11. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Lagasetning á nýundirritaða samninga

Sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólk hefur harðlega gagnrýnt frumvarp um breytingar á lögum um sjúkratryggingar og segja ekkert samráð hafa verið haft við hagsmunaaðila við vinnslu þess. Ragnar Freyr Ingvarsson, sérfræðilæknir og formaður Læknafélags Reykjavíkur,
kallar eftir því að frumvarpið verði dregið til baka og málin rædd.

„Við erum ekki orðlaus, heldur slegin yfir þessu samráðsleysi. Segja má að þetta séu bara ofríkisstilburðir, ég veit ekki til þess að aðrar stéttir hafi lent í viðlíka framkomu í samskiptum sínum við ríkið,“ segir Ragnar Freyr.

Ragnar Freyr segir frumvarpið bæði flókið og langt og snúi að mörgum þáttum varðandi sjúkratryggingar landsmanna. „Og þarna eru veigamiklar breytingar á stöðu sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólks, meðal annars kröfur um breytt rekstrarform sem felur í sér gríðarlegan kostnað. Einnig er verið að hafa áhrif á innra skipulag fyrirtækja, þannig að ríkið er að reyna að stjórna því hvernig við rekum fyrirtækin. Þá yrðum við krafin um upplýsingar um rekstur og bókhald sem ekki gert við önnur fyrirtæki sem eiga í samningssambandi við ríkið,“ segir Ragnar Freyr.

Ragnar Freyr segir þau atriði sem snúa að valdheimild ríkisins þegar samningsleysi ríkir enn alvarlegri. „Samningsleysi hefur nánast verið reglan frekar en hitt síðastliðin fimmtán árin, en við sérfræðilæknar höfum samtals í átta ár verið án samnings. Með þessu ætlar ríkið að taka sér algert vald í setningu gjaldskráa, takmarka þjónustu og heildarendurgreiðslur. Ekki nóg með það, heldur ætlar það einnig að banna læknum að bregðast við slíku samningsleysi og í raun fara fram á þegnskylduvinnu. Aldrei nokkru sinni hafa jafn íþyngjandi kröfur verið lagðar á viðsemjanda ríkisins.“

Fjöldi útgefinna reikninga um 10.000 á dag

Ragnar Freyr segir fyrirhugaðar lagabreytingar mikla aðför að sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólki og eini möguleikinn í stöðunni yrði að öllum samskiptum við Sjúkratryggingar Íslands yrði slitið. „Ef úr verður, munu sjúklingar þurfa að leggja út fyrir allri heilbrigðisþjónustu sem þeir þiggja hjá sjálfstætt starfandi læknum. Við verðum að hætta að senda reikninga fyrir hönd sjúklinga til Sjúkratrygginga. Til að setja í samhengi, þá sinna sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn um 10.000 sjúklingum á dag og hver og einn sjúklingur yrði þá að innheimta endurgjald hjá Sjúkratryggingum. Ráðherra virðist því vera að teikna upp tvöfalt heilbrigðiskerfi, sem enginn hefur áhuga á – hvorki við, ríkið né sjúklingarnir. En, það segir sig sjálft að við munum ekki sitja undir þessu, við látum ekki bjóða okkur svona vinnubrögð. Við verðum tilneydd að hætta samskiptum við Sjúkratryggingar. Hið opinbera verður svo að finna út úr því hvernig sjúklingar fá endurgreitt.“

Eins og þruma úr heiðskíru lofti

Ragnar Freyr segir að ekkert samráð hafi verið haft við hagsmunaaðila við gerð frumvarpsins. „Það eru aðeins tvö ár síðan ríkið gerði samninga við okkur sem fagnað var sérstaklega af forsætisráðherra, heilbrigðisráðherra og fleirum. Svo ætla þau að skella lögum á eigin samninga, ég hef aldrei heyrt um slíkt áður. Að auki hlýtur það að vera brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að setja sérlög einungis á heilbirigðisstéttir. Ég er í forsvari fyrir þann hluta kerfisins sem þó allavega virkar sæmilega, heilsugæslan stendur á brauðfótum og spítalinn tekst á við miklar áskoranir, kannski er það þá jafnræðið sem sóst er eftir, að hafa alla á hnjánum?“

Ragnar Freyr kallar eftir því að ráðherra dragi frumvarpið til baka og boði til fundar þar sem málin verði rædd. „Það var ekkert samtal við okkur, þetta kom heldur ekki fram í samstarfsnefnd, bara eins og þruma úr heiðskíru lofti. Öll fyrrgreind atriði voru rædd við samningaborðið þar sem komist var að niðurstöðu, allt var til lykta leitt og ríkið samþykkti. Þá má líka spyrja sig: Er eitthvað að marka samninga ríkisins? Ef þú gerir samning við ríkið, má þá eiga von á því að lög verði sett á? Ég hef aldrei heyrt um svona, þarna eru fetuð ný skref í algera óvissuátt.“



Þetta vefsvæði byggir á Eplica