Tölublað septembermánaðar

Umræða og fréttir

Öldungadeildin. Læknaróman Art Nouveau. Lára Halla Maack

Á nýliðnum Læknadögum í janúar 2025 voru lögð drög að styrktarsjóði til sérnáms í Norður-Ameríku. Þá rifjaðist upp að Ófeigur J. Ófeigsson, læknir, hafði farið til sérnáms í Kanada 1933 og þaðan til Mayo 1935 með eiginkonu sinni, Margréti Guðmundsdóttur. Ég hafði þá nýlokið við að lesa bréfahaug Möggu, frænku minnar, til ömmu minnar, Láru systur sinnar, frá Húsmæðarskólanum á Ísafirði, Kleppjárnsreykjum, Winnipeg og Rochester á árunum 1932-1938.

Margrét Guðmundsdóttir, árið 1942

Margrét, fædd 1904, var alin upp í Reykjavík við mikla fátækt. Langafi minn var verkamaður og drykkju- og tóbaksmaður, hann eignaðist sex börn með eineggja tvíburum, konum, sem voru líkari en tveir vatnsdropar alla ævi. Magga vann ýmis verkakvennastörf frá unga aldri og var forkur. Lærði síðar tannsmíði á stríðsárunum í Edinborg og stýrði meðal annars Félagi tannsmiða. Hún giftist aldrei aftur eftir skilnað þeirra Ófeigs 1940. Hún elskaði Ófa sinn til æviloka og lagði til hans fögur orð við öll tækifæri. Hún lést barnlaus 1982.

Ófeigur J. Ófeigsson, árið 1955.

Ófeigur J. Ófeigsson, f. 1904, varð stúdent frá MR 1927 og útskrifaðist úr læknadeild 1933. Hann var þrígiftur og fyrsta konan hans var Magga frænka. Þau Magga og Ófeigur trúlofuðust 1926, þegar hann var enn í menntaskóla, bæði 22ja ára, og giftust 1932. Ófeigur hafði hlotið „kanadíska styrkinn“ til sérnáms í Winnipeg, Kanada, og í framhaldinu lærði hann í Rochester, MN, við Mayo. Kanadíski styrkurinn var úr sjóði, sem kanadíska ríkisstjórnin stóð fyrir að áeggjan þjóðræknifélagsins þar, gjöf til Íslendinga í tilefni alþingishátíðar 1930 og ætlaður til námsferða Íslendinga. Magga fékk aldrei atvinnuleyfi vestanhafs. Fátæktarbasl var á þeim allan tímann, enda ekki líklegt að spítalalaun með styrk hafi gert ráð fyrir maka, hvað þá fjölskyldu. Ófeigur var heilsulaus, hann var með þrálátan húðsjúkdóm og lá vikum saman nokkrum sinnum á Winnipegspítalanum og síðar á Mayo, spítölum, þar sem hann vann. Þessi sjúkdómur kom í veg fyrir að Ófeigur svæfi á vöktum og heima hjá sér. Amma, sendi þeim oft próvíant, bæði kjólaefni og snið, bækur, tímarit, kökur og brauð. Magga var lasburða vestanhafs, en hún var alla tíð mikil selskapsdama, félagsmálaskúmur og eignaðist marga vini. Úr bréfum Möggu skín þó skærast ástúð hennar, hlýja og umhyggja fyrir Ófeigi. Ófeigur skrifaði einnig bréf til ömmu og afa á þessum árum. Þau bréf eru tilfinningarík, og sýna áhugasaman og ástfanginn mann. Hann hafði áhuga á bátum og bátasmíðum og sendi afa, skipasmiðnum, skipateikningar. Slit kemur í hjónaband þeirra Möggu og Ófeigs eftir Mayo. Þau fóru samt bæði til Edinborgar í framhaldsnám 1940, hún í tannsmíðum og hann í lyflækningum.

Þau Guðmundarsystkin, þjáðust af tannskemmdum og ekki fengu þau gervitennur í fermingargjöf. Má ætla af bréfunum að lasleiki og þjáningar Möggu hafi verið rekjanlegar til tannskemmda. En almannatryggingar á þessum árum áttu einmitt meðal annars að stuðla að betri tannheilsu barna og fullorðinna.


Hér fylgir mynd af næturljósi, sem Magga frænka gaf mér 1980, það var gjöf frá gömlum hjónum í Kanada. Ekki var ég fyrr búin að mynda það og setja á fb-síðu styrktarfélagsins, en tölvupóstur barst mér frá uppboðsfyrirtækjum í Evrópu sem buðu mér milljónir fyrir litla Möggulampann, sögðu hann vera frá 1910. Þær milljónir hefðu komið sér vel fyrir Ófa og Möggu. En svona vakir Guð, Google og fb yfir mér og læknafélaginu alla daga. Lampinn er ekki til sölu.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica