Tölublað septembermánaðar

Umræða og fréttir

Liprir pennar. Hin hliðin á lækninum. Egill Rafn Sigurgeirsson

Æska og nám

Ég er fæddur og uppalinn í Ólafsvík, í fimm systkina hópi. Fyrir utan glugga herbergis míns var afi minn með fjárhús. Heima var iðandi líf – pabbi var auk annara starfa bílstjóri sjúkrabílsins. Afleysingarlæknar bjuggu stundum á efri hæðinni og sátu með okkur í kaffi – þar kviknaði löngunin til að verða læknir.

Eftir stúdentspróf frá Menntaskólanum að Laugarvatni 1979 starfaði ég eitt ár í stálverksmiðju í Mo í Rana í Noregi. Svo hóf ég nám í læknisfræði við Háskóla Íslands 1980 ásamt rúmlega 170 öðrum – á fyrstu jólaprófunum féll ég, ásamt helmingi bekkjarins, en með eljusemi og öðrum áhugamálum (djassballett, júdó og lyftingar!) útskrifaðist ég 1987. Eftir sumarafleysingarstörf í Ólafsvík lá leiðin til Svíþjóðar, þar sem stefnan var á heimilislækningar sem ég lauk ´93.

 

 

Fjölskylda og sænska sveitin

Við fjölskyldan, eiginkonan Svava Jónsdóttir og dóttirin Silja Björk, fluttum til Arvika og sumarið eftir keyptum við okkur sveitabæ, Nolhaget í Brunskog í Värmland. Lydía Dögg fæddist skömmu eftir að við fluttum inn. Þar ræktuðum við grænmeti, vorum með tvö gróðurhús, handmjólkuðum tvær beljur (fjällkor), ólum sumargrísi, héldum hænur, gæsir, kalkúna og tvo hesta (fjording og shetland pony).

 

 

Býflugurnar

Stærsta ástríðan kviknaði þegar ég starfaði með lyflækni sem hafði fengið 80 kíló af hunangi úr einu býflugnabúi. Ég las kver um býrækt og varð heillaður. Daginn eftir innflutning keypti ég mitt fyrsta bú – og hef verið ástríðubýræktandi allar götur síðan. Á hápunkti var ég með 13 bú, hóf drottningarækt og fékk eitt sumarið 500 kíló af hunangi. Við slógum hey með hesti og ræktuðum allar tegundir kornmetis og hunangsurt fyrir býflugurnar. Sonur okkar Atli Örn bættist í hópinn árið 1990 og lífið var fullt af lífi – og dýrahaldi.

Á árunum 1993-1998 bætti ég við mig námi í dáleiðslu, nálastungum, stoðkerfisfræði og fyrsta stigi sálgreinimeðferðar.

 

 

Heim aftur og ævintýri

Aldrei hélt ég að ég myndi flytja aftur heim úr þessari paradís – en árið 1998 ákváðum við að snúa aftur til Íslands því ræturnar kölluðu. Flutningurinn reyndi á fjölskylduna og ákváðum við að fara í smá ævintýraferð. Um sumarið ´99 leigðum við fjörutíu og tveggja feta skútu í Karíbahafi. Þó að aldrei hefði nokkurt okkar stigið á seglbát áður, sigldum við í fjóra mánuði um Jómfrúareyjar, eftir hafa fengið aðeins 10 tíma kennslu.

Heimkominn hóf ég störf á Slysó í tæpt ár og síðan lá leiðin á heilsugæsluna á Selfossi þar sem ég starfaði til 2016. Frá því hef ég unnið á heilsugæslu Árbæjar.

 

 

Ísland og býrækt og ný áhugamál

Að sjálfsögðu tók ég með mér nokkur býflugnabú þegar við fluttum heim. Eftir námskeið sem ég hélt í býrækt árið 2000, stofnuðum við nokkrir áhugamenn og konur Býflugnaræktendafélag Íslands (Bý). Ég hef nú kennt ríflega 220 manns býrækt á undanförnum árum, þar af nokkrum kollegum. Nú eru um 115 virkir býræktendur á landinu og síðastliðið haust vetruðum við 380. Heildarhunangsuppskera á þessum árum á Íslandi er nú komin yfir 14 tonn. Fjölskyldan festi kaup á gömlu húsi við Elliðavatn árið 1999 og endurbyggðum upp frá grunni. Þar byggðum við hesthús, stunduðum hestamennsku og reiðkeppnir en ég hef nú neyðst til að hætta hestamennsku sökum slitgigtar. En ræktun heldur áfram – matjurtagarður, gróðurhús, landnámshænur (vottaður ræktandi), smíðar, er víst með blæti fyrir DeWALT-verkfærum og á lítinn traktor með bakkói.

 

Ég hlakka til elliáranna (þau eru í raun komin) – með mold undir nöglum, hunang á fingrum, ærslafull barnabörn (átta að tölu) og bros á vör.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica