0708. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Velkomin í hópinn – það er stórt að geta kallað sig lækni

103 nýútskrifaðir íslenskir læknar frá fjórum löndum

Héðan í frá eruð þið læknar allan sólarhringinn, hvort sem ykkur líkar betur eða verr, og læknaeiðurinn sem þið undirritið í dag mun fylgja ykkur út lífið, sagði Steinunn Þórðardóttir þegar hún glöð í bragði bauð nýútskrifaða lækna velkomna á árlegri kandidatamóttöku Læknafélags Íslands. „Munið að þið eruð núna fyrst að hefja ferðalagið sem læknar sem getur farið á svo ótalmarga vegu.“

Það var hátíðlegt í húsakynnum Læknafélags Íslands á sólbjörtum degi í byrjun júní, þegar Læknafélag Íslands bauð 103 nýútskrifaða lækna velkomna í hóp íslenskra lækna. Mikil gleði og bjartsýni ríkti meðal eldri sem yngri lækna við móttöku nýju læknanna – framtíðar íslenska heilbrigðiskerfisins.

Það voru 60 læknar sem útskrifuðust frá Háskóla Íslands, 35 frá Slóvakíu, fjórir frá Ungverjalandi, þrír frá Danmörku og einn frá Kýpur og ánægjulegt að fá þennan fjölbreytileika inn í íslenskt heilbrigðiskerfi.

Til móttökunnar voru mættir margir merkir læknar úr hópi íslensku læknastéttarinnar til að samgleðjast nýútskrifuðu læknunum og bjóða þau velkomin í hópinn. Aldrei hefur hópur nýútskrifaðra íslenskra lækna verið svo stór.

Forseti læknadeildar Háskóla Íslands, Þórarinn Guðjónsson, kom með „bókina góðu“ sem nýju læknarnir rituðu nafn sitt í og undirrituðu þar með læknaeiðinn – samviskueið forngríska læknisins Hippókratesar – og óskaði þeim til hamingju með þennan mikla áfanga.

Sigurður Guðmundsson smitsjúkdómalæknir, fyrrverandi landlæknir og einn af helstu boðberum góðrar læknis-fræði á Íslandi, flutti tölu fyrir hönd 50 ára útskriftarlækna og hvatti þau til dáða í læknisstarfinu. Hann eins og formaðurinn benti á að læknir vinnur að klínískri vinnu við sjúklinga og kennslu læknanema og annarra heilbrigðisstarfsmanna.

Hilma Hólm hjartalæknir sem til margra ára hefur starfað að vísindavinnu við Íslenska erfðagreiningu, talaði fyrir hönd 25 ára útskriftarlækna og hvatti nýju læknana meðal annars til að stunda vísindavinnu og standa vörð um hana til framtíðar.

María Heimisdóttir nýskipaður landlæknir hélt einnig tölu og hvatti meðal annars til teymisvinnu og Helga Ágústa Sigurjónsdóttir ritstjóri Læknablaðsins minnti á gildi vísindanna til að viðhalda góðu heilbrigðiskerfi og hvatti nýju læknana til að senda blaðinu bæði vísindaefni og áhugaverð sjúkratilfelli þar sem blaðið mun áfram velja út bestu vísindagreinina og besta/áhugaverðasta sjúkratilfellið eins og gert var í fyrsta sinn í tilefni 110 ára árgangsafmælis.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica