Vísindi á vordögum 2024 - Árangursvísar í vísindastarfsemi. Leiðari
Magnús Gottfreðsson, forstöðumaður vísindastarfsemi og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands
Á árinu 2023 var engin lognmolla á Landspítala frekar en fyrri ár og verkefnin óþrjótandi. Árið 2023 var næstsíðasta ár núgildandi vísindastefnu spítalans, sem tekur til áranna 2019-2024. Eitt meginmarkmið þeirrar stefnu er að auka framlög til vísindastarfsemi til samræmis við það sem er talið eðlilegt á norrænum háskólasjúkrahúsum. Einnig er lögð áhersla á að vísindastarf sé eflt og samofið daglegri starfsemi, jafnframt því sem unnið sé að bættri aðstöðu til vísindastarfa og þróun öflugra rannsóknarhópa. Í stefnunni segir einnig að framlög til vísindastarfsemi nái að lágmarki 3% af veltu á árinu 2024 og að aukning verði á fjölda greina þar sem fyrsti og/eða síðasti höfundur kemur frá Landspítala. Ástæðan fyrir því að menn voru sammála um að stefna að þessum markmiðum er einföld: Fjárfesting í vísindastarfi og þekkingarsköpun er skynsamleg ráðstöfun fjármuna sem skilar sér í bættum árangri í klínískri þjónustu og auðveldar spítalanum að laða að og halda í hæft starfsfólk. Því miður bendir fátt til að spítalinn muni ná þessum tölulegu markmiðum í bráð, enda hafa framlög til vísindastarfsemi staðið í stað undanfarin ár og tími til að sinna vísindastörfum er áfram mjög af skornum skammti. Einn helsti árangursvísirinn, fjöldi birtinga í ritrýndum erlendum vísindatímaritum, hélt áfram að dragast saman á árinu 2023 og var þar um að ræða áframhald á þróun undanfarinna ára.
Þessi þróun er sérstakt áhyggjuefni, en hún helst í hendur við hvernig klínísk heilbrigðisvísindi við Háskóla Íslands hafa fallið á alþjóðlegum listum sem bera saman gæði háskóla. Fjöldi nema í meistara- eða doktorsnámi sem tengjast spítalanum í námi sínu hefur hins vegar haldist svipaður.
Umsóknum til siðanefndar spítalans fjölgaði á síðasta ári sem er ánægjuleg vísbending um vaxandi rannsóknaáform og áhuga, en umsóknum til vísindasiðanefndar, sem oft endurspeglar stærri verkefni (lyfjarannsóknir og rannsóknir á landsvísu) fækkaði á sama tíma.
Fjárhæðir styrkja má sjá á mynd hér fyrir neðan, sundurgreint eftir því hvort um var að ræða innlenda eða erlenda styrki. Eins og þar kemur fram hafa erlendir styrkir haldið áfram að dragast saman, en innlendir styrkir hækkað og þar munar um aukin framlög til vísindasjóðs spítalans sem er sérstakt ánægjuefni.
Landspítali er háskólasjúkrahús og miðstöð kennslu og rannsókna í klínískum greinum á Íslandi. Ljóst er að styrkja þarf þennan þátt starfseminnar með öllum tiltækum ráðum og koma því þannig fyrir að þetta langtímahlutverk verði ekki ávallt undir í samkeppni við bráðavandamál sem stöðugt knýja dyra. Í heilbrigðisstefnu fyrir Ísland til ársins 2030 sem samþykkt var á Alþingi 2019 kemur fram að stofnaður skuli sérstakur heilbrigðisvísindasjóður í síðasta lagi árið 2024. Gjörvallur þingheimur stóð að baki þeirri ályktun. Tryggja þarf að stofnun slíks sjóðs og fjármögnun hans verði að veruleika. Hér á spítalanum hefur tekist vel til við að byggja upp sérnám í ýmsum klínískum greinum. Hluti af góðu framhaldsnámi og sérfræðiviðurkenningu felur gjarnan í sér kröfuna um reynslu á sviði rannsókna, þótt ekki verði allir klínískir sérfræðingar vísindamenn þegar upp er staðið. Þennan þátt í sérnámi þarf engu að síður að byggja upp á sama hátt og klíníska þjálfun, líkt og gert hefur verið með góðum árangri á öðrum Norðurlöndum. Ég hvet til að góðum hugmyndum þaðan verði stolið og þeim hrint í framkvæmd hér á Landspítala!