Tölublað septembermánaðar
Umræða og fréttir
Framtíðarlæknar Íslands – læknanemarnir – mannauður og laun
Læknanemar fylla fjölda afleysingastaða í heilbrigðiskerfinu. Viðtal við Hjalta Dag Hjaltason formann Félags læknanema í Háskóla Íslands um reynslu sumarsins
Hvernig er launaviðmiði launa læknanema háttað?
Laun læknanema í sumarstarfi/hlutastarfi hjá ríkinu hafa tekið mið af lægsta launaflokki lækna, áður „kandídat”, launaflokkur 100, segir Hjalti Dagur. Þá voru launahlutföll 3., 4. og 5. árs læknanema 75%, 85% og 95%. Eftir reglugerðarbreytingu árið 2021 var hætt að nota þennan launaflokk og miðað við laun almennra lækna, launaflokk 200. Árið 2023 lækkaði Kjara- og mannauðssýsla ríkisins (KMR) viðmiðið í 70%, 80% og 90% og í kjölfar síðustu kjarasamninga Læknafélags Íslands (LÍ) 2024 var viðmiðið aftur lækkað, nú í 70%, 75% og 80%. Í bæði skiptin tekur KMR einhliða ákvörðun um laun læknanema, nú til að tryggja 3,5% launahækkun í takt við almennar launahækkanir síðasta árs. Sú hækkun var þó ekki tryggð 5. árs læknanemum fyrr en LÍ hafði mótmælt seinni lækkuninni við KMR. LÍ sýndi fram á að lækkun í 80% tryggði 5. árs læknanemum ekki 3,5% launahækkun. Þá var það leiðrétt í 84%. KMR var ófáanlegt til að fallast á með LÍ að eðlilegt væri að læknanemar í afleysingastöðum á heilbrigðisstofnunum nytu annarra hækkana sem yngri læknar hafa fengið. KMR hefur þannig á örfáum árum í tvígang lækkað viðmiðið og dregið úr hækkunum launa læknanema. Eðlilega er óánægja meðal læknanema með það.
Afskipti LÍ, stéttarfélög, laun og réttindi
KMR benti á að LÍ væri ekki með samningsumboð fyrir læknanema, sem læknanemar vitaskuld voru ekki sáttir með, segir Hjalti Dagur. Launaákvörðunin var tekin án samráðs, þrátt fyrir að ábyrgð, starfslýsing og vinnuframlag nemenda hafi ekki breyst milli ára. Margir litu á þetta sem vanmat á vinnuframlagi sínu. Grundvallar vanmat virðist vera á mati vinnuframlags og starfskröftum læknanema sem auðvitað veldur vonbrigðum og jafnvel reiði meðal nemenda. Hjalti Dagur segir LÍ hafa beitt sér af krafti fyrir þeirra hagsmunum í góðu samráði við stjórn Félags læknanema (FL) og afskipti LÍ skiptu máli.
Læknanemar eru aukaaðilar í LÍ, segir Hjalti Dagur, en eru utan stéttarfélags. Önnur stéttarfélög eiga ekki kjarasamninga sem kveða á um læknisstörf. Hefðin er því að unnið sé eftir samningum LÍ. Því hefur LÍ tekið að sér að vera málsvari okkar í þessum ágreiningi, sem við erum þakklát fyrir.
Stemningin meðal læknanema
Margir hugsa hver skilaboðin séu, segir Hjalti Dagur. Eru læknanemar ekki nægilega mikilvægir til að eiga rétt á sanngjörnum kjörum, hvers konar viðmót bíður þeirra þá eftir útskrift? Því miður getur þetta haft ófyrirsjáanlegar af-leiðingar fyrir nýliðun lækna í heilbrigðiskerfi Íslands til framtíðar. Stemningin einkennist af vonbrigðum og áhyggjum, segir Hjalti Dagur. Mikill vilji er af hálfu læknanema að leysa málið í samvinnu við viðeigandi stofnanir en stofnunum ríkisins er óheimilt að semja við þá um annað en það sem KMR hefur einhliða ákveðið. Sumir læknanemar geta hugsað sér sumarvinnu hjá öðrum en ríkinu ef kjör og skilyrði haldast óbreytt. Það getur verið hagstæðara. Hrafnista greiðir 3. árs læknanemum til dæmis hærri grunnlaun en 4. árs læknanemar fá í grunnlaun hjá ríkinu og bónus í sumarlok. Við stefnum á áframhaldandi samtal við stjórn LÍ og vonumst auðvitað eftir að finna lausn sem tryggir sanngjarnari kjör læknanema.
Ábyrgð læknanema á 4. og 5. ári í starfi
Þessir hópar hafa ávallt sérfræðilækni á bak við sig sem ber höfuðábyrgð á meðferð sjúklings, segir Hjalti Dagur. Sjúklinga álag er breytilegt eftir deildum og stöðum. Á sumum deildum hafa læknanemar sambærilega ábyrgð og nýútskrifaðir læknar og í sumum tilvikum hafa þeir fleiri sjúklinga á sinni ábyrgð. Annars staðar eru þeir með færri sjálfstæð verkefni. En mikilvægt er að viðurkenna að læknanemar taka oft á sig ábyrgð, sérstaklega í vaktastörfum og á deildum þar sem þeir geta verið einir á vakt. Slíkt á að meta þegar kjör eru ákvörðuð.
Sjúkrastofnanir og mannauður
Flestar sjúkrastofnanir sjá mikilvægi þess að viðhalda góðum samskiptum og forðast árekstra, enda veltur rekstur þeirra á traustu og samstilltu vinnuafli. Rót vandans liggur að stórum hluta í miðstýrðum ákvörðunum sem ekki taka nægilegt tillit til þeirra sem starfa á vettvangi. Hjalti Dagur segir betra samráð milli stofnana, ráðuneytis og faghópa þurfa til að tryggja að mannauðurinn sjái sér hag í að starfa hér til frambúðar. Málið snúist ekki aðeins um prósentu og krónur heldur um traust og virðingu fyrir þeim sem halda þjónustunni gangandi. Til að tryggja nýliðun og góða heilbrigðisþjónustu til framtíðar verður að meta mannauðinn sem við höfum og byggja ákvarðanir á sanngjörnum og gagnsæjum forsendum. Við förum fram á að kjör læknanema fylgi launaþróun þeirra samninga sem störf okkar byggja á. Það er einfaldlega réttlætismál.