04. tbl. 111. árg. 2025
Umræða og fréttir
Dagur í lífi. Dagur í lífi sérnámslæknis í lyflækningum. Snædís Ólafsdóttir
7:35 Vakna við strákinn minn, sem er að verða tveggja ára. Við förum fram að fá okkur hafragraut og leika. Dönsum við Prumpulagið sem er ein vinsælasta skemmtunin þessa dagana ásamt því að tala um hinar ýmsu vinnuvélar. Ég skelli mér í sturtu áður en ég legg af stað á helgarvakt á Bráðamóttökunni á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Partur af starfinu sem sérnámslæknir í lyflækningum er að taka nokkrar vaktir í mánuði á bráðamóttöku sem ég hef gaman af, enda alltaf nóg að gera og maður veit aldrei hvað bíður.
8:50 Ég hjóla af stað í vinnuna tíu mínútum áður en ég á að vera mætt. Eitt af því besta við að búa á Akureyri eru stuttu vegalengdirnar, og útsýnið skemmir heldur ekki fyrir.
12:45 Sest inn á kaffistofu og fæ mér hádegismat. Er nú þegar búin að hitta sitthvorn einstaklinginn sem kom með sjúkrabíl vegna brjóstverkja. Annar reyndist vera með gallblöðrubólgu en hinn með lungnabólgu. Það minnir mann á að hafa í huga nóg af mismunagreiningum.
13:30 Kíki á eldri sjúkling sem kom vegna hita og slappleika. Ég tek fljótt eftir því að hann er í sýklasóttarlosti. Fæ fleiri hendur til aðstoðar. Hann þarf ríkulega vökvagjöf vegna lágþrýstings og endar á að þurfa að fara á BiPAP ásamt því að fá furix og albúmín. Svæfingalæknir kemur og aðstoðar mig við að setja upp slagæðalegg og við flytjum sjúklinginn upp á gjörgæslu með pressorana tilbúna á kantinum. Ég fer að anda léttar og sný mér að öðrum verkefnum sem eru búin að hrannast upp.
17:05 Kandídatinn sem gekk stofugang á Lyflækingadeildinni gefur mér rapport af þeim sjúklingum sem ég þarf að vita af. Ekkert sem þarf að fylgja eftir í kvöld.
19:30 Nóg að gera á vaktinni, er þakklát samstarfskonu sem sá um að panta pizzu. Sest niður og fæ mér fáeinar sneiðar á meðan sænski sérfræðingurinn segir okkur bransasögur.
20:30 Tek við nokkrum símtölum frá deildinni. Hef tekist á við hin ýmsu vandamál yfir daginn, þar á meðal; ónot eftir orkudrykki, einstakling með meðvitundarskerðingu vegna blóðsykurfalls og annan eftir að kjötbiti stóð í honum. Ég leiðrétti líka hypokalemíu vegna niðurgangs og skoðaði nokkur börn.
Þrátt fyrir óvenju snjóléttan vetur var enginn skortur á skíðasnillingum að sunnan sem tókst að næla sér í beinbrot þessa vaktina (ath. höfundur er Reykvíkingur sem hefur farið í ófáar skíðaferðir í Hlíðarfjall).
21:10 Ég stimpla mig út og hjóla heim. Sest upp í sófa með manninum mínum sem gefur skýrslu um helstu uppákomur þeirra feðga í dag. Ég reyni að vaka lengur eftir að hann fer að sofa í veikri von um að ná að snúa sólarhringnum við fyrir næturvakt á morgun en þegar ég er farin að dotta yfir Gossip Girl gefst ég upp. Ég hef aldrei verið góð í að vaka frameftir.
23:30 Fer í háttinn. Gangi mér vel að vera ekki strax orðin tilbúin að fara að sofa þegar ég mæti á næturvakt á morgun.