Tölublað septembermánaðar

Umræða og fréttir

Breytingar í ritstjórn Læknablaðsins

Síðastliðið vor viku þau Halla Viðarsdóttir skurðlæknir og Oddur Ingimarsson geðlæknir úr sætum sínu í ritstjórn Læknablaðsins og er þeim þakkað gott og skemmtilegt samstarf og óskað heilla í þeim verkefnum sem í framtíðinni bíða. Í stað þeirra hafa dr. Örvar Arnarson skurðlæknir og dr. Hallgerður Lind Kristjánsdóttir blóðmeinalæknir þegið sæti í ritstjórn Læknablaðsins.

Örvar lauk læknanámi í Danmörku og tók kandídatsárið á bæklunardeild Hilleröd-sjúkrahússins í Danmörku, auk níu mánaða á Íslandi og starfaði á skurðdeild Landspítala fram til ársins 2010 er hann fluttist til Svíþjóðar og lauk sérnámi í skurðlækningum við Háskólasjúkrahúsið á Skáni (Skånes Universitets Sjukhus, SUS) 2010-2014.
Að námi loknu vann hann í tvö ár í bráðaskurðdeildarteymið á Háskólasjúkrahúsinu Lundi og sjö ár í kviðslitsteyminu á Háskólasjúkrahúsinu í Malmö. Örvar varði doktorsritgerð sína frá Háskólanum í Lundi 2023. Ritgerðin ber heitið: Emergent colon cancer and postoperative complications – risks and management. Auk félagsaðildar í skurðlækningafélögum í Svíþjóð og á Íslandi, er hann í stjórn Nordisk Kirurgisk Förening (NKF). Örvar starfar sem skurðlæknir við Landspítala.

Hallgerður Lind lauk embættisprófi frá Læknadeild Háskóla Íslands, og eftir kandídatsnám á Landspítala hóf hún sérnám í lyflækningum á Landspítala, sem hún lauk á Sahlgrenska sjúkrahúsinu í Gautaborg ásamt sérfræðinámi í blóðmeinafræði. Hún varði doktorsritgerð sína frá Gautaborgarháskóla árið 2021. Ritgerðin heitir: Blood and Bone – Epidemiological studies on the associaton between blood and bone. Í kjölfar þessa fluttist Hallgerður aftur til Íslands og starfar nú á blóðmeinadeild Landspítala ásamt því að taka þátt í kennslu við læknadeild Háskóla Íslands.

 

Læknablaðið býður Örvar Arnarson og Hallgerði Lind Kristjánsdóttur velkomin í ritstjórn Læknablaðsins.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica