10. tbl. 111. árg. 2025
Umræða og fréttir
Sérgreinin mín. Meinafræði. Greining sjúkdóma í frumum og vefjum. Jón Gunnlaugur Jónasson
Hvers vegna valdi ég meinafræði sem sérgrein eftir læknanámið? Ég útskrifaðist úr læknadeild Háskóla Íslands 1982 og við tók kandídatsár á Landspítalanum, Reykjalundi, Landakoti og Patreksfirði. Ég velti mikið fyrir mér sérnámi og fann að mér líkaði helst við sérgreinar sem voru ekki of afmarkaðar og vildi fá að glíma við greiningu án þess að aðrir læknar væru búnir að vinna sjúkling upp. Þannig kæmi verkefnið sem einskonar gáta sem þyrfti að leysa. Eftir umhugsun voru það helst heimilislækningar og meinafræði. Ég hafði verið heppinn að fá sumarstarf 1980 á Rannsóknarstofu Háskólans (RH) í meinafræði og kynntist þá hvað þessi sérgrein læknisfræðinnar gekk út á. Þar var sannarlega verið að „leysa gátur“. Það sem réð úrslitum um val sérgreinar var auglýsing um ársstöðu „súperkandídats“ á RH í meinafræði, þar sem viðkomandi fengi möguleika á að vinna vísindaverkefni. Ég var áhugasamur um vísindavinnu og ánægjuleg minning um sumarstarfið 1980 hafði mikið að segja. Ég sótti um og fékk stöðuna.
Ýmsar góðar fyrirmyndir voru í meinafræðinni, meðal annars prófessor Jónas Hallgrímsson sem leiddi stofnunina og Ólafur Bjarnason fyrirrennari Jónasar. Einnig varð mér góður samstarfsmaður og fyrirmynd Bjarki Magnússon meinafræðingur. Það reyndist mér mikilvægt hvað Jónas var hvetjandi í vísindum.
Eftir hálft annað ár á RH í meinafræði lá leiðin í framhaldsnám erlendis. Fyrir milligöngu Bjarka fékk ég starf á meinafræðideild Royal Marsden spítalans í London. Þetta er mjög sérhæfður krabbameinsspítali og ég sá fljótt að ég þyrfti að fara annað til að ná fjölbreytni meinafræðinnar. Því sótti ég um auglýst störf og eftir sex mánuði á Marsden fékk ég námsstöðu á St. Mary‘s spítalanum í London. Þar var mjög gott að vera og mikið að læra. Í London var ég frá 1985-1989.
Í framhaldi af dvölinni í London fékk ég eins árs „fellowship“ stöðu við Beth Israel sjúkrahúsið í Boston, sem er einn af Harvard spítölunum. Þar lagði ég stund á frumumeinafræði, en vann einnig umtalsverða vísindavinnu, sem leiddi til birtingar fimm vísindagreina.
Ég fékk síðan sérfræðingsstarf á RH í meinafræði (nú meinafræðideild Landspítalans), þar sem ég hef starfað síðan. Mér hefur alltaf líkað afskaplega vel við starfið og samstarfsfólkið. Ég hef náð að vinna mikla vísindavinnu í gegnum tíðina og haft mjög gaman af. Einnig hef ég kennt mikið og frá 1999 verið kennari í læknadeild, fyrst dósent og frá 2007 prófessor í meinafræði.
Varðandi það hvað ég vildi ráðleggja ungum læknum sem eiga eftir að velja sér sérgrein, þá vil ég segja: Hafið endilega meinafræðina í huga sem framtíðarstarf. Ég hef aldrei séð eftir því að hafa valið meinafæði og myndi gera það aftur ef ég væri nýútskrifaður. Greinin er afskaplega fjölbreytt og kemur inn á flest svið læknisfræðinnar. Við gegnum mjög mikilvægu hlutverki við að sinna sjúklingum, og sífellt mikilvægari í sniðlækningum sjúklinga. Vaktir eru ekki íþyngjandi og starfið hentar fjölskyldufólki. Sumt er akút, til dæmis frystiskurðir, en annars þurfa sýnin ekki að panta tíma hjá meinafræðingnum, hann vinnur þau á þeim tíma sem hann hefur til umráða. Loks býður greinin upp á mikla möguleika í kennslu og vísindavinnu. Hafi einhver fyrirvara gagnvart krufningum, sem ég tel ástæðulaust, þá er þessi hluti starfsins lítill og tilheyrir hér á landi að mestu réttarmeinafræðinni.
Í lokin vil ég nefna að meinafræðideild Landspítalans hefur heimild til að mennta tvö ár af sérnámi í meinafræði, en sérnámslæknar þurfa síðan að fara að minnsta kosti þrjú ár til starfa erlendis.