viðkvæmari fyrir áverkum.7,20 Aftur á móti er þörf á frekari og dýpri rannsóknum á breytingum í alvarleika áverka. Þessar niðurstöður benda þó á nauðsyn þess að vinna að markvissum og aldurstengdum forvarnaraðgerðum.

Kynjamunur í alvarleika höfuðáverka reyndist marktækur. Þegar komur án innlagnar voru skoðaðar voru karlar oftar með væga áverka, en konur með hærra hlutfall miðlungsalvarlega áverka. Meðal innlagðra sjúklinga var aukinn fjöldi karla bæði í flokki vægra og alvarlegra áverka, konur voru marktækt fleiri með miðlungsáverka. Fyrri rannsókn á áverkum eldra fólks sýndi að karlar hlutu frekar áverka utanhúss en konur innan heimilis,20 sem gæti sýnt að aðstæður við áverkann gætu verið samtvinnaðar alvarleika áverka. Kynjamunur gæti verið mismikill eftir alvarleika áverka, sem kallar á frekari rannsóknir á undirliggjandi orsökum og aðstæðum. Mögulega getur þessi munur einnig tengst ólíku leitarmynstri til heilbrigðisþjónustu milli kynja eða raunverulegum mun á eðli áverka.

Almennt séð gæti lægra nýgengi höfuðáverka endurspeglað árangur í forvarnastarfi og aukna samfélagslega vitund, til dæmis aukna notkun hjálma og öryggisbúnaðar í umferðinni, auk bættrar löggjafar og fræðsluherferða sem beinast að áhættuhópum. Hins vegar er vert að skoða hvort þessi fækkun geti einnig skýrst að hluta af breytingum á aðgengi að heilbrigðisþjónustu eða skráningarvenjum. Til dæmis einkenndist árið 2020 af miklum takmörkunum vegna COVID-19 faraldursins, sem líklega hafði áhrif á komur á bráðamóttöku vegna höfuðáverka. Aukinheldur varð umtalsverð breyting á starfsemi Landspítala á rannsóknartímabilinu. Fjöldi legurýma á Landspítala og hjúkrunarrýma á höfuðborgarsvæðinu hefur engan veginn haldið í við mannfjöldaþróun og fjölgun aldraðra. Á sama tíma hefur geta heilsugæslunnar og Læknavaktarinnar til að sinna minni háttar áverkum verið efld, sem gæti skýrt að hluta lækkandi nýgengi á bráðamóttöku.

Að lokum má nefna að karlar voru oftar meðhöndlaðir vegna höfuðáverka en konur, sem er í samræmi við alþjóðlegar rannsóknir sem tengja slíkan mun við áhættumeiri hegðun karla.5 Enn fremur voru höfuðáverkar vegna slagsmála og ofbeldis tíðari meðal ungra karlmanna, sem er áhyggjuefni og undirstrikar mikilvægi sértækra forvarnaraðgerða. Sérlega athyglisvert er að sjá í töflu III hvernig orsakir höfuðáverka tengjast aldri, þar sem hlutfall ofbeldis er verulega hærra í aldurshópnum 15-29 ára (24-26%) samanborið við yngri og eldri aldurshópa. Þetta bendir til þess að forvörnum gegn ofbeldi mætti beina sérstaklega að þessum aldurshópi.

Takmarkanir rannsóknarinnar

Rannsóknin nær eingöngu til þeirra einstaklinga sem komu á bráðamóttöku Landspítala vegna höfuðáverka. Þannig má búast við að talsverðum fjölda vægari tilfella hafi verið sinnt á heilsugæslu eða að viðkomandi hafi ekki leitað heilbrigðisþjónustu. Einkum á þetta við um þá einstaklinga sem ekki búa á höfuðborgarsvæðinu. Þar sem eina heila- og taugaskurðdeild Íslands er á Landspítala má þó búast við að flest tilvik alvarlegri höfuðáverka hafi ratað inn í rannsóknina.

Mikilvægt er að nefna að skráning ICD-10 sjúkdómsgreininga er einnig háð takmörkunum. Til dæmis gæti skráning á vægari höfuðáverkum hafa verið mismunandi eftir læknum. Einnig gætu höfuðáverkar hafa verið skráðir jafnvel þótt meginástæða komu hafi verið önnur en höfuðáverki. Enn fremur takmarkar minni sjálfvirk skráning heildaráverkaskora frá og með 2018 samanburð á milli ára. Þótt rannsakendur hafi endurreiknað áverkaskor úrtaksins, þá er það einnig takmörkun að skrá áverkaskor eftir á. Þessi nálgun var ákveðin þar sem skráning á GCS er ófullnægjandi og illa aðgengileg í núverandi sjúkraskrá. Mikilvægt er að útfæra skráningakerfi höfuðáverka með aukinni sjálfvirkni og bættu aðgengi að gögnum svo unnt sé að bera saman alvarleika höfuðáverka á milli ára, en ekki síður að geta á einfaldari hátt greint stöðu höfuðáverka á Íslandi samanborið við nágrannalönd okkar.

Að lokum er mikilvægt að taka fram að ekki er hægt að segja til um hvort andlát í gagnasafni rannsóknarinnar hafi verið að völdum höfuðáverkana þar sem gögn okkar voru ekki tengd við dánarmeinaskrá. Þörf er á frekari rannsóknum um eðli og áhrif höfuðáverka og þá sér í lagi til að greina frekar áverkaferli, tengsl áfengis, vímuefna og lyfjanotkunar við höfuðáverka. Að auki telja höfundar mikilvægt að framkvæma, í framtíðarrannsóknum, nánari greiningar á orsökum höfuð-áverka á meðal eldri einstaklinga og hver áhrif höfuðáverka eru á lífsgæði fólks á Íslandi, þvert á aldurshópa.

Samantekt

Höfuðáverkar eru umtalsvert heilbrigðisvandamál á Íslandi. Komur vegna höfuðáverka eru 6% af öllum komum á bráðamóttökur Landspítala. Það er um 16 einstaklingar á dag og eina innlögn annan hvern dag vegna höfuðáverka. Komum vegna höfuðáverka fækkaði á rannsóknartímabilinu um 32,9%, úr að meðaltali 19,4 niður í 13,0 tilfelli á dag. Var sú fækkun öll vegna vægari og miðlungs alvarlegra áverka en lítilsháttar fjölgun varð á alvarlegri áverkum á rannsóknartímabilinu. Mikilvægt er að viðhalda og efla skráningu gagna til að skilja betur umfang, orsakir og afleiðingar höfuðáverka á Íslandi. Jafnframt er mikil-vægt að bæta skráningu áverkaskora svo hægt sé að greina breytingar í alvarleika milli ára og bera Ísland saman við önnur lönd. Niðurstöður rannsóknarinnar má nota við þróun klínískra leiðbeininga og forvarnarstarfs, sérstaklega með áherslu á aldurshópa sem eru berskjaldaðir. Mikilvægt er að efla rannsóknir á langtímaáhrifum höfuðáverka á Íslandi, þar sem afleiðingarnar ná langt út fyrir bráðameðferð og geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir einstaklinga, fjölskyldur þeirra og samfélagið í heild.

Heimildir

1. Joiner A. Traumatic brain injury. In: Cone DC, Brice JH, Delbridge TR, Myers JB, editors. Emergency medical services: Clinical practice and systems oversight. 3rd ed. Hoboken (NJ): Wiley; 2021. Chapter 30.
https://doi.org/10.1002/9781119756279
2. Gísladóttir EH, Kárason S, Sigvaldason K, et al. Komur á bráðamóttöku Landspítala vegna áverka á höfði. Læknablaðið. 2014;100(6):331-335.
https://doi.org/10.17992/lbl.2014.06.547
PMid:25125431
3. Yates PJ, Williams WH, Harris A, et. al. An epidemiological study of head injuries in a UK population attending an emergency department. J Neurol Neurosurg Psychiatry. 2006;77(5):699-701.
https://doi.org/10.1136/jnnp.2005.081901
PMid:16464899 PMCid:PMC2117473
4. Brazinova A, Rehorcikova V, Taylor MS, et al. Epidemiology of traumatic brain injury in Europe: a living systematic review. Journal of Neurotrauma. 2021;38(10):1411-1440.
https://doi.org/10.1089/neu.2015.4126
PMid:26537996 PMCid:PMC8082737
5. Humphreys I, Wood RL, Phillips CJ, et al. The costs of traumatic brain injury: a literature review. Clinicoecon Outcomes Res. 2013;5:281-287.
https://doi.org/10.2147/CEOR.S44625
PMid:23836998 PMCid:PMC3699059
6. Maas AIR, Menon DK, Manley GT, et al. Traumatic brain injury: Progress and challenges in prevention, clinical care, and research. Lancet Neurol. 2022;21(11):1004-1060.
https://doi.org/10.1016/S1474-4422(22)00309-X
PMid:36183712
7. Jonsdottir GM, Lund SH, Snorradottir B, et al. A population-based study on epidemiology of intensive care unit treated traumatic brain injury in Iceland. Acta Anaesthesiol Scand. 2017.
https://doi.org/10.1111/aas.12869
PMid:28194757
8. Ciurli P, Formisano R, Bivona U, et al. Neuropsychiatric disorders in persons with severe traumatic brain injury: prevalence, phenomenology, and relationship with demographic, clinical, and functional features. J Head Trauma Rehabil. 2011;26(2):116-126.
https://doi.org/10.1097/HTR.0b013e3181dedd0e
PMid:20485191
9. Nelson LD, Temkin NR, Dikmen S, et al. Recovery after mild traumatic brain injury in patients presenting to US level I trauma centers: a Transforming Research and Clinical Knowledge in Traumatic Brain Injury (TRACK-TBI) study. JAMA Neurology. 2019;76(9):1049-1059.
https://doi.org/10.1001/jamaneurol.2019.1313
PMid:31157856 PMCid:PMC6547159
10. Alderman N, Wood RL. Neurobehavioural approaches to the rehabilitation of challenging behaviour. NeuroRehabilitation. 2013;32(4):761-770.
https://doi.org/10.3233/NRE-130900
PMid:23867402
11. Silver JM, Kramer R, Greenwald S, et al. The association between head injuries and psychiatric disorders: findings from the New Haven NIMH Epidemiologic Catchment Area Study. Brain Injury. 2001;15(11):935-945.
https://doi.org/10.1080/02699050110065295
PMid:11689092
12. Corrigan JD, Vuolo M, Bogner J, et al. Do state supports for persons with brain injury affect outcomes in the 5 years following acute rehabilitation? Health Place. 2021 Nov;72:102674.
https://doi.org/10.1016/j.healthplace.2021.102674
PMid:34700065
13. Mamman R, Grewal J, Garrone JN, et al. Biopsychosocial factors of quality of life in individuals with moderate to severe traumatic brain injury: a scoping review. Qual Life Res. 2024 Apr;33:877-901.
https://doi.org/10.1007/s11136-023-03511-0
PMid:37925675 PMCid:PMC10972932
14. Maas AIR, Menon DK, Adelson PD, et al. Traumatic brain injury: integrated approaches to improve prevention, clinical care, and research. The Lancet Neurology. 2017;16(12):987-1048.
https://doi.org/10.1016/S1474-4422(17)30371-X
PMid:29122524
15. Heilbrigðisráðuneytið. Hinn þögli faraldur: Þjónusta við fólk með ákominn heilaskaða. Reykjavík: Heilbrigðisráðuneytið; 2019.
16. Heilbrigðisráðuneytið. Endurhæfing: Tillögur að endurhæfingarstefnu. Reykjavík: Heilbrigðisráðuneytið; 2020. ISBN: 978-9935-477-92-7.
17. Baker, S. P., O'Neill, B., Haddon, W., et al. The Injury Severity Score: A method for describing patients with multiple injuries and evaluating emergency care. Journal of Trauma. 1974;14(3):187-196
https://doi.org/10.1097/00005373-197403000-00001
PMid:4814394
18. Association for the Advancement of Automotive Medicine. (2008). The Abbreviated Injury Scale 2005 - Update 2008. Barrington, IL: AAAM.
19. Mogensen, B. Slysagreiningar, áverkastig og áverkaskor. Reykjavík: Landspítali Háskólasjúkrahús; 2002.
20. Gudnadottir M, Thorsteinsdottir TK, Mogensen B, et al. Accidental injuries among older adults: An incidence study. Int Emerg Nurs. 2018 Sep;40:12-17.
https://doi.org/10.1016/j.ienj.2018.03.003
PMid:29661594
21. Thorsteinsdottir SK, Thorsteinsdottir T, Gunnarsson KF. Paediatric traumatic brain injuries: A descriptive analysis of incidence, visits, cause, and admission rates in Iceland from 2010 to 2021. Int Emerg Nurs. 2025 Mar;79:101572.
https://doi.org/10.1016/j.ienj.2025.101572
PMid:39884055


Þetta vefsvæði byggir á Eplica