10. tbl. 111. árg. 2025
Umræða og fréttir
Liprir pennar. Hvað get ég sagt? Pétur Guðmann Guðmannsson
Réttarlæknisfræði býr í náttúrulegri útlegð frá móðurgreininni, klínískri læknisfræði. Réttarlæknar stunda ekki lækningar heldur stela læknisfræðilegri þekkingu og beita henni annars staðar. Hugtakaheimur læknisfræðinnar tengir þó greinar hennar á meðan hugtök í læknisfræði og mál lækna er almennu fólki óskiljanlegt. Klínískir læknar nota sín á milli íslenskað fjöltunguættað „læknamál“ sem er flókið, lifandi og gagnlegt þegar sjúklingum er hjálpað í daglegu starfi. Réttarlæknisfræðilegar matsgerðir eru hins vegar ávallt ritaðar fyrir lesendur utan læknisfræði sem útheimtir sérstaka alúð við skrifin svo tungutakið verði skiljanlegt og efnið gegnsætt. Réttarlæknar reyna meðal annars að ná þessu markmiði með þeirri kerfisbundnu róttækni að hafa allt á fín-ustu íslensku. Svoleiðis meðferð á fagmálinu gerir textann, satt að segja, framandlegan á annan hátt og hefur í för með sér uppdubbaðar setningar og kræklóttar málsgreinar, þó markmiðið sé skýrleiki – nauðsynleg aðlögun með þolanlegum aukaverkunum. Í sama skyni tileinkaði ég mér það af lærimeisturum mínum í Svíþjóð að hafa alltaf greini í líffæra- og vefjaheitum (…lokun á hálsslagæðunum með kjölfarandi blóðþurrð í heilanum) andstætt því sem tíðkast í klíník. Þetta myndi fremur höfða til lesenda sem ekki væru fagmenn því svona mál væri notað í barnabókum.
Orðelskir læknar hafa ávallt viljað gefa íslenskunni stað í sérfræðimálinu. Framtakssemin náði hápunkti í lok síðustu aldar með heildarþýðingum á Nomina Anatomica og ICD 10. Þó margar klókar þýðingar standi á gulnuðum síðum þessara bóka er þar líka sitthvað afkáralegt. Voru líffæraheitin þýdd vitandi til að hvert og eitt þeirra kynni í raun að verða notað einhvern tíma í texta? Athugum að blæðing í aftari stóra höfuðbeini (musculus rectus posterior major) getur verið markvert ummerki kyrkingar, en er ekki orðið höfuðbeinn til þess fallið að hafna á röngum stað í skilningi lesandans ef það á að vísa í vöðva?
Réttarlæknisfræði er pínulítil grein, með örfáa innlenda iðkendur, en hefur víðtækar sérþarfir varðandi íslensk orð og textabyggingu. Við höfum þurft að smíða orð og endurlífga úrelt orð: líkskorpnun (mummification), sigmar (þegar húðbeðsblæðing sígur til annars líkamssvæðis), stellingarköfnun (positional asphyxia), kjölfarandi (gefur til kynna afleiðingu). Okkur er upplifun viðskiptavinarins hjartans mál. Við hugsum mikið um gæði framsetningar, merkingu og skilning. Við erum stöðugt á höttunum eftir nýjum og gagnlegum orðum. Ég lýsi eftir almennilegu íslensku nafnorði fyrir enska orðið „findings“ (sæ. fynd), nokkuð sem kjarnar vinnu okkar, en við höfum þurft að sættast á orðið ummerki, sem er dræmur kostur. Einnig vantar mig orð yfir það þegar blóð hefur yfirgefið æð og farið út í vefinn, í ætt við enska heitið „extravasation“, án þess þó að nota orðið blæðing.
Ég er þakklátur fyrir matarlíkingarnar, olnbogabarn læknisfræðimáls, þó sumum læknum þyki þær andstyggilegar. Að segja æxli á stærð við vínber eða æðaþel með áferð piparköku. Súkkulaðisysta og ystingsdrep. Hið breiða róf hins sjónræna og áþreifanlega í viðfangsefnum læknisfræðinnar er mikið og smáatriðin skipta máli; að þreifa, sjá og finna. Allir þekkja hvað skilur áferð og ásýnd gulrótar frá majónesi, púrtvíns frá blautu serjósi og – viti menn – líkaminn er meira eða minna úr sömu hráefnum. Læknastúdentar hafa beðið mig að hætta að nefna fæðu í öðru hverju orði þegar ég kenni þeim meinafræði við krufningu, en það getur verið að þau viti ekki alltaf hvað þeim er fyrir bestu.
Að endingu upplýsi ég að orðið sem hrífur mig mest er hið leyndardómsfulla orð sljór en ég þoli lítið hið þreytta slangur hematóm.