11. tbl. 111. árg. 2025
Umræða og fréttir
Fyrsti læknirinn sem gegnir embætti heilbrigðisráðherra á aðalfundi Læknafélags Íslands

Aðalfundur Læknafélags Íslands (LÍ) í Stykkishólmi 2.-3.október staðfesti formannskjör Steinunnar Þórðardóttur. Tryggvi Helgason barnalæknir var fundarstjóri sagði afar ánægjulegt að bjóða núverandi heilbrigðisráðherra, Ölmu Möller, velkominn; fyrsta lækninn sem gegni því embættis. Fundargestir lýstu ítrekað ánægju sinni með það í fyrirspurnum sínum, að Alma, verandi læknir, hefði tekið að sér þetta erfiða verk-efni að vera heilbrigðisráðherra.
Alma vill skilgreina hvar verkin eru unnin
Alma Möller, glöð í bragði, sagði að þó hún sé fyrsti læknirinn sem gegnir þessu ráðherraembætti, hafi læknir áður verið ráðherra. Jóhann Sæmundsson læknir var félagsmálaráðherra í utanþingsstjórn í 4 mánuði (ekki kosinn) 1942-3 eins og fram kom í erindi Ólafs Þ. Harðarsonar sem ritað var í tilefni 100 ára afmælis LÍ 2018. Í erindi sínu sagðist Alma vilja skilgreina betur hvað hver sérgrein læknisfræðinnar gerir og hvar; sjúkrahús, sérfræðilæknar á stofu og heimilislæknar í heilsugæslu sem dæmi. Hún vill skýra verkaskiptingu innan heilbrigðiskerfisins, rétt meðferð á réttum stað á réttum tíma. Samvinna þyrfti að vera milli þjónustustiga og nefndi sjálfstætt starfandi stöðvar inn í þessa samvinnu. Í máli hennar kom fram að fjárlög væru aðhaldsöm samtímis aukinni eftirspurn eftir þjónustu, meðal annars vegna fleiri eldri einstaklinga, sem væri gleðilegt, og að fleiri einstaklingar væru með langvinna sjúkdóma. Kröfur notenda væru oft óraunhæfar og virði þjónustu; árangur deilt með kostnaði, væri eftirsóknarvert.
Lýðheilsa hennar hjartans mál
Alma vill fyrirbyggja sjúkdóma, hvetja til reglulegrar hreyfingar, að borða hollt, gæta að svefninum, neyta ekki áfengis eða tóbaks. Hún sagði lýðheilsu meira í umræðunni á fundum hennar erlendis – fleiri að „fatta“ þetta.
Vill stytta biðlista og auka aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu og heilsugæslu
Alma ræddi mikilvægi geðheilbrigðismála, uppbyggingu öldrunarþjónustu og að bæta þyrfti starfsaðstæður lækna, nýta ætti þekkingu lækna sem best. Alma var spurð út í „task shifting“ sem virðist koma frá öðrum starfsstéttum og þann raunveruleika að stoðþjónustu vanti fyrir lækna. Hún sagði gervigreindina mundu taka yfir skrifin – vísaði í Nýsköpunarráðstefnu í heilbrigðiskerfinu sem haldin var deginum áður (1/10) þar sem fyrirtæki kynnti tvo unga lækna taka sjúkraskýrslu – gervigreindin skrifaði og vinsaði út það sem skipti ekki máli, eins og veiðiferðina sem bar á góma. Alma nefndi mönnun, framtíð rafrænna kerfa, nýsköpun, netöryggi, heilbrigðisviðbúnað, mikilvægi alþjóðlegs samstarfs og uppbyggingu til framtíðar.
Mönnunarvandinn, grunnnám og sérnám íslenskra lækna erlendis

Ítrekað kom mönnunar vandinn fram í fyrirspurnum lækna, sem og sérnám lækna, og endurtekið var nefnt að ekki verði hægt að sinna sérnámi í öllum greinum læknisfræðinnar á þessu litla landi. Spurt var hvort ráðherra teldi sérnámi lækna borgið, sem fram færi á Íslandi. Ölmu virtist ljóst að svo væri ekki varðandi allt sérnám. Einnig var spurt hvort ráðherra væri ljóst hve erfiðlega gengi fyrir lækna að komast í sérnám á Norðurlöndunum. Alma sagðist meðvituð um þetta – legið væri yfir þessu í ráðuneytinu. Hún sé búin að ræða þetta við landlækni Svíþjóðar, heilbrigðisráðherra Svíþjóðar og Victoriu krónprinsessu. Landlæknirinn bendi á heilbrigðisráðherrann, sem aftur bendi á háskólasjúkrahúsin – sem benda á landlækni. Alma ætlar að senda erindi í Norrænu ráðherranefndina til að samtengja þessar kröfur. Jón Magnús Kristjánsson aðstoðarmaður ráðherra, svaraði að sama sé á Íslandi, lokið skal sérnámsgrunni (BT) áður en sérnám sé hafið. Hugmynd sé um stutt BT – það er háð kennnslustjóra á hverju sjúkrahúsi (3-6 mán) sem einnig meti hver fyrir sig hversu mikið af sérnámi íslenskra lækna á Íslandi sé metið til sérnáms í Svíþjóð. Svíar séu að fara úr gamla kerfinu í nýtt og BT-stöðurnar því fáar, sem muni lagast. Ráðuneytið sé í samræðum við framkvæmdastjóra lækninga á Skáni. Jón Magnús er með erindið á sínu borði.
Löðunarnefndin
Alma var spurð hvort ráðuneytið hafi hugsað út í mögulegan samning við læknanema í Slóvakíu og víðar til að þau skuldbindi sig til að vinna á Íslandi að námi loknu og hvort nefndin sem stefnt er að því að fari erlendis í lok október til að laða „heim“ lækna viti hvar þá vanti. Hún sagði nefndina með allar upplýsingar. Alma nefndi einnig að hún hefði áhuga á að koma á námi i héraðslækningum, læknir fari frekar í hérað, sé viðkomandi vel undirbúinn. Alma nefndi einnig fjarlækningar sem æskilegan kost.
Ferilvaktir lækna og ný lög um starfsemi sérfræðilækna
Spurt var um ferilvaktir lækna sem ætti að leggja niður á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAK) án samvinnu eða boðunar á hvað komi í staðinn. Alma sagði málið á borði forstjóra SAK og hún hafi sagt sig frá málinu í vikunni á undan, vegna tengsla. Alma var spurð út í ný drög frá Sjúkratryggingum Íslands (SÍ), þar sem fram komi stefna um einhliða útgáfu gjaldskrár stofulækna; samningur sem loks var gerður eftir 5 ára samningsleysi sé nú í húfi tveimur árum síðar – þessu eigi að lauma inn með lagasetningu. Alma benti læknum á að senda erindi um ábendingar, málið sé í samráðsgátt og taki tíma. Hún sagði einnig að ekki stæði til að skaða þjónustu og láta sjúklingana líða.
Mismunandi beiðnir fyrir blóðprufur og myndgreiningu
Aðspurð sagði Alma að verið væri að sameina þrjár mismunandi leiðir til að fara í blóðrannsókn og myndgreiningu á höfuðborgarsvæðinu sem valdi óþarfa vinnu fyrir lækna, sem þurfi ítrekað að gera mismunandi beiðnir, samráðsgátt væri í smíðum varðandi þetta.
Landlæknir og lýðheilsa
María Heimisdóttir landlæknir kom einnig að mikilvægi lýðheilsu og sagði greinilegt að hún og ráðherra væru með svipað efni í erindum sínum, eins og hinar velþekktu áskoranir heilbrigðiskerfisins. Hún fjallaði um fjórðu iðnbyltinguna varðandi gagnavinnslu, gervigreind og upplýsingatækni og kom inn á forgangsröðun og mikilvægi þess að hlúa betur að starfsaðstæðum lækna. Aðspurð sagði María mikilvægt að finna farveg fyrir klínískar leiðbeiningar sem allir hafi aðgang að. Þær miði að því að fækka hnökrum og endurtekningum í vinnu lækna. Varðandi sameinaða sjúkraskrá og hvar hún væri stödd, sagði hún Embætti landlæknis hafa formlega ábyrgð en ráðherra hafa tekið ákvörðun um að sameina undir einn hatt staf-ræna lausn þar sem allir sameini krafta sína. Þegar sé byrjað að sameina gagnagrunnana fyrir sjúkraskrárkerfið Sögu alls staðar.
Faghlutverk Læknafélags Íslands
Að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum og samþykkt ályktana, voru framsöguerindi varðandi mögulegt faghlutverk LÍ.
Royal College of Physicians
Tómas Þór Ágústsson framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala fjallaði um starfsemi Royal College of Physicians (RCP), stofnað árið 1518 af Hinrik VIII konungi Englands. Markmið RCP er að mennta, bæta og hafa áhrif til betri heilsu og heilbrigðisþjónustu. Bæta þannig þjónustu við sjúklinga. RCP sér um menntun og símenntun, forvarnir og lýðheilsu. Tómas Þór benti á að eðlilegt væri að LÍ hefði meira með faglega hlið lækna að gera, ekki bara fjárhag og samninga.
Að velja skynsamlega
Margrét Ólafía Tómasdóttir formaður félags íslenskrar heimilislækna hélt erindi um herferðina „Að velja skynsamlega“ (choosing wisely) sem hófst í Bandaríkjunum árið 2012. Kanadamenn tóku forystu um 2 árum seinna sem þeir hafa haldið. Íslenskt heilbrigðiskerfi stundi of mikið lágvirði þjónustu. Norðmenn og Svíar hafi tekið herferðina að sér en séu á byrjunarreit. Mikilvægt sé að þetta komi frá grasrótinni, læknum sjálfum með samstarfi við aðrar heilbrigðisstéttir og sjúklingasamtök, og sé ekki framkvæmt í sparnaðarskyni heldur til að forðast að valda sjúklingi tjóni. Aðferðin veki traust hjá sjuklingnum og henni fylgi fræðsla fyrir sjúklinga Hver sérgrein semur fimm ráðleggingar um mismunandi rannsóknir og meðferðir sem ástæða sé að forðast. Hvernig getum við útfært þetta á Íslandi? Bæta skráningu til að meta árangur. Hópur á vegum LÍ taki að sér að koma með ráðleggingar.
Starf sérgreinafélaga og hvernig LÍ getur stutt við það
Anna Björg Jónsdóttir öldrunarlæknir sagði 23 sérgreinafélög á heimasíðu LÍ. Sérgreinafélögin væru lítil, félagsstarfið byggði á sjálfboðavinnu með enga yfirbyggingu (enginn með starfsmann í vinnu). Sérgreinafélög þurfi aðstoð til að hafa virka heimasíðu, samtöl við fjölmiðla, halda ráðstefnur og fundi. LÍ er í félagi evrópskra læknafélaga (UEMS) og sérgreinarnar eiga rétt á að hafa fulltrúa þar. Efla þurfi fagfélögin til að styrkja LÍ.
Hópavinna

Að lokum var fjallað um og svarað spurningum í hópavinnu; varðandi það hvort LÍ eigi að vera fagfélag og stéttarfélag, hvernig styðja megi við lækna sem eru, sem hópur, sterkir faglegir talsmenn og áhrifaaðilar í heilbrigðismálum, hvert hlutverk sérgreinafélaga eigi að vera og hvernig LÍ eigi að koma að því, hver eigi að sinna þeirri vinnu hjá LÍ, hversu mikið fjármagn eigi að setja í verkefnið og hvaðan það eigi að koma. Þetta verður að einhverju leyti notað til framhaldsvinnu um starfsemi og markmið LÍ.
