11. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Aðsent efni. OECI vottun – leiðin að alþjóðlegri gæðavottun í greiningu og meðferð krabbameina

Á undanförnum árum hefur krabbameinsgreiningum fjölgað verulega á Íslandi, aðallega vegna hækkandi aldurs og fjölgunar þjóðarinnar, og er spáð 57% fjölgun tilfella fram til ársins 2040.1 Með auknu álagi á heilbrigðiskerfið verður sífellt mikilvægara að tryggja að þjónustan sé skilvirk, örugg og í samræmi við alþjóðleg gæðaviðmið. Þrátt fyrir mikinn faglegan metnað og stöðugar umbætur innan einstakra eininga, hefur skort á samræmd viðmið og yfirsýn.

Í því ljósi hófst undirbúningur að því að fá alþjóðlega vottun fyrir krabbameinsþjónustu Landspítala fyrir fjórum árum. Markmiðið er að efla gæði krabbameinsþjónustu á öllum sviðum, allt frá greiningu til meðferðar, sem og efla forvarnir, menntun og rannsóknir. Tryggja þarf nauðsynlega yfirsýn og samhæfingu allra aðila og setja fram og framfylgja viðmiðum, meðal annars um biðtíma þjónustu. Vottun myndi gefa starfinu mikilvægan gæðastimpil og undirstrika það að á Íslandi fer fram þjónusta, menntun og vísindastarf af háum gæðum. Mikilvægt er að tryggja að íslensk krabbameinsþjónusta standi jafnfætis bestu stofnunum í Evrópu svo við getum tekið fullan þátt í evrópsku samstarfi, sjúklingum okkar til heilla. Sömuleiðis er mikilvægt að efla samvinnu við norrænar krabbameinsstofnanir um rannsóknir og meðferð. Krabbameinsáætlun Íslands sem fyrst var gefin út af heilbrigðisráðuneytinu 2016 og síðar framlengd til 2030 tekur til stofnunar krabbameinsmiðstöðvar og enn fremur er rætt um hana í nýlega samþykktri þingsályktunartillögu um aðgerða-áætlun í krabbameinsmálum 2025-2029. Vottunarferli samræmist einnig stefnu Landspítalans.

Organisation of European Cancer Institutes (OECI)3 var stofnuð árið 1979 með það að markmiði að efla samvinnu milli krabbameinsstofnana í Evrópu, deila þekkingu og samræma meðferðir samkvæmt bestu þekkingu hvers tíma. Í gegnum árin hefur stofnunin þróað staðla sem ná yfir alla þætti krabbameinsþjónustu á sviði forvarna, meðferðar, menntunar og rannsókna með það að markmiði að tryggja gæði og skilvirkni þjónustu við krabbameinssjúklinga. Nú hafa Norðurlöndin öll, að Íslandi undanskildu, eignast eina eða fleiri vottaðar krabbameinsmiðstöðvar. Simon Oberst, gæðastjóri OECI, heimsótti Landspítalann á árlegu málþing krabbameinsþjónustunnar í mars 2025 og kynnti vottunarferlið og hitti framkvæmdastjórn spítalans. Heimsóknin var mikil hvatning til að halda áfram á þessari vegferð. 

Vottunarstaðall OECI tekur til níu mismunandi kafla, þar með talið stjórnskipulags, gæðakerfis, þátttöku og valdeflingu sjúklinga, þverfaglegs samstarfs, forvarna og skimunar, greininga og meðferðar, sem og rannsókna og menntunar. Stýrihópur hefur starfað undanfarna mánuði og verkefnastjóri heldur nú utan um vinnu við að yfirfara staðla OECI, hvað við uppfyllum nú þegar og hvað þarf að bæta. Til að samræma innleiðingu vottunar og eftirfylgni með gæðaviðmiðum OECI er nauðsynlegt að stofna formlega krabbameinsmiðstöð innan Landspítala. Þar kæmu saman fulltrúar úr klínískri starfsemi sem sinna uppvinnslu, greiningu og meðferð, sem og vísindamenn frá Landspítala og Háskóla Íslands. Stjórn krabbameinsmiðstöðvar myndi hafa það hlutverk að móta stefnu, hafa yfirsýn yfir innleiðingu og framfylgni staðlaðra ferla og tryggja að vottunin skili raunverulegum umbótum í þjónustu og rannsóknum. Vottun þarf svo að endurnýja á fimm ára fresti til að halda henni.     

Krabbameinsrannsóknir eru undirstaða framfara í greiningu og meðferð. Sem hluti af OECI-vottun er gert ráð fyrir öflugri rannsóknarstarfsemi og virku samstarfi milli háskólasamfélags og heilbrigðiskerfisins. Miðstöð krabbameinsrannsókna myndi veita aukna yfirsýn og auðvelda samstarf og sókn í alþjóðlega styrki. Ljóst er að spennandi tímar eru framundan og unnið verður að því að fá OECI-vottun á næstu 2-3 árum.

Heimildir

1. Guðmundsdóttir EM, Ólafsdóttir E, Kristinsdóttir NM, et al. Spá um nýgengi og algengi krabbameina á Íslandi til ársins 2040. Læknablaðið. 2024 Jul;110(7):354-359.   

2. Tillaga að íslenskri krabbameinsáætlun. https://www.stjornarradid.is/gogn/rit-og-skyrslur/stakt-rit/2017/07/07/Tillaga-ad-islenskri-krabbameinsaaetlun-til-arsins-2020-Notendamidud-thjonusta-i-ondvegi/ - September 2025.  

3. Tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í krabbameinsmálum 2025–2029. https://www.althingi.is/altext/156/s/0088.html. September 2025   

 

4. Organization of European Cancer Institutes, OECI. https://www.oeci.eu/. September 2025. 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica