Tölublað septembermánaðar
Umræða og fréttir
Dagur í lífi. Sumardagur í Lundi. Kristján Orri Víðisson
06:15 Vakinn af litlu stelpunum mínum tveimur, sem eru tveggja og fimm ára. Ég skelli mér í sturtu og stelpurnar kúra aðeins áfram hjá mömmu sinni. Hún byrjar að vinna seinna en ég og því fellur það yfirleitt á hana að græja þær á morgnana og labba með þær á leikskólann.
07:00 Hjóla af stað í vinnuna í 19 gráðum. Mikil lífsgæði að hjóla í vinnuna í stuttbuxum og bol. Er sirka korter á leið á spítalann, þar sem ég er í sérnámi í svæfinga- og gjörgæslulækningum.
07:30 Morgunfundur og fyrsti kaffibolli dagsins. Farið yfir mál næturvaktarinnar, lítið um uppákomur. Beint í rapport á gjörgæslunni, tveir nýir sjúklingar þar. Verkefnum dagsins úthlutað og fellur í mínar hendur að ganga á annan af nýju sjúklingunum og sjá um CVK ísetningar, tek þessum verkefnum fagnandi eftir að hafa verið með rólegan dag á vöknun deginum áður.
08:15 Les mér til um og skoða nýja sjúklinginn. Öndunarbilun sem krefst öndunarvélameðferðar en er á batavegi.
08:40 Stofugangur með hjúkrunarfræðingi, leggjum upp plan fyrir daginn, lungnamynd með hvítt lunga öðru megin, plönum berkjuspeglun í dag og freistum þess að extúbera seinni partinn.
09:30 Komnar þrjár beiðnir um CVK. Byrjum á fyrstu tveimur, annar er hefðbundinn og hinn skilunarleggur, versnun á krónískri nýrnabilun sem þarf nú semí-akút skilun.
11:30 Röntgenfundur og svo farið saman yfir sjúklinga gjörgæslunnar ásamt þeim læknum sem eru við vinnu á gjörgæslunni í dag. Alltaf lærdómsríkt að heyra hvað reyndari kollegar segja um tilfellin á deildinni.
12:15 Berkjuspegla sjúklinginn sem lagt var upp með í morgun, mikið seigt slím fjarlægt úr öðru lunganu og sent í ræktun. Þó ekki jafn mikill klínískur bati og við hefðum viljað, verður að bíða að minnsta kosti til morguns með að losna úr öndunarvélinni.
13:00 Flýti mér að ná að borða, áður en síðasti einstaklingurinn sem þarfnast CVK mætir.
14:00 Sest niður og skrifa nótur, sendi beiðnir og sinni þessari klassísku admínastratífu vinnu sem allir læknar elska.
15:30 Næturvaktin mætt á svæðið. Fæ að rapporta fyrstur því ég er á hraðferð heim. Skipti um föt og hjóla síðan beint á leikskólann sem er nánast við hliðina á húsinu okkar. Alltaf jafn gaman að mæta þangað og fá bestu knúsin.
17:00 Mætt heim til vinafólks sem býr líka í Lundi. Erum nokkrar íslenskar fjölskyldur sem fluttum hingað á svipuðum tíma og hittumst mikið. Grillum pylsur saman, það verður oftast fyrir valinu þægindanna vegna. Börnin eru mörg svo við fullorðna fólkið náum mismikið að spjalla en náum nokkuð góðu spjalli í þetta skiptið. Frábært veður, allir léttklæddir og krakkarnir hoppa á trampólíninu. Er þetta sænski draumurinn?
19:30 Leggjum af stað heim, stelpurnar alveg búnar á því og skapið eftir því. Planið að fara beint að svæfa, forréttindi að fá að svæfa heima og í vinnunni.
20:00 Les bók um Emil og súpuskálina fyrir litlu á meðan konan mín les Börnin í Ólátagarði fyrir stóru. Fórum í Astrid Lindgren garðinn í Vimmerby fyrr í sumar og stelpurnar (og reyndar við öll) voru gjörsamlega heillaðar og verða bækurnar hennar Astrid Lindgren því yfirleitt fyrir valinu á kvöldin.
20:30 Dálítið þreyttur en næ að peppa sjálfan mig í að reima á mig hlaupaskóna. Smitaðist af hlaupabakteríunni fyrir nokkrum árum. Fylgi prógrammi og í dag er interval á boðstólnum, gott vont.
22:00 Heyrum aðeins í fjölskyldunni á Facetime.
22:30 Hin eilífa barátta byrjar um hvort maður eigi að vera skynsamur og drífa sig í háttinn eða horfa aðeins á sjónvarpið. Við konan mín erum ekki þau bestu í að fara snemma að sofa, sammælumst um smá sjónvarp í þetta skiptið en lofum okkur sjálfum að fara snemma að sofa á morgun!