Ávarp

Ávarp

Vísindi á vordögum
á Landspítala 2012

 

Landspítalinn hefur þá sérstöðu að vera eina háskólasjúkrahús landsins eins og kveðið er á um í Lögum um heilbrigðisþjónustu frá 2007. Þar er háskólahlutverk spítalans skýrt tilgreint, þ.e. að annast starfsnám háskólanema og framhaldsskólanema í heilbrigðisgreinum í grunn- og framhaldsnámi, stunda vísindarannsóknir á heilbrigðissviði, veita háskólamenntuðum starfsmönnum sérmenntun í heilbrigðisgreinum, gera fagfólki kleift að sinna fræðastörfum við Háskóla Íslands eða aðra háskóla og veita háskólafólki aðstöðu til að sinna rannsóknum sem og öðrum störfum við sjúkrahúsið. Þar að auki ber spítalanum að veita heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma samræmist skyldu slíks sjúkrahúss og reka blóðbanka.

Starfsemi spítalans fellur ágætlega að þessum lagaramma. Landspítali er meðal virkustu menntastofnana landsins. Þar fer fram fjölbreytt kennsla og starfsþjálfun nemenda í heilbrigðisvísindum. Á árinu 2011 stunduðu rúmlega 1330 nemendur nám og þjálfun á spítalanum í lengri eða skemmri tíma. Þá stunda starfsmenn Landspítala, sem margir eru jafnframt háskólastarfsmenn, öfluga vísindastarfsemi en afrakstur þess starfs sést vel á uppskeruhátíðinni, sem nú gengur í garð.

Í ólgusjó rekstrar- og hagræðingarkrafna undanfarinna ára var lagt upp með það að vernda kennslu og vísindi. Þannig var hugsað til framtíðar sem og þeirra áhrifa sem virkt rannsóknastarf hefur á gæði gagnreyndrar þjónustu við sjúklinga. Auðvitað líður samt háskólastarfsemin fyrir fækkun starfsmanna og aukið álag.

Eins og sjá má á uppskeruhátíðinni - Vísindi á vordögum - hefur tekist nokkuð að halda í horfinu er varðar birtingu greina, en auknir erfiðleikar í öflun utanaðkomandi styrkja gætu bent til þess að búast megi við því að síðkominna áhrifa fari að gæta. Slík staða er hins vegar fljót að breytast með innkomu fárra en stórra styrkja sem kunna að vera í farvatninu. Gögn frá Thompson Scientific sýna að fjöldi skráðra greina frá Íslandi (allar fræðigreinar) hafi lækkað um 15% á árinu 2011 en hin Norðurlöndin halda áfram að bæta við sig. Þó ber þess að gæta að alltaf eru einhverjar sveiflur milli ára.

Stjórnendur Landspítala hafa undir forystu Björns Zoëga forstjóra staðið að ýmsum framfaramálum á árinu til að vernda og efla kennslu og vísindastarf spítalans.

Þann 1. desember voru veittir í annað skipti Hvatningarstyrkir, þrír styrkir að upphæð 3 m.kr. hver. Þremur vikum seinna voru svo í fyrsta sinn veittir 1 m.kr. styrkir til 10 ungra vísindamanna á Landspítala. Með þessum styrkjum hefur orðið tæplega 40% aukning á styrkjafé til Vísindasjóðs sem úthlutað hefur verið á samkeppnisgrundvelli. Þannig hefur á erfiðum tímum tekist að hlúa að vísindastarfi innan Landspítala í samræmi við markmið spítalans og stefnu Vísindaráðs Landspítalans.

Árið 2011 var fyrsta heila starfsár Klínísks rannsóknaseturs LSH og HÍ. Mikil eftirspurn hefur verið eftir samvinnu og aðstoð starfsfólks setursins og ljóst er að greinileg þörf hefur verið fyrir bætta þjónustu og þátttöku í skipulagningu, samningagerð og framkvæmd lyfjarannsókna.

Þátttaka í European Clinical Research Infrastructure Network (ECRIN) hófst á árinu 2011. Frá EU fékkst 12 m.kr. styrkur til að byggja upp innviði fyrir klínískar rannsóknir við spítalann með það fyrir augum að Ísland geti tekið fullan þátt Evrópusamstarfi sem stefnir að því að gera Evrópu að stærra rannsóknarsvæði. Sams konar samvinna er síðan í undirbúningi á Norðurlöndum (NORDICRIN).

Unnið hefur verið að því að taka í notkun nýjan alþjóðlegan hugbúnað, Redcap, til að auðvelda aðgengi og utanumhald aðgagnagrunnum til vísindarannsókna. 

En fleira jákvætt er samtímis að gerast. Á árinu 2011 náði Háskóli Íslands þeim merka árangri að vera talinn í hópi 300 bestu háskóla heims, en í samanburðarhópnum eru um 17.000 háskólar. Framlag Landspítalans til þess árangurs er umtalsverður.

Í skýrslu Norden/NordForsk fyrir Norrænu ráðherranefndina (Comparing Research at Nordic Universities using Biometric Indicators) sem birtist í maí 2011 kemur fram að spítalinn er efstur norrænna háskólaspítala á tilvitnanastuðli (1.38 m.v. 1.0 sem alþjóðlegt meðaltal). Þar nýtur Landspítali vissulega samstarfsaðila, s.s. HÍ, ÍE og Hjartvernd, en framlag starfmanna spítalans til vísindaafraksturs þessara stofnana er jafnframt umtalsvert.

Árlega nýtur Landspítalinn velvildar fjölda aðila sem láta fé af hendi rakna til starfsemi hans, tækjakaupa og rannsóknastyrkja. Á síðustu misserum hefur verið farið inn á nýjar brautir þar sem Styrktar- og líknarsjóður Oddfellow,hefur styrkt myndarlega starfsfólk í klínískum lyfjarannsóknum á illkynja sjúkdómum og Hjartaheill gefið sérstaka dúkku til þjálfunar og kennslu í endurlífgun. Þótt þessi framlög tilheyri vísindum og kennslu koma þau ekki síður að þjónustu við sjúklinga með því að flýta aðgegni á nýjum lyfjum og þjálfa færni starfsfólks í bráðatilvikum. 

Þá er verið að taka fyrstu skrefin í átt að skipulögðu nýsköpunarstarfi sem byggja mun á frjóu vísinda-, mennta- og gæðastarfi og hagnýtingu þess mannauðs sem spítalinn hefur yfir að ráða, vísindamanna, kennara, nemenda og alls starfsfólks spítalans. Í nóvember auglýsti Tækniþróunarsjóður styrki til nýsköpunarfyrirtækja í samvinnu við opinbera samstarfsaðila á sviði heilbrigðismála, menntunar og orkumála. 21 umsókn barst, þar af 9 á heilbrigðissviði og átti Landspítali aðild að 8 þeirra. Fimm fengu styrk og var Landspítali aðili að þeim öllum.

Á árinu verður „háskólahlutverkið“ eitt af 6 lykilverkefnum spítalans. Það er nauðsynlegt að vel takist til svo Landspítali geti áfram staðið keikur undir nafni sem háskólaspítali.

 

Kristján Erlendsson
læknir
Framkvæmdastjóri vísinda-,
mennta- og nýsköpunarsviðs Landspítala

 
Þetta vefsvæði byggir á Eplica