11. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Byltum fjölgar þrátt fyrir framfarir í læknisfræði

Byltur hjá eldra fólki eru eitt algengasta og alvarlegasta heilsufarsvandamál meðal aldraðra. Um 30% fólks yfir sextugt dettur á hverju ári og hlutfallið eykst með aldri. Afleiðingarnar geta verið margvíslegar, allt frá beinbrotum og hræðslu við að hreyfa sig, til skerts sjálfstæðis og minni lífsgæða. Samt eru byltur ekki óhjákvæmilegar. Með markvissum aðgerðum sem taka mið af bæði líkamlegum og hugrænum þáttum er hægt að draga verulega úr áhættu.

Einn fremsti sérfræðingur heims á þessu sviði er dr. Manuel Montero--Odasso, prófessor í öldrunarlækningum og tauga-lækningum við Western University í Ontario í Kanada. Hann hefur verið leiðandi í gerð alþjóðlegra leiðbeininga um forvarnir gegn byltum (World Falls Guidelines), sem samþykktar voru árið 2022, og hafa nú þegar verið innleiddar í fjölda landa. Læknablaðið ræddi við hann um hvað skiptir mestu máli við framkvæmd þessara leiðbeininga og hvaða hindranir mæta heilbrigðiskerfum þegar kemur að því að koma góðum hugmyndum í framkvæmd.

Innleiðing alltaf flókin og krefjandi

„Innleiðing er alltaf flókin, erfið og krefjandi,“ segir Montero-Odasso. „Við erum þó ánægð með að sjá að nokkur lönd – þar á meðal Ástralía, Holland, sumar borgir í Belgíu og Noregi – hafa þegar náð að innleiða ráðleggingar okkar í fullri framleiðslu og stjórnun.“

Hann bendir á að þessi lönd hafi átt það sameiginlegt að þau voru þegar með skipulagðar forvarnir gegn byltum. „Það gerir allt miklu auðveldara. Ef þú ert þegar með slíka áætlun, þá geturðu einfaldlega kynnt ný gögn og nýjar leiðbeiningar fyrir þeim sem bera ábyrgð og þá er auðsóttara að taka þær upp. Þannig tókst þetta í Hollandi,“ segir hann.

En í öðrum löndum er þetta erfiðara. „Í Kanada, þar sem ég starfa, er staðan flóknari. Við erum ekki með eina samræmda landsáætlun, heldur fer framkvæmdin eftir hverri stofnun eða hverju fylki. Til dæmis er Ontario, sem er stærsta fylkið með um tíu milljónir íbúa, nú að þróa sína eigin fylkisáætlun um forvarnir gegn byltum,“ útskýrir hann. „Þannig þarf að vinna á tveimur stigum: annars vegar á stefnumótandi stigi, þar sem settar eru almennar ráðleggingar, og hins vegar á vettvangi heilbrigðisþjónustu, þar sem áætlunin er framkvæmd í raun.“

Forgangsröðun og lykilþættir

Aðspurður um hvað hann telji mikilvægast að byrja á við framkvæmd alþjóðlegu leiðbeininganna, leggur Montero-Odasso áherslu á einfaldar, almennar aðgerðir sem ná til margra. „Við getum skipt því í tvö svið,“ segir hann. „Á pólitísku eða stefnumótandi stigi þarf að tryggja að boðskapurinn sé skýr: hreyfing er besta forvörnin. Reglulegar æfingar fyrir fólk yfir sextugt, sem bæta jafnvægi og styrk í fótum, eru áhrifaríkasta aðgerðin, sérstaklega fyrir þau sem eru í lítilli eða meðal áhættu.“

Hann bætir við að á einstaklingsstigi þurfi að gera byltumat að hluta af reglubundnum heilsufarsskoðunum. „Ég myndi segja að ef við gætum innleitt aðeins eina stefnu, þá ætti hún að vera sú að hjúkrunarfræðingar eða læknar spyrji alla eldri einstaklinga reglulega um byltur,“ segir hann. „Þetta þarf að vera hluti af árlegri heilsuskoðun. Ef einstaklingur hefur dottið, eða er hræddur við að detta, þá ætti að fylgja því ráðgjöf og forvarnaráætlun.“

Samkvæmt rannsóknum hans munu um 30% fólks yfir 65 ára aldri detta á einu ári, og af þeim sem detta, munu allt að 75% hljóta einhvers konar meiðsli. „Jafnvel smávægileg meiðsli geta skapað ótta við að detta aftur og sá ótti leiðir til hreyfingarleysis og mögulega fötlunar,“ segir hann.

Samþætting við aðrar matsaðferðir

Spurður um hvernig megi tengja byltumat við aðrar greiningar í öldrunarlækningum, eins og mat á heilabilun, lyfjanotkun og líkamlegri hrörnun, segir Montero-Odasso að þetta sé lykilatriði. „Byltur eru ekki aðeins líkamlegt vandamál. Þær endurspegla samverkandi þætti – hreyfifærni, jafnvægi, athygli og lyfjanotkun,“ útskýrir hann. „Við vitum nú að hugræn skerðing hefur mikil áhrif á byltuhættu. Þess vegna ætti byltumat að vera samþætt öðrum öldrunarmatsmælingum, svo sem mati á vitrænni getu og lyfjalista. Með því getum við greint áhættu fyrr og gripið inn með viðeigandi stuðningi.“

Forvörnin besta meðferðin

Að lokum leggur hann áherslu á að það sé mikilvægt að horfa á byltur sem vandamál sem hægt er að koma í veg fyrir, en ekki sem eðlilegan hluta öldrunar. „Stærstum hluta langvinnra sjúkdóma í heiminum fækkar hlutfallslega ef miðað er við mannfjölda. Byltur eru meðal fárra heilsufarsvandamála sem eru að aukast, þrátt fyrir allar framfarir í læknisfræði. Þess vegna er forvörn meðferðin, því þegar fólk verður fyrir byltum gæti það verið orðið of seint.“



Þetta vefsvæði byggir á Eplica