11. tbl. 111. árg. 2025
Umræða og fréttir
Liprir pennar. Berlín, Virchow, segulómun, tónlist eða „þangað og heim aftur“, hjartalæknir í námsleyfi. Gunnar Þór Gunnarsson
Veturinn 2023-2024 var ég þeirrar ánægju aðnjótandi að fara í námsleyfi til að læra segulómskoðun á hjarta. Hafði lengi gengið með í maganum að gera eitthvað nýtt, verða mér úti um nýja þekkingu fyrir ellina. Hjartamyndgreining hefur verið mér hugleikin, hjartaómskoðanir lærði ég í sérnáminu á sínum tíma og tölvusneiðmyndir af kransæðum hjá Birni Flygenring við Minneapolis Heart Institute. Nú lá leiðin að Deutsches Herzzentrum der Charité í Berlín á hjartasegulómskoðunarkúrs undir stjórn dr. Sebastian Kelle. Þriggja mánaða staðar- og fjarnám. Charité sjúkrahúsið er gamalt og virt, þar starfaði hinn merki Rudolf Virchow (já, þessi með þrennuna) á 19. öld.
Það var mikil tónlist í Berlín, ég náði 20-30 tónleikum með djass, samtímatónlist og klassík. Þetta varð ein allsherjar samtenging fyrir mig í tíma og rúmi, stundum ljúfsár. Það væri gaman að lýsa því öllu en hámark þessa pistils er 600 orð.
Fyrstu helgina var Jazzfest Berlin 60 ára. Ég var svo ákafur að ég keypti miða á tónleika sem voru kvöldið áður en ég lenti. Það var Mary Halvorson, með merkari gítarleikurum og tónskáldum af yngri kynslóðinni, og Sylvie Courvoisier á píanó. Hafði áður séð þær í New York á The Stone sem John Zorn heldur úti, ekki ósvipaður staður og Cafe Oto í London og Mengi í Reykjavík. Ég hafði einnig séð Mary í Osló með septett þegar ég fór á fundi um ættgenga kólesterólhækkun, rabbaði þá við hana eftir tónleika og hún áritaði plötur sem ég keypti.
Næstu daga ráku hverjir tónleikarnir aðra með ungum straumbreytum sem ég þekkti lítið og öldnum frumkvöðlum sem ég hef fylgt áratugum saman. Ég náði miða á Irreversible Entaglements, bandaríska sveit með rapparanum og skáldinu Moor Mother. Þá komu Loop eyrnartapparnir sér vel. Moor Mother hafði ég séð áður í litlum klúbbi í útjaðri New Orleans sem Spider Stacy, úr The Pouges rekur, þegar ég var á hjartaráðstefnu. Spider Stacy sá ég síðan á tónleikum í Glasgow í maí í ár þegar afgangur af The Pouges hélt upp á 40 ára afmæli meistaraverksins Rum, sodomy and the lash. Þá var ég á æðakölkunarráðstefnu.
Hápunktur Jazzfest Berlin voru tónleikar og viðtal við Henry Threadgill, eitt merkasta tónskáld síðustu 100 ára. Í viðtali lýsti hann uppvextinum í Chicago, hvernig hann féll í flestum fögum sem kennd voru fyrir hádegi þegar hann var í „highschool“ vegna þess að hann laumaðist út á kvöldin og var á djassklúbbum fram á morgun. Hvernig hann slapp í byrjun við vígvöllinn í Víetnam-stríðinu og varð stjórnandi herhljómsveitar í Fort Worth en síðan sendur í fremstu víglínu eftir að hafa samið og flutt of framúrstefnulegt verk. Hvernig hann sem ungur maður kynntist, Joseph Jarman, Roscoe Mitchell, Anthony Braxton, Fred Anderson og fleirum sem komu að stofnun AACM.
Hápunktur ferðarinnar var þó ekki í Berlín heldur í Hamborg. Átrúnaðar-goð mitt, Bill Frisell, var heila helgi í hinni stórkostlegu Elbphilharmonie í Hamborg. Ég náði miðum á alla fjóra tónleikana. Ég man enn tilfinninguna þegar ég keypti og hlustaði á Quartet plötuna 1996, tók af matarpeningum fjölskyldunnar á námsárunum í Gautaborg. Síðan þá hef ég eignast allar plötur hans. Þessa helgi var hann með ferna mismunandi tónleika, með tveimur af tríóum sínum, gestunum Immanuel Wilkins (saxófónn), Ambrose Akinmusire (trompet) og Harmony-kvartettnum.
Af klassíska sviðinu risu hæst tónleikar þar sem á dagskrá var Missa solemnis eftir Beethoven og tónlist eftir hið gleymda naumhyggju tónskáld Julius Eastman (1940-1990) með hinum frábæra baritón Davóne Tynes í aðalhlutverki.
Svo lærði ég sitthvað um segulómskoðanir á hjarta. Allt tengist þetta, „von Herzen, möge es wieder zu Herzen gehen“, sagði Beethoven.
