Tölublað septembermánaðar

Umræða og fréttir

Doktorsvörn við Háskóla Íslands. Inga Lára Ingvarsdóttir

Inga Lára Ingvarsdóttir varði doktors-ritgerð sína í læknavísindum við læknadeild Háskóla Íslands þann 27. júní síðast-liðinn. Andmælendur voru dr. Jan van der Linden, prófessor við Karolinska sjúkrahúsið í Svíþjóð, og dr. Julie Vishram-Nielsen, prófessor við Zealand University Hospital í Danmörku.

Umsjónarkennari og leiðbeinandi var Tómas Guðbjartsson prófessor, en meðleiðbeinandi var Göran Dellgren, prófessor við Sahlgrenska sjúkrahúsið í Gautaborg, Svíþjóð.

Doktorsritgerðin ber heitið Hjarta- og lungnadælur: Ábendingar og snemm- og síðbúinn árangur. Markmiðið var annars vegar að kanna ábendingar og árangur dælumeðferðar hér á landi, þar með talið langtímaárangur. Einnig að kanna eins árs árangur meðferðar með hjartadælu vegna hjartalosts á stærra háskólasjúkrahúsi í Svíþjóð, þar sem einnig voru kannaðar orsakir og alvarleiki hjartalostsins. Helstu niðurstöður benda til þess að hægt sé að veita meðferð með hjarta- og lungnadælu með ásættanlegum árangri á lítilli og einangraðri einingu, eins og á Landspítala. Þá var eins árs lifun sjúklinga sem fengu hjartadælu vegna hjartalosts á Sahlgrenska sjúkrahúsinu ásættanleg, og var árangur bestur fyrir sjúklinga með hjartabilun án blóðþurrðarsjúkdóms. Verri horfur þeirra sjúklinga sem fá hjartadælu í hjartastoppi gefa til kynna mikilvægi réttrar tímasetningar meðferðarinnar, sem og rétts sjúklingavals.

Inga Lára lauk kandidatsprófi í læknisfræði árið 2010. Hún lauk sérnámi í svæfinga- og gjörgæslulækningum frá Sahlgrenska háskólasjúkrahúsinu í Gautaborg árið 2020. Frá árinu 2022 hefur Inga Lára starfað sem svæfinga- og gjörgæslulæknir á Landspítala. Hún stundaði doktorsnám samhliða sérnámi og klínískum störfum frá árinu 2019.

Hvað segir nýdoktorinn?

Afhverju vildir þú verða læknir?

Það getur verið erfitt fyrir konu á fimmtugsaldri að hugsa til baka og setja sig inn í hugarheim hins tvítuga sjálfs. En ég hugsa að ég hafi lengi sótt í áskoranir í leik og starfi. Mér þótti það áhugaverð áskorun að læra fyrir inntökupróf og fara í þetta krefjandi nám sem læknisfræði er. Og að því loknu tæki við fjölbreytt og skemmtilegt starf. Stór áhrifavaldur var líka að hefja þessa vegferð með góðum vinum sem ég á að enn þann dag í dag.

 

Hversu erfitt er að verða doktor á skalanum 1-10?

Ég held að ég hafi notað allan skalann, 1-10, á þessum árum sem liðu frá skráningu og fram að deginum eftir vörn. Það voru tarnir í þessu eins og öðru háskólanámi. Mikil áskorun fólst í því að takast á við eigin flótta og frestunaráráttu, sérstaklega þegar ekki var hægt að fá langan samfelldan tíma til vinnunnar heldur þurfti að nýta klukkustundir eða daga hér og þar. En mér tókst að koma sjálfri mér á óvart og sigla þessu í höfn, með dyggri aðstoð og góðri hvatningu. Kannski var ég mest hissa á því sjálf.

 

Hvert yrði þitt fyrsta verk sem heilbrigðisráðherra?

Segja af mér. Djók. En ég er sem betur fer ekki heilbrigðisráðherra og mun aldrei verða. Ég treysti núverandi heilbrigðisráðherra vel til verka og óska henni velfarnaðar í starfi. Sjálf á ég nóg með að einbeita mér að nærumhverfinu í vinnunni og taka þátt í þeim góða vinnuanda sem er á svæfinga- og gjörgæsludeildunum. Ég reyni að minna mig á að hætta að röfla yfir því sem sem skiptir litlu máli eða ég fæ engu breytt um, þó ég detti nú oft í þá holu samt. En þá er bara að reyna aftur.

 

Hvað er skemmtilegast að gera þegar þú ert ekki í vinnunni?

Það er svo margt. Hreyfing, aðallega göngur og hlaup. Í doktorsnáminu var það reyndar oft á gráu svæði hvort hreyfingin væri flótti eða heilbrigði. Það er best að vera úti í náttúrunni með fjölskyldu og vinum. Kenna börnunum að kúka í holu og spila Kana. Ég á þrjú ofsalega vel heppnuð börn, frábæran maka, krefjandi hund og vinskap sem ég hef því miður ekki haft nægan tíma til að rækta, en allt þetta er það besta.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica