11. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Bókin Mín. Þroskasaga bókaorms Af ferðalagi, kynnum af fjölbreyttu fólki, stöðum og bókmenntalegri kynleiðréttingu. Ingólfur Kristjánsson

Ég vil þakka Hjördísi Harðardóttur fyrir það að skora á mig að skrifa pistil í pistlaröðina „Bókin mín“. Þetta gefur mér tækifæri til þess að rifja upp 60 ára ferðalag mitt með bókinni. 

Að læra að lesa er að mörgu leyti hliðstætt því að læra að ganga. Þetta gefur tækifæri til þess að kanna heiminn. Sumir fara aldrei neitt. Aðrir hefja á einhverjum tímapunkti þaulhugsað ferðalag. Þeir eru líka til, menn eins og ég, sem rekur frá ströndinni og berast tilviljanakennt frá bók til bókar. 

Í foreldrahúsum kynntist ég Bombí Bitt, Sabatini og hraktist um á Heiðarvegum með Landpóstunum.  

Í skóla var ýmiss konar skyldulesning. Sumt heillaði annað ekki. 

Íslendingasagnaútgáfu Svarts á hvítu eignaðist ég upp úr þrítugu. Þetta var heildstæð útgáfa Íslendingasagnanna og -þáttanna. Ég las þetta allt á einu og hálfu ári eins og hverjar aðrar bókmenntir. Margir fælast „endalausar ættartölur“ Íslendingasagnanna. Með því að skauta yfir þær og glöggva mig á þeim eftir þörfum opnaðist fyrir mér verulega áhugaverður heimur. Auk Egils og Skallagríms og þeirra félaga Gunnars og Njáls voru allir kolbítarnir, Hávarður Ísfirðingur, í sinni áfallastreituröskun, auk Grettis Ásmundarsonar að glíma við drauga og tröllskessur. Heillandi veröld.

Um nokkurra áratuga skeið átti ég erfitt með að ná valdi á því sem í Brekkukoti Kiljans var kallað „danskir rómanar“. „Þegar við töluðum um danska rómani, er einsog hafi vakað fyrir okkur einhver óljós hugmynd um Dostojevski og þá sagnamenn aðra sem virðast hafa misst niður einhver ósköpin af tjöru, sem síðan vellur einhvernveginn formlaust, eftir þýngdarlögmálinu útí smugur og oní dældir“(HKL, Brekkukotsannáll). En þetta kom svo smám saman. Var ég fyrir rest farinn að lesa alls konar „fagurbókmenntir“ að því er ég hélt. Var alveg óttalaus á þessum akri þar til vinur minn og vinnufélagi tjáði mér það að það væri alveg óþolandi að hlusta á rausið í mér. Ég væri sem sé farinn að tala eins og prófessor í kvennabókmenntum. Hér dygði ekkert minna fyrir karl á mínum aldri en „bókmenntaleg kynleiðrétting“! Síðan benti hann mér á literatúr sem átti að koma mér á rétta braut. Þessar bækur áttu það sameiginlegt að vera allt ævisögur karlmanna sem allir voru sönn íslensk athafnaskáld risin upp úr fátækt. Þarna las ég ævisögu Jóhannesar á Borg, Guðmundar á Brjánslæk, Óla í Álsnesi, Virka daga (Sæmundur Sæmundsson hákarlaskipstjóri) og sögu Péturs Hoffmanns Salómonssonar, svo eitthvað sé nefnt. Fæðingarsögu Jóhannesar á Borg í fjárhúsi á Akureyri má líta á sem spegilmynd af fæðingarsögu Jesú Krists. Guðmundur á Brjánslæk var berklasjúklingur á Vífilsstöðum frostaveturinn mikla 1918. Svo mikil trú var á hreinu lofti þar að hitinn á sjúkrastofunum, þar sem sjúklingarnir lágu undir tveimur brekánum, fór niður í tuttugu stiga frost. Hann hélt því fram að fleiri hefðu dáið úr meðferðinni en sjúkdómnum.

Ég er beðinn að svara því hvort bókin hafi breytt lífsskoðun minni og hvort bóklestur hafi haft áhrif á líf mitt og starf. Þessu er ómögulegt að svara því þessi samfylgd við bókina hefur varað megnið af mínu lífi. Ég hef hinsvegar trú á því að það auki kjark og víðsýni að kynnast þeim hugarheimi sem fjölbreyttar bókmenntir hafa að geyma.

Skora á lestrarhestinn, endurhæfingar- og heimilislækninn, Kristján Guðmundsson að skrifa næsta pistil í „Bókin mín“.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica