10. tbl. 111. árg. 2025
Umræða og fréttir
Bókin mín. Fjársjóðskistan. Hjördís Harðardóttir
Að lesa bækur hefur frá barnsaldri verið mér dýrmæt upplifun, veitt innblástur, kennt mér, skapað hugmyndir og víkkað sjónarhornið. Góð bók er eins og kær vinur. Það að velja eina er í mínum huga eins og að gera upp á milli barnanna sinna.
Ég hef alltaf lesið mikið og allar tegundir af bókum. Það fer eftir hugarástandi og álagi í umhverfinu hvort valið verður skáldsögur, smásögur, glæpasögur, ferðabækur, þjóðsögur, fræðirit og svo framvegis. Íslendingasögur hafa verið mér hugleiknar undanfarið og tengjast þær námskeiðum sem ég hef sótt í fornbókmenntum, mér til ánægju.
Það markmið sem ég setti mér að grisja heimilisbókasafnið, reyndist mér torsótt. Ég þarf oftast að lesa bókina aftur og stend svo frammi fyrir því mjög svo erfiða vali að halda eða sleppa. Ég fullyrði að það er ekki hægt að henda bókum. Ekki virðast þó vera mörg úr-ræði til, þar sem hægt er að koma þeim fyrir, svo þær eigi sér framhaldslíf.
Á unglingsárunum var ég félagi í Almenna Bókaklúbbnum. Dæmi um bækur sem höfðu áhrif á mig eru Gróður jarðar eftir Knud Hamsun, Bjargvætturinn í grasinu eftir J.D. Salinger og Mátturinn og dýrðin eftir Graham Greene. Ekki má gleyma Jónatan Livingston Mávur eftir Richard Bach, sem á menntaskólaárum mínum var óþrjótandi uppspretta umræðna og vangaveltna. Trúlega hefur lestur bóka dýpri áhrif á mótunarárunum.
Breiðafjörðurinn hefur alltaf heillað mig. Á ég þaðan ættir að rekja, umhverfið, lífríkið og landslagið er einstakt. Svæðið er sögulega mikilvægt og var til forna miðstöð siglinga og verslunar. Fyrir nokkru tók ég mig til og valdi til lestrar bækur þar sem sögusviðið er í og við þann fagra fjörð. Ég byrjaði á að endurlesa Laxdælu, saga nokkurra kynslóða sem er bæði harmræn og rómantísk. Hún snýst um ættartengsl, hefnd, örlög, ákvarðanir og atburði sem hafa áhrif á framtíðina. Höfundur er ókunnur, kannski var höfundurinn eða meðhöfundurinn kona, þar sem sagan er óvenju kvenlæg í samanburði við aðrar Íslendingasögur. Svarti Víkingurinn eftir Bergsvein Birgisson er söguleg skáldsaga sem segir frá víkingnum Geirmundi heljarskinni. Sagan lýsir siðferði, lífsgildum, samfélaginu og umhverfinu vel. Þríleikur Vilborgar Davíðsdóttur Auður, Vígroði og Blóðug jörð fjalla um Auði djúpúðgu, fyrstu landnámskonu Íslands. Þetta eru sögulegar skáldsögur. Bækurnar rekja sögu Auðar frá því hún var barn á Suðureyjum við Skotland og þar til hún nemur land við Breiðafjörð og byggir bæ sinn, Hvamm. Bækur Einars Kárasonar Óvinafagnaður, Ofsi og Skáld eru sögulegar skáldsögur. Breiðafjörðurinn er þar miðpunktur valdabaráttu Sturlunga.
Sögurnar lýsa vel umhverfi, staðháttum, náttúru og lífríki svæðisins. Við lesturinn var nauðsynlegt að hafa landakort við höndina til að rýna í. Mér finnst ég þekkja landafræði, náttúru og umhverfi Breiðafjarðar orðið nokkuð vel og hefur það gefið mér aukna ánægju og ný sjónarhorn þegar ég heimsæki svæðið.
Ég vil þakka vinum mínum, bókunum, fyrir langa og gefandi samfylgd sem ekki sér fyrir endann á. Bækur hafa sannarlega verið stór partur í mínu lífi, verið hluti af mínu þroskaferli, veitt mér margar ánægjustundir og lífsfyllingu. Vona að sem flestir gefi sér tíma og elju til að fara inn í töfraheim þeirra. Bókin mun lifa.
Skora á Ingólf Kristjánsson, endurhæfingar- og heimilislækni, sem ég veit að er sannur bókaormur.