11. tbl. 111. árg. 2025
Umræða og fréttir
„Ástríðan mín snýst um að bæta líf barna“
Eftir rúman áratug í Svíþjóð hefur Harpa Kristinsdóttir skapað sér öfluga starfsreynslu sem barna- og ofnæmislæknir og gegnir nú lykilhlutverkum í kennslu og klínískri þjónustu. Hún segir starfið bæði gefandi og krefjandi og að ástríðan fyrir fagi sínu sé drifkrafturinn sem heldur henni á tánum – hvort sem um er að ræða störf með sjúklingum, kennslu eða þróun nýrra meðferða sem geta breytt lífi barna með alvarlegt ofnæmi. Læknablaðið ræddi við Hörpu.
Það eru tæp tólf ár síðan Harpa Kristinsdóttir og eiginmaður hennar, Kjartan Dór Kjartansson, ákváðu að flytja til Gautaborgar. Kjartan, sem er verkfræðingur, og Harpa höfðu þá unnið sig í gegnum námið á Íslandi með ungt barn á heimilinu, en elsti sonur þeirra var aðeins eins árs þegar þau héldu utan.
„Við ætluðum okkur í raun ekki endilega að vera svona lengi, en lífið fór að raða spilunum þannig að við sáum fram á spennandi verkefni og tækifæri hér. Nú eru börnin okkar þrjú orðin á aldrinum þriggja til tólf ára og við höfum bæði komið okkur vel fyrir faglega og fjölskyldulega,“ segir Harpa.
Læknisfræðin sem köllun
Áhugi Hörpu á læknisfræði kviknaði ekki snemma en hún segist alltaf hafa haft gaman af því að læra annars vegar og sjá tækifæri í því að geta hjálpað fólki, hins vegar. „Mamma mín, Ingibjörg, vann sem skurðhjúkrunarfræðingur og hún hefur alltaf verið fyrirmynd mín á svo margan hátt. Ég fylgdist með henni hlaupa á vakt í akút tilfelli á Landspítalanum, oft á ólíkum tímum sólarhringsins, og sá hversu mikinn metnað hún lagði í starfið. Hún var alltaf svo glöð þegar hún kom heim að hafa komið að gagni. Hún litaði því þetta val mitt líka að verða læknir; að vinna starf sem væri bæði krefjandi og gefandi,“ útskýrir Harpa.
Faðir hennar, Kristinn, rak ljósmyndaframköllunarfyrirtæki. Hún á fjögur systkini, þrjú alsystkini og eitt hálf-. Þau hafa öll farið í langskólanám og öll búið erlendis en Harpa er sú eina sem valdi heilbrigðisvísindin. Þau hafa reyndar öll snúið aftur heim nema Harpa.
Á þriðja ári í læknisfræðinni fékk hún tækifæri til að vinna rannsóknarverkefni á Íslandi með barnaofnæmislæknunum Sigurveigu Þ. Sigurðardóttur og Michael Val Clausen, um fæðuofnæmi hjá börnum á Íslandi. „Þau eru svo drífandi og gott að vinna með þeim. Þar vaknaði áhuginn á þeirri grein og ég hafði fundið að það er gefandi að vinna með börn, svo að ég valdi barnalækningar fyrst. Ég hafði svo alltaf barna- og ofnæmislækningarnar á bak við eyrað sem framhaldsgrein og áhuginn minn eftir rannsóknarvinnuna á Íslandi leiddi mig svo inn á þá braut,“ segir hún.
Spennandi tímar í ofnæmislækningum
Harpa starfar á barnaspítalanum í Gautaborg þar sem hún sinnir bæði almennum barnalækningum og ofnæmislækningum. Hún lýsir stöðunni í ofnæmislækningum sem „gríðarlega spennandi“ vegna hraðrar þróunar nýrra lyfja og meðferða. „Við erum að sjá alveg nýja möguleika með líftæknilyfjum sem hjálpa börnum með astma og ofnæmi. Það allra nýjasta er afnæming fyrir börn með kröftug mjólkur-, jarðhnetu- eða eggjaofnæmi. Markmiðið er að byggja upp þol þannig að þau geti lifað eðlilegra lífi,“ segir hún.
Meðferðin felst í því að börnin fá mjög litla skammta daglega af því sem þau eru með ofnæmi fyrir, og magn ofnæmisvaldsins er aukið smám saman þar til líkaminn bregst ekki lengur við. „Meðferðin stendur yfir í rúm þrjú ár og á þeim tíma er markmiðið að hækka þröskuldinn sem veldur ofnæmisviðbragði. Mörg börn geta eftir meðferðina þolað litla skammta af fæðutegundinni sem þau fyrir meðferðina fengu ofnæmisviðbrögð við að borða og sum börn geta borðað stóra skammta án þess að fá ofnæmisviðbrögð. Þetta er byltingarkennd nálgun og við erum að sjá fyrstu niðurstöðurnar núna,“ bætir hún við.
Fjölbreytt hlutverk – frá klínísku starfi til kennslu
Auk þess að starfa klínískt er Harpa yfirlæknir í 20% hlutfalli á dagdeild barnaspítalans og sinnir fjölda annarra verkefna. Hún er kennslustjóri barna- og ofnæmislækninga í héraðinu, situr í verklagsregluhópum sem móta leiðbeiningar fyrir landið allt og tekur þátt í gæðaúttektum á sérnámi barnalækna um alla Svíþjóð. Hún er ein nokkurra sem eru í þessu ráði sem skipað er barnlæknum sem taka út sérnámið. Um er að ræða kröfu frá yfirvöldum á fimm ára fresti og ráðið skilar skýrslu um hvað vel er gert og hvað mætti betur fara. Hún segir þetta mjög skemmtilegt og hikaði ekki við að grípa tækifærið þegar hún var beðin um að taka að sér að vera í þessu ráði.
„Það er ekki bara gefandi og lærdómsríkt að kynnast sérfræðingum í ráðinu sjálfu, sem koma víðs vegar að í landinu, heldur einnig að fara á alla þessa spítala og sjá hvað er gert vel og taka þá vitneskju með sér. Auk þess efli ég mikilvægt tengslanet. Ég á mjög erfitt með að segja nei þegar kemur að verkefnum sem tengjast vinnunni,“ segir hún hlæjandi. „En þetta gefur mér líka mikið. Ég kynnist frábæru fólki og fæ tækifæri til að læra af bestu sérfræðingum landsins.“
Þá heldur hún reglulega námskeið fyrir lækna í sérnámi og fyrirlestra á heilsugæslum, auk þess sem hún situr í ráði um skynsamlega lyfjanotkun barna. „Markmiðið er alltaf að bæta lífsgæði barna með ofnæmi og astma,“ leggur hún áherslu á.
Dæmigerður dagur í annasömu lífi
Dagur Hörpu hefst á morgunfundi með barnalæknum spítalans. Þar á eftir tekur við sjúklingamóttaka, vinna á legudeild, dagdeild, teymisfundir eða stjórnunarfundir – allt eftir verkefnum dagsins. „Við sérfræðingarnir róterum á legudeild og dagdeild spítalans. Ég er líka oft ráðgefandi sérfræðingur fyrir lækna inni á spítalanum, á heilsugæslum og á barnamóttökum sem geta hringt til mín með fyrirspurnir hvað varðar ofnæmi og astma hjá börnum. Oft er ég að leiðbeina læknanemum og læknum í sérnámi og halda fyrirlestra eða málstofur. Svo er mikið um fundi, bæði innan spítalans og með sérfræðingahópum víðs vegar að,“ útskýrir hún.
Á stóru heimili með þremur börnum þarf góða verkaskiptingu. „Við Kjartan höfum fundið taktík sem virkar og hjálpumst að,“ segir Harpa. „Fjölskyldan okkar er öll á Íslandi þannig að við höfum þurft að skapa okkar eigið stoðkerfi hér úti. Það hefur gengið vel en krefst vissulega skipulags.“
Björt framtíðarsýn
Þegar hún horfir fram á veginn sér Harpa fyrir sér áframhaldandi þróun í meðferð ofnæmis barna. „Vonandi getum við á næstu árum hjálpað börnum með fleiri tegundir fæðuofnæmis og bætt lífsgæði þeirra verulega. Það er þetta sem knýr mann áfram – að vita að maður getur skipt sköpum,“ segir hún að lokum.
