Tölublað septembermánaðar

Umræða og fréttir

Sérgreinin mín. Hjarta- og lungnaskurðlækningar. Að laga bilaðar hjartalokur á hverjum degi. Arnar Geirsson

Það eru viss forréttindi að geta menntað sig og unnið við það sem maður hefur ánægju af að vinna við. Það sem hefur alltaf heillaði mig við hjartaskurðlækningar er tæknilegi hluti sérgreinarinnar þar sem útkoma aðgerðar er verulega háð því hversu vel hún er framkvæmd, en einnig hversu afdrifaríkar hjartaskurðaðgerðir eru fyrir líf og heilsu sjúklinga. Þetta er því ákaflega gefandi sérgrein. Sérgreinin er einnig krefjandi líkamlega og andlega. Flestar aðgerðir taka nokkra klukkutíma, sem tekur á búkinn, og inn á milli koma tilfelli þar sem ekki er hægt að bjarga lífi sjúklings, sem vissulega hefur áhrif á sálina.

Nokkrir íslenskir læknar voru fyrir-myndir. Sigurgeir Kjartansson, æðaskurðlæknir, var fjölskylduvinur og hann hafði upphaflega þau áhrif að ég fór að hugsa um læknisfræði og skurðlækningar. Í læknadeild vann ég með Guðmundi Þorgeirssyni við grunnrannsóknir og vaknaði þá áhugi á hjartasjúkdómum og rannsóknum sem eru enn mikilvægur hluti af vinnunni minni. Það er magnað að sjá hjartaskurðaðgerð í fyrsta skipti og ég man sannarlega eftir kransæðaaðgerð sem Bjarni Torfason gerði meistaralega þegar ég var á fjórða ári læknisfræðsnámsins. Fljótlega eftir það tók ég ákvörðun um að verða hjartaskurðlæknir.

Ég fór í almennar skurðlækningar við Yale í Bandaríkjunum árið 1998 fyrir tilstilli Margrétar Oddsdóttur og Jónasar Magnússonar sem höfðu skapað góð tengsl við skurðdeildinna á Yale. Þetta var fimm ára klínískt nám að viðbættum tveimur rannsóknarárum. Í framhaldinu tók við tveggja ára sérnám í brjóstholsskurðlækningum við University of Pennsylvaníu. Skurðlæknanám í Bandaríkjunum á þessum tíma einkenndist af mikilli vinnu og viðveru á spítalanum og vann ég að meðaltali yfir 100 klukkustundir á viku. Þetta lagði sterkan grunn að því að verða góður hjartaskurðlæknir, þar sem aðgerðirnar voru margar og mjög fjölbreyttar. Samhliða þessu var Sigríður Benediktsdóttir eiginkona mín í doktors-námi í hagfræði við Yale og vann síðar hjá Seðlabanka Bandaríkjanna í Washington, DC. Við eignuðumst þrjá stráka á þessu tímabili, sem er kannski athyglisvert þar sem Sigríður var í fullu námi og vegna vinnuálags lítil hjálp í mér. Við hjónin erum samt sammála um að þetta hafi verið mjög góður tími þar sem allur frítími fór í að vera saman og lengri frí nýtt vel í að ferðast bæði til Íslands, Evrópu og innan Bandaríkjanna.

Við höfðum alltaf stefnt á að fara aftur heim eftir nám, en það var lítið um tækifæri á Íslandi fyrir okkur bæði að námi loknu. Yale tók okkur opnum örmum og við fluttum aftur til New Haven. Það er gaman að vinna á stórum akademískum spítölum. Aðstæður, laun og stuðningur við sérfræðilækna er einstakur og maður gat einbeitt sér að því að gera áhugaverðar aðgerðir, sinna kennslu og stunda rannsóknir.

Árið 2012 fluttum við til Íslands. Sigríði var boðin staða sem framkvæmda-stjóri fjármálastöðugleika í Seðlabanka Íslands og ég byrjaði sem sérfræðingur á brjóstholsskurðdeildinni á Landspítalanum. Þó svo að aðstaðan og tækjakostur sé ekki sá sami og erlendis þá er gott að vinna á Landspítalanum, fyrst og fremst þar sem mikið er af hæfileikaríku samstarfsfólki. Vinnuálagið var hins vegar allt annað en ég var vanur, og rannsóknir nær engar. Oft fannst mér of lítið að gera og sérstaklega saknaði ég þess að fá að skera meira. Á þeim tíma var mönnun á brjóstholsskurðdeildinni góð og á litlu landi eins og Íslandi eru tiltölulegar fáar hjartaaðgerðir sem var dreift á milli skurðlæknanna.

Árið 2016 komu upp ný tækifæri fyrir okkur fjölskylduna og við fluttum aftur út til Bandaríkjanna. Ég tók við sem forstöðulæknir yfir hjartaskurðdeildinni á Yale og fékk jafnframt framgang sem prófessor. Ég þjálfaði mig upp í og byggði upp öflugt prógramm í míturlokuplastik með aðgerðarþjarka. Samhliða þessu setti ég af stað rannsóknarhóp í klínískum rannsóknum og einnig grunnrannsóknarstofu þar sem ég skoðaði sjúkdómsfræði lokusjúkdóma. Næstu sjö ár voru mjög afkastamikil bæði akademískt og klínískt.

 

Fyrir tveimur árum flutti ég á New York Presbyterian-Columbia spítalann í New York sem er einn besti spítalinn í Bandaríkjunum í mínu fagi. Ég var ráðinn til að sjá um míturlokuplastik aðgerðir með aðgerðarþjarka, nokkuð sem Columbia var ekki með á þeim tíma, auk þess að sinna einnig kennslu og rannsóknarvinnu. Þrátt fyrir ólgu í stjórnmálum er enn gott að vinna sem hjartaskurðlæknir í Bandaríkjunum. Vinnuálag núna er ekki mikið meira en á Íslandi. Ég er með enga vaktaábyrgð, 6-8 vikur í frí og mjög góð laun. Því gefst tími til að sinna fjölskyldulífi og áhugamálum. Mér finnst eftir sem áður alltaf mjög gaman í vinnunni og er alltaf jafn spenntur fyrir hverja einustu hjartaskurðaðgerð. Ég er mjög sáttur með mitt val á sérgrein og tel það forréttindi að fá að vinna við eitthvað sem er gefandi og skemmtilegt.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica