Tölublað septembermánaðar

Umræða og fréttir

Bókin mín. Hnífur eftir Salman Rushdie. Vilhelmína Haraldsdóttir

Við Ásgerður Sverrisdóttir krabbameins-læknir deildum skrifstofu í 10 ár á Land-spítala. Hún spurði mig í byrjun júní sl hvort hún mætti benda á mig sem næsta höfund bókarpistils í Læknablaðinu. Auðvitað sagði ég já. Ég ákvað að velja Hnífinn eftir Salman Rushdie. Ásgerður Sverrisdóttir lést þann 13. júlí 2025 og hennar er sárt saknað.

Ég var fimm ára þegar ég lærði að lesa og las fyrst bókina um Dísu ljósálf. Ég las mikið sem barn en þegar ég fór í MR og svo læknisfræðina varð eitthvað undan að láta.

Við fjölskyldan fluttum til Hollands og vorum þar í sex ár frá 1987-1993. Þar lagði ég stund á lyflækningar og blóðsjúkdóma. Á því tímabili las ég nær eingöngu fræðin. Nú þegar ég er komin á eftirlaun hef ég góðan tíma til að lesa. Ég er félagi í mjög skemmtilegum bókaklúbbi þar sem við hittumst sjö konur og ræðum bækur sem við höfum sammælst um að lesa.

Í Hollandi heyrði ég fyrst af Salman Rushdie. Bók hans Söngvar Satans kom þar út árið 1988 og vakti strax mjög mikla athygli í fjölmiðlum. Nokkrir af félögum mínum í sérnáminu reyndu að lesa bókina en voru sammála um að hún væri mikið torf og ég minnist þess ekki að þeir hafi klárað bókina. Ég ætla að játa strax að það hef ég heldur ekki gert en ég hef gluggað í hana.

Árið 1989 var Salman Rushdie bannfærður af leiðtoga Múhameðstrúarmanna, Ayatollah Khomeini. Hann fékk fjölmargar líflátshótanir og var lengi í felum. Hann hélt þó alltaf áfram að skrifa. Fram kemur á bókarkápunni að hann hefur skrifað fimmtán skáldsögur og þar af eru fimm sem hafa ýmist verið tilnefndar eða fengið Booker-verðlaunin. Verk hans hafa verið þýdd á meira en fjörutíu tungumál.

U11-fig-1Bókin Hnífur byrjar þann 12. ágúst 2022 og Salman Rushdie er ekki lengur í felum. Honum hefur verið boðið að halda fyrirlestur á málþingi í Pittsburgh í Pennsylvaníu.

Fyrirlesturinn er rétt byrjaður þegar svartklæddur, grímuklæddur maður ryðst upp á sviðið og stingur Salman Rushdie með beittum hníf í hálsinn, augað, handlegginn og brjóstkassann. Hann særist lífshættulega og það verður að teljast einstakt að hann skuli hafa lifað af. Það varð honum til happs að það er bæði bráðaliði og læknir á staðnum sem gátu veitt honum fyrstu hjálp. Þyrla kom og flutti hann á næsta bráðasjúkrahús. Þar fór hann í átta klukkustunda skurðaðgerð á mörgum líffærum til að bjarga lífi hans.

Bókin Hnífur gerist að mestu á sjúkrahúsinu. Sjúkrahúslegan var mjög erfið bæði andlega og líkamlega og það eru mikil viðbrigði fyrir hann að vera algjörlega hjálparþurfi og hann lýsir þeirri tilfinningu vel. Hann þarf bókstaflega hjálp við allt. Það er gagnlegt fyrir okkur lækna að setja sig inn í hvernig sú til-finning er.

Á sjúkrahúsinu fær hann líka ráðrúm til að fara yfir líf sitt. Hann hugsar til baka um fjölskyldu sína og einnig mikið um ástina. Salman er fráskilinn en hann er nýlega tekin saman við Elizu og samband þeirra virðist styrkjast mikið í framhaldi af þessum atburði. Börn hans koma til hans og styðja hann í þessum erfiðleikum.

Það er magnað að Salman Rushdie skuli hafa getað skrifað þessa bók. Bókin er mjög margþætt. Hún er að einhverju leyti ævisaga hans en hún er líka hugleiðing um dauðann, ritlistina og hamingjuna.

Það var ábyggilega hluti af bataferli hans að rifja upp þessa óhugnanlegu árás og bókin hefur hjálpað honum til að ná sér andlega eftir atburðinn. Fram kemur í upphafi bókarinnar að hún sé tileinkuð þeim körlum og konum sem björguðu lífi hans.

Þess má geta að Salman Rushdie hlaut alþjóðlegu bókmenntaverðlaunin sem eru kennd við Halldór Laxness í september 2024.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica