05. tbl. 111. árg. 2025

Umræða og fréttir

Bókin mín. Af lifandi og dauðum, kaþólikkum og mótmælanda. Hlynur Grímsson

Fyrir margt löngu bjó ég í Ameríku og lærði bókmenntir. Í skólanum mínum þar úti tók ég nokkra kúrsa í írskum bókmenntum. Með mér í þeim tímum sátu eintómir amerískir Írar og þar af nokkrir sem ég grunaði um (og gruna enn!) að hafa í raun verið landflótta meðlimi Írska lýðveldishersins í felum í the US of A. Þar sveif írsk ættjarðarást alla daga yfir vötnum í bland við littereru ástina.

Einn daginn var sett fyrir að lesa Dracula eftir Bram Stoker fyrir næsta tíma. Ég var nú ekkert mjög impressed: Vampírur? Í alvöru? Mundi eftir all nokkrum mislélegum vampírubíómyndum þar sem ég var yfirleitt sofnaður fyrir hlé. Dró að hefja lesturinn eins lengi og ég gat. Eitt rigningarkvöldið varð ég samt að byrja.

Í stuttu máli hef ég ekki hætt að lesa þessa bók síðan. Dracula hans Brams er stórfengleg krufning á homo sapiens. Abraham (Bram) Stoker fæddist í Dublin á Írlandi árið 1847 og hlaut menntun sína við Trinity College þar í borg.

Dracula kemur fyrst út árið 1897. Til að draga örstutt saman fjallar hún um atburði í kjölfar þess að lögfræðingurinn Jonathan Harker er sendur til Transylvaníu til að hitta nýjan viðskiptavin, hinn sérlundaða og órætt gamla Drakúla greifa vegna fyrirhugaðs flutnings Drakúla sjálfs til Englands. Úr verður lygileg atburðarás yfirskilvitlegra atburða sem endar á að Jonathan Harker og vinir hans undir forystu læknisins Abraham van Helsing ráða niðurlögum greifans illa.

Sagan af Drakúla er táknsaga, eins og augljóst er þegar horft er framhjá atburðarásinni sjálfri og persónum sögunnar. Sagan fjallar um allt það góða og allt það illa sem í manninum býr, hún fjallar um að temja djöfulinn í sjálfum sér þangað til hann lætur gott af sér leiða. Er það ekki tilgangur lífsins, svona í hnotskurn? Aðalpersóna sögunnar er ekki Drakúla eða Jonathan Harker heldur doktor Abraham van Helsing – það er auðvitað ekki tilviljun að Bram skírir höfuðpersónuna eftir sjálfum sér. Doktor van Helsing er ekki bara læknir, hann er do -ktor í læknisfræði, heimspeki, bókmenntum og svo framvegis og svo framvegis; hann er sem sagt Guð almáttugur sem ræður örlögum lifandi og dauðra. Van Helsing er þannig tilvistarlegur alkemisti sem nær að veita látnum ró og hinum líkn sem lifa. Drakúla er saga um allar okkar kenndir og þrár, erótísku vísanirnar í bókinni eru óteljandi en býsna vel faldar þannig að þær eru ekki alveg augljósar við fyrsta lestur. Bókin hefði heldur aldrei fengist útgefin á þessum tíma ef þær kenndir hefðu verið útskýrðar á mannamáli. Höfuðsnillingurinn Francis Ford Coppola gerði reyndar afar vonda bíómynd (1992) úr sögunni þar sem höfuðáherslan er á erótíska partinn, en hins vegar svo illa gert að það verður meira eins og í lélegri B-mynd heldur en alvöru bíó.

Kristilegu táknmyndir verksins eru einnig óteljandi. Van Helsing er Guð, en Harker og vinir hans lærisveinarnir sem fylgja meistaranum í trúarlegri blindni allt þar til yfir lýkur og Drakúla greifi rís ekki að nýju upp af jörðu. Sjö er heilög tala úr Biblíunni og sjö árum eftir að þeim tekst að koma Drakúla fyrir ferðast vinahópurinn saman til Transylvaníu – samanber að réttlátir munu komast til himna, eins og alkunna er.

Írar eru menningarþjóð. Ég huggaði mig við þá staðreynd þarna í bókmenntakúrsunum úti í USA, mótmælendalúðinn innan um alla kaþólikkana. Ég fékk það staðfest þegar einn úr Írska lýðveldishernum hallaði sér að mér í einum tímanum og hvíslaði:

“It´s okay, Lenny. You are our friend”.

Næst skora ég á Gunnlaug Sigfússon barnahjartalækni með meiru.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica