11. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Evrópuþing öldrunarlækna í Hörpu 24.-26. september

Evrópuþing öldrunarlækna (EuGMS 2025) fór fram í Reykjavík í lok septem-ber síðastliðinn og er það í fyrsta sinn sem þessi stóra ráðstefna er haldin á Íslandi en hún er haldin árlega á mismunandi stöðum í Evrópu. Þingið er einn helsti vettvangur öldrunarlækna og annarra fagstétta í öldrunarþjónustu ásamt vísindamönnum á sviði öldrunarlækninga og öldrunarfræða til að hittast og deila rannsóknum og reynslu. Evrópuþingið í ár var sérlega vel sótt af tæplega 2000 þátttakendum frá 71 landi og endaði sem annað fjölmennasta þingið til þessa. Það ríkti almenn gleði og ánægja meðal gesta þrátt fyrir að veðrið hafi ekki verið það allra besta og margir skelltu sér bæði í morgunsund í Sundhöll Reykjavíkur og morgunskokk í miðborg Reykjavíkur.

Íslenskt samfélag stendur frammi fyrir sömu áskorunum og önnur Evrópulönd, það er fjölgun eldri einstaklinga með fjölveikindi. Þetta krefst þetta nýrrar hugsunar, aukinnar samþættingar og nýrra lausna í heilbrigðis- og félagsþjónustu. Á þinginu var meðal annars rætt um það hvernig ætti að laða ungt fólk að sérgreininni og fjölga öldrunarlæknum í Evrópu.

Sérstök áhersla var á samfélagslegar áskoranir sem fylgja fjölgun eldri einstaklinga með fjölveikindi og hrumleika og mikilvægi fjölbreyttrar þjónustu, og þau málefni voru sannarlega rædd í þaula í fundarsölum og á göngum Hörpu.

Einnig var fjallað um nýjustu rannsóknir, meðferðarmöguleika og stefnumótun á sviði heilabilunarsjúkdóma og þar voru tveir aðalfyrirlesarar, Cynthia M. Carlsson og Unnur Þorsteinsdóttir, með afar áhugaverða fyrirlestra á því sviði.

Það var Félagi íslenskra öldrunarlækna sérstaklega mikil ánægja að vera gestgjafar þingsins og kynna fyrir gestum þingsins bæði framúrskarandi faglegt starf íslenskra öldrunarlækna og íslenska menningu.

Alma Möller heilbrigðisráðherra ávarpaði þingið og það var gerður sérstakleg góður rómur að hennar innleggi.

Á málþingi um gæði heilbrigðisþjónustu á hjúkrunarheimilum töluðu Steinunn Þórðardóttir, Daniela Fialová og Adam Gordon.

Unnur Þorsteinsdóttir hélt opnunarfyrirlestur þingsins um erfðafræði langlífis og langvinnra sjúkdóma.

Manuel Montero-Odasso ræðir um mikilvægi hreyfingar.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica