01. tbl. 111. árg. 2025
Umræða og fréttir
Þetta er tímamótasamningur segir formaður Læknafélags Íslands
Samningar Læknafélags Íslands og samninga-nefndar ríkisins voru samþykktir af læknum með 86,39% atkvæða í kosningum sem lauk 13. desember. Læknar höfðu boðað til verkfalls sem átti að hefjast 25. nóvember en var seinkað um viku að kvöldi 24. nóvember þegar vísbendingar voru um að hægt yrði að semja. Samningar tókust 28. nóvember og skrifuðu samningsaðilar beggja aðila undir samninginn laust eftir miðnætti þann dag eftir sleitulausa vinnu alla þá viku. Steinunn Þórðardóttir formaður Læknafélags Íslands sem einnig var í samninganefndinni er mjög sátt við niðurstöðuna eins og fram kemur í viðtali við Læknablaðið
Er formaðurinn sáttur?
Já, ég tel okkur hafa náð góðum árangri í því ástandi sem nú ríkir í þjóðfélaginu og náð að mæta væntingum félagsmanna. Við komum mjög vel undirbúin til leiks og höfðum í raun verið í stöðugri samningavinnu frá því að síðasti samningur var undirritaður í fyrra. Við héldum undirbúningsfundi með félagsmönnum og sendum út kjarakönnun sem mjög góð þátttaka var í og teljum okkur hafa náð vel utan um áherslur félagsmanna. Aðaláherslan í kröfugerðinni var á betri vinnutíma, hækkun grunnlauna og betri kjör á gæsluvöktum og við náðum góðum árangri hvað allt þrennt varðar. Kröfugerðin var þó mun lengri og náðist ýmislegt fleira í gegn sem við gleðjumst auðvitað einnig yfir.
Þetta hafa verið nefndir tímamótasamningar – er það helst vegna breytinganna er varða betri vinnutíma?
Betri vinnutími er klárlega stærsti áfanginn í þessum samningi. Læknar hafa í mörg ár búið við það að vera eina heilbrigðisstéttin, fyrir utan lyfjafræðinga, sem ekki er komin með betri vinnutíma og styttingu vinnuvikunnar. Það er mjög jákvætt að hafa náð að festa vinnuviku lækna við 36 klukkustundir, en því fylgir einnig að vinnuveitandi getur að hámarki skipulagt 43,2 klukkustundir af vinnu á starfsmann á viku samkvæmt lögum. Samningnum fylgir umbótastarf og innleiðingarferli þar sem farið verður yfir verkefni lækna og kannað hvort hægt sé að létta á þeim með einhverjum hætti. Að mínu mati munu kröfur lækna um minni sóun á þeirra tíma, samanber herferð heimilislækna gegn vottorða- og tilvísanafarganinu, fá byr undir báða vængi í tengslum við styttingu vinnuvikunnar. Ekki verður lengur í boði að sóa tíma lækna né skipuleggja á þá óhóflegt vinnumagn án þeirra samþykkis.
Eru fleiri atriði sem þú getur nefnt sem gerir samninginn að ákveðnum tímamótasamningi?
Hér mætti ýmislegt nefna, en betri kjör á gæsluvöktum (nú bakvöktum) eru þarna á meðal. Á bakvöktum verður framvegis greitt fyrir símtöl og vinnu að heiman, auk þess að símtöl á nóttunni teljast rof á hvíld. Einnig náðist að skilgreina nýja tegund vaktar, viðbragðsvakt, þar sem læknar sem eru ekki bundnir í hús en þurfa að sinna bráðaviðbragði án tafar, safna frítökurétti á sínum vöktum.
Samningurinn er flókinn og er áætlað að innsetning breytinganna sem honum fylgja taki 4 mánuði – telurðu að það takist og ef ekki hvað gerist þá?
Nú þegar hefur mikil vinna verið unnin við starfsáætlanir lækna á Landspítalanum sem vonandi gagnast fleiri stofnunum í þessari vegferð. Það þarf því ekki að byrja á byrjunarreit, en þetta verður án efa töluvert spretthlaup enda tíminn knappur. Ef erfiðlega gengur að innleiða breytingar, getur það þýtt að það verði einhver yfirvinna til staðar um tíma, en vonir standa til að hægt verði að halda því í lágmarki.
Mun samningurinn gagnast læknum bæði í heilsugæslunni og á sjúkrahúsum?
Já, það er okkar von. Allir hópar lækna hagnast á grunnlaunahækkun og styttingu vinnuvikunnar. Þar fyrir utan er búið að taka heilmikið til í vaktaumhverfi sjúkrahúslækna. Sníða á starfsbundna viðbótarþætti heimilislækna að þeirra starfsumhverfi og eins á að fara í endurskoðun á greiðslum fyrir vottorð og gjaldskrárverk undir verkstjórn ríkissáttasemjara.
Oft eru ákveðnir hópar innan fagfélaga settir á oddinn við samningsgerð á hverjum tíma, er það svo með þennan nýja samning lækna?
Nei, okkar áherslur snerust fyrst og fremst um þessi þrjú stóru atriði sem stóðu upp úr eftir fundi og kjarakannanir meðal lækna, það er styttingu vinnuvikunnar, hækkun grunnlauna og betri vaktakjör.