Fylgirit 119 - Sérnámslæknaþing 2024

Rannsóknarráðstefna - Ágripin

Forspárþættir svörunar og ónæmistengdra aukaverkana af völdum ónæmisörvandi krabbameinslyfja

Eggert Ólafur Árnason1, Sigurdís Haraldsdóttir1,2,3

1Lyflækningar Landspítala, 2krabbameinsdeild Landspítala, 3læknadeild Háskóla Íslands

Bakgrunnur
Ónæmisörvandi meðferðir (varðstöðvahemlar) voru fyrst gefnar árið 2013 á Íslandi og hafa farið hratt vaxandi sem meðferðarkostur við ýmsum krabbameinum. CTLA-4 hemlar hindra boðferla milli mótefnavaka-sýndarfrumna (antigen-presenting cells) og T frumna. PD-1/PD-L1 hemlar hindra boðferla milli æxlisfrumna og T frumna sem annars hefðu dempað ónæmissvar og valdið ónæmisskerðingu (anergy). Ónæmisörvandi meðferðir ræsa því frumudrepandi T-frumur til að bera kennsl á og ráðast gegn krabbameinsfrumum. Slíkar meðferðir eru nú notaðar í að minnsta kosti 20 mismunandi tegundum krabbameina í dreifðum sjúkdómi og hafa breytt miklu um horfur krabbameinssjúklinga. Með ræsingu á ónæmiskerfi fylgja þó ýmsar aukaverkanir, svokallaðar ónæmistengdar aukaverkanir (immune-related adverse events). Aukin áhætta á ónæmistengdum aukaverkunum hafa verið tengdar ýmsum þáttum s.s. gigtarsjúkdómum, samsettri meðferð með CTLA4 og PD-(L)1 hemli og fyrri sögu um bólgu eða skemmdum í líffærum.

Aðferðir
Þessi afturskyggna rannsókn er lýsandi og ætlunin er að skoða alla sjúklinga sem fengu ónæmisörvandi lyf af flokki CTLA4 og PD-(L)1 hemla á árunum 2013-2022 samkvæmt Gagnagátt LSH og lyfjaskrá SAK. Ætlunin er að kanna: 1) Tíðni ónæmistengdra aukaverkana af völdum ónæmisörvandi krabbameinslyfja á Íslandi 2013-2022. 2) Lýsa tíðni sjálfsofnæmissjúkdóma í sjúklingum sem fengu ónæmisörvandi lyf og hvort sjálfofnæmissjúkdómar versnuðu á meðferð. 3) Rannsaka hvort ónæmisbælandi lyf eða sýklalyfjanotkun hafi áhrif á tíðni ónæmistengdra aukaverkana og svörun krabbameins. 4) Rannsaka hvort samband sé milli svörunar krabbameina á ónæmisörvandi meðferð og ónæmistengdra aukaverkana. Breytum úr sjúkraskrá verður safnað þar með talið tegund aukaverkana, innlagnir vegna aukaverkana, sterameðferð vegna aukaverkana, tímalengd á lyfi og svörun krabbameins (progression-free survival), dánarorsök og lifun sjúklings. Upplýsingar um notkun annarra lyfja þ.m.t. sýklalyfja og ónæmisbælandi lyfja verða fengnar frá Lyfjagrunni Embættis landlæknis og nánari upplýsingar um krabbameinsgreiningu fengnar frá Krabbameinsskrá.

Umræður
Von er til að niðurstöður rannsóknar í heilu þýði án valbjögunar geti veitt innsýn í ferla sem leiða til aukaverkana og spá fyrir um það hvort ákveðinn hópur sjúklinga sé líklegri til að fá ónæmistengdar aukaverkanir og líklegri til að svara meðferð með ónæmisörvandi lyfjum.

 ____________________________________________________________________

Árangur og andleg áhrif skimunar fyrir mergæxli og forstigum þess

Sæmundur Rögnvaldsson1,2, Sigrun Thorsteinsdottir1,3, Jon Thorir Oskarsson1, Elias Eythorsson1,2, Guðrún Ásta Sigurðadóttir1, Brynjar Viðarsson2, Páll Torfi Önundarson1,2, Bjarni Agnar Agnarsson1,2, Margret Sigurdardottir2, Isleifur Olafsson1,2, Ingunn Thorsteinsdottir2, Andri Steinthor Bjornsson4, Inga Wesman4, Gauti Kjartan Gislason1, Jon Sigurdsson1, Andri Olafsson1, Ingigerdur Solveig Sverssidottir5, Thorir Einarsson Long1,6, Robert Palmason1,6, Signý Vala Sveinsdóttir2,Fridbjorn Sigurdsson7, Asdis Rosa Thordardottir1, Asbjorn Jonsson7, Runolfur Palsson1,2, Olafur Skuli Indriðason2, Elin Ruth Reed1, Gudlaug Katrin Hakonardottir1, Hlif Steingrimsdottir1, Malin Hultcrantz8, Brian GM Durie9, Stephen Harding10, Thor Aspelund1, Ola Landgren11, Thorvardur Jon Love1,2, Sigurður Yngvi Kristinsson1,2

1Faculty of Medicine, University of Iceland, Reykjavík, Iceland, 2Landspítali – The National University Hospital of Iceland, Reykjavík, Iceland, 3Rigshospitalet, Copenhagen, Denmark, 4Faculty of Psychology, University of Iceland, Reykjavik, Iceland, 5Sahlgrenska University Hospital, Gothenburg, Sweden, 6Skåne University Hospital, Lund, Sweden, 7Akureyri Hospital, Akureyri, Iceland, 8Myeloma Service, Dept. of Medicine, Memorial Sloan-Kettering Cancer Center, New York, NY, USA, 9Samuel Oschin Comprehensive Cancer Institute, Cedars-Sinai Outpatient Cancer Center, Los Angeles, CA, USA, 10Binding Site Group Ltd., Birmingham, United Kingdom, 11Myeloma Program, Department of Medicine, University of Miami, Sylvester Comprehensive Cancer Center, Miami.

Inngangur
Mergæxli er krabbamein í beinmerg sem þróast úr forstigum sínum á mörgum árum. Nýlegar rannsóknir benda til að með því að meðhöndla mergæxli á forstigi megi bæta horfur. Forstig mergæxlis eru einkennalaus og snemmbúin meðferð möguleg hjá aðeins um 5%. Skimun gæti verið leið til að finna einstaklinga með forstig, fylgja þeim eftir og meðhöndla þegar við á og gefa fleirum möguleika á snemmbúinni meðferð. Skimun getur þó fylgt ýmiss skaði og ekki síst áhyggjur og andleg vanlíðan.

Markmið
Markmið rannsóknarinnar Blóðskimunar til bjargar er að kanna hvort það sé ávinningur af skimun og hvaða skaðsemi, þar með talin andleg áhrif, gæti hlotist af því.

Aðferðir
Öllum íbúum á Íslandi fæddum 1975 og fyrr var boðin þátttaka 75.422 þátttakendur skimuð með rafdrætti og mælingu á fríum léttum keðjum. Þeir sem höfðu forstig mergæxlis var slembiraðað í þrjá arma: armur 1 hélt áfram eins og hann hafi ekki verið skimaður en armar 2 og 3 voru kallaðir inn til mats og eftirlits. Þeir sem greindust með virks meræxlis eða hááættu forstig var boðin meðferð. Samhliða þessu svöruðu þátttakendur spurningalistum um kvíða- og þunglyndiseinkenni.

Niðurstöður
Alls greindust 3487 með áður óþekkt forstig mergæxlis og var slembiraðað í armana þrjá. Alls hafa 42 þátttakendur greinst með mergæxli og 68 með skylda klínískt markverða sjúkdóma en enginn munur milli arma (p=0,58). Alls höfðu 216 og 4 þátttakendur í örmum 2 og 3 (skimunar armar) annars vegar og armi 1 greinst með mallandi mergæxli sem er lengra gengið forstig meræxlis (p<0,001). Þátttakendur í skimunararmi sem fengu mergæxli eða skylda sjúkdóma greindust að meðaltali ári fyrr (2 á móti 3 ár p=0,02). Þau sem fengu mergæxli í skimunarörmum höfðu lægri tíðni líffæraskemmda (Gagnlíkindahlutfall (GH): 0.11; 95% öryggisbil: 0,002-0,96; p=0,03) og bráðrar birtingarmyndar (GH: 0.25; 95% ÖB: 0,05-0,98; p=0,047). Tíðni alvarlegs þunglyndis og kvíða reyndist marktækt lægri hjá þeim sem voru í skimunar örmunum (p<0,001; p=0,02).

Umræður
Skimun fyrir forstigi mergæxlis leiðir til fyrri greiningar á mergæxli og skyldum sjúkdómum og að líffæraskemmdir séu umtalsvert minni við greiningu. Skimun virðist þó ekki leiða til aukins kvíða eða þunglyndis. Skimun gæti breytt ásýnd mergæxlis og leitt til straumhvarfa í meðferð sjúkdómsins.


____________________________________________________________________

Stenotrophomonas maltophilia blóðsýkingar á Íslandi

Ólafur Orri Sturluson4, Helga Erlendsdóttir1,2, Kristján Orri Helgason2, Magnús Gottfreðsson1,3, Sigurður Guðmundsson1,3

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2sýklafræðideild Landspítala, 3smitsjúkdómadeild Landspítala, almennar lyflækningar Landspítala.

Bakgrunnur
Stenotrophomonas maltophilia er loftháð Gram-neikvæð staflaga baktería með almennt litla meinvirkni en getur þó valdið lífshættulegum blóðsýkingum hjá sumum sjúklingum. Ónæmisbæling og inniliggjandi æðaleggir eru meðal áhættuþátta fyrir blóðsýkingu. S. maltophilia hefur útbreitt sýklalyfjaónæmi, þ.á.m. fyrir carbapenem lyfjum. Trimethoprime/sulfamethoxazole (TMP/SMX) er fyrstu línu meðferð. - Tilgangur rannsóknarinnar var að finna hvaða sjúklingahópar fengu þessar blóðsýkingar, kanna hvað þeir eiga sameiginlegt og afdrif þeirra.

Aðferðir
Allar jákvæðar S. maltophilia blóðræktanir frá 1/1/2006 til og með 31/12/2022 voru fundnar í gögnum sýklafræðideildar Landspítala og SAk. Klínískum upplýsingum var síðan safnað úr sjúkraskrám sjúklinganna.

Niðurstöður
Alls greindust 54 sjúklingar með blóðsýkingu af völdum S. maltophilia á rannsóknartímabilinu á Íslandi. Nýgengi S. maltophilia blóðsýkinga á Íslandi reyndist vera 0,954 per 100.000 persónuár. Meðalaldur sjúklingana var 53 ár. Sjúklingahópurinn var þar helst skipaður krabbameinssjúklingum (48%) og vímuefnaneytendum í æð (19%). Algengast var að sýkingin væri rakin til æðaleggja (41%). Þá var 30 daga dánartíðni fullorðina 28% en 50% fyrir sjúklinga með hvítkornafæð og var munurinn marktækur (RR=2,33 P=0,04). Engin vímuefnaneytandi lést vegna blóðsýkingarinnar þrátt fyrir að engin þeirra hafi fengið viðeigandi sýklalyf. Alls voru aðeins 44% allra sjúklinganna settir á TMP/SMX en þó fengu marktækt fleiri TMP/SMX á seinni árum tímabilsins (P=0,03).

Umræður og ályktanir
Nýgengi sýkinganna er lægra en ýmsar erlendar rannsóknir hafa gefið til kynna. Hugsanlega eru sprautufíklar nýr áhættuhópur hvað S. maltophilia blóðsýkingar varðar. Þá höfðu flestir sjúklinganna þekkta áhættuþætti sem auka líkurnar á sýkingu, til dæmis æðaleggi og ónæmisbælingu.

 

____________________________________________________________________

Hjartamýlildi af völdum transthyretin (ATTR) á Íslandi: Faraldsfræðileg rannsókn á landsvísu

Helena Xiang Jóhannsdóttir1, Ævar Örn Úlfarsson1, Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir1,2, Hekla María Bergmann2, Inga Jóna Ingimarsdóttir1,2

1Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands.

Bakgrunnur
Hjartamýlildi (cardiac amyloidosis (CA)) stafar af útfellingu amýlóíðpróteina í hjartavöðva sem veldur hjartabilun. Nýleg gögn gefa til kynna að hjartabilun af þessu tagi sé ekki nægilega vel þekkt en framfarir í meðferð hafa aukist á síðustu árum. Takmörkuð þekking er um algengi hjartamýlildi (Transthyretin-CA eða ATTR-CA) á Íslandi. Markmið rannsóknarinnar er að áætla grunnþætti, greiningu og meðferð hjartamýlildis á Íslandi.

Aðferð
Rannsóknin var afturskyggn og náði til allra einstaklinga sem greindust með ATTR-CA á Íslandi frá 1. janúar 2018 til 31. desember 2023. Þeir voru skráðir í gagnagrunn ICE-Cardiac Amyloid Registry (ICECAR) sem var stofnaður 2023 af hjartabilunarsérfræðingum á Landspítala. Greining var meðal annars byggð á hjartaómskoðun frá brjóstvegg, Perugini stigun á beinaskanni og vefjasýni frá hjarta. Einnig voru fengnar mælingar á fríum léttum keðjum og einstofna próteina (M-component) í blóði og þvagi. Sjúklingarnir voru stigaðir eftir stigunarkerfi National Amyloidosis Centre (NAC) fyrir ATTR-CA.

Niðurstöður
Alls voru 46 sjúklingum greindir með ATTR-CA (karlar n=43, konur n=3, miðaldur 79,3 ár [IQR 74,3-82,8 ár]). Allir sjúklingar greindust með áunnið transthyretin mýlildi í hjarta (ATTRwt) en enginn með arfbundið (ATTRh). Greining var fengin með vefjasýni í 7 tilfellum. Við greiningu höfðu 85% sjúklinga millisleglaþykkt ≥15 mm og 98% sjúklinga voru með ≥12 mm þykknun á afturvegg slegils. Um 59% sjúklinga voru í New York Heart Association (NYHA) flokki I-II. Dreifing sjúklinga eftir útstreymisbroti vinstri slegils (LVEF) var eftirfarandi: minnkað (HFrEF) n=22 (48%), vægt minnkað (HFmrEF) n=6 (13%), varðveitt (HFpEF) n=16 (35%) og óþekkt LVEF n=2 (4%). Heildarfjöldi sjúklinga með NAC-stigun var 45: Stig I 21 (46%), Stig II 13 (29%), Stig III 11 (24%). Um 36% fengu sjúkdómshemjandi meðferð.

Ályktanir
Þrátt fyrir lága NYHA-flokka í rannsóknarhópnum benda niðurstöður til að einstaklingarnir séu eldri við greiningu og með lágt LVEF. Þetta undirstrikar mikilvægi þess að greina sjúkdóminn og hefja viðeigandi meðferð fyrir ATTR-CA snemma.

____________________________________________________________________

 

Áhrif TNF-hemla á sýkingalyfjanotkun sjúklinga með axSpA

Hlín Þórhallsdóttir1, Aron H. Björnsson2,3, Þorvarður J. Löve2,4, Björn Guðbjörnsson2,5

fyrir hönd ICEBIO

1Lyflækningasviði Landspítala, 2heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands, 3gigtardeild Háskólasjúkrahússins í Lundi, 4vísindadeild Landspítala, 5rannsóknarstofa í gigtarsjúkdómum Landspítala.

Bakgrunnur
Fyrri rannsóknir á sýkingum hjá sjúklingum með hryggikt (axSpA), sem eru á TNFα-hemlum (TNFi), hafa að mestu lagt áherslu á alvarlegar sýkingar sem krefjast sjúkrahúsinnlagnar. Tilgangur þessarar rannsóknar er að skoða utanspítala sýkingalyfjanotkun meðal axSpA sjúklinga sem voru að hefja sína fyrstu meðferðarhrinu með TNFi.

Aðferðir
Gögnum um 378 einstaklinga með axSpA sem hófu TNFi meðferð á árunum 2003-2018 var safnað úr ICEBIO. Hver sjúklingur var paraður við fimm viðmið úr þjóðskrá, byggt á aldri, kyni og almanakstíma. Afgreiðslum allra sýkingalyfja sem tekin eru um munn var safnað úr lyfjagagnagrunni embætti landlæknis, tveimur árum fyrir og eftir upphaf TNFi meðferðarinnar. Sömu gagna var aflað yfir sama tímabil fyrir viðmiðin. Fylgitími var skilgreindur sem tvö ár fyrir og eftir upphaf meðferðar með TNFi eða þar til þrjátíu dögum eftir að meðferð lauk. Nýgengitíðni (IR) afgreiddra sýkingalyfjalyfseðla fyrir hvert persónuár var reiknuð. Við samanburð á nýgengitíðnum var öryggisbil og p-gildi reiknað út frá þeirri ályktun að fjöldi atburða fylgdi poisson dreifingu. Poisson línuleg aðhvarfsgreining var notuð til að reikna nýgengitíðnihlutföll (IRR) og til að ákvarða áhættuþætti fyrir aukinni sýkingalyfjanotkun eftir upphaf TNFi meðferðar.

Niðurstöður
Sjúklingahópurinn var með hærri nýgengitíðni lyfjaávísana fyrir meðferð samanborið við viðmið (1,12 (CI: 1,04-1,20) á móti 0,40 (CI: 0,38-0,42), p<0,001). Nýgengitíðni lyfseðla innan sjúklingahópsins jókst eftir upphaf meðferðar (1,12 (CI: 1,04-1,20) á móti 1,43 (CI: 1,35-1,52), p<0,001). Aukningin var marktæk fyrir sýklalyf (1,04 (CI: 0,97-1,12) á móti 1,29 (CI: 1,21-1,38), p<0,001) og veirulyf (0,03 (CI: 0,2-0,04) á móti 0,07 CI; 0,06-0,1), p<0,001). Fjöldi lyfseðla fyrir meðferð, kvenkyn og hátt HAQ-skor við upphaf meðferðar og 18 mánuðum síðar var tengt við auknar lyfjaávísanir eftir upphaf TNFi-meðferðar. Engin tengsl fundust milli fjölda lyfseðla og aldurs, reykinga, steranotkunar eða methotrexate notkunar.

Ályktanir
Nýgengitíðni lyfseðla meðal axSpA sjúklinga eykst eftir meðferð með TNFi, ólíkt því sem sést hefur í fyrri rannsóknum á alvarlegum sýkingum. Þetta gæti bent til aukningar á utanspítalasýkingum eftir upphaf TNFi meðferðar eða lægri þröskuld lækna til að ávísa sýkingalyfjum til þessa sjúklingahóps. Auk þess nota sjúklingar með axSpA marktækt meira af sýkingalyfjum en viðmið fyrir og eftir TNFi meðferð sem gæti bent til aukinnar grunnáhættu á sýkingum innan þessa sjúklingahóps.

 

____________________________________________________________________

Nýgengi og dánartíðni STEMI og NSTEMI yfir 35 ár - lýðgrunduð

rannsókn

Sólveig Bjarnadóttir 1,2, Thor Aspelund 2,3, Elías Freyr Gudmundsson 3, Vilmundur Guðnason 2,3, Karl Andersen 1,2,3

1Landspítali, 2heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands, 3Hjartavernd.

Bakgrunnur
Undanfarna áratugi hafa víða sést breytingar í birtingarmynd á bráðu kransæðaheilkenni.

Nýgengi STEMI hefur dvínað en nýgengi NSTEMI ýmist aukist eða staðið í stað. Sömuleiðis

hefur dánartíðni farið lækkandi í flestum vestrænum löndum. Skýringarnar á þessu liggja

ekki fyrir. Markmið rannsóknarinnar var að greina mynstur í birtingarmynd bráðs

kransæðaheilkennis yfir 35 ára tímabil á Íslandi.

Aðferðir
Úr Hjartaáfallaskrá Hjartaverndar fengust upplýsingar um fyrsta hjartaáfall hjá einstaklingum

á aldrinum 25-74 ára á tímabilinu 1981-2015 á Íslandi. Hvert tilfelli var flokkað sem STEMI

eða NSTEMI út frá hjartalínuritsbreytingum samkvæmt Minnesota skilmerkjum. Upplýsingar

um dánartíðni voru fengnar frá Dánarmeinaskrá.

Niðurstöður
Alls fundust 10.988 tilfelli. Þar af voru 640 tilfelli (5,8%) þar sem EKG var týnt og voru þau

ekki höfð með í tölfræðiúrvinnslu. Eftir stóðu 10.348 tilfelli (meðalaldur 61 ár, 76% karlkyns).

Tilfellin voru flokkuð sem STEMI (32,7%), NSTEMI (45,8%) og ekkert-EKG-tekið (21,5%).

Árleg lækkun á heildarnýgengi fyrsta hjartaáfalls var 3,7% (úr 493 í 114 á 100.000).

Lækkunin var jöfn milli kynja en mest áberandi hjá einstaklingum yfir 55 ára. Aldursstaðlað

nýgengi STEMI lækkaði um 83% á tímabilinu (úr 137 í 23 á 100.000) og aldursstaðlað

nýgengi NSTEMI um 67% (úr 239 í 80 á 100.000), mest á árunum 1981-1989 en dró úr

lækkun eftir það. 28-daga dánartíðni var borin uppi af 95% dánartíðni hjá hópnum þar sem

ekkert EKG var tekið, en þó lækkaði dánartíðni í þeim hópi um 91% á tímabilinu.

Aldursstöðluð 28-daga dánartíðni lækkaði um 85% fyrir STEMI og 91% fyrir NSTEMI.

Umræður
Heilt yfir hefur verið stöðug lækkun í nýgengi fyrsta hjartaáfalls. Dvínandi lækkun í nýgengi

NSTEMI eftir aldamót gæti að einhverju leyti stafað af upptöku á hánæmum lífvísum sem

voru teknir upp 1997, en breytt samsetning í áhættuþáttum þjóðarinnar getur einnig haft

áhrif. Skammtíma dánartíðni er borin uppi af hópnum þar sem ekkert EKG var tekið, en

almennt eru það einstaklingar sem fengu hjartaáfall utan spítala eða fengu ekki

læknisþjónustu. Athyglisvert er að dánartíðni lækkaði fyrir alla þrjá hópa (STEMI, NSTEMI,

ekkert-EKG-tekið), sem bendir til að aðrir þættir en meðferð hafi áhrif á lækkun í dánartíðni.

 

____________________________________________________________________

 

Meðgöngur og fæðingar kvenna með sjúkdóminn rauða úlfa á Íslandi

Ólöf Ása Guðjónsdóttir1, Ragnheiður Ingibjörg Bjarnadóttir1, Þórunn Jónsdóttir1, Thor Aspelund2, Björn Guðbjörnsson1,2, Gerður Gröndal1,2

1Landspítala, 2Háskóla Íslands

Bakgrunnur
Rauðir úlfar (systemic lupus erythematosus, SLE) er langvinnur fjölkerfa sjálfsofnæmissjúkdómur sem leggst einkum á konur á frjósemisskeiði. Sjúkdómurinn einkennist af myndun sjálfsmótefna og bólgu í hinum ýmsu vefjum líkamans. Meðganga þessara sjúklinga flokkast sem áhættumeðgönga og getur sjúkdómurinn haft margvísleg áhrif á líffærakerfi líkamans. Rannsóknir hafa meðal annars sýnt aukna áhættu á fósturlátum, meðgöngueitrun, fyrirburafæðingum, andvana fæðingum og vaxtarskerðingu fósturs. Markmið þessarar rannsóknar er að skoða fæðingarútkomur kvenna með SLE á Íslandi og hvort búast megi við við verri útkomum í samanburði við fæðingar kvenna sem ekki hafa þessa greiningu. Ekki hefur verið gerð sambærileg rannsókn hérlendis áður.

Aðferðir
Rannsóknin er afturskyggn og notast var við gögn úr Fæðingaskrá fyrir árin 1982-2021. Rannsóknin nær til allra kvenna á Íslandi sem fengið hafa ICD-10 greininguna M32 í tvígang á árunum 2010 til 2020 samkvæmt vistunarskrá og/eða voru þátttakendur í rannsókninni „Rauðir úlfar á Íslandi“ sem nær til ársins 2011 og hafa eignast barn á árunum 1982-2021. Útbúinn var viðmiðunarhópur mað slembivali úr Fæðingaskrá með fimm fæðingum fyrir hverja fæðingu konu með greininguna SLE. Fæðingarnar voru paraðar eftir aldri móður við fæðingu (±5 ár), ártali fæðingar og með tilliti til þess hvort móðirin var frumbyrja eða fjölbyrja.

Niðurstöður
Á rannsóknartímabilinu voru 427 fæðingar þar sem móðir hafði fengið SLE greiningu, þar af hefur greiningin verið yfirfarin og staðfest samkvæmt greiningarskilmerkjum í tilfelli 175 fæðinga. Hlutfall fæðinga í SLE hópnum fyrir viku 37 var 12,6% í samanburði við 2% hjá viðmiðum. Upphaf fæðingar með framköllun var 21,8% hjá SLE-hópnum í samanburði við 8,2% hjá viðmiðunarhópnum. Hlutfall keisaraskurða var 19,1% en 11,5% hjá viðmiðum. Lág fæðingarþyngd skilgreind undir 2500g var 8,2% hjá börnum SLE kvenna en 1,7% hjá viðmiðum.

Umræður
Fyrstu niðurstöður sýna hærri tíðni framkallaðra fæðinga, keisaraskurða og fyrirburafæðinga en hjá viðmiðunarhóp. Niðurstöður rannsóknarinnar geta gagnast við ráðgjöf verðandi mæðra og kvenna með rauða úlfa sem huga að barneignum. Aukin þekking á meðgöngukvillum hópsins getur bætt útkomur og öryggi mæðranna og barna þeirra.

 

____________________________________________________________________

Algengi frumkomins aldósterónheilkennis í almennu þýði með nýgreindan ómeðhöndlaðan háþrýsting

 

Harpa Gunnarsdóttir1, Guðmundur Sigþórsson2, Ísleifur Ólafsson2, Thor Aspelund3,4, Vilmundur Guðnason3,4, Helga Ágústa Sigurjónsdóttir1,4

1Lyflækningasviði Landspítala, 2Rannsóknarkjarna Landspítala, 3Hjartavernd, 4læknadeild Háskóli Íslands.


Bakgrunnur
Frumkomið aldósterónheilkenni (FA) er vel þekkt orsök háþrýstings, er algengara en áður var talið og sennilega að stórum hluta ógreint. Sjúklingar með FA eru gjarnan með svæsnari háþrýsting en þeir með frumkominn háþrýsting og þjást frekar af fylgikvillum háþrýstingsins. Einungis 9-37% af umræddum sjúklingum mælast með lággildi kalíums í sermi (hypokalemíu). Sé um einhliða ofseytingu aldósteróns að ræða, er FA mögulega læknanlegur sjúkdómur með brottnámi á umræddri nýrnahettu. Þess vegna skiptir máli að greina sjúkdóminn og það tímanlega.

Fjöldi erlendra rannsókna hafa leitt í ljós að algengi FA sé um 2,6-12,7% á heilsugæslum og í kringum 20-22% á sérhæfðum háþrýstings móttökum. Íslensk rannsókn árin 2007-2016 sýndi að einungis veikustu sjúklingarnir með FA eru að greinast hér á landi þar sem allt þýðið var með hypokalemíu. Algengi FA er ekki þekkt hér á landi og er markmið þessarar rannsóknar að áætla það.

Aðferðir
REFINE-Reykjavik, rannsókn á vegum Hjartaverndar framkvæmd árin 2005-2006, skimaði af handahófi 6941 heilbrigðan íslending fyrir háþrýsting. Af þeim reyndust 420 einstaklingar með nýgreindan ómeðhöndlaðan háþrýsting og voru fastandi blóðsýni tekin að morgni af viðkomandi aðilum, sýnin snúin niður og fryst við -80°C. Mælt verður blóðgildi aldósteróns og reníns í þessum sýnum sem og í samanburðarhópi af 220 einstaklingum sem ekki greindust með háþrýsting. Skoðuð verða áhrif geymslutímans á blóðsýnin sem verða metin.

Niðurstöður: ekki fyrirliggjandi

Umræður
Ákveðin skilyrði við sýnasafnanir á blóðgildum aldósterón og renín, sem ekki var framfylgt við blóðtökur á ofangreindum sjúklingum, sem kann að skyggja niðurstöður og á það sérstaklega við um renín. Einnig eru áhrif geymslutímans á sýnin í frysti óþekkt og mun þetta einnig verða metið. Vonast er til að niðurstöðurnar gefi vísbendingar um algengi FA og þá mögulega ástæðu til að innkalla sjúklinga sem greinast utan viðmiðunarmarka þessara blóðgilda inn í frekari rannsóknir.

 

____________________________________________________________________

Íslenska ofvaxtarhjartavöðvakvilla verkefnið: Rannsókn á arfberum MYBPC3 landnemastökkbreytingarinnar


Oddný Brattberg Gunnarsdóttir1, Berglind Aðalsteinsdóttir1, Davíð O. Arnar1, Gunnar Þór Gunnarsso2, Hilma Hólm3, Garðar Sveinbjörnsson3

1Landspítali, 2Sjúkrahúsinu á Akureyri, 3Íslenskri erfðagreiningu.

Bakgrunnur
Landnemastökkbreytingin MYBPC3 c.927-2A>G skýrir >90% tilfella ofvaxtarhjartavöðvakvilla (OHK) á Íslandi og er algengi hennar áætlað 0,36% hér á landi. Markmið rannsóknarinnar er að rannsaka MYBPC3 c.927-2A>G arfbera (G+) sem ekki eru með þekktan OHK sjúkdóm til að auka skilning á sambandi arfgerðar og svipgerðar.

Aðferðir
Rannsóknin byggir á gögnum frá 166.281 Íslendingum sem hafa tekið þátt á rannsóknum Íslenskrar Erfðagreiningar. Á meðal þessara 166.281 einstaklinga eru 561 G+ en aðeins 102 (18%) hafa klíníska OHK greiningu, 367 eru á lífi án OHK greiningar og þarf af eiga 234 hvorki 1° né 2° ættingja með OHK greiningu. G+ einstaklingum (n= 367) án OHK greiningar hefur verið boðin þátttaka í rannsókninni auk viðmiðunarhóps (G-). Þátttakendur verða beðnir um að fylla út spurningalista varðandi sjúkrasögu, einkenni, venjur, lyfjanotkun, óútskýrð yfirlið, fjölskyldusögu um skyndidauða. Auk þess verður þeim boðið að gangast undir eftirfarandi klínískar rannsóknir til nákvæmrar svipgerðargreiningar: Blóðþrýstingsmælingu, blóðrannsókn (NT-proBNP and hsTNT), hjartalínurit, 24-klst hjartalínurit, hjartaómun og segulómun af hjarta. Aldur við andlát og dánarorsök verða rannsökuð meðal látinna G+ einstaklinga (n=92) og dánartíðni borin saman við almennt þýði.

Niðurstöður
Niðurstöður liggja ekki fyrir en þær munu vonandi auka skilning á sýnd sjúkdómsins. Þær munu einnig sýna hvort 1°og 2° ættingjar fólks með þekktan OHK séu líklegri til að vera með þykknun miðað við þá sem ekki eiga nána ættingja með þekkta greiningu. Niðurstöðurnar gætu einnig gefið til kynna hvort dánarorsök þeirra G+ sem eru látnir sé hægt að tengja við ógreindan OHK.

Umræður
Það er von okkar að niðurstöðurnar nýtist við að bæta einstaklingsmiðaða meðferð, meðal annars til að koma í veg fyrir skyndidauða, og auki skilning á áður óþekktum þáttum sem hafa áhrif á svipgerð sjúkdómsins.

 




Þetta vefsvæði byggir á Eplica