10. tbl. 111. árg. 2025
Umræða og fréttir
87 læknanemar leystu af í 11 vikur í sumar
Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala, svaraði spurningum Læknablaðsins um mönnun og skipulag á spítalanum yfir sumartímann. Hann segir undirbúning, skipulag og samvinnu hafa
skipt sköpum til að tryggja órofna þjónustu og öryggi sjúklinga, þrátt fyrir áskoranir vegna sumarleyfa og skorts á starfsfólki.
Runólfur segir að heilt yfir hafi starfsemi Landspítala gengið vel í sumar. „Það má rekja bæði til öflugs mannauðs og aukins skipulags og undirbúnings,“ útskýrir hann og bendir á grein í nýútgefnum Spítalapúls þar sem framkvæmdastjórar spítalans fara ítarlega yfir sumarið. Hann viðurkennir þó að mönnun þjónustunnar sé ætíð áskorun sem magnist á sumrin þegar starfsfólk taki út frí. „Framboð á afleysingafólki er takmarkað og því verðum við að skipuleggja orlofstökuna vel. Við leggjum áherslu á að starfsfólk fái sín frí án þess að það bitni á öryggi sjúklinga eða framboði þjónustu.“
Samkvæmt Runólfi er almennt viðmið að starfsfólk fái að lágmarki þrjár samfelldar vikur í sumarfríi. „Þetta tókst víðast hvar, til dæmis á röntgendeildinni, og því var lítið um samdrátt í þjónustu í sumar,“ bætir hann við. Runólfur leggur einnig áherslu á að á Landspítala séu eingöngu ráðnir læknar með fullgilt lækningaleyfi til að leysa af. „Þetta er ófrávíkjanleg regla. Læknanemar með tímabundið leyfi geta sinnt störfum á öðrum stofnunum en ekki hér,“ segir hann.
Læknanemar létta undir álagið
Aðspurður hvort læknanemar hafi verið stór þáttur í sumarafleysingum svarar Runólfur: „Læknanemar eru ráðnir sem nemendur og þeir bera ekki ábyrgð á læknisþjónustu heldur vinna undir handleiðslu lækna með fullgilt leyfi. Þeir sinna þó fjölbreyttum verkefnum og létta þannig undir vinnuálaginu.“
Alls voru 87 læknanemar ráðnir til starfa á Landspítala sumarið 2025 og störfuðu í um 11 vikur á hinum ýmsu sviðum spítalans. Runólfur segir að störfin gefi læknanemum mikilvæga reynslu og innsýn í störf lækna. „Markmiðið er að tryggja öryggi og gæði þjónustunnar allt árið. Starf læknanema á sumrin er jafnframt frábært tækifæri til náms og þjálfunar,“ útskýrir hann.
Varðandi laun læknanema og ákvörðun Fjársýslu ríkisins um að skerða hlutfallslega laun þeirra svarar Runólfur að Landspítali ráði því ekki. „Laun læknanema eru ákveðin af Kjara- og mannauðssýslu ríkisins. Það hefði þó verið æskilegt að launataflan fyrir sumarið 2025 hefði legið fyrir fyrr,“ segir hann og bætir við að spítalinn muni beita sér fyrir því að taflan vegna sumarsins 2026 liggi fyrir eigi síðar en aðrar launatöflur hjá hinu opinbera sem taka hækkunum frá og með 1. apríl 2026.
Um starfsanda og móttöku lækna-nema segir Runólfur að Landspítali leggi mikla áherslu á góða kynningu og skipulag. „Við héldum sameiginlegan kynningardag fyrir alla læknanema og buðum upp á reglulega fundi með forsvarsmönnum Félags læknanema. Í september sl. var einnig lögð fram könnun meðal læknanema til að leita leiða til úrbóta þar sem þess er þörf,“ útskýrir hann.
Samkeppni um vinnuafl og framtíðarsýn
Runólfur viðurkennir að samkeppni um vinnuafl læknanema sé til staðar, meðal annars frá hjúkrunarheimilum og öðrum heilbrigðisstofnunum þar sem laun séu oft hærri. „Við teljum jákvætt að læknanemar öðlist reynslu sem víðast. Landspítali mun hins vegar áfram leitast við að bjóða störf sem gefa dýrmæta innsýn í starfsemi þjóðarsjúkrahússins.“ Hann bendir á að í nágrannalöndunum séu læknanemar almennt ekki ráðnir til sumarstarfa í sama mæli og hérlendis. „Með aukinni sérnámsþróun og fjölgun námslækna gæti þróunin orðið sú sama hér á landi á komandi árum,“ útskýrir Runólfur.
Að lokum leggur hann áherslu á að Landspítali vilji að læknanemar hafi góða reynslu og traust á spítalanum sem framtíðarvinnustað. „Við viljum skapa jákvæðan starfsanda, gott námsumhverfi og tryggja að læknanemar fái þá þjálfun sem þeir þurfa. Það er lykillinn að því að laða að framtíðarstarfsfólk Landspítalans.“