Tölublað septembermánaðar
Umræða og fréttir
Sérgreinin mín. Hjarta- og lungnaskurðlækningar. Yfirgefðu aldrei sjúklinginn þinn. Sigurður Ragnarsson
Sem læknanemi áttaði ég mig á því að mér þótti gaman að vinna með höndunum og vildi því frekar velja skurðlækningar en aðrar sérgreinar læknisfræðinnar. Mér þótti síðan ákaflega spennandi að vera með í hjartaaðgerðum þegar ég var á brjóstholsskurðdeild á fjórða ári og fannst virkilega „kúl“ að sjá hjartað slá með berum augum, fá að koma við það og sjá að hægt væri að stöðva hjartað og leyfa því svo að slá aftur eftir aðgerðina. Eftir kandídatsárið fór ég því í hið tveggja ára skurðarprógramm á Landspítala. Á þessum tíma var ég sex mánuði í brjóstholsskurðlækningum. Þar fékk ég enn meiri áhuga á faginu og varð viss um að ég vildi verða hjartaskurðlæknir. Það var virkilega gaman að fá að vera með í aðgerðum og mér þótti sérstaklega gaman að fylgjast með Bjarna Torfasyni framkvæma flóknari hjartaaðgerðir. Ég fór svo í sérnám við Háskólasjúkrahúsið á Skáni í Lundi í Svíþjóð árið 2011. Þar átti Tómas Guðbjartsson stóran þátt í því að ég fékk fyrst afleysingarstöðu og svo loks fasta námsstöðu.
Ég fékk sérfræðileyfi í hjarta- og brjóstholsskurðlækningum árið 2016. Ég stundaði rannsóknir með sérnáminu og lauk doktorsprófi frá Háskólanum í Lundi 2017 um árangur míturlokuviðgerða. Ég hef haldið áfram að stunda rannsóknir eftir doktorsprófið og þá helst um hjartaþelsbólgu (endocarditis). Eftir að ég fékk sérfræðiréttindi í hjarta- og brjóstholsskurðlækningum hef ég starfað sem sérfræðingur í hjartaskurðlækningum í Lundi fyrir utan árið 2022-2023, en þá fór ég í viðbótarþjálfun við Yale háskólann í Connecticut í Bandaríkjunum. Þar fékk ég tækifæri til að vinna með Arnari Geirssyni sem var yfirlæknir hjartaskurðlækninga við Yale háskólann á þeim tíma. Arnar er frábær skurðlæknir og jafnframt örlátur á tíma sinn. Sérstaklega skemmtilegt þótti mér að framkvæma hjartaígræðslur og að taka þátt í míturlokuviðgerðum með aðgerðarþjarka.
Þó svo ég sé fastráðinn hjartaskurðlæknir við háskólasjúkrahúsið í Lundi hef ég reglulega leyst af á Landspítala. Þegar Gunnar Mýrdal heitinn var yfirlæknir var hann einstaklega góð fyrirmynd sem hjartaskurðlæknir og studdi við bakið á mér. Síðustu ár hef ég mikið starfað með Tómasi Guðbjartssyni og Tómasi Þór Kristjánssyni þegar ég hef leyst af á Íslandi og alltaf þótt gott að vinna með þeim. Ég hef síðan getað mælt með góðum sænskum kollegum sem hafa stutt við starfsemina á Íslandi síðustu ár. Á heildina litið er virkilega gott starf unnið á Landspítalanum í kringum sjúklinga sem þurfa á hjarta- og brjóstholsaðgerðum að halda og það er lofsvert að Íslendingar geti farið í jafnvel flóknari slíkar aðgerðir á Íslandi.
Mér finnst sérgreinin mín bæði spennandi og fjölbreytt. Ég er þakklátur fyrir að geta haft stór áhrif í lífi fólks með því að framkvæma hjartaaðgerð og það er mjög gaman að verða vitni að þeim bata sem flestir finna fyrir þegar einungis nokkrir dagar eru liðnir frá aðgerð. Það er alltaf þungt þegar alvarlegir fylgikvillar koma upp og á þeim tímapunktum hef ég oftar en einu spurt sjálfan mig hvort ég sé á réttum stað. Hins vegar er það óhjákvæmilegt að slíkt gerist en hollt að skoða hvort eitthvað hefði betur mátt fara og taka síðan með sér lærdómana. Mér verður þá gjarnan hugsað til stofugangs á fjórða ári í læknisfræði með Jónasi Magnússyni prófessor. Hann fór með okkur að rúmi sjúklings sem hann hafði skorið og hafði fengið alvarlegan fylgikvilla. Sjúklingurinn hélt í höndina á Jónasi á meðan hann sagði okkur frá fylgikvilla konunnar og hvernig hann tókst á við fylgikvillann með hjálp kollega. Hann sagði síðan eitthvað á þessa leið, "Yfirgefið aldrei sjúklinga ykkar. Biðjið um hjálp þegar þið þurfið á því að halda en sendið þá aldrei frá ykkur. Ef þið yfirgefið ekki þessa sjúklinga ykkar verða þeir oft bestu vinir manns". Þessi heilræði hef ég svo haft sem veganesti í starfi mínu sem hjartaskurðlæknir.