10. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Fundur ritstjórna norrænna læknablaða, í Stokkhólmi, Svíþjóð

Í september var árlegur fundur ritstjórna norrænu læknablaðanna haldinn í Stokkhólmi.

Í þetta sinn var fundurinn haldinn á hóteli nálægu höfuðstöðvum sænska læknablaðsins, Läkartidningen, sem er mörgum íslenskum læknum kunnugt. Það var því ákveðin „nostalgía“ í því að heimsækja þær höfuðstöðvar. Läkartidningen er staðsett á fjórðu og efstu hæð húss Svenska Läkarförbundet, sem trúlega þýðist sem Landssamband sænska læknafélagsins, miðsvæðis í Stokkhólmi, í einni af fínu götum borgarinnar, Villa-gatan 5, á Östermalm. Nafn götunnar er afar viðeigandi og segir mikið um húsin við hana. Skrifstofan hefur nýlega verið endurnýjuð og er björt og rúmgóð með afar fallegt útsýni yfir þennan borgarhluta. Hádegisverður ritstjórnanna var í matsalnum á hæðinni fyrir neðan, þar sem ritstjórn Läkartidningen hefur einnig sína fundi í einni af björtum stofum hæðarinnar. Húsið er nýtt af félagsmönnum fyrir doktorsvarnir, afmæli og fleira. Sveriges Läkarförbund er stéttarfélag sænskra lækna ásamt öðru.

Sænsku vinir okkar tóku afar vel á móti okkur og að loknum fyrsta fundardegi var hópurinn leiddur í gegnum málverkasýningu Hanna Hirsch Pauli á Nationalmuseum. Hanna Hirsch var ein af brautryðjendum kvenna í málaralist og myndir hennar sýna mikla næmni fyrir nákvæmum andlitsmyndum og rómantík. Eftir athyglisverða leiðsögn um sýninguna hélt hópurinn til kvöldverðar í annað tignarlegt hús, nú þess sem hýsir Svenska Läkaresallskäpet. Það er sá hluti félagsins sem heldur um óháða vísindastarfsemi þess. Þessi hluti félagsins snýr að vísindum, menntun, gæðavinnu og siðfræði. Það hús var einnig afar glæsilegt, gamalt, staðsett nærri miðlægu járnbrautarstöðinni og oft notað undir alls kyns félagslega fundi og veisluhöld.

Það er afar notalegt að funda með starfsbræðrum og systrum norrænu læknablaðanna. Allir eru tilbúnir að aðstoða hver annan og gefa góð ráð. Djúpar umræður eru á hverjum fundi um innihald blaðanna, bæði vísindalegt og félagslegt, útgáfu og dreifingu. Sænska læknablaðið, Läkartidningen, hóf útgáfu sína 1904 og er nú 120 ára, og fyrir rúmri viku fékk blaðið glænýja heimasíðu. Það var því rætt ítarlega, sem var afar heppileg umræða í ljósi þess að íslenska Læknablaðið vinnur nú að nýrri heimasíðu. Horft hefur verið til heimasíðu Läkartidningen og gerð hefur verið þarfagreining sem nýja heimasíðan mun byggja á og leitast verður eftir hagkvæmri og skilvirkri heimasíðugerð. Auk þessa voru meðal annars ræddir mikilvægir þættir varðandi gervigreindina. Öll blöðin nota Scholarone fyrir innsendingu og umsýslu vísindagreina, sem í ár sem áður, gaf tilefni til umræðna. Það er okkur ómetanlegt sem lítil þjóð með 110 ára gamalt Læknablað, að eiga samstarf með okkar norrænu starfsbræðrum og systrum til áframhaldandi mótunar Læknablaðsins og erum við afar þakklát góðum móttökum vina okkar.

Hús sænska læknafélagsins (Läkarförbundet).

 

Läkartidningen bindur inn alla sína árganga líkt og Læknablaðið gerir og sjást síðustu árgangarnir til vinstri.

 

Eitt af frægum málverkum Hanna Hirsch Pauli. Hér málar hún sig, til vinstri með fjölskyldumeðlimum.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica