01. tbl. 111. árg. 2025
Umræða og fréttir
Úr penna stjórnarmanna LÍ. Ávextir í augnhæð? Ragnar Freyr Ingvarsson
Kæri heilbrigðisráðherra – til hamingju! Í mínum huga er heilbrigðisráðuneytið það mikilvægasta og mest krefjandi. Verkefnin verða viðameiri eftir því sem á líður – okkur fjölgar, þjóðin eldist, meðferðirnar verða dýrari og alvarlegur skortur er á starfsfólki. Heilbrigðiskerfið er eitt af flóknustu viðfangsefnum samtímans.
Það eru engar einfaldar lausnir til að leysa vandann – en sumir ávextir hanga neðar en aðrir.
Meira en 400 sérfræðilæknar starfa erlendis. Það þarf að laða sem flesta sérfræðilækna heim. Það gerum við með því að bjóða upp á aðlaðandi vinnuumhverfi og góð starfskjör. Samningar við sjálfstætt starfandi lækna í fyrra og nýgerður kjarasamningur við Læknafélag Íslands eru mikilvæg skref í þá átt.
Það eru ekki bara sérfræðilæknarnir sem við þurfum að huga að. Í nýútkominni skýrslu – Mannafli í læknisþjónustu til framtíðar – er greint frá því að um tæplega þrjú hundruð manns læra læknisfræði erlendis. Þessir læknar koma heim úr námi með umtalsverð námslán, ekki síst vegna skólagjalda. Það ætti að styðja við flutning lækna heim eftir grunn- og sérnám með skattaívilnunum eða afslætti á námslánum.
Efla ætti sérnám lækna hér á landi. Síðasta áratug hafa stór skref verið stigin í þróun sérnáms á Íslandi. Nú er unnt að ljúka hér heima sérnámi í lyflækningum, heimilis-, öldrunar- og geðlækningum. Þá er hægt að hefja sérnám í öðrum greinum. Auka þarf samvinnu milli Norðurlandanna til að tryggja viðurkenningu á sérnámsgrunni, en breytingar á regluverki erlendis hefur verið þrándur í götu ungra lækna. Það er gríðarlega mikilvægt að leysa þennan hnút því annars er hætta á því að við missum stóran hóp sérnámslækna fyrr út í framhaldsnám en ella. Þá ætti að huga sérstaklega að framhaldsnámi í heimilislækningum með því að fjölga formlegum stöðugildum í sérnáminu til að tryggja viðunandi mönnun til framtíðar.
Færa ætti verkefni til sjálfstætt starfandi lækna. Sjálfstæðar stofur sérfræðilækna eru einn af hornsteinum heilbrigðiskerfisins. Umfang þjónustu þeirra er um þriðjungur af allri heilbrigðisþjónustu í landinu. Þrátt fyrir þessi miklu umsvif er kostnaðurinn einungis um 3,5% af heildarútgjöldum til heilbrigðismála. Á liðnum árum hefur ríkið til dæmis gert samninga um liðskiptaaðgerðir sem hafa stytt biðtíma verulega. Það má auðveldlega stíga fleiri farsæl skref í þá átt.
Skynsamlegt væri að bjóða út starfsemi fleiri heilsugæslustöðva. Nú eru fjórar heilsugæslustöðvar í sjálfstæðum rekstri á höfuðborgarsvæðinu og ein í Reykjanesbæ. Þessar stöðvar hafa endurtekið raðað sér í efstu sæti í þjónustukönnunum sem Sjúkratryggingar Íslands hafa látið gera á liðnum árum. Það eru augljós sóknarfæri til að efla heilsugæsluna að láta læknana sjálfa reka sínar stöðvar. Það er bæði hagkvæmt og gott.
Það þarf að stórefla heimaþjónustu. Fyrir nokkrum árum var unnið tilraunaverkefni af hálfu Landspítala að sinna fjölveikum öldruðum í heimahúsi með það að leiðarljósi að auka lífsgæði þeirra og draga úr innlögnum. Verkefnið bar ávöxt en var því miður lagt niður vegna skorts á fjármagni. Þetta verkefni þarf að endurvekja og stórefla. Það er langtum hagkvæmara að sinna sjúklingum í heimahúsi, ef unnt er, frekar en á sjúkrahúsum eða á hjúkrunarheimilum. Slíkt væri hægt að gera með samningum við fyrirtæki í heimaþjónustu, helst á forræði heilbrigðisstarfsmanna sjálfra. Þá ætti einnig að stíga skref í að færa sjúkrahúsið heim (Hospital at home) sem er þekkt verkefni sem sýnt hefur hagkvæmni víða um heim og hefur þegar sannað sig á Suðurlandi. En auðvitað þarf að halda áfram nauðsynlegri uppbyggingu hjúkrunarrýma eins fljótt og auðið er.
Haustið 2021 kom Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra á aðalfund Læknafélags Íslands og ræddi við lækna um ástandið í heilbrigðiskerfinu. Hann var kjöldreginn af fundarmönnum, slík var óánægjan eftir ráðaleysi undangenginna ára. Ráðherra sneri aftur á aðalfund núna í haust. Að þessu sinni var klappað fyrir honum og verkum hans. Willum gerði það sem ráðherrar áranna á undan höfðu skorast undan að gera. Hann ræddi við lækna, hlustaði á þá og fylgdi ráðum þeirra. Hann má vera stoltur af ráðherratíð sinni.
Verkefnið framundan er risavaxið og fer stækkandi en ávextirnir eru víða. Nýr heilbrigðisráðherra getur treyst á að læknar munu hér eftir sem hingað til, vera tilbúnir til að styðja hann til allra góðra og þarfra verka til að efla og bæta heilbrigðisþjónustu við landsmenn.