09. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Þarf að binda laun lækna(nema) í kjarasamning?

Undanfarið sumar leið eins og mörg fyrri sumur hafa gert, hratt. Ég eyddi stórum hluta sumarsins innan veggja Landspítalans og var þar nóg að gera enda fara veikindi (eða í mínu tilfelli brot og aðrir áverkar) sjaldnast í sumarfrí. Þetta var ekki mitt fyrsta sumar á Landspítalanum en það var þegar ég vann eftir fjórða árið sem læknanemi á geislameðferðardeildinni á Hringbrautinni. Sumarið eftir fimmta árið vann ég svo í hringiðunni á bráðamóttökunni í Fossvogi. Þetta voru ólík störf og höfðu sína kosti og galla en eftir bæði þessi sumur gekk ég burt með aukna klíníska reynslu sem nýttist mér bæði í náminu í framhaldinu og starfi mínu sem læknir seinna meir.

Nú líkt og þá eru heilbrigðisstofnanir landsins uppfullar af læknanemum yfir sumartímann. Þar hafa þeir verið ráðnir í afleysingar, gagngert til þess að hleypa þeirra framtíðarkollegum í kærkomið sumarfrí. Laun þessara læknanema hafa, í gegnum tíðina, tekið mið af launum nýútskrifaðs læknis. Þegar ég var að kynnast línuhröðlunum í K-byggingunni og blikkandi skjáborði bráðamóttökunnar höfðu læknanemar sem lokið höfðu fjórða ári 85% af launum nýútskrifaðs læknis en læknanemar sem lokið höfðu fimmta ári 95%. Hafa þessi hlutföll aldrei verið bundin í neinn samning, heldur í raun verið geðþóttaákvörðun stjórnanda hverju sinni. Því er stjórnendum heilbrigðisstofnana tæknilega frjálst að borga læknanemum eins mikið og eins lítið og þeir vilja. Staðreynd sem læknanemar hafa ítrekað verið minntir á.

Þrátt fyrir ómissandi framlag þeirra læknanema sem starfað hafa í afleysingum hafa launahlutföll þeirra verið rýrð í tvígang á undanförnum árum. Fyrst árið 2023 þegar hlutföllin voru færð niður í 80% og 90% af launum nýútskrifaðs læknis og svo aftur nú í vor þegar nýr kjarasamningur lækna tók gildi. Fór hlutfallið þá í 75% fyrir fjórða árs nema og 80% fyrir fimmta árs nema. Olli þetta skiljanlega vonbrigðum meðal læknanema og mótmælti Félag læknanema þessum breytingum harðlega. Mótmæli vöktu töluverða athygli í fjölmiðlum nú í byrjun sumars, sér í lagi eftir að fjármálaráðherra skarst í leikinn. Fór svo að hlutföllin voru aðeins toguð upp, í 84% fyrir fimmta árs nema en hlutfallið fyrir fjórða árs nema sat sem fastast í 75%.

Sér hver sem á horfir að þetta fyrirkomulag gengur illa upp til frambúðar. Festa þarf laun læknanema í einhvers konar samning svo ekki sé hægt að lækka hlutfallið í hvert sinn sem samið er við lækna. Verði það ekki gert er hætt við að laun læknanema verði komin niður í um 60% af launum nýútskrifaðs læknis árið 2030. Best væri ef kveðið væri sérstaklega á um laun læknanema í kjarasamningi LÍ og er það eitthvað sem þyrfti að hafa í huga í næstu samningaviðræðum. Væri það besta leiðin til að tryggja að laun þeirra fylgdi launaþróun lækna.

Það er vert að minna á að læknanámið er langt og tímafrekt. Lítill og afmarkaður tími gefst til að vinna samhliða námi og eru margir með töluverð námslán á bakinu. Það þarf að standa vörð um að læknanemar fái réttilega greitt fyrir sín mikilvægu störf. Þessar afleysingastöður eru nauðsynlegur partur af starfi heilbrigðisstofnana en ekki bara náms-tækifæri fyrir nemana. Þú greiðir ekki reikninga með klínískri reynslu.

Að endingu vil ég þakka þeim fjölmörgu læknanemum sem ég starfaði með í sumar fyrir öflugt og gott samstarf. Mig langar að auki að minna þá á að ljós er við enda ganganna. Laun lækna eru nefnilega kjarasamningsbundin. 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica