0708. tbl. 111. árg. 2025
Umræða og fréttir
Geðdagurinn 2025
Geðdagurinn er árleg ráðstefna geðþjónustu Landspítala og var haldin í fjórða sinn þann 9. maí. Ráðstefnan er öllum opin en flestir þátttakendur voru starfsfólk geðþjónustu Landspítala og annað fagfólk sem starfar að geðheilbrigðismálum.
Erindin fjölluðu um nýsköpun, umbótaverkefni, rannsóknir, meðferðir og framtíðarstefnu í geðheilbrigðisþjónustu. Yfirskrift dagsins í ár var „Frá orðum til athafna. Þróun – nýsköpun – vísindi.“
Dagskráin var fjölbreytt og fjallað var meðal annars um áföll, svefn, fíknivanda, athyglisbrest og ofvirkni (ADHD), og starfsánægju og stuðning við starfsfólk vegna álags í starfi. Áhugi á deginum eykst ár frá ári, sem endurspeglast í því að innsend ágrip voru fleiri en áður. Gestum á ráðstefnuna fjölgar einnig ár frá ári. Í ár voru 250 þátttakendur, sem er nokkur aukning frá fyrri árum. Það var almenn ánægja með erindi dagsins og áhugaverðar umræður í lok erinda. Ágrip frá Geðdeginum er að finna í fylgiriti Læknablaðsins.