Tölublað septembermánaðar

Umræða og fréttir

„Áskoranir varðandi mönnun fylgja okkur áfram inn í haustið“

Mönnun sumarafleysinga á sjúkrahúsum landsins er jafnan mikil áskorun því álagið er gríðarlegt fyrir. Fjölgun ferðamanna yfir sumartímann hefur einnig áhrif, sérstaklega á sjúkrahúsum sem sinna stóru landsvæði. Sjúkrahúsið á Akureyri er, eins og Landspítali, háskólasjúkrahús, en töluvert minna og deildir vinna mjög náið saman. Læknablaðið ræddi við Kristjönu Kristjánsdóttur, deildarstjóra mannauðsdeildar á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

 

„Áskorunin að manna afleysingar hér á Akureyri krefst mikils undirbúnings og samvinnu, sérstaklega þegar fjölgun ferðamanna, komur skemmtiferðaskipa og sumarfrí starfsfólks hafa áhrif á skipulagið,“ segir Kristjana. Stytting vinnuvikunnar, sem þar að auki tók gildi fyrir sumarið, hafi einnig skapað ákveðið mönnunargat sem komið hafi ofan á það sem fyrir var. „Þetta hefur áhrif á veitingu orlofs og möguleikann á að veita fullt orlof og er því uppsafnað frí meira en áður.“

Hún segir að sumarið hafi þó í heildina gengið vel. „Við erum heppin og ákaflega stolt af okkar öfluga starfsfólki. Það er vakið og sofið yfir sínum starfsskyldum. Það býr yfir sterkri, faglegri færni og með seiglu og samheldni gekk mönnun sumarsins upp.“ Stór hópur afleysingalækna, unglæknar, sérfræðingar og læknanemar, hafi komið að starfi sjúkrahússins sem gerði stofnuninni kleift að veita sumarorlof – þó mismikið milli sérgreina. „Áhersla er ætíð lögð á að koma til móts við óskir starfsfólks um sumarfrí og tryggja hvíld án þess að það bitni á starfseminni. Í ár tókst að verða við óskum flestra, ýmist með samfelldu fríi eða með því að dreifa því yfir lengra tímabil. Í einhverjum tilfellum þurfti að óska eftir að starfsfólk stytti fríin sín til að mæta þjónustuþörfinni. Það er full ástæða til að þakka fyrir hversu sveigjanlegt starfsfólk hefur verið í þeim aðstæðum.“

 

 

Einn mikilvægasti þátturinn að skapa gott starfsumhverfi

Kristjana leggur áherslu á að árangur hafi náðst við að efla mönnun að einhverju leyti, sem er gleðilegt, en betur megi ef duga skal og munu áskoranir varðandi mönnun fylgja sjúkrahúsinu áfram inn í haustið. „Mikil áhersla er lögð á að styrkja starfsemi sjúkrahússins. Í því skyni er einn mikilvægasti þátturinn að skapa starfsfólki okkar gott starfsumhverfi og að laða til okkar nýtt starfsfólk. Það er vel þess virði fyrir heilbrigðisstarfsfólk að skoða þann möguleika að koma til starfa hjá okkur, tímabundið eða til lengri tíma. Sjúkrahúsið á Akureyri (SAK) er eftirsóknarverður og framsækinn vinnustaður þar sem ríkir góður starfsandi og góðir möguleikar til kennslu og þróunar. Það er gaman að segja frá því að við erum að hefja nýja kynningarherferð undir yfirskriftinni „Finndu jafnvægið fyrir norðan!“ sem miðar að því að vekja athygli á fjölbreyttum og spennandi atvinnutækifærum lækna á SAK. Í herferðinni er sjónum beint að jafnvægi vinnu og einkalífs, sterkri liðsheild og þeim lífsgæðum sem Akureyri býður upp á – hvort sem litið er til íþrótta, menningar, skólaumhverfis eða samfélags sem býður upp á nálægð við náttúru og fjölbreytt tækifæri til útivistar.“

Að endingu hvetur Kristjana áhugasama til að líta til Akureyrar, finna jafnvægið fyrir norðan og taka þátt í uppbyggingu öflugs sjúkrahúss og vera hluti af framtíðarsýn Sjúkrahússins á Akureyri.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica