05. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Námskeið í ATLS fyrir lækna í framlínunni

Skurðlæknafélag Íslands hefur skrifað undir samning við American College of Surgeons um að fá að halda svokölluð ATLS (Advanced Trauma Life Support) námskeið á Íslandi. Þessi námskeið eru hugsuð fyrir lækna sem standa í framlínunni í móttöku slasaðra, svo sem bráðalækna, skurðlækna og svæfingalækna. Lengi vel þurftu íslenskir læknar að sækja þessi námskeið erlendis, en undanfarin ár hafa þau verið haldin á Íslandi, undir merkjum ATLS í Svíþjóð, að frumkvæði og undir forystu Elfars Úlfarssonar, heila- og taugaskurðlæknis. Hér eftir verða námskeiðin alfarið íslensk, undir merkjum Skurðlæknafélagsins, í samvinnu við Menntadeild Landspítala, sem sér um alla framkvæmd. Fyrsta skrefið var að halda námskeið fyrir þá lækna sem munu koma til með að kenna á þessum námskeiðum, en fyrsta kennaranámskeiðið fór fram 7. og 8. apríl síðastliðinn. Íslenskir sérfræðilæknar, sem starfa í Svíþjóð og Danmörku, komu til landsins til að mennta kollega sína. Í beinu framhaldi af kennara-námskeiðinu, 9.-11. apríl, var svo fyrsta námskeiðið haldið og fengu nýju kennararnir að spreyta sig með stuðningi frá reyndum kennurum. Þátttakendur á þessu fyrsta námskeiði voru sérnámslæknar á Landspítalanum, frá skurðdeildum, bæklun, bráðadeild og svæfingu.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica