Fylgirit 123 - Geðdagurinn 2024

Ávarp - Geðdagur 2024

Geðdagurinn 3. maí 2024 á Hilton Reykjavík Nordica

 

Hjartanlega velkomin á Geðdaginn.

Í dag höldum við ráðstefnuna Geðdaginn í þriðja sinn og hefur dagurinn þegar fest sig í sessi sem fastur punktur í starfsemi geðþjónustu Landspítala. Það er mikill áhugi á deginum og margir hafa spurt um dagskrána á undanförnum vikum.

Yfirskrift dagsins þetta árið er „ Hugum að velferð og grósku, Þróun – nýsköpun – vísindi.“ Yfirskriftin endurspeglast að okkar mati í dagskrá dagsins þar sem áhersla er á meðferð við áföllum, á kulnun og endurhæfingu. Einnig er fjallað um aukin stuðning við aðstandendur, um möguleika notenda á að skipuleggja eigin meðferð fram í tímann og um starf jafningja í geðþjónustunni.

Það er ánægjulegt að sjá að fyrirlesarar á Geðdeginum endurspegla þann breiða hóp fagfólks sem starfar að geðheilbrigðismálum. Meirihluti erinda kemur frá starfsfólki geðþjónustunnar og sýnir þá þróun sem er að eiga sér stað í meðferðarstarfinu með umbótum og nýjungum í meðferð og eftirfylgd.

Geðdagurinn er mikilvægur fyrir okkur sem störfum innan geðþjónustunnar. Hann gefur okkur tækifæri til að safnast saman og kynna okkar fjölbreyttu starfsemi, nýja þekkingu og framtíðarsýn. Hann varpar einnig ljósi á þann metnað og áhuga sem einkennir starfsemi geðþjónustunnar. Þá er mikilvægt að efla samskipti og umræður um þjónustuna og styrkja samvinnu við önnur kerfi.

Ritrýnd ágrip erinda sem hér birtast eru mikilvæg heimild um efni Geðdagsins og fjölbreytileika okkar verkefna.

Við þökkum höfundum og kynnum ágripa, gestafyrirlesurum, fundarstjórum og starfsfólki geðþjónustu Landspítala þeirra mikilvæga framlag til Geðdagsins.

Fyrir hönd undirbúningsnefndar,

Halldóra Jónsdóttir

forstöðulæknir geðþjónustu og dósent

 

 

 

Undirbúningsnefnd Geðdagsins 2024

 

Halldóra Jónsdóttir, dósent og forstöðulæknir geðþjónustu Landspítala, formaður undirbúningsnefndar

Guðbjörg Sverrisdóttir, verkefnastjóri á geðsviði

Berglind Guðmundsdóttir, prófessor og sérfræðingur í klínískri sálfræði

Engilbert Sigurðsson, prófessor og yfirlæknir á geðsviði

Ína Rós Jóhannesdóttir, hjúkrunarfræðingur í sérnámi

 




Þetta vefsvæði byggir á Eplica