Fylgirit 124 - Lyflækningaþing 2024

Lyflæknaþing 2024 - 22. – 23. nóvember 2024 í Hörpu Reykjavík

XXVI. þing Félags íslenskra lyflækna

Föstudagur kl. 15:00 – 16:15

Hópur A – leiðsögumaður: Ólöf K. Bjarnadóttir

 

V1 Viðbótarmeðferð í brjóstakrabbameini og meðferðarheldni andhormónameðferðar árin 2016-2018

Gerður Eva Halldórsdóttir 1

Stefanía Katrín Finnsdóttir 1, 2, Ólöf Kristjana Bjarnadóttir 2, Sigurdís Haraldsdóttir 1, 2

1 Háskóli Íslands
2 Landspítali

Inngangur:Viðbótarmeðferð með tamoxifen og/eða arómatasahemlum (anastrósól, letrósól og exemestan) er beitt við hormónajákvæðu brjóstakrabbameini á stigi 1-3 eftir skurðaðgerð. Andhormónameðferð hefur áhrif á endurkomutíðni og lifun í brjóstakrabbameini en meðferðarheldni þessara lyfja hefur ekki verið skoðuð á Íslandi. Aðalmarkmiðið er að rannsaka meðferðarheldni viðbótarmeðferðar hjá brjóstakrabbameinssjúklingum sem greindust árin 2016-2018. Forspárþættir meðferðarheldni verða skoðaðir sem og áhrif meðferðarheldni á sjúkdómsfría lifun og heildarlifun.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturskyggn ferilrannsókn sem tekur til allra sjúklinga á Íslandi sem greindust með hormónajákvætt brjóstakrabbamein á stigi 1-3 árin 2016-2018 og fengu viðbótarmeðferð eftir skurðaðgerð. Gögn voru fengin frá Krabbameinsskrá, Gæðaskrá, Lyfjagagnagrunni landlæknis og Landlæknisembættinu. Meðferðarheldni var skilgreind sem lyfjaútleysing tamoxifens og/eða arómatasahemla í fimm ár eða fram að dánardegi/endurkomudegi brjóstakrabbameins. Sjúklingur telst meðferðarheldinn ef hann leysti út lyf fyrir ≥80% af tímabilinu. Lýsandi tölfræði, lógístísk aðhvarfsgreining og Kaplan Meier lifunarkúrfur voru notaðar við úrvinnslu gagna.

Niðurstöður: 519 sjúklingar uppfylltu inntökuskilyrði rannsóknarinnar en 510 voru konur og miðgildi aldurs var 62 ár. Krabbameinslyfjameðferð hlutu 32% sjúklinga, 56% fengu geislameðferð og allir fengu andhormónameðferð. Tamoxifen var gefið 37% en 63% sjúklinga fengu arómatasahemla. Meðferðarheldnir reyndust 77% sjúklinga. Lógístísk aðhvarfsgreining sýndi fram á að tegund meðferðar var marktækur forspárþáttur (1.74 ÖB: 1.13-2.68, p=0.01) þar sem meðferðarheldni var lægri á tamoxifeni. Ekki mældust marktæk tengsl á milli heildarlifunar (p=0.38) eða sjúkdómsfrírrar lifunar (p=0.1) og meðferðarheldni.

Ályktun: Fjórðungur brjóstakrabbameinssjúklinga var ómeðferðarheldinn á tímabilinu. Bæta þarf meðferðarheldni, t.d. með öflugri og aðgengilegri fræðslu um mikilvægi lyfjanna og bjargráð við aukaverkunum.

V2 Blóðþynningarlyf um munn tengd betri lifun sjúklinga með ristil- og endaþarmskrabbamein: 20-ára lýðgrunduð áhættuskorspöruð ferilrannsókn.

Arnar Ágústsson 1, Sigurdís Haraldsdóttir 1, Jóhann Hreinsson 5, Einar Björnsson 1

Helgi Birgisson 2, Sigrún Lund 3, Arnar Ingason 4

1 Landspítali
2 Krabbameinsskrá
3 Háskóli Íslands
4 Larner College of Medicine
5 Sahlgrenska

Inngangur: Algengasta einkenni ristil- og endaþarmskrabbameina eru meltingarvegsblæðingar og eru þau krabbamein ein leiðandi orsök krabbameinstengdra andláta. Einstaklingar á blóðþynningarlyfjum um munn hafa hærri tíðni meltingarvegsblæðinga sem oftar eru orsakaðar vegna krabbameins. Hins vegar hefur ekki hefur verið rannsakað hvort það gæti valdið snemmgreiningu þeirra. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvort einstaklingar á blóðþynningu hefði betri lifun, þá mögulega í gegnum snemmgreiningu.

Efni og aðferðir: Um er að ræða lýðgrundaða ferilrannsókn á Ísland. Listi allra einstaklinga sem fengu ristli-og endaþarmskrabbamein á árunum 2000-2019 fékkst frá Krabbameinsskrá og flett var upp í sjúkraskrám allra einstaklinga fyrir klínískar breytur. Pörun með áhættuskori (e. Propensity score matching) var gerð til að jafna áhrif áhættuþátta milli hópsins á blóðþynningu og samanburðarhóps.

Niðurstöður: Alls 2563 einstaklingar voru í úrtaki rannsóknar, með 218 (9%) sem tóku blóðþynningu fyrir greiningu krabbameins. Meðal eftirfylgdartími var 38 mánuðir (Fjórðungamörk 13-78) fyrir blóðþynningarhópinn og 54 mánuðir (FM: 15-113) fyrir samanburðarhóp. Blóðþynningarhópurinn var eldri, oftar karlkyns og hafði fleiri fylgisjúkdóma en samanburðarhópurinn. Meltingarvegsblæðingar voru oftar birtingareinkenni blóðþynningarhóps (81% vs 57% p<0.0001) en það var enginn munur á stigi krabbameins. Blóðþynningarmeðferð var tengd verri horfum í heildarlifun (Áhættuhlutfall: 1.20, 95% Öryggisbil (1.02–1.42)). en betri horfum þegar horft var til krabbameinssértækrar lifunar (ÁH 0.69, 95% ÖB (0.52–0.92)).

Ályktun: Niðurstöðurnar gefa til kynna að blóðþynningarlyf gætu leitt til snemmgreiningar með betri krabbameinssértækri lifun. Það undirstrikar frekar mikilvægi vökuls eftirlits einstaklinga á blóðþynningu þar sem blæðingareinkenni gætu leitt til snemmgreininar krabbameins.

V3 Magakrabbamein á Íslandi árin 2010-2023

Milica Maljkovic 1

Einar Stefán Björnsson 1, 2, Ken Namikawa 2, Sigurdís Haraldsdóttir 1, 2, Jón Gunnlaugur Jónasson 1, 2

1 Læknadeild Háskóla Íslands
2 Landspítali Háskólasjúkrahús

Inngangur: Síðasta rannsókn á magakrabbameini á Íslandi tók til tímabilsins 1990-2009 og beindist fyrst og fremst að meinafræðilegri tegund æxlanna. Markmið rannsóknarinnar var að kanna eðli og tegundir krabbameins í maga og horfur sjúklinganna á síðustu árum.

Efniviður og aðferðir: Þetta er aftursýn gagnarannsókn á sjúklingum sem greindir voru með magakrabbamein 2010-2023 hjá Krabbameinsskrá Íslands. Upplýsingar voru fengnar úr sjúkraskrám um greiningaraldur, staðsetningu, vefjagerðir, horfur og dánarorsakir.

Niðurstöður: Alls greindust 362 sjúklingar á rannsóknartímabilinu, nýgengi magakrabbameina hjá körlum er 7,26 og hjá konum 5,81 per 100 000 íbúa árlega. Alls tókst að fara yfir 100 sjúklinga, meðalaldur við greiningu 71 ár (spönn 32-92 ára), 57 karlar (57%), miðgildi eftirfylgni var 8 mánuðir. Adenocarcinoma var algengasta tegundin (71%), carcinoid æxli (12%), gastrointestinal stromal tumor, GIST (6%) og ótilgreindar tegundir (11%). Svipaður hluti æxlanna var staðsettur í efsta hluta maga (n=30) og corpus (n=31), en 14 í antrum og upplýsinga skortir um 25. Alls voru 45 með meinvörp við greiningu, 79 létust á rannsóknartímabilinu og 63 (80%) vegna krabbameinsins, 85% af völdum adenocarcinoma og 15% vegna annarra illkynja æxla í maga.

Ályktun: Magakrabbamein greinist yfirleitt eftir sjötugt, en getur stundum greinst á unga aldri. Krabbameinið var dánarorsök hjá miklum meirihluta sjúklinganna sem sýnir brýna þörf á betri meðferðarmöguleikum við magakrabbamein.

V4 Marksækin meðferð í meðhöndlun lungnakrabbameina á árunum 2010-2023

Stefania Tryggvadottir 1

1 Háskóli Íslands

Inngangur: Lungnakrabbamein er þriðja algengasta krabbameinið á Íslandi og um 55% greinist á stigi IV. Lungnakrabbamein geta borið stökkbreytingar eða yfirfærslu sem hefur áhrif á virkni ákveðinna gena. Slíkar breytingar eru algengari í sjúklingum sem hafa ekki reykt og í kirtilmyndandi lungnakrabbameinum. Fundur þeirra getur haft áhrif á val á meðferð.

Markmið: Kortlagning á tíðni marksækinna stökkbreytinga í lungnakrabbameinum á Íslandi, hversu oft marksækin lyf eru notuð og árangur þeirrar meðferðar.

Aðferðir: Listi greindra lungnakrabbameina 2021-2023 og stig við greiningu 2019-2022 var fenginn frá Krabbameinsskrá og stökkbreytigreiningar 2021-2023 frá Meinafræðideild LSH. Skoðað var hvort einstaklingar með marksækna stökkbreytingu hafi fengið marksækna meðferð. Verkefnið var framhald BS verkefnis GVS sem skoðaði tímabilið 2010-2020.

Niðurstöður: Á árunum 2010-2023 voru 25% allra greindra lungnakrabbameina send í stökkbreytipróf og jókst á tímabilinu en árið 2023 voru 90% lungnakrabbameina af kirtilþekjugerð á stigi IV send í greiningu. EGFR stökkbreytingar fundust í 11,9% lungnakrabbameina. Tíðni marksækinna stökkbreytinga 2016-2023 var 18,7%: EGFR 10,1%, BRAF 2,1%, MET 2,7%, HER2 1,5%, ALK 1,5%, ROS1 0,6% og RET 0,2%. Af þeim sem báru marksæknar breytingar fengu 60,3% sjúklinga marksækna meðferð, 34,2% var á meðferð í ≥12 mánuði og 13,7% í ≥24 mánuði. Meðal þeirra sem fóru í stökkbreytigreiningu árin 2016-2023 voru 38,8% með KRAS stökkbreytingu og reyndist Gly12Cys í KRAS algengust stökkbreytinga í geninu eða til staðar í 47,6% tilvika.

Umræður: Notkun stökkbreytiprófa hefur farið hratt vaxandi og fer meirihluti sjúklinga með marksækna stökkbreytingu á stigi IV á marksækna meðferð. Tíðni marksækinna stökkbreytinga er sambærileg við niðurstöður erlendra rannsókna.

V5 Ífarandi eggjastokkakrabbamein á Íslandi - faraldsfræði og notkun erfðarannsókna

Arna Rut Emilsdóttir 1, 2

Vigdís Stefánsdóttir 2, Ubaldo Benitez Hernandez 3, Anna Margrét Jónsdóttir 4, Reynir Tómas Geirsson 5, Elísabet Arna Helgadóttir 5

1 Lyflækningasvið Landspítala
2 Erfða- og sameindalæknisfræðideild Landspítala
3 Vísindadeild Landspítala
4 Meinafræðideild Landspítala
5 Kvennadeild Landspítala

Inngangur: Eggjastokkakrabbamein er það krabbamein í kynfærum kvenna sem dregur flestar konur til dauða. Það hefur lítið verið rannsakað á Íslandi og var markmið þessarar rannsóknar að fá betri yfirsýn yfir sjúkdóminn hér á landi, kanna áhrifaþætti á lifun og algengi erfðarannsókna.

Efni og aðferðir: Rannsóknarhópur: Allir sjúklingar greindir með ífarandi þekjufrumukrabbamein í eggjastokkum, eggjaleiðurum eða lífhimnu á Íslandi 2005-2022. Listi yfir sjúklinga var fenginn frá Krabbameinsskrá og Landspítala. Klínískra upplýsinga var aflað úr sjúkraskrám. Sjúklingum var fylgt eftir til 1. janúar 2024.

Niðurstöður: Alls greindust 370 konur á rannsóknartímabilinu. Aldursstaðlað nýgengi var 8,79/100.000 persónuár (95%-ÖB: 7,87-9,71/100.000) og lækkaði marktækt á tímabilinu. Miðgildi aldurs við greiningu var 67 ár. Stærstur hluti sjúklinga var með sermiþekjufrumuæxli (65%). Flestir sjúklingar greindust á stigi III (52%). Erfðaráðgjöf fengu 100 konur (27%). Hjá 122 (33%) var gerð erfðarannsókn og voru 38% svara jákvæð. Hlutfall sjúklinga sem fóru í erfðarannsókn jókst marktækt yfir rannsóknartímabilið (p<0,001). Flest meinvaldandi erfðabrigði voru í BRCA2 (24) og BRCA1 (12) genum. Af 285 sem komust í sjúkdómsdvala fengu 177 (62%) endurkomu á rannsóknartímabilinu. Miðendurkomutími var 12 mánuðir. Fimm ára lifun var 41% (95%-ÖB: 37-47%) og tíu ára lifun 28% (95%-ÖB: 23-34%). Stig, aldur og magn æxlisvaxtar í lok aðgerðar höfðu sjálfstæð marktæk áhrif á lifun.

Ályktun: Birtingarmynd er sambærileg því sem gerist erlendis. Hátt hlutfall jákvæðra erfðaprófa bendir til að fleirum ætti að vera boðin erfðaráðgjöf. Mikilvægi þess að fjarlægja sem mestan æxlisvöxt í skurðaðgerð var undirstrikað.

V6 Algengi DPYD erfðabreytileika og tengsl við aukaverkanir af völdum 5-fluorouracil og capecitabine lyfjameðferða

Elsa Jónsdóttir 1

Magnús Karl Magnússon 1, Sigrún Helga Lund 1, Sigurdís Haraldsdóttir 1, 2

1 Háskóli Íslands
2 Landspítali

INNGANGUR

5-fluorouracil (5-FU) og forlyf þess, capecitabine, eru mikilvæg lyf gegn krabbameinum í meltingarvegi, brjóstum og á höfuð- og hálssvæði. Þessi lyf geta þó valdið alvarlegum aukaverkunum eins og beinmergsbælingu, slímhúðarbólgu, uppköstum, niðurgangi og æðaspasma í kransæðum. Einstaklingar með erfðabreytileika í DPYD geninu sem skerða starfsemi DPD ensímsins hafa aukna hættu á alvarlegum aukaverkunum af völdum þessara lyfja. Markmið rannsóknarinnar var að kortleggja DPYD erfðabreytileika sem valda DPD skorti í íslensku þjóðinni og meta tengsl þeirra við alvarlegar aukaverkanir af völdum 5-FU og capecitabine.

EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR

Rannsóknin náði til allra einstaklinga sem fengu 5-FU eða capecitabine lyfjameðferð frá 1. janúar 2002 til 31. desember 2021, alls 2719. Arfgerðarupplýsingar fengust úr gagnavarðveislu Íslenskrar erfðagreiningar. Unnið var með gögn frá Krabbameinsskrá Íslands, LSH gagnagátt, og gagnagrunni Embætti Landlæknis. Klínískum gögnum um aukaverkanir og innlagnir var handvirkt safnað úr sjúkraskrám.

NIÐURSTÖÐUR

Algengi DPYD erfðabreytileika sem valda DPD skorti í íslensku þjóðinni er 4,6%. Af þeim sem fengu 5-FU og capecitabine báru 111 (4,1%) einstaklingar að minnsta kosti einn DPYD erfðabreytileika sem tengist DPD skorti. Fyrir tímabilið 2011-2020 fengu 13,1% alvarlegar aukaverkanir sem leiddu til innlagna, þar af tengdust 7,6% meltingarfærum og 5,3% beinmergsbælingu. Capecitabine tengdist aukinni hættu á niðurgangi (p=0,034) en 5-FU aukinni hættu á beinmergsbælingu (p<0,001).

ÁLYKTANIR

Niðurstöðurnar benda til þess að 4,6% íslensku þjóðarinnar beri DPYD erfðabreytileika sem eykur hættu á alvarlegum aukaverkunum af völdum 5-FU og capecitabine. Þörf er á frekari kortlagningu á tengslum DPYD erfðabreytileika við aukaverkanir til að auka öryggi lyfjameðferðar með 5-FU og capecitabine.

V7 Kynjamunur í tilkomu aukaverkana af völdum 5-FU og capecitabine krabbameinslyfja

Elsa Jónsdóttir 1

Sigurdís Haraldsdóttir 1, 2

1 Háskóli Íslands
2 Landspítali

INNGANGUR

Konur hafa aukna hættu á aukaverkunum vegna krabbameinslyfja. Fyrir lyfin 5-FU og capecitabine fá konur frekar beinmergsbælingu og slímhúðarbólgu en karlar. Jafnframt virðast þær líklegri til að fá alvarlegri aukaverkanir samkvæmt NCI-CTCAE stigunarkerfinu. Talið er að það gæti skýrst af kynbundnum mun í lyfjahvörfum þessara lyfja. Markmið rannsóknarinnar var að bera saman tilkomu alvarlegra aukaverkana og þörf á snemmbærri stöðvun meðferðar milli kynja í íslensku þýði.

EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR

Rannsóknin náði til allra sem fengu 5-FU eða capecitabine frá 1. janúar 2011 til 31. desember 2021. Gögn voru fengin frá Krabbameinsskrá Íslands, LSH gagnagátt, og gagnagrunni Embætti Landlæknis. Upplýsingar um aukaverkanir voru handvirkt sóttar úr sjúkraskrám. Alvarleiki aukaverkana var metinn með NCI-CTCAE stigunarkerfinu og aðhvarfsgreining var notuð til að meta mun milli kynja.

NIÐURSTÖÐUR

Alls fengu 643 karlar og 738 konur 5-FU eða capecitabine á tímabilinu. Af þeim fengu 13,4% karla og 12,7% kvenna aukaverkanir sem leiddu til innlagnar. Konur höfðu sambærilegar líkur á innlögn vegna aukaverkana og karlar (GH: 0,98; 95% ÖB: 0,91-1,06; p=0,67). Ekki var marktækur munur á gerð aukaverkana sem leiddu til innlagnar, en tíðni alvarlegrar beinmergsbælingar var hærri meðal kvenna (19,6% og 12,0%; p=0,014). Konur höfðu auknar líkur á snemmbærri stöðvun meðferðar (GH: 1,12; 95% ÖB: 1,00-1,26; p=0,047).

ÁLYKTANIR

Niðurstöðurnar gefa til kynna að konur séu útsettari fyrir alvarlegri beinmergsbælingu af völdum 5-FU og capecitabine. Nauðsynlegt er að rannsaka frekar kynjamun á aukaverkunum til að bæta öryggi meðferðar og stuðla að einstaklingsmiðaðri nálgun í krabbameinslyfjameðferð.

V8 Forspárgildi daufkyrninga-eitilfrumu hlutfalls hjá einstaklingum sem fá krabbameinslyfjameðferð með flúorpýrimídín lyfjum

Elsa Jónsdóttir 1

Helga Kristín Sigurðardóttir 1, Sigurdís Haraldsdóttir 1, 2

1 Háskóli Íslands
2 Landspítali

INNGANGUR

Bólguástand er talið gegna mikilvægu hlutverki í æxlismyndun og þróun krabbameina. Hlutfall daufkyrninga og eitilfrumna (NLR) er talið endurspegla kerfisbundið bólguástand í líkamanum. Talið er að hátt NLR fyrir upphaf krabbameinslyfjameðferð tengist verri lifun og aukinni dánartíðni í einstaklingum með krabbamein. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna forspárgildi NLR í einstaklingum sem fengu krabbameinslyfjameðferð með flúorpýrimídín lyfjunum 5-fluorouracil og capecitabine.

EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR

Rannsóknin náði til allra einstaklinga sem fengu flúorpýrimídín lyfjameðferð frá 1. janúar 2015 til 31. desember 2019. Unnið var með gögn frá Krabbameinsskrá Íslands, LSH gagnagátt og gagnagrunni Embætti Landlæknis. Gögn um blóðprufugildi innan 30 daga fyrir upphaf krabbameinslyfjameðferðar var handvirkt safnað úr sjúkraskrám. Einstaklingum var skipt í þrjá hópa eftir þriðjungsmörkum NLR gilda þýðisins (lágt, miðlungs og hátt NLR).

NIÐURSTÖÐUR

Alls höfðu 569 (88%) einstaklingar á rannsóknartímabilinu skráð blóðprufugildi innan 30 daga fyrir upphaf meðferðar. Einstaklingar með hátt NLR höfðu marktækt verri langtímalifun samanborið við þá með miðlungs og lágt NLR (p<0,0001). Hátt NLR var sjálfstæður forspárþáttur fyrir aukinni dánartíðni eftir leiðréttingu fyrir aldri, kyni og stigi krabbameins (HH: 2,5; 95% ÖB: 1,8-3,3). Hátt NLR tengdist hærri 30 og 90 daga dánartíðni (p<0,001) og auknum líkum á innlögn innan 30 og 90 daga frá upphafi meðferðar (p<0,001).

ÁLYKTANIR

Hátt NLR fyrir upphaf meðferðar var sterkur forspárþáttur fyrir verri langtímalifun. Einnig gefa niðurstöður til kynna að stigvaxandi NLR eykur líkur á innlögn á spítala eftir upphaf meðferðar. Mögulegt er að NLR endurspegli alvarleika undirliggjandi sjúkdóms og gæti því gagnast til áhættustigunar fyrir upphaf lyfjameðferðar með flúorpýrimídínum.

V9 Tíðni og afdrif snemmkominnar beinmergsbælingar af völdum 5-flúoróúracíl og capecítabín lyfjameðferða

Helga Kristín Sigurðardóttir 1

1 Háskóli Íslands

Inngangur: 5-flúoróúracíl (5-FU) og forlyf þess, capecítabín, eru krabbameinslyf af flokki flúorpýrimídinlyfja (FP) og eru þau helst notuð við krabbameinum í meltingarvegi. Þessi lyf þolast almennt vel en þrátt fyrir það fá allt að 30% einstaklinga alvarlegar meðferðartengdar aukaverkanir. Beinmergsbæling er ein helsta aukaverkun FP-lyfja. Markmið rannsóknarinnar voru að kanna tíðni alvarlegrar beinmergsbælingar hjá einstaklingum sem fengu FP-lyfjameðferð, skilgreina þætti sem tengjast auknum líkum á snemmkominni beinmergsbælingu og bera saman afdrif einstaklinga eftir því hvort þeir fengu snemmkomna beinmergsbælingu eða ekki.

Aðferðir: Rannsóknin innihélt alla þá einstaklinga sem fengu krabbameinslyfjameðferð með 5-FU og capecítabín frá 2015 til 2019. Blóðprufugildum var safnað handvirkt úr sjúkraskrám. Skráð voru niður lægstu gildi innan þriggja mánaða tímabils eftir að FP-lyfjameðferð hófst og þau stiguð eftir skilmerkjum NCI-CTCAE v. 5. Tölfræðiúrvinnsla fór fram í Rstudio.

Niðurstöður: 615 einstaklingar fengu lyfjameðferð á tímabilinu, 80,7% fengu capecítabín, en 19,3% 5-FU. 1,8% fengu blóðleysi, 3,5% fengu hvítfrumnafæð, 7,8% fengu daufkyrningafæð, 7,6% fengu eitilfrumnafæð og 1,1% fengu blóðflögufæð af gráðu 3 eða hærra innan þriggja mánaða frá upphafi FP-lyfjameðferðar. Þættir sem tengdust alvarlegri beinmergsbælingu marktækt voru kvenkyn (OR: 1,09) og það að fá 5-FU (OR: 1,15), en aldur var ekki áhættuþáttur. Alvarleg eitilfrumnafæð tengdist verri lifun eftir leiðréttingu fyrir blöndunarþáttum (HR: 1,67).

Umræða: Tíðni snemmkominnar beinmergsbælingar af völdum FP-lyfja hefur ekki verið skoðuð í íslensku þýði áður, en niðurstöðum svipar til annarra rannsókna. Konur eru útsettari fyrir beinmergsbælingu en skammtaákvörðun tekur ekki tillit til kyns eins og er.

 

V10 Auka sýkingar líkur á góðkynja einstofna mótefnahækkun?

Marína Rós Levy 1, 2

Sæmundur Rögnvaldsson 1, 2, Alessandro Gasparini 3, Elías Eyþórsson 2, Guðrún Ásta Sigurðardóttir 1, Brynjar Viðarsson 2, Páll Torfi Öndundarson 1, 2, Bjarni Agnarsson 1, 2, Margrét Sigurðardóttir 1, Ísleifur Ólafsson 1, 2, Ingunn Þorsteinsdóttir 2, Ásdís Rósa Þórðardót 1, Ásbjörn Jónsson 4, Andri Ólafsson 1, Jón Sigurðsson 1, Ingigerður Sverrisdóttir 2, 5, Þórir Einarsson Long 1, 6, Malin Hultcrantz 7, Brian G. M. Durie 8, Stephen Harding 9, Hannah Bower 3, Ola Landgren 10, Þorvarður Jón Löve 1, 2, Sigurður Yngvi Kristinsson 1, 2, Sigrún Þorsteinsdóttir 1, 11

1 Háskóli Íslands
2 Landspítali Háskólasjúkrahús
3 Red Door Analytics
4 Sjúkrahúsið á Akureyri
5 Sahlgrenska University Hospital
6 Skåne University Hospital
7 Memorial Sloan-Kettering Cancer Center
8 Samuel Oschin Comprehensive Cancer Institute
9 Binding Site Group
10 University of Miami
11 Rigshospitalet

Inngangur

Sýkingar eru taldar eiga hlut í meingerð mergæxlis og forstigs þess, góðkynja einstofna mótefnahækkun (e. monoclonal gammopathy of undetermined significance, MGUS).

Markmið rannsóknarinnar er að meta tíðni sýkinga hjá einstaklingum sem síðar skimast jákvæðir fyrir MGUS samanborið við viðmið.

Efniviðurogaðferðir

Rannsóknin byggir á gögnum Blóðskimunar til bjargar, skimunarrannsóknar á MGUS sem öllum Íslendingum ≥40 ára var boðin þátttaka í árið 2016. Yfir helmingur markhóps tók þátt og hafa 75.422 blóðsýni (>93%) verið skimuð fyrir M-próteinum og léttum keðjum.

Sýkingar voru skoðaðar allt að 20 árum fyrir skimun með ICD-10 kóðum frá Landspítala, heilsugæslum og einkastofum ásamt ATC-kóðum frá Lyfjagagnagrunni Landlæknis.

Poisson aðhvarfsgreining var notuð til að reikna nýgengitíðni hlutfall (IRR) með 95% öryggisbili (ÖB) þar sem leiðrétt var fyrir aldri, kyni og árstíma.

Niðurstöður

Alls greindust 3.652 einstaklingar með MGUS (4,8%) og 338.486 sýkingar greiningum ásamt 917.564 lyfseðlum var safnað (Tafla1). Sýkingartíðnin var svipuð milli einstaklinga sem síðar greindust með MGUS samanborið við viðmið (IRR 1,01;ÖB 0,97-1,04)(Mynd1). Þegar undirflokkar sýkingargreininga og undirflokkar MGUS voru skoðaðir sást ekki marktækur munur.

Lítil aukning sást í uppáskrift sýklalyfja (IRR 1,034;ÖB 1,003-1,066). Í næmisgreiningu sást að aukningin var stuttu fyrir skimun og hvarf ef síðustu 5 árin voru tekin út.

Ályktun

Í okkar stóru lýðgrunduðu skimunarrannsókn byggð á >75.000 skimuðum einstaklingum, sást ekki aukin tíðni sýkinga fyrir jákvæða skimun á MGUS. Örlítil aukning var á sýklalyfja uppáskriftum stuttu áður en einstaklingar skimuðust jákvæðir, sem líklega skýrist af ógreindu MGUS og ónæmisbrest sem því getur fylgt. Við teljum því að sýkingar ekki orsaka MGUS.

V11 Langtímaáhrif hjartamagnýls á lifun sjúklinga með ristil- og endaþarmskrabbamein: 20 ára lýðgrunduð ferilrannsókn.

Arnar Ágústsson 1

Sigurdís Haraldsdóttir 1, Helgi Birgisson 2, Sigrún Lund 3, Arnar Ingason 4, Jóhann Hreinsson 5, Einar Björnsson 1

1 Landspítali
2 Krabbameinsskrá
3 Háskóli Íslands
4 Larner College of Medicine
5 Sahlgrenska

Inngangur: Rannsóknir hafa gefið misvísandi niðurstöður hvort hjartamagnýl sé tengt betri lifun sjúkinga með ristil-og endaþarmskrabbamein. Markmið rannsóknarinnar var að kanna tengsl hjartamagnýls við horfur sjúklinga með ristil-og endaþarmskrabbamein.

Efni og aðferðir: Um er að ræða lýðgrundaða ferilrannsókn. Listi allra einstaklinga sem fengu ristli-og endaþarmskrabbamein á árunum 2000-2019 á Íslandi fékkst frá Krabbameinsskrá og flett var upp í sjúkraskrám allra einstaklinga fyrir klínískar breytur. Pörun með áhættuskori (e. Propensity score matching) var gerð til að jafna áhrif áhættuþátta milli hópsins á hjartamagnýl og samanburðarhóps.

Niðurstöður: Alls voru 2557 einstaklingar í rannsókninni, þar af 559 (22%) sem tóku hjartamagnýl fyrir krabbameinsgreiningu. Hjartamagnýlhópurinn var eldri, oftar karlkyns og með hærri fylgisjúkdómabyrði. Meðal eftirfylgdartími var 48 mánuðir (Fjórðungamörk 16-97) fyrir hjartamagnýlhópinn og 53 mánuðir (FM: 14-114) fyrir samanburðarhóp. Hjartamagnýlhópurinn hafði lægra hlutfall einstaklinga með 4 stigs krabbamein (16% vs 24%, p<0.001). Heildarlifun var svipuð milli hópanna en krabbameinssértæk lifun var betri hjá hjartamagnýlhópnum. Við athugun á undirhópum þeirra sem greindust á stigi I-III var ekki munur á lifun og ekki heldur þegar horft var bara á einstaklinga með blæðingartengd einkenni.

Ályktun: Notkun hjartamagnýls var tengd við betri krabbameinssértæka lifun en ekki betri heildarlifun. Þessar niðurstöður gætu gefið til kynna að hjartamagnýl miðli sínum lifunarávinningi í gegnum færri einstaklinga með meinvarpandi krabbamein.

V12 Greining á Helicobacter pylori sýkingu hjá sjúklingum með magakrabbamein

Fehima Líf Purisevic 1, Einar Stefán Björnsson 1, 2

Ken Namikawa 2, Hjördís Harðardóttir 3, Magnús Konráðsson 2, Jón Gunnlaugur Jónasson 4

1 Læknadeild Háskóla Íslands
2 Meltingalækningardeild Landspítala
3 Sýkla- og veirufræðideild Landspítala
4 Meinafræðideild Landspítala

Inngangur: Helicobacter pylori (H. pylori) sýking er helsti þekkti áhættuþáttur magakrabbameins, en hefur lítið verið rannsakaður á Íslandi. Safngreiningar hafa sýnt að 60-65% magakrabbameina megi rekja til H. pylori í þróuðum löndum. Markmið rannsóknarinnar var að greina tilvist H. pylori (fyrri eða virka) hjá sjúklingum með magakrabbamein á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Framvirk rannsókn sem hófst 1. janúar 2024. Auk þess voru fundnir sjúklingar á lífi sem höfðu greinst með magakrabbamein og þeim boðin þátttaka. Vefjasýni voru tekin úr antrum og corpus hluta maga hjá sjúklingum með magakrabbamein og á þeim gerð ureasa-hraðpróf (Pronto-dry), vefjagreining og ræktun til greiningar H. pylori. Einnig voru mæld mótefni (IgG) gegn H. pylori í blóði. Ef eitthvert þessara prófa reyndist jákvætt var viðkomandi talinn vera með virka eða fyrri sýkingu.

Niðurstöður: Á rannsóknartímabilinu greindust 19 sjúklingar með adenocarcinoma í maga en vegna skorts á viðeigandi upplýsingum náði rannsóknin aðeins til 12 sjúklinga. Fimm (42%) voru karlar, meðalaldur 77 ár (spönn 56-91árs), 2/6 (33%) höfðu jákvætt ureasa-próf, 4/11 (36%) jákvæða vefjagreiningu, 1/7 (14%) jákvæða H. pylori ræktun, 2/9 (22%) jákvæða mótefnamælingu og 1/9 (11%) með vafasvar í mótefnamælingu. Alls 7/12 (58,3%) einstaklinganna reyndust því vera með merki um fyrri eða yfirstandandi H. pylori sýkingu.

Ályktun: Sjúklingar með adenocarcinoma í maga reyndust hafa merki H. pylori sýkingar í uþb. 60% tilfella, svipað og í rannsóknum erlendis. Tilfelli sem rekja má til H. pylori sýkingar gætu verið vanmetin vegna ófullnægjandi upplýsinga til að staðfesta tilvist sýkingar í rúmlega 30% einstaklinga.

Föstudagur kl. 15:00 – 16:15

Hópur B – leiðsögumaður: Rafn Benediktsson

 

V13 Vendingar í ábendingum lifrarígræðslna á Íslandi – afturskyggn rannsókn á íslensku heilþýði árin 2012-2023

Bjarki Leó Snorrason 1, 2, Einar Stefán Björnsson 1, 2

Sigurður Sölvi Sigurðsson 1, 2, Sigurður Ólafsson 1

1 Landspítali Háskólasjúkrahús
2 Háskóli Íslands

Inngangur: Nýgengi skorpulifrar á Íslandi hefur sögulega verið lágt en þó verið að aukast síðustu tvo áratugi. Frá því að fyrsta lifrarígræðslan var gerð árið 1984 til 2012 var helsta undirliggjandi orsök lifrarígræðslu frumkomin gallrásarbólga, sem var undirliggjandi ástæða í um 20% tilfella.

Markmið rannsóknar: Markmið rannsóknarinnar var að skoða þróun ábendinga fyrir lifrarígræðslu á síðasta áratuginn.

Aðferðir: Í þessari afturskyggnu heilþýðisrannsókn, söfnuðum við gögnum um ábendingar fyrir lifrarígræðslum í fullorðnum einstaklingum á árunum 2013-2023. Upplýsingum úr sjúkraskrám var safnað og niðurstöður bornar saman við gögn úr eldri rannsókn á sama viðfangsefni.

Niðurstöður: Á rannsóknartímabilinu voru 52 lifrarígræðslur (4 endurígræðslur) framkvæmdar á 48 sjúklingum, þar af 30 (63%) karlmönnum. Meðalaldur þýðisins var 54 ár. Meðalnýgengi lifrarígræðslna á tímabilinu var 13.1/1.000.000/ár, sem markaði aukningu frá tímabilinu 2007-2012 (8.9/1.000.000/ár). Aðal ábendingar lifrarígræðslu voru skorpulifur (60,4%), skorpulifur með lifrarfrumukrabbameini (23%), bráð lifrarbilun (4,2%) ásamt samansafni annarra ábendinga (12,5%). Leiðandi orsök lifrarígræðslu reyndist vera fitulifur tengdur efnaskiptavillu (23%), með nýgengi 3.03/1.000.000/ár samanborið við tímabilið 1984-2012 (0.12/1.000.000/ár) og markar 25-falda aukningu. Önnur algengasta orsökin reyndist áfengistengd skorpulifur (21%) og aðrar orsakir samanstóðu af PBC (8,3%), frumkominni trefjunargallgangabólga (8,3%), lifrarbólga C (8,3%), lifrarskaða af völdum lyfja (4,2%) og samansafni annarra orsaka (27%).

Ályktanir: Marktæk aukning hefur orðið á fjölda lifrarígræðsla á síðasta áratug, drifið áfram af aukningu í ígræðslum tengdum efnaskiptavillu og áfengi. Niðurstöður okkar kalla á nánara eftirlit með þeim sem eiga í hættu á að þurfa ígræðslu og hvetja til þróunar á lýðheilsuvísum til þess að stemma stigum við vaxandi þörf lifrarígræðslna á Íslandi.

V14 Lifrarskaði af völdum sýklalyfja á Landspítalanum

Róbert Alexander Björnsson 1

Dagur Tjörvi Arnarsson 1, Egill Logason 1, Sigurður Sölvi Sigurðarson 1, Einar Stefán Björnsson 1, 2

1 Háskóli Íslands
2 Landspítali Háskólasjúkrahús

Inngangur: Lifrarskaði af völdum lyfja (e. drug-induced liver injury, DILI) er mikilvæg mismunagreining hjá sjúklingum með hækkuð lifrarpróf. Faraldsfræðilegar rannsóknir hafa sýnt að sýklalyf er algengasti lyfjaflokkurinn sem veldur DILI. Fyrri íslensk rannsókn sýndi að 1 af hverjum 729 inniliggjandi sjúklingum sem var meðhöndlaður með amoxicillin/clavulanate fékk DILI, en ekki er ljóst hversu mikil áhætta er á DILI við notkun annara sýklalyfja. Markmið rannsóknarinnar var að kanna tíðni lifrarskaða af völdum mest notuðu sýklalyfjanna á Landspítalanum.

Aðferðir: Sjúkraskár allra fullorðinna sjúklinga sem fengu meðferð með 14 algengustu sýklalyfjunum á Landspítalanum 2012-2023 sem fengu í legunni: >5x hækkun efri mörk ALAT og/eða >2x hækkun efri marka ALP voru skoðaðar til að finna orsök lifrarprufuhækkananna. Ef DILI kom til greina, var notast við sk. RECAM líkindaútreikning til að meta orsakatengsl.

Niðurstöður: Alls uppfylltu 2575 sjúklingar inntökuskilyrði rannsóknarinnar. Af þeim reyndust 59 tilfelli hafa DILI vegna sýklalyfjanna, meðalaldur 61 (spönn 21-93), 45% karlar, 16 (27%) með gulu en enginn fékk lifrarbilun. Flestir af völdum amoxicillin/clavulanate (n=22) hjá 1: 1386 notendum (0,07%), ceftriaxone (n=11) 1: 2748 (0,04%), cefazolin (n=8) 1: 5567 (0,02%), cloxacillin 1: 4015 (n=6) (0,025%), piperacillin/tazobactam (n=5) 1: 620 (0,16%), vancomycin (n=3) 1: 1310 (0,076%), súlfainnihaldandi lyf (n=3) 1: 1096 (0,091%), ciprofloxacin (n=1) 1: 10938 (0,009%).

Ályktun:DILI var sjaldgæf aukaverkun sýklalyfja og greindust u.þ.b. 5 tilfelli ári, þar sem nánast 30% var með gulu en enginn lifrarbilun. Amoxicillin/Clavulansýra var algengasta orsök DILI en Piperacillin/Tazobactam var valdur að DILI hlutfallslega oftast miðað við notkun.

V15 Lifrarskaði af völdum lyfja á Íslandi 2009-2024: Orsakir, horfur og langtíma afleiðingar

Egill Logason 1

Róbert A. Björnsson 1, Sigurður Sölvi Sigurðarsson 1, Einar Stefán Björnsson 2

1 Læknadeild Háskóli Íslands
2 Landspítali Háskólasjúkrahús

Inngangur: Lifrarskaði af völdum lyfja (e. drug-induced liver injury, DILI) er sjaldgæfur en en getur valdið gulu og lifrarbilun. Markmið rannsóknarinnar var að kanna helstu orsakir DILI á Íslandi, hlutfall sjúklinga með langvinnar hækkanir á lifrarprófum 6 mánuðum eftir greiningu og horfur sjúklinga.

Aðferðir: Rannsóknin var aftursýn þar sem rannsökuð voru öll þekkt DILI tilfelli á Íslandi á árunum 2009-2024. Þröskuldsgildi fyrir hækkanir á lifrarprófum voru >5x hækkun efri mörk ALAT og/eða >2x hækkun efri mörk ALP og aðrir lifrarsjúkdómar útilokaðir með viðeigandi rannsóknum og paracetamóleitranir útilokaðar. Sjúkraskrár sjúklinga sem uppfylltu skilyrðin voru skoðaðar.

Niðurstöður: Alls greindust 278 sjúklingar með DILI á árunum 2009-2024, 175 konur (63%), meðalaldur 59 ár (spönn 16-94). Algengustu lyfin sem orsökuðu DILI voru amoxicilin/clavulanate 66/278 (22%), infliximab 28/278 (10%) og fæðubótarefni (8%). Alls voru 41 (15%) sjúklingar með langvinnar hækkanir lifrarprófa við sex mánuða eftirfylgni. Af þeim voru konur í 78% tilfella. Algengasta gerð lifrarskaða í þeim hópi var cholestatískur lifrarskaði. Þrír sjúklingar þróuðu með sér annan lifrarsjúkdóm, primary biliary cholangitis (n=2), autoimmune hepatitis/PBC (n=1) eftir að bráði lifrarskaðinn gekk yfir. Alls 5 sjúklingar (1.8%) létust vegna lifrarbilunar eða þurftu á lifrarígræðslu (n=1) að halda vegna DILI.

Ályktanir: Amoxicillin/clavulanate, infliximab og fæðubótarefni voru algengusta orsakirnar fyrir DILI á rannsóknartímabilinu. Alls 15% DILI tilfella voru með teikn um langvinnan lifrarskaða eftir sex mánuði, sem var algengara við cholestatískan skaða og hjá konum. Allt að 2% létust vegna lifrarskaða eða þurftu lifrarígræðslu vegna DILI. Þrír sjúklingar þróuðu með sér annan lifrarsjúkdóm í kjölfar DILI.

V16 Samanburður á lifrarskaða af völdum lyfja og lifrarskaða af völdum sýklasóttar

Egill Logason 1

Sigurður Sölvi Sigurðarsson 1, Róbert A. Björnsson 1, Edda Vésteinsdóttir 2, Sigurbergur Kárason 2, Einar Stefán Björnsson 2

1 Læknadeild Háskóli Íslands
2 Landspítali Háskólasjúkrahús

Inngangur: Lifrarskaði af völdum lyfja (e. drug-induced liver injury, DILI) og lifrarskaði af völdum sýklasóttar (e. sepsis induced liver injury, SILI) geta haft afar líkar sjúkdómsmyndir og því erfitt að greina á milli þeirra þegar sjúklingar með SILI t d fá sýklalyf sem geta valdið lifrarskaða. Markmið rannsóknarinnar var að bera saman sjúklinga með DILI og SILI til að reyna að greina mögulegan mun á klínískum einkennum, batatíma og horfur.

Aðferðir: Rannsóknin var aftursýn þar sem rannsökuð voru öll þekkt DILI og SILI tilfelli á Íslandi. DILI tilfellin voru frá árunum 2009-2024 og SILI tilfellin frá árunum 2006-2024. Sjúklingar þurftu að hafa: >5x hækkun efri mörk ALAT og/eða >2x hækkun efri mörk ALP. Sjúkraskrár sjúklinga sem uppfylltu skilyrðin voru skoðaðar.

Niðurstöður: Alls greindust 278 DILI sjúklingar (meðalaldur 59 ár, 63% konur) og 153 með SILI (meðalaldur 67 ár, 49% konur). Hæsta gildi ASAT var 1050 (IQR 355-2750) við SILI en 315 (180-661) við DILI, p<0,001, en hæstu gildi ALAT og ALP voru svipað milli hópanna. Hjá 43% SILI sjúklinganna urðu lifrarpróf eðlileg innan 2ja vikna sem gerðist aðeins hjá 5% í DILI hópnum, p<0,001. Miðgildi batatími við SILI var mun styttri, 12 dagar (8-29) en hjá DILI, 66 dagar (34-115), en 30 daga dánartíðni var 63% hjá SILI en 1.4% hjá DILI hópnum.

Ályktanir: Lifrarskaði við sýklasótt einkenndist af verulegum hækkunum á ASAT miðað þá sem greindust með DILI. Lifrarskaðinn samfara sýklasótt gekk mun hraðar tilbaka en við DILI, sem hjálpar til við að greina á milli SILI og DILI.

V17 Þróun frumubreytinga hjá sjúklingum með Barrett's vélinda

Melkorka Sverrisdóttir 1

Ken Namikawa 1, Einar Stefán Björnsson 1, Magnús Konráðsson 1

1 Landspítali

Inngangur: Barrett's vélinda (BV) er eini þekkti vefjauppruni kirtilþekjukrabbameins í vélinda. Ekki er ljóst hversu hátt hlutfall fólks þróar frumubreytingar út frá BV. Markmið rannsóknarinnar var að kanna þróun frumubreytinga frá BV og meta áhrif viðeigandi eftirfylgni á horfur sjúklinga.

Efniviður og aðferðir: Þetta var afturskyggn rannsókn á sjúklingum með staðfest BV á vefjagreiningu fundnir í meinafræðigagnagrunnum allra vefjarannsóknarstofa á Íslandi, 2003-2022 með meinafræðikóðunum T62000 og M73320. Viðeigandi upplýsingum var safnað úr sjúkraskrám. Gæði eftirfylgni var skilgreind í samræmi við nýjustu leiðbeiningar evrópskra speglunarlækna.

Niðurstöður: Alls höfðu 1388 sjúklingar staðfest BV, 948 karlar og 440 konur, miðgildi aldurs við greiningu 62 ár (IQR 53-72). Við greiningu á BV voru 9,4% með einhverskonar frumubreytingar, 65 með lággráðu dysplasiu (LGD), 16 með hágráðu dysplasiu (HGD) og 49 með kirtilþekjukrabbamein. Af þeim 65 sem voru með LGD þróuðu 11% HGD (n=5) eða kirtilþekjukrabbamein (n=2). Af þeim 1258 sem voru með BV án dysplasiu við greiningu þróuðu aðeins 4,6% seinna frumubreytingar, LGD (n=35), HGD (n=8) og kirtilþekjukrabbamein (n=15). Miðgildi eftirfylgnitíma var 5 ár (IQR 2-7). Af þeim 58 sem þróuðu frumubreytingar frá BV án dysplasiu voru 41 (71%) sem fengu viðeigandi eftirfylgni. Alls 32 (76%) af þeim sem fengu viðeigandi eftirfylgni fengu læknandi meðferð samanborið við 6 (38%) sem ekki fengu viðeigandi eftirfylgni (p<0,05).

Ályktun: Sjúklingar með lægri gráðu frumubreytinga við greiningu á BE voru ólíklegri til að þróa með sér alvarlegri frumubreytingar. Sjúklingar sem fengu viðeigandi eftirfylgni og greindust með æxli í vélinda voru líklegri til að greinast með æxli á læknanlegu stigi.

V18 Orsakir fyrir hækkun á ALAT og samtímis hækkun á ALAT og ALP með hliðsjón af lifrarskaða af völdum lyfja

Sigurður Sölvi Sigurðarson 1

Einar Stefán Björnsson 1, 2

1 Háskóli Íslands
2 Landspítali

Inngangur: Fyrri rannsókn á Landspítalanum á sjúklingum með tífalda hækkun á ALAT, sýndi að gallsteinar í gallrás, blóðþurrð í lifur, veirulifrarbólga og lifrarskaði af völdum lyfja (e. DILI) voru algengustu orsakirnar. Fáar framsýnar rannsóknir hafa kannað hvaða sjúkdómar orsaka samtímis hækkun á ALAT og ALP. Markmið rannsóknarinnar var að rannsaka algengustu sjúkdómsgreiningar vegna hækkana á annars vegar ALAT og hins vegar samtímis hækkun á ALAT og ALP og kanna hlutfall DILI í þýðinu.

Aðferðir: Framsýn rannsókn þar sem rannsóknarstofa LSH veitti upplýsingar um sjúklinga með: (A)>10x ALAT (>500U/L) og (B) >5x ALAT (>250 U/L) og >2x ALP (>210 U/L), á tveggja ára tímabili. Sjúkraskrár sjúklinga með skilgreindar hækkanir voru skoðaðar og greiningar skráðar.

Niðurstöður: Alls 835 höfðu fyrirfram skilgreindar hækkanir, 17 voru útilokaðir, vegna ónógra upplýsinga eða hækkanir utan lifrar. Alls 818 sjúklingar mynduðu rannsóknarhópinn, konur 451 (55%); meðalaldur 58 ár: Hópur A: ALAT>500 (n=500) og hópur B: ALAT>250/ALP>210 (n=318). Samtals 43% höfðu steina í gallvegum (n=352), 17% blóðþurrð í lifur (n=136), 9% DILI (n=70), 8% krabbamein (n=69), 6% veirulifrarbólgu (n=49), 7% með óljósa orsök (n=61) og 81 með aðrar greiningar. Blóðþurrð var marktækt algengari í hóp A en krabbamein í hóp B. Amoxicillin-Klavúlansýra og varðstöðvahemlar (e. checkpoint inhibitors) voru algengustu orsakir DILI.

Ályktanir: Steinar í gallvegum voru algengasta orsökin fyrir hækkun á bæði ALAT og ALP. Blóðþurrð í lifur orsakaði aðallega einangraða hækkun á ASAT en krabbameins-tengd hækkun orsakaði frekar samtímis ALAT og ALP hækkanir. Sýklalyf og varðstöðvahemlar voru algengustu orsakir DILI.

V19 Útkomur úr magaspeglunum hjá 18-50 ára einstaklingum með magaverki og meltingarónot

Andrea R. Einarsdóttir 1

Einar S. Björnsson 2, 3

1 Háskóli Íslands
2 Landspítali Háskólasjúkrahús
3 Háskóli Íslands

Inngangur: Algengt er að fólki yngra en 50 ára með meltingarónot sé vísað í magaspeglun. Mælt er með að nota aldur og rauð flögg (e. alarm features/red flags) til þess að ákvarða hvort magaspeglun sé viðeigandi sem fyrsta uppvinnsla. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvort fólk á aldrinum 18-50 ára án rauðra flagga hafi klínískt mikilvæga sjúkdóma í magaspeglun.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var aftursýn á 50 ára og yngri sem fóru í sína fyrstu magaspeglun á Landspítalanum 2018-2022. Upplýsingum um einkenni og niðurstöður speglunar var safnað. Viðeigandi ábending fyrir magaspeglun miðaði við nýjustu klínískar leiðbeiningar frá félagi speglunarlækna í Bandaríkjunum. Eftirfarandi rauð flögg voru viðeigandi ábendingar fyrir magaspeglun: grunur um blæðingu og/eða járnskortsblóðleysi, kyngingarerfiðleikar, þrálát uppköst, þyngdartap án útskýringar og fjölskyldusaga um krabbamein í efri meltingarvegi.

Niðurstöður: Alls voru 748 einstaklingar í rannsóknarþýðinu. Af þeim voru 516/748 (69%) með viðeigandi ábendingu (meðalaldur 36 ár, 52% karlar) en 232/748 (31%) ekki (meðalaldur 35 ár, 35% karlar). Útkomur hjá hópnum með viðeigandi ábendingu voru: vélindabólga (16%), magasár (4,3%), skeifugarnarsár (3,9%), vélindasár (2,1%), magakrabbamein (1,0%) og vélindakrabbamein (0,2%). Af þeim sem voru með óviðeigandi ábendingu voru klínískt mikilvægar útkomur mjög sjaldgæfar og aðeins 4/232 (1,7%) höfðu skeifugarnarsár og 1 með magasár (0,4%) allir tengdir H. pylori en engin krabbamein í maga, skeifugörn og vélinda greindust í þeim hóp.

Ályktun: Sjúklingar án rauðra flagga greindust mun sjaldnar með alvarlega sjúkdóma í efri meltingarvegi samanborið við einstaklinga með rauð flögg. Engin krabbamein greindust hjá þeim með óviðeigandi ábendingu og klínískt mikilvægar útkomur mjög sjaldgæfar.

V20 Bandvefsbreytingar í fitulifrarkvilla

Jökull Sindri Gunnarsson Breiðfjörð 1

Einar Stefán Björnsson 1

1 Háskóli Íslands

Inngangur: Fitulifrarkvilli er skilgreindur sem uppsöfnuð fita umfram 5% massa lifur. Algengustu orsakirnar eru MASLD (metabolic dysfunction associated steatotic liver disease) og áfengi (alcoholic fatty liver disease, AFLD). Minnihluti MASLD sjúklinga þróar með sér verulega bandvefsmyndun (fibrósu) og skorpulifur. Fibroscan sem mælir lifrarstífleika er notað í auknum mæli við mat á bandvefsmyndun. Markmiðið var að kanna þróun bandvefs í MASLD og AFLD og hvaða þættir hefðu áhrif.

Aðferðir: Þátttakendur voru sjúklingar sem höfðu farið í fibroscan á árunum 2016-2022 vegna MASLD og AFLD. Sjúklingar sem höfðu þróað með sér skorpulifur með klínískum fylgikvillum s s ascites, eftir fyrri mælingu voru útilokaðir. Fibroscan var framkvæmt og tengsl við áhættuþætti metin.

Niðurstöður: Alls höfðu 83 sjúklingar með MASLD og 24 AFLD farið í fibroscan, og tókst að mæla 37 sjúklinga með MASLD (68% konur, meðalaldur 56 ár ) og 10 AFLD sjúklinga (30% konur, meðalaldur 63), eftirfylgni tími milli mælinga 3,2 ár. Miðgildi lifrarstífleika var í fyrri mælingu 7,1 kPa og seinni 6,3 hjá MASLD, en 10 Kpa vs. 7,2 hjá AFLD (ekki marktækar breytingar innan hópanna). Þyngdaraukning hafði marktæk tengsl við breytingu í lifrarstífleika í MASLD sem útskýrði 32% dreifingu í stífleika. Lifrarstífleiki AFLD-þátttakenda sem hættu að drekka lækkaði verulega, -10,3 Kpa vs. + 0,7 KPa.

Ályktanir: Lifrarstífleiki hópanna breyttist ekki marktækt á milli mælinga eftir að meðaltali 3 ára eftirfylgni. Þyngdaraukning tengdist auknum lifrarstífleika hjá MASLD sjúklingum og áfengisbindindi lækkun á lifrarstífleika við AFLD. Þyngdarbreytingar gætu verið leiðbeinandi við tímalengd milli Fibroscan mælinga hjá NAFLD sjúklingum.

 

V21 Mikil minnkun á lifrarstífleika hjá sjúklingum með lifrarbólgu C eftir upprætingarmeðferð með veiruhemjandi lyfjum

Smári Freyr Kristjánsson 1, Einar Stefán Björnsson 1, 3

Magnús Gottfreðsson 1, 2, Sigurður Ólafsson 3, Þorvarður Jón Löve 1, 4

1 Læknadeild Háskóla Íslands
2 Smitsjúkdómadeild Landspítala
3 Meltingardeild Landspítala
4 Vísindadeild Landspítala

Inngangur: Langvinn lifrarbólga C (HCV) getur valdið skorpulifur og lifrarfrumukrabbameini. Árið 2016 fór af stað meðferðarátakið TraP HepC sem beindist að því að veita veiruhemjandi meðferð við HCV á Íslandi. Markmið rannsóknarinnar var að kanna þróun lifrarstífleika sem mælikvarða á bandvef (fibrósu) í lifur eftir lyfjameðferðina og aðra áhættuþætti fyrir bandvefsbreytingum.

Efniviður og aðferðir: Sjúklingar sem höfðu fengið meðferð með veiruhemjandi lyfjum og farið í FibroScan sem mælir lifrarstífleika, 2016-2024 með marktæka fíbrósu, stig III-IV (> 9.5 kPa) voru fundnir. Nýtt FibroScan var framkvæmt og helstu áhættuþættir fyrir lifrarsjúkdómum s.s. áfengisofnotkun og offita rannsökuð.

Niðurstöður: Af þeim sem höfðu undirgengist FibroScan fyrir veiruhemjandi meðferð voru alls 96 með marktæka fíbrósu, stig III-IV. Á þeim tíma höfðu 34/96 (35%) látist. Af þeim sem voru lifandi tókst að mæla 38/62 (61%) sjúklinga (18% konur, meðalaldur 58 ár), eftirfylgnitími milli mælinga 7.1 ár. Alls höfðu 25 (66%) merki um skorpulifur við fyrri mælingu sem hafði gengið tilbaka eftir meðferð hjá 20 (53%). Miðgildi lifrarstífleika fyrir meðferð var 17.2 (10.5-26.3) kPa og 7.3 (5.4-14.1) kPa eftir meðferð (p<0.01). Alls minnkaði lifrarstífleiki hjá 35 (92%) en hækkaði hjá 3 (8%). Hátt BMI og reglubundin áfengisnotkun höfðu marktæk tengsl við aukinn lifrarstífleika.

Ályktun: Meira en þriðjungur höfðu látist frá upphafi meðferðarátaks. Lifrarstífleiki sem mælikvarði á bandvef í lifur hafði minnkað marktækt hjá sjúklingum eftir að hafa losnað við veiruna og hjá hluta hafði skorpulifur gengið tilbaka. Sjúklingar með aðra áhættuþætti fyrir lifrarsjúkdómi s.s. offitu og ofnotkun áfengis höfðu minni lækkun eða aukningu í fibrósu eftir meðferðina.

V22 Fækkun HCV smita meðal HIV og lifrarbólgu C samsmitaðra einstaklinga þrátt fyrir háa tíðni endursmits

Kara Hlynsdottir 1

Magnús Gottfreðsson 2, Sigurður Ólafsson 1, Már Kristjánsson 1

1 Landspítali háskólasjúkrahús
2 Landspítali háskólasjúkrahús og Læknadeild Háskóla Íslands

Inngangur: Trap Hep C meðferðarátakið gegn lifrarbólgu C hefur náð góðum árangri við að uppfylla HCV markmið Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar {Olafsson, S. et al., 2021}. Endursmit gætu þó ógnað þeim árangri. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna tíðni HCV endursmits meðal sérstaks áhættuhóps þ.e. HIV og HCV samsmitaðra á árunum 2000–2024.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin náði til HIV jákvæðra einstaklinga með HCV mótefni á árunum 2000–2020. Sjúkraskrár þeirra voru skoðaðar með tilliti til endursmits og meðferðar. Eftirfylgnitími var mældur í persónuárum, frá fyrstu neikvæðu HCV RNA mælingu til nýjustu neikvæðu eða jákvæðu RNA mælingu á tímabilinu 1. janúar 2000 - 20. september 2024.

Niðurstöður: 78 einstaklingar voru með jákvæð HCV mótefni, þar af 61 með virka sýkingu (HCV RNA jákvæðir). Heildartími eftirfylgdar var 356,38 persónuár. Alls greindust 36 endursmit (2 höfðu ófullnægjandi gögn um eftirfylgd) en 34 voru nýtt til að reikna tíðni endursmits sem var 9,5 per 100 persónuár. Meðaltími að endursmiti voru 500 dagar (min: 80; max: 2406). 28% (n=22) af heildarþýði endursmitaðist einhvern tíman á tímabilinu. Á síðasta ári eftirfylgdar hafði enginn greinst með endursmit (mynd: fjöldi endursmita per ár).

Ályktun: Þrátt fyrir háa tíðni endursmits meðal HIV/HCV samsmitaðra einstaklinga, fækkar HCV smitum innan hópsins í kjölfar TraP Hep C meðferðarátaksins, sem sýnir fram á jákvæð áhrif þess.

V23 Clostridioides difficile á Landspítala 2017-2022

Arnar Þór Sigtryggsson 1

Magnús Gottfreðsson 1, 2, Agnar Bjarnason 1, 2, Kristján Orri Helgason 3

1 Læknadeild Háskóla Íslands
2 Smitsjúkdómadeild Landspítala
3 Sýkla- og veirufræðideild Landspítala

Tilgangur: Að kanna faraldsfræði, alvarleika, meðferð og horfur sjúklinga með Clostridioides difficile sýkingar (CDS) sem greindust á Landspítala árabilið 2017-2022.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknarþýðið voru fullorðnir sjúklingar á Landspítala með tvíjákvæð (PCR + EIA) greiningarpróf. Ef sami sjúklingur var með tvö eða fleiri jákvæð sýni innan 28 daga tímabils voru seinni sýnin talin endurspegla sömu sýkingu.

Niðurstöður: Alls greindust 358 sýkingar hjá 301 sjúklingi. Meirihluti sýkinga greindist meðal kvenna (59,5%). Meðalnýgengi CDS á tímabilinu var 3.9 sýkingar/10.000 legudagar. Nýgengið fylgdi hækkandi aldri og hélst svipað í gegnum rannsóknartímabilið. Endursýkingar greindust hjá 15,3% og meðaleftirfylgnitími var 1,6 persónuár. Að minnsta kosti 85,5% sjúklinga höfðu tekið sýklalyf innan mánaðar fyrir greiningu og höfðu flestir tekið lyf af flokki penicillína (57,8%) og þar á eftir úr flokki cefalósporína (51,5%). Ríflega helmingur sjúklinga (54,7%) hafði notað prótónupumpuhemla áður en sýkingin greindist. Algengasta upphafsmeðferð við CDS var metrónídazól (63,0%). Af þeim hópi þurftu 29,4% á frekari meðferð að halda innan 28 daga frá upphafi meðferðar. Saurflutningur frá gjafa var framkvæmdur í 13 (4,1%) tilfellum. Heildardánartíðni innan 30 daga frá greiningu var 7,3%.

Ályktanir: Nýgengi C.difficile sýkinga á Landspítala hélst stöðugt yfir rannsóknartímabilið og var sambærilegt og í Evrópu. Flestir þeirra sem sýktust höfðu einn eða fleiri áhættuþátt til staðar. Flestir fengu meðferð með sýklalyfjum og var metrónídazól þar algengast. Niðurstöður þessarar rannsóknar benda til að nýgengi sýkingarinnar sé stöðugt og birtingarmynd hafi lítið breyst, en nýir meðferðarmöguleikar lofa góðu.

V24 Gerviliðsýkingar á Íslandi 2003-2020: Hækkandi nýgengi og karlmenn í meiri áhættu

Ingunn Haraldsdóttir 1, Signý Lea Gunnlaugsdóttir 2

Dagur Friðrik Kristjánsson 1, Helga Erlendsdóttir 3, Kristján Orri Helgason 3, Elías Þór Guðbrandsson 4, Magnús Gottfreðsson 5

1 Læknadeild Háskóla Íslands
2 Lyflækningasvið Landspítala
3 Sýkla- og veirufræðideild Landspítala
4 Bæklunarskurðdeild Landspítala
5 Smitsjúkdómadeild Landspítal

Bakgrunnur: Síðustu áratugi hefur liðskiptaaðgerðum á Íslandi fjölgað til muna með samsvarandi aukningu á gerviliðsýkingum, sem eru mikil byrði fyrir sjúklinga og heilbrigðiskerfið. Þessi afturskyggna rannsókn lýsir faraldsfræði, klínískum einkennum og afleiðingum gerviliðsýkinga á Íslandi 2003-2020.

Efniviður og aðferðir: Tölur um fjölda liðskiptaaðgerða fengust frá Embætti landlæknis. Gögnum um gerviliðsýkingar var safnað út frá jákvæðum liðvökvasýnum og ICD-greiningarkóðum á Íslandi yfir 18 ára tímabil. Eftirfylgd var að lágmarki tvö ár.

Niðurstöður: Alls greindust 293 tilfelli af gerviliðsýkingum í mjöðm, hné og öxl. Meðalaldur sjúklinga var 70 ár, 60% voru karlar og 58% tilfella voru í hné. Í yfir helmingi tilfella kom sýking fram innan tveggja ára frá liðskiptaaðgerð, með nýgengi 0,94%. Marktæk hækkun var á nýgengi þessara sýkinga á síðari hluta rannsóknartímabilsins (p<0,01). Nýgengi var marktækt lægra meðal kvenna miðað við karla (nýgengihlutfall 0,42; p<0,001). Algengustu meinvaldar voru kóagúlasa-neikvæðir stafýlókokkar og Staphylococcus aureus, í 9% tilfella fannst enginn meinvaldur. DAIR meðferð var fyrsta meðferð í ríflega helmingi allra tilfella. Fyrsta meðferð skilaði árangri í 62% allra tilfella, DAIR meðferð skilaði tilætluðum árangri í rétt rúmum helmingi tilfella. Dauðsföll voru tengd gerviliðsýkingum í 2% tilfella.

Ályktun: Niðurstöður benda til vaxandi tíðni gerviliðsýkinga, þar sem sýkingaráhætta er mest innan tveggja ára frá liðskiptaaðgerð. Karlar eru í meiri hættu á að fá sýkingar, en fleiri konur fara í liðskiptaaðgerðir. DAIR meðferð skilaði dræmum árangri samanborið við aðrar birtar rannsóknir. Árangur DAIR batnaði þó marktækt yfir tímabilið, sem gæti tengst vandaðra vali á sjúklingum. Þörf er á bættum fyrirbyggjandi aðgerðum gegn gerviliðsýkingum.

Laugardagur kl. 15:30 – 16:50

Hópur B – leiðsögumaður: Einar Stefán Björnsson

 

V25 Algengi og nýgengi fjöllyfjameðferðar með lyflæknissjúklinga sem leggjast inn á spítala

Freyja Jónsdóttir 1

Martin Ingi Sigurðsson 1, Anna Bryndís Blöndal 1, Ian Bates 2, Jennifer Stevenson 3

1 Háskóli Íslands
2 Univeristy collega London
3 Kings College London

Bakgrunnur: Fjöllyfjameðferð er þekktur áhættuþáttur fyrir verri klíniskum útkomum en meðal lyflæknissjúklinga virðast vera takmörkuð tengs milli fjöllyfjameðferðar og sjúkdómsbyrði og því er fjöllyfjameðferðin hugsanlega borin uppi af mögulega óviðeigandi lyfjameðferðum. Markmið rannsóknarinnar var að meta algengi og nýgengi fjöllyfjameðferðar.

Rannsóknarsnið var aftursýn lýsandi rannsókn meðal lyflæknissjúklinga ≥18 ára á Landspítala á tímabilinu 2010–2020. Þátttakendur voru flokkaðir eftir fjölda lyfja sem þeir tóku árið fyrir innlögn, ekki fjöllyfjameðferð (<5), fjöllyfjameðferð og ofur fjöllyfjameðferð (>10).

Niðurstöður: Meðal 85942 innlagna (51% karlar, meðalaldur [IQR] 73 [60-83] ár. Algengi ekki fjöllyfjameðferðar var 15.1% 95% ÖB:14.9-15.3), fjöllyfjameðferðar 22.9% (95% ÖB:22.6-23.2), og ofurfjöllyfjameðferðar var 62.5% (95% ÖB:62.2-62.9). Nýgengi fjöllyfjameðferðar eftir innlögn var 33.4% (95% ÖB: 32.9-33.9), og fyrir ofurfjöllyfjameðferðar var 28.9% (95% CI:28.3-29.5) fyrir sjúklinga sem voru með fjöllyfjameðferð fyrir innlögn. Sjúklingar með aukna fjöllyfjameðferð voru líklegri til að nýta sér lyfjaskömmtun og hafa verið greindir með aukaverkun vegna lyfs. Algengasta lyfjaávísunin eftir innlögn voru lyf sem verka á miðtaugakerfið (80.6%), því næst hjartalyf (74.5%) og sýklalyfs (60.7%).

Ályktun: Fjöllyfjameðferð og ofurfjöllyfjameðferð fyrir innlögn og ný fjöllyfjameðferð og ofurfjöllyfja eftir útskrift er algeng meðal lyflæknissjúklinga. Aukin byrði fjöllyfjameðferðar reyndist ekk hafa tengsl við klínískar útkomur. Lyf sem oft er talin mögulega óviðeigandi meðal mest ávísaðra lyfja í rannsókninni, sem bendir til þess að óviðeigandi ávísun gæti verið mikilvægur drifkraftur fjöllyfjameðferðar. Nauðsynlegt er að aukna áherslu á að yfirfara lyfjanotkun og sérstaklega í kjöflar innlangar á spítala þar sem innlögn á sjúkrahús getur leitt til óviðeigandi ávísunar.

V26 Áhrif stöðvunar litíummeðferðar á reiknaðan gaukulsíunarhraða og framrás langvinns nýrnasjúkdóms.

Gísli Gislason 1, 2

Engilbert Sigurðsson 1, 3, Runólfur Pálsson 1, 4, Ólafur Skúli Indriðason 4

1 Læknadeild Háskóla Íslands
2 Sjúkrahúsið á Akureyri
3 Geðþjónusta Landspítala
4 Nýrnalækningaeining Lyflækningaþjónustu, Landspítala

Inngangur: Skert nýrnastarfsemi er þekktur fylgikvilli litíummeðferðar þó að mikilvægi litíums og áhrif annarra áhættuþátta séu ekki fullljós. Ekki hefur heldur verið vel rannsakað hvort nýrnastarfsemi skáni við að stöðva litíummeðferð. Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða breytingar á nýrnastarfsemi við að stoppa litíum.

Efniviður og aðferðir: Þetta var afturvirk rannsókn. Þátttakendur voru allir sjúklingar sem fengu meðferð með litíum á árunum 2003-2018. Litíummeðferð var skilgreind sem tvær eða fleiri styrkmælingar litíums í blóði og/eða ein eða fleiri litíumávísanir í lyfjagagnagrunni Landlæknisembættisins. Gaukulsíunarhraði var reiknaður (r-GSH) út frá kreatínínhluta CKD-EPI -jöfnunnar frá 2009. Reiknaður var meðal r-GSH fyrir hvern einstakling á hverju ári frá því 5 árum fyrir þar til 5 árum eftir að litíum var stöðvað. Borin voru saman miðgildi rGSH milli tímabila með stiklausum prófum.

Niðurstöður: Á tímabilinu var litíum stöðvað hjá 682 einstaklingum þar sem til voru kreatínín-mælingar a.m.k. ári fyrir og ári eftir stöðvun þess. Af þeim var 81 með LNS áður en meðferðin var stöðvuð. Marktæk lækkun var á miðgildi r-GSH frá 5, 4 og 3 árum fyrir stöðvun litíummeðferðar miðað við árið er það var stöðvað en ekki var marktækur munur á miðgildi r-GSH stöðvunarárið borið saman við árin eftir. Við greiningu á undidrhópi einstaklinga sem voru með LNS fyrir stöðvun litíummeðferðar sást svipað mynstur; miðgildi 5, 4 og 3 árum fyrir stöðvun voru marktækt hærri en árið sem litíum var stöðvað (mynd).

Ályktanir: Stöðvun litíummeðferðar virðist hægja á lækkun r-GSH og stöðva framrás LNS.

V27 Alport Syndrome á Íslandi: faraldsfræði og horfur

Saga Ingadóttir 1, 2

Viðar Eðvarðsson 1, 2, 3, Ólafur Indriðason 1, Sindri Valdimarsson 1, 3, Hjördís Þorsteinsdóttir 3

1 Landspítali
2 Háskóli Íslands
3 Domus Barnalæknar

Inngangur: Alport syndrome (AS) orsakast af stökkbreytingum í kollagen IV genum, COL4A3, COL4A4 og COL4A5. Þrjár gerðir hafa verið skilgreindar: kynbundið AS (XLAS) og tvær samlitnings AS; ríkjandi (ADAS) og víkjandi (ARAS).

Aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og náði til allra Íslendinga sem greindust með AS á árunum 1968-2023. Leitað var að tilfellum með greiningarkóðum úr rafrænum sjúkraskrám, í Íslensku nýrnabilunarskránni og með ættrakningu. Greiningar voru staðfestar með lestri sjúkraskráa. Lokastigsnýrnabilun (LSNB) var skilgreind sem þörf fyrir skilun eða nýraígræðslu. Klínísk birtingarmynd, fjölskyldusaga og erfðarannsóknir voru notaðar við greiningu XLAS. Einstaklingar með viðvarandi gauklablóðmigu þar sem aðrar orsakir höfðu verið útilokaðar voru taldir hafa ADAS.

Niðurstöður: Alls greindust 96 einstaklingar með AS, 52 með XLAS (13 karlkyns) og 44 með ADAS (18 karlkyns). Af 52 XLAS tilfellum voru 45 staðfest með erfðagreiningu eða erfðagreiningu fjölskyldumeðlims en einungis 3 ADAS tilfelli. Meðalaldur (±staðalfrávik) við greiningu XLAS var 27,3±20,7 ár en 10,5±9,7 ár fyrir ADAS. Algengi AS í janúar 2024 var 22,9 fyrir hverja 100.000 íbúa (11,5 fyrir XLAS og 11,5 fyrir ADAS). Nýgengi síðustu 20 ár var 1/13.000 fæðingar fyrir XLAS og 1/4.000 fæðingar hjá ADAS. Alls fengu 11 einstaklingar með XLAS lokastigsnýrnabilun, 7 karlar og 4 konur, miðgildi (spönn) aldurs við LSNB var 19 (16-25) ár hjá körlum og 54 (37-69) ár hjá konum. Enginn einstaklingur með ADAS fékk LSNB.

Ályktun: Algengi og nýgengi AS á Íslandi er svipað og í nágrannalöndum. Hátt hlutfall karla með XLAS fær LSNB snemma en konur fá LSNB seinna. Horfur einstaklinga með ADAS eru góðar.

V28 Horfur sjúklinga með bráðan nýrnaskaða á bráðamóttöku: Framsýn, tilfellamiðuð rannsókn

Telma Huld Ragnarsdóttir 1

Margrét Kristjándóttir 2, Gísli Gíslason 3, Ólafur Samúelsson 4, Vicente Ingelmo 5, Margrét Ó Tómasdóttir 6, Runólfur Pálsson 7, 8, Ólafur S Indriðason 7

1 Landspitali
2 Lyflækningaþjónusta Landspítala
3 Barnaspítali Hringsins
4 Eir
5 Bráðaþjónusta Landspítala
6 Heilsugæsla Höfuðborgarsvæðisins
7 Nýrnalækningaeining Landspítala
8 Læknadeild Háskóla Íslands

Inngangur: Bráður nýrnaskaði (BNS) er algengur og alvarlegur fylgikvilli bráðra veikinda og hefur neikvæð áhrif á batahorfur. Markmið rannsóknarinnar var að kanna innlagnir og dánartíðni sjúklinga sem greindust með BNS á bráðamóttöku Landspítala.

Aðferðir: Um er að ræða framsýna, tilfellamiðaða rannsókn þar sem kreatíníngildi allra sjúklinga er leituðu á bráðamóttöku Landspítala voru metin með tilliti til BNS á tilteknum tímabilum árin 2020 og 2021, en í tvígang þrufti að gera hlé á rannsókninni vegna Covid-19. Einstaklingum sem uppfylltu KDIGO-skilmerki fyrir BNS var boðin þátttaka ásamt viðmiðum (1:2) sem pöruð voru m.t.t. aldurs, kyns og tíma heimsóknar. Þátttakendur undirrituðu upplýst samþykki, veittu upplýsingar um sjúkrasögu og lyfjanotkun og var fylgt eftir í rafrænni sjúkraskrá í eitt ár eftir komu.

Niðurstöður: Alls voru greind 602 tilfelli BNS í 574 einstaklingum á tímabilinu og af þeim tóku 488 þátt (512 tilfelli). Meðalaldur (±staðalfrávik) BNS-tilfella var 67,1±16,6 ár og viðmiða 67,2±16,2 ár; 48% þátttakenda voru konur. BNS-hópurinn var marktækt líklegri til að vera lagður inn á sjúkrahús (77,1% vs 59,9%, p<0,001) og innlagardagar voru fleiri (8,0±10,9 vs 4,9 ± 15,4 dagar, p<0.001). Sjúklingar með BNS voru marktækt líklegri til að deyja í spítalalegunni (6,3% vs. 2,4%, p<0,001), og bæði á fyrstu 90 dögunum (11,1% vs 4,9%, p<0,001) og á fyrsta árinu eftir komu á bráðamóttöku (17,4% vs 11,2%, p<0,001). Ekki var marktækur munur á endurinnlögnum innan mánaðar (14,9% vs 12,4%) eða eins árs (40,8% vs 38,6%).

Ályktun: Horfur sjúklinga sem greinast með BNS á bráðamóttöku eru lakari en viðmiðunarhóps.

 

 

V29 Notkun skilunarleggja hjá blóðskilunarsjúklingum á Íslandi og blóðsýkingar í tengslum við notkun þeirra

Lára B Birgisdóttir 1

Ólafur S Indriðason 2, Runólfur Pálsson 1, 2, Ásta D Jónasdóttir 1, 2

1 Læknadeild Háskóla Íslands
2 Nýrnalækningaeining Landspítala

Inngangur. Blóðskilunarmeðferð krefst öruggs æðaaðgengis, helst fistills eða gerviæðarfistills. Þó notast margir sjúklingar við blóðskilunarlegg en þeir eru viðkvæmir fyrir fyllgikvillum, einkum sýkingum. Markmið rannsóknarinnar var að skoða notkun blóðskilunarleggja á Íslandi og algengi blóðsýkinga í tengslum við notkun þeirra.

Aðferðir. Afturskyggn rannsókn sem náði til allra sjúklinga >18 ára er hófu blóðskilunarmeðferð á Íslandi á árunum 2017-2022. Upplýsingum um tegund æðaaðgengis og fylgikvilla í tengslum við aðgengi auk annarra klínískra upplýsinga var aflað úr sjúkraskrám. Aðgengistengd blóðsýking var skilgreind sem jákvæð ræktun úr bláæð eða skilunarblóðrás án merkja um aðra sýkingu. Nýgengi blóðsýkinga var reiknað á sjúklingaár með hvert aðgengi.

Niðurstöður. Af 164 sjúklingum sem hófu blóðskilun á tímabilinu byrjuðu 79 (42,8%) með langtímaskilunarlegg, 35 (21,3%) með skammtímaskilunarlegg, 47 (28,7%) með fistil og 3 (1,8%) með gerviæðarfistil. Alls notuðu 127 (77,4%) sjúklingar blóðskilunarlegg á einhverjum tímapunkti. Notkun langtímaskilunarleggja jókst á tímabilinu. Árið 2017 voru 23 langtímaleggir settir í 18 einstaklinga samanborið við 38 leggi hjá 32 einstaklingum árið 2022. Notkun skammtímaskilunarleggja minnkaði frá árinu 2017 þegar 13 skammtímaleggir voru settir í 12 einstaklinga samanborið við einn legg árið 2022. Nýgengi aðgengistengdra blóðsýkinga á sjúklingaár var 0,28 fyrir langtímaleggi, 1,37 fyrir skammtímaleggi og 0,025 fyrir frumkomna fistla, einginn með gerfiæðarfistil fékk blóðsýkingu. Staphylococcus aureus olli 14 (37.8%) blóðsýkingum og kóagúlsasa-neikvæðir stafýlókokkar 10 (27%) blóðsýkingum.

Umræður. Notkun blóðskilunarleggja er algeng á Íslandi samanborið við lönd í Evrópu, einkum hefur notkun langtímablóðskilunarleggja aukist. Blóðsýkingar eru mun tíðari við notkun leggja en fistla og því ætti að stefna að fistilaðgerð hjá sem flestum.

V30 Kalkdrep á Íslandi: Nýgengi, áhættuþættir og horfur

Guðbjörg E Pálsdóttir 1

Ólafur S Indriðason 2, Runólfur Pálsson 1, 2, Ásta D Jónasdóttir 1, 2

1 Læknadeild Háskóla Íslands
2 Nýrnalækningaeining Landspítala

Inngangur: Kalkdrep er sjaldgæft en alvarlegt sjúkdómsástand, sem einkum finnst hjá sjúklingum með lokastigsnýrnabilun, og einkennist af útfellingum kalsíums í smáum æðum sem leitt getur til sáramyndunar og dreps í húð. Markmið rannsóknarinnar var að skoða nýgengi, áhættuþætti og afdrif sjúklinga með kalkdrep hér á landi á árunum 1990-2022.

Aðferðir: Rannsóknin var afturvirk tilfella- og viðmiða rannsókn. Tilfella var leitað með því að yfirfara sjúkdómsgreiningar, vefjagreiningar og upplýsingar um meðferð með natríumþíósúlfati í sjúkraskrárgögnum Landspítala. Jafnframt leitað til starfandi nýrnalækna til að finna sjúklinga með kalkdrep. Samanburðarhópur var myndaður (1:1) meðal skilunarsjúklinga á Landspítala og paraður m.t.t aldurs, kyns og tíma í skilunarmeðferð. Fyrir þátttakendur var aflað upplýsinga úr sjúkraskrám um heilsufar, lyfjanotkun, ýmsar blóðrannsóknir og dánardag.

Niðurstöður: Á rannsóknartímabilinu greindust alls 22 einstaklingar með kalkdrep, þar af 19 (86%) með lokastigsnýrnabilun, af þeim höfðu 16 hafið skilunarmeðferð. Meðalnýgengi kalkdreps var 80 á hverja 10.000 skilunarsjúklinga á ári og meðalaukning á nýgengi var 7,9% milli ára. Ekki var marktækur munur milli tilfella og viðmiða m.t.t. undirliggjandi sjúkdóma eða annarra áhættuþátta. Eins árs lifun var 58% frá greiningu kalkdreps og miðgildi lifunar 99 dagar. Miðgildi lifunar árin 1990-2016 var 61 dagur en 644 dagar eftir 2016. Eins árs lifun frá upphafi skilunar var 55% fyrir kalkdrepssjúklinga og 89% fyrir viðmiðunarhópinn (p=0,04, log-rank-próf).

Ályktanir: Nýgengi kalkdreps á Íslandi er hátt miðað við önnur lönd og virðist hafa aukist síðustu ár. Dánartíðni er há og svipuð því sem hefur komið fram í nýlegum erlendum rannsóknum en horfur virðast þó hafa skánað síðustu ár.

V31 Áhrif 2,8-díhýdroxýadeníns á nýrnafrumur

Hildur Rún Helgudóttir 1

Runólfur Pálsson 1, 2, Viðar Örn Eðvarðsson 1, 2, Þórarinn Guðjónsson 1, 2

1 Læknadeild Háskóla Íslands
2 Landspítali

Inngangur

Skortur á ensíminu adenínfosfóríbósýltransferasa (APRT-skortur) er sjaldgæfur víkjandi sjúkdómur sem veldur stórauknum útskilnaði 2,8-díhýdroxýadeníns (DHA) um nýru. Afleiðingin er myndun nýrnasteina og kristallatengdra skemmda í nýrum með tilheyrandi bólgu og bandvefsmyndun. Áhrif kalsíumoxalat- og þvagsýrukristalla hafa áður verið rannsökuð í frumuræktarlíkönum en áhrif DHA hafa ekki enn verið rannsökuð með þeim hætti. Markmið þessarar rannsóknar er að þróa frumuræktarlíkan til að skoða nýrnaskaða af völdum DHA-kristalla og greina kenniprótein sem gætu verið gagnleg lyfjamörk fyrir meðferð við APRT-skorti.

Efniviður og aðferðir

Þrjár nýrnaþekjufrumulínur (MDCK, HK-2 og HEK293) voru meðhöndlaðar með DHA í styrk svipuðum og þeim sem finnst í þvagi sjúklinga með APRT-skort. Framkvæmd voru frumulífvænleika próf, RT-PCR, western blotting og ónæmislitanir. Nýrnavefjasýni frá sjúklingum með APRT-skort og frá heilbrigðum einstaklingum til samanburðar voru fengin úr Lífsýnabanka Landspítala og svipgerðargreind með ónæmislitun.

Niðurstöður

Eftir 72 klst. ræktun með DHA (60-480 μg/mL) minnkaði lífvænleiki allra frumulína. Eftir 24 klst. ræktun með DHA (120 og 480 μg/mL) minnkaði einnig frumuskrið við hæsta styrk. Aukin CD44-tjáning sást í frumulínum eftir meðhöndlun með DHA. MDCK-frumur mynduðu skautað frumulag þegar þær voru ræktaðar á transwell-pólýesterhimnum og sýndu minnkað rafviðnám (e. TEER) þegar þær voru meðhöndlaðar með DHA (120 og 480 μg/mL). Nýrnavefjasýni frá sjúklingum með APRT-skort sýndu aukna tjáningu á kollageni I og III borið saman við sýni frá heilbrigðum einstaklingum.

Ályktun

Á heildina litið sýna þessar niðurstöður áhrif DHA á lífvænleika, frumuskrið og þekjubrest í nýrnaþekjufrumum og benda til hlutverks DHA í miðlun nýrnatrefjunar hjá sjúklingum með APRT-skort.

V32 Millivefslungnabreytingar, kransæðasjúkdómur og dánartíðni

 

Gunnar Guðmundsson 1, 2

Claire Cutting 3, Heiða Bjarnadóttir 4, Valborg Guðmundsdóttir 4, Sigurður Sigurðsson 4, Gary Matt Hunninghake 3, Rachel K Putman 3, Vilmundur Guðnason 4

1 Læknadeild Háskóla Íslands
2 Landspítali
3 Division of Pulmonary and Critical Care Medicine, Brigham and Women's Hospital
4 Hjartavernd

Inngangur: Millivefslungnabreytingar (MLB) sjást á tölvusneiðmyndum af brjóstholi og geta verið merki um byrjandi lungnatrefjun. Margir áhættuþættir MLB eru einnig áhættuþættir kransæðasjúkdóms (KS). Ekki er vitað hvort MLB tengist KS né hvort slík tengsl hafi áhrif á dánartíðni.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknahópur voru þeir þátttakendur í Genetic Epidemiology of Chronic Obstructive Pulmonary Disease study (COPDGene) og Age Gene/Environment Susceptibility (AGES)-Reykjavik rannsóknunum þar sem upplýsingar voru til um MLB, klíniskan KS og kransæðakalk. Fjölþátta aðhvarfsgreining mat tengsl milli MLB og KS. Hlutfallshættulíkön Cox voru notuð til að meta dánartíðni í tengslum við MLB og KS. Líkönin voru leiðrétt fyrir fjöldamörgum þáttum.

Niðurstöður: Í báðum úrtökum höfðu 9% með KS einnig MLB. Þeir sem voru með MLB voru í aukinn áhættu að hafa KS í bæði COPDGene (Líkindahlutfall [LH] 1.6, 95% öryggisbil [ÖB]: 1.2 til 2.0, P<0.001) og í AGES-Reykjavik (LH 1.6, 1.2 til 2.0, P<0.001). Í COPDGene höfðu þeir sem bæði höfðu KS og MLB hærri dánartíðni en þeir sem voru með KS án MLB (hættuhlutfall [HH] 2.0, 95% ÖB: 1.4 til 2.7, P<0.001) og (HH 1.7, 95% ÖB: 1.4 til 2.2, P<0.001). Það sama sást í AGES-Reykjavik rannsókninni, (HH 1.3, 95% ÖB: 1.1 til 1.4, P<0.001) og (HR 1.3, 95% CI: 1.2 til 1.4, P<0.001). Í þátttakendum í AGES-Reykjavik með KS juku MLB líkurnar á dauða vegna öndunarfæra nífalt, (LH=9.6, 95% ÖB 3.2 til 29, P<0.0001).

Ályktun: Algengt er að MLB sjáist með KS og þær auka dánartíðni. Þetta bendir til að MLB séu mikilvægur fylgisjúkdómur við KS

V33 Faraldsfræði skamm- og langtímanotkunar ópíóíða í kjölfar innlagnar á lyflækningadeild

Freyja Jónsdóttir 1

Martin Ingi Sigurðsson 1, Ína Lísa Gísladóttir 2

1 Landspítali
2 Háskóli Íslands

Inngangur: Ópíóíðar eru sterk verkjalyf, almennt ætluð til skammtíma notkunar en við langvarandi notkun aukast líkur á aukaverkunum. Markmið rannsóknarinnar var að skoða algengi, nýgengi, áhættuþætti og klínískar útkomur sem tengdust notkun ópíóíða hjá sjúklingum sem lögðust inn á Landspítala.

Efniviður og aðferðir: Aftursýn lýsandi hóprannsókn sem náði yfir innlagnir sjúklinga, 18 ára og eldri, sem lögðust inn á Landspítala á vegum lyflækninga frá 1. janúar 2010 til 31. desember 2020. Sjúklingum var skipt upp eftir notkun þeirra á ópíóíðum og voru með króníska notkun ef leystur var út ópíóíði á árinu fyrir innlögn, enga notkun ef hvorki var leystur út ópíóíði á árinu fyrir innlögn né 180 dögum eftir útskrift, nýja skammtímanotkun ef leystur var út ópíóíði 0-90 dögum frá útskrift og nýja langvarandi notkun ef leystur var út ópíóíði á dögum 0-90 og 90-180 frá útskrift.

Niðurstöður: Heildarfjöldi innlagna á tímabilinu voru 85.942. Þar af voru 50,7% (95% öryggisbil (ÖB), 50,4%-51,0%) með króníska notkun. Meðal þeirra sem ekki höfðu leyst út ópíóíða á árinu fyrir innlögn hófu 15,5% (95% ÖB, 15,2%-15,9%) nýja notkun. Af þeim voru 28,5% (95% ÖB, 27,4%-29,6%) sem hófu nýja langvarandi notkun. Langvinn lungnateppa og heilabilun, ásamt notkunar tveggja eða fleiri mismunandi tegunda ópíóíða, morfíns og oxýkódons höfðu aukin gagnlíkindi fyrir nýrri langvarandi notkun meðal nýrra notenda.

Ályktun: Notkun ópíóíða í kjölfar innlagnar á lyflækningadeild er algeng og nýgengi langvarandi notkunar er hátt. Niðurstöður rannsóknarinnar undirstrika mikilvægi þess að rannsaka þurfi aðferðir sem gætu gagnast við endurmat á meðferðum með ópíóíðum og lágmarkað notkun þeirra.

V34 Faraldsfræði notkunar benzódíazepín-lyfja í aðdraganda og kjölfar innlagna á lyflæknisdeildir Landspítala

Eygló Sóley Hróðmarsdóttir Löve 1

Martin Ingi Sigurðsson 2, Freyja Jónsdóttir 3

1 Háskóli Íslands
2 Landspítali
3 Landspítali

Inngangur: Notkun benzódíazepínlyfja er vaxandi og áhyggjuvaldandi. Lyfin eru ávanabindandi og hafa sterk tengsl við lyfjatengdan skaða. Notkun lyfjanna er mikil hérlendis og óljóst hvernig langvinn notkun hefst. Áður hefur verið sýnt að hluti notkunar hefst í kjölfar skurðaðgerða á Landspítala. Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á faraldsfræði benzódíazepínnotkunar í aðdraganda og kjölfar innlagna á lyflækningasvið Landspítala.

Efni og aðferðir: Rannsókn var afturskyggn ferilrannsókn sem náði utan um allar innlagnir sjúklinga ≥18 á Landspítalanum 2010-2020. Upplýsingar fengust úr Íslenska lyflækningagagnagrunninum. Sjúklingum var skipt eftir notkunarmynstri benzódíazepín-útleysingar. Algengi og nýgengi nýrrar og nýrrar langvinnrar benzódíazepínnotkunar var mæld. Ein- og fjölbreytugreiningar voru gerðar til þess að meta tengsl sjúklinga- og innlagnartengdra breyta við nýja og nýja langvinna notkun.

Niðurstöður: Af 75.484 innlögnum leystu 27,3% sjúklinga út lyfseðil fyrir lyfjunum árið fyrir innlögn. Af þeim sem ekki höfðu leyst út benzódíazepín hófu 6,3% nýja notkun, af þeim hófu 39,4% nýja langvinna notkun. Sjúklingar sem voru kvenkyns eða lögðust inn á sérgreinar blóð-, krabbameins- eða líknarlækninga reyndust í aukinni hættu á nýrri notkun. Af sjúklingum sem hófu nýja notkun reyndust sjúklingar sem leystu út tvö eða fleiri mismunandi benzódíazepín, voru kvenkyns, voru með undirliggjandi langvinna lungnateppu eða lögðust inn á sérsviðum hjarta-, meltingar-, lungna-, öldrunar-, blóð- eða krabbameinslækninga vera í aukinni hættu á nýrri langvinnri notkun.

Ályktanir: Rannsóknin leiðir í ljós að nýgengi benzódíazepínnotkunar í kjölfar innlagna á lyflæknissvið er hátt, rúmlega þriðjungur nýrra notenda hefja nýja langvinna notkun. Nauðsynlegt er að finna leiðir sem lágmarka notkun benzódíazepína og þróun nýrrar langvinnrar notkunar.

V35 Samanburður á áhrifum allópúrinóls og febúxóstats á 2,8-díhydroxýadenín í blóðvökva og þvagi

Hrafnhildur Linnet Runólfsdóttir 1

Unnur Arna Þorsteinsdóttir 2, 3, Inger M. Sch. Ágústsdóttir 1, Margrét Þorsteinsdóttir 2, 3, Runólfur Pálsson 1, 2, Viðar Örn Eðvarðsson 1, 2

1 Landspítali
2 Háskóli Íslands
3 Arctic Mass

Inngangur: Meðferð með xanþínoxidóredúktasa (XOR)-hemlunum allópúrinóli og febúxóstati getur minnkað myndun á 2,8-díhydroxýadeníni (DHA) hjá sjúklingum með adenín fosfóríbósýltransferasa (APRT)-skort. Markmið rannsóknarinnar var að bera saman áhrif allópúrinóls 400 mg/dag og 800 mg/dag við áhrif febúxóstats 40 mg/dag og 80 mg/dag á DHA í blóðvökva og þvagi.

Efniviður og aðferðir: Tólf sjúklingar í „APRT Deficiency Registry“ við Landspítala tóku þátt í rannsókninni. Eftir 4 vikna hreinsunartímabil var þátttakendum ávísað allópúrínóli 400 mg/dag eða 40 febúxóstati mg/dag í 28 daga. Skammtarnir voru síðan auknir í 800 mg af allópúrínóli og 80 mg af febúxóstati. Eftir annað 28 daga hreinsunartímabil var meðferð með allópúrinóli og febúxóstati víxlað. DHA var mælt með UPLC-MS/MS.

Niðurstöður: Sjö sjúklingar kláruðu rannsóknina, 3 voru konur. Miðgildi aldurs var 57,7 (37,3-65,1) ár. Miðgildi DHA í blóðvökva var 301 (178-679) ng/mL án meðferðar. Tveir sjúklingar mældust með 61 og 95 ng/mL á 400 mg af allópúrinóli meðan aðrir höfðu gildi neðan greiningarmarka (< 50 ng/mL). Einn hafði DHA yfir greiningarmörkum í blóðvökva á 800 mg af allópúrinóli og 80 mg af febúxóstati. Miðgildi DHA í þvagi var 8,18 (5,09-18,69) mg/mmól án meðferðar og 3,15 (1,10-4,52) mg/mmól á 400 mg af allópúrinóli. Allir sjúklingar nema einn höfðu DHA í þvagi undir greiningarmörkum á 800 mg of allópúrinóli og 40 og 80 mg af febúxóstati.

Ályktanir: Allópúrinól í skammtinum 800 mg/dag hafði meiri áhrif á magn DHA í plasma og þvagi en 400 mg/dag. Þá virðist meðferð með febúxóstat áhrifaríkara en allópúrinól á lækkun DHA í blóðvökva og þvagi.

Laugardagur kl. 15:30 – 16:50

Hópur B – leiðsögumaður: Gerður Gröndal

V36 Lyfjameðferð í 25 ár Hjá Sáá hefur verið veitt lyfjameðferð við alvarlegri ópíóíðafíkn í 25 ár. Hún hefur þróast og aðlagast þörf og sinnir nú um 400 manns frá göngudeild Vogs. Aðgengi er gott og tilvísunum frá heilbrigðisstofnunum sinnt með flýti.

Valgerður Rúnarsdóttir 1

1 Sáá

Inngangur: Ópíóíðafíkn hefur aukist á Íslandi eins og í nágrannaríkjum. Háskammta neyslan er fyrst og fremst á lyfjunum oxycontin® og contalgin® sem eru ýmist reykt eða sprautað í æð. Á Íslandi er ekki vandi af heróíni eða ólöglegu fentanýli sem hefur valdið gríðarmiklum dauðsföllum í Norður Ameríku. Lyfjameðferð með metadón og buprenorphine hefur verið starfsrækt frá göngudeild Vogs frá 1999 og er meðferðin ætluð til lengri tíma. Hún er gagnreynd, dregur úr neyslu, fækkar dauðsföllum, fækkar blóðbornum smitum og glæpum, er örugg á meðgöngu og er veitt af teymi í faglegri umgjörð.

Efniviður og aðferðir: Upplýsingar liggja fyrir úr skráningu fíknigreininga á sjúkrahúsinu Vogi og á veitingu lyfjameðferðar á göngudeild Vogs (LOF). Hægt er að skoða þróun vandans síðustu 25 ár og jafnframt lyfjameðferðarinnar, aðlögunar og meðferðarheldni.

Niðurstöður: Ópíóíðafíkn hefur aukist (mynd 1). Fjöldi á Lyfjameðferð við ópíóíðafíkn, LOF, endurspeglar aukningu vandans (mynd 2). Meðferðin nær til stærsta hluta þeirra sem hana þurfa. Meðferðarheldnin er góð, 65% á 5 árum 2018-2023, en á sama tíma létust 7% úr hópnum.

Lyfjaform hefur breyst frá 1999, buprenorphine sem s.l.subutex®, buprenorphine+naloxón sem s.l. suboxone® og forðalyf buprenorphine sem s.c. buvidal® sem hefur skipt sköpum. Meðferðin er veitt af hjúkrunarfræðingum, sjúkraliðum og læknum frá göngudeild Vogs og í samráði við apótek og heilsugæslur á landsbyggðinni.

Ályktun: Lyfjameðferð við ópíóíðafíkn, LOF, hjá Sáá hefur svarað eftirspurn frá 1999 og er aðgengileg. Fagleg umgjörð, góð meðferðarheldni og fjölbreytt úrræði er niðurstaðan. Hún er veitt til skaðaminnkunar með annarri neyslu og til bata frá allri neyslu vímuefna.

V37 Mislestursbreytingar í FRS3 hafa áhrif á líkamsþyngdarstuðul einstaklinga af ólíkum uppruna

 

Andrea Björg Jónsdóttir 1, Garðar Sveinbjörnsson 1, Patrick Sulem 1, Kári Stefánsson 1

Rósa Björk Þórólfsdóttir 1, Davíð O. Arnar 2, Daníel Guðbjartsson 1, Valgerður Steinþórsdóttir 1, Hilma Hólm 1

1 Íslensk erfðagreining
2 Landspítali

Inngangur

Offita er ein stærsta heilsufarsógn okkar tíma. Bættur skilningur á meingerð hennar getur leitt til framfara í forvörnum og meðferð. Í þeim tilgangi voru erfðir líkamsþyngdarstuðuls (LÞS) skoðaðar með stærra rannsóknarþýði af fjölbreyttari uppruna en í sambærilegum rannsóknum hingað til.

Efniviður og aðferðir

Framkvæmd var víðtæk erfðamengisleit á LÞS meðal 2 milljóna einstaklinga, þar af 1.534.555 af evrópskum, 339.657 af asískum og 130.968 af afrískum uppruna. Einblínt var á erfðabreytileika með mikil áhrif á LÞS, eða áhrif umfram 1 kg/m2 á genasamsætu.

Niðurstöður

Þrír erfðabreytileikar í tveimur genasætum höfðu marktæk og mikil áhrif á LÞS, þ.m.t. erfðabreytileikar í hinu þekkta MC4R genasæti. Sjaldgæf mislestursbreyting í FRS3, p.Glu115Lys, fannst meðal finnskra einstaklinga og tengdist 1,09 kg/m2 lækkun á LÞS (P=6,6×10-12). Við nánari athugun fundust þrjár mislestursbreytingar til viðbótar í FRS3 sem höfðu marktæk en minni áhrif á LÞS í samanburði við finnsku breytinguna (áhrif á bilinu -0,26 til 0,16 kg/m2, P<2,7×10-4). Einnig voru samanlögð áhrif erfðabreytileika sem leiða til taps á virkni FRS3 próteinsins könnuð og tengdust þau 2,24 kg/m2 hækkun á LÞS (P=6,2×10-3).

Ályktun

Tengslum milli erfðabreytileika í FRS3 og LÞS hefur ekki verið lýst áður. Próteinafurð FRS3 er tengiprótein sem er m.a. virkjað þegar BDNF binst viðtaka sínum, TrkB. Þekkt er að virkjun á BDNF-TrkB boðefnaferli í taugafrumum undirstúku hefur hagstæð áhrif á orkubúskap, þ.m.t. hamlandi áhrif á matarlyst. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að FRS3 geti verið mikilvægur hlekkur í að miðla áhrifum BDNF-TrkB boðefnaferilsins í meingerð offitu og gæti sá ferill verið mögulegt lyfjamark í offitumeðferð.

V38 Áhrif TNFα-hemla á sýkingalyfjanotkun sjúklinga með hryggikt

Hlín Þórhallsdóttir 1

Aron H. Björnsson 2, Þorvarður J. Löve 3, Björn Guðbjörnsson 3

1 Lyflækningasvið, Landspítali
2 Gigtardeild Háskólasjúkrahússins í Lundi
3 Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands

Inngangur

Tilgangur þessarar rannsóknar er að skoða utanspítala sýkingalyfjanotkun hjá sjúklingum með hryggikt (axSpA) sem voru að hefja fyrstu meðferð með TNFα-hemli.

Efniviður og aðferðir

Gögnum um axSpA sjúklinga sem hófu TNFα-hemla meðferð á árunum 2003-2018 var safnað úr ICEBIO. Hver sjúklingur var paraður við fimm viðmið úr þjóðskrá, byggt á aldri, kyni og almanakstíma. Afgreiðslum allra sýkingalyfja sem tekin eru um munn var safnað úr Lyfjagagnagrunni Embætti Landlæknis, tveimur árum fyrir og eftir upphaf meðferðar. Nýgengitíðni (IR) afgreiddra sýkingalyfjalyfseðla fyrir hvert persónuár var reiknuð og Poisson línuleg aðhvarfsgreining var framkvæmd.

Niðurstöður

Sjúklingaþýðið samanstóð af 378 einstaklingum. Sjúklingahópurinn var með hærri nýgengitíðni lyfjaávísana fyrir meðferð samanborið við viðmið (1.12 (1.04-1.20) vs. 0.40 (0.38-0.42), p<0.001). Nýgengitíðni sýkingalyfjalyfseðla innan sjúklingahópsins jókst eftir upphaf meðferðar (1.12 (1.04-1.20) vs. 1.43 (1.35-1.52), p<0.001). Aukningin var marktæk fyrir sýklalyf (1.04 (0.97-1.12) vs. 1.29 (1.21-1.38), p<0.001) og veirulyf (0.03 (0.2-0.04) vs 0.07 (0.06-0.1), p<0.001). Fjöldi lyfseðla fyrir meðferð, kvenkyn og hátt HAQ-skor var tengt við auknar lyfjaávísanir eftir upphaf TNFα-meðferðar. Engin tengsl fundust milli fjölda lyfseðla og aldurs, reykinga, steranotkunar eða methotrexate notkunar.

Ályktun

Nýgengitíðni sýkingalyfjalyfseðla meðal axSpA sjúklinga eykst eftir upphaf TNFα-hemla meðferðar, ólíkt því sem sést hefur í fyrri rannsóknum á alvarlegum sýkingum sem krefjast sjúkrahúsvistar. Þetta gæti bent til aukningar í utanspítalasýkingum eftir upphaf TNFα-hemla meðferðar eða lægri þröskuld lækna til að ávísa sýkingalyfjum til þessa sjúklingahóps. Auk þess nota sjúklingar með axSpA marktækt meira af sýkingalyfjum en viðmið fyrir TNFα-hemla meðferð sem gæti bent til aukinnar grunnáhættu á sýkingum innan þessa sjúklingahóps.

V39 Tengsl sjálfsmótefna við svipgerð og alvarleika sarklíkis. Íslenska sarklíkisrannsóknin.

Berglind Árnadóttir 1

Katrín Þórarinsdóttir 2, Sigríður Ólína Haraldsdóttir 2, Björn Guðbjörnsson 2

1 Akademiska Háskólasjúkrahús
2 Landspítali

Inngangur: Samspil ónæmiskerfisins í tilurð sarklíkis er óljós. Misvægi verður á milli þess sem knýr ónæmiskerfið áfram og því sem hemur það. Tumor Necrosis Factor-α (TNF) og Interferon-γ (IFN) eru arkarmerki í bólgusvari ónæmiskerfisins hjá sarklíkissjúklingum og er sjúkdómurinn knúinn áfram af T-eitilfrumum og óeðlilegu svari T-stýrifrumna. Sjálfsmótefni gegn frumuboðefnum (cytokines) hafa verið rannsökuð í öðrum sjálfsónæmissjúkdómum, svo sem rauðum úlfum og Sjögrens heilkenni. Lítið er vitað um áhrif þeirra á klínísk einkenni sjálfsónæmissjúklinga. Ekki er vitað til þess að tengsl milli sjálfsmótefna gegn frumuboðefnum og sarklíki hafi verið könnuð áður.

Efniviður og aðferðir: Blóðsýni úr 170 íslenskum sjúklingum með vefjastaðfesta greiningu sarklíkis voru rannsökuð. Mæld voru anti-IFN mótefni týpa I, II og III með magnetic multiplex particle-based assay. Í kjölfarið var kannað hvort mótefnin væru hlutleysandi (neutralizing) eða ekki.

Niðurstöður: Fimm sarklíkissjúklingar (3%) höfðu jákvæða títra af anti-IFN-γ IgA og IgG (Mynd 1). Mótefnin voru óhlutleysandi. Allir fimm höfðu sjúkdóm í brjóstholi, tveir voru flokkaðir með lungnasarklíki, hinir þrír höfðu aðrar svipgerðir sjúkdómsins (Tafla I). Allir fimm sjúklingarnir fengu meðferð við sjúkdómnum með barksterum og/eða ónæmisbælandi lyfjum. Tveir af fimm létust úr krabbameini, sem greindist eftir að sarklíkisgreiningin var staðfest.

Ályktun: Höfundar leggja til tengingu milli IFN-γ sjálfsmótefna og misræmi ónæmiskerfisins í krónískum sarklíkissjúkdómi. Þörf er á frekari rannsóknum á þessu sviði til að kanna betur tengingu sjálfsmótefna og sarklíkis.

V40 Stafræn heilsulausn fyrir sjúklinga með hjartabilun leiddi bættrar sjálfsumönnunar og efnaskiptaútkomna: slembiröðuð samanburðarrannsókn.

 

David O. Arnar 3, 4

Sæmundur J. Oddsson 1, Bartosz Dobies 1, 2, Heiða B. Bragadóttir 1, Guðbjörg J. Guðlaugsdóttir 3, Auður Ketilsdóttir 3, Hallveig Broddadóttir 3, Brynja Laxdal 1, Þórdís J. Hrafnkelsdóttir 3, 4, Inga J. Ingimarsdóttir 3, 4, Bylgja Kaernested 3, Axel F. Sigurðsson 5, Ari Ísberg 1, Svala Sigurðardóttir 1, 6

1 Sidekick Health
2 Jagiellonian University Medical College
3 Hjartadeild - Landspítala
4 Læknadeild - Háskóli Íslands
5 Hjartamiðstöðin
6 Aarhus University

Inngangur

Hjartabilun skerðir lífslíkur og lífsgæði en lífsstílsbreytingar geta bætt horfur. Gerð var slembiröðuð samanburðarrannsókn til að meta áhrif stafrænnar heilsulausnar Sidekick Health á lífsgæði og klínískar útkomur. Lausninni var miðlað í gegnum smáforrit (app) sem innihélt fræðsluefni, fjarvöktun með einkennamati, samskipti við heilsuþjálfa og hjúkrunarfræðinga.

Efni og aðferðir

Sjúklingum á göngudeild hjartabilunar á Landspítala (n=175) var slembiraðað í samanburðarhóp (n=89) sem fékk venjubundna meðferð og íhlutunarhóp sem fékk aðgang að appinu auk venjubundinnar meðferðar (n=86). Íhlutunartímabilið var sex mánuðir og að því loknu tók við sex mánaða viðhaldsprógram. Aðalendapunkturinn var stigafjöldi á Kansas City Cardiomyopathy Questionnaire (KCCQ-12) eftir sex mánaða íhlutun. Aukendapunktar voru stig á European Heart Failure Self-care Behaviour Scale-9 (EHFScB-9), sem mælir þekkingu á hjartabilun, og efnaskiptabreytur.

Niðurstöður

Þegar sex mánaða prógrammi lauk voru 80% þátttakenda enn virkir í appinu og miðgildi svörunar á einkennamati var 93%. Niðurstöður fyrir aðal- og aukendapunkta eru í Töflu 1. Enginn tölfræðilegur munur sást á líðan mælt með KCCQ-12 milli hópa við sex eða tólf mánuði. Íhlutunarhópurinn sýndi tölfræðilega marktækar framfarir í sjálfsumönnun samkvæmt EHFScB-9 við sex og tólf mánuði og í þekkingu á hjartabilun við tólf mánuði. Íhlutunarhópinn var með marktækt lægri blóðsykurgildivið sex mánuði, og HbA1c og þríglýseríðsgildi við tólf mánuði samanborið við samanburðarhópinn.

Ályktun

Þrátt fyrir að íhlutunin með smáforriti hafi ekki bætt KCCQ-12 sáust jákvæð áhrif á þætti eins og sjálfsumönnun, sjúkdómstengda þekkingu og efnaskiptaþætti. Lengri rannsóknir þarf til að meta frekar klínískan ávinning íhlutunarinnar.

V41 Þróun á meðferðarheldni við lyfjameðferð kransæðasjúkdóms eftir kransæðaþræðingu: Afturskyggn ferilrannsókn

Leon Arnar Heitmann 1, 2

Ingibjörg Guðmundsdóttir 1, Freyja Jónsdóttir 1, Magnús Karl Magnússon 2, Martin Ingi Sigurðsson 1

1 Landspitali University Hospital
2 University of Iceland

INNGANGUR

Lyfjameðferð gegn kransæðasjúkdómi bætir horfur eftir kransæðaþræðingu. Kortlögð var þróun á meðferðarheldni við statín, beta-blokka, renín-angíótensín (RAAS) hemla og P2Y12-hemla innan þriggja ára frá kransæðaþræðingu.

AÐFERÐIR

Afturskyggn ferilrannsókn á öllum sem gengust undir fyrstu kransæðaþræðingu á Landspítala árin 2010-2020, höfðu yfir 90 daga eftirfylgdartíma og leystu að lágmarki út einn lyfseðil eftir inngrip. Klínísk gögn fengust úr gagnagrunni Hjarta- og æðaþræðingarstofu Landspítala og allar lyfjaútleysingar einstaklinga fengust úr Lyfjagagnagrunni Landlæknis. Fræðilegt aðgengi að lyfjum var reiknað allt að þremur árum eftir inngrip með 30 daga millibilum. Tímaháð vaxtarlíkan var notað til að greina undirhópa með sambærilega þróun á meðferðarheldni. Cox aðhvarfsgreining var notuð til samanburðar á heildarlifun.

NIÐURSTÖÐUR

Af 14337 einstaklingum sem gengust undir kransæðaþræðingu mættu 11385 þáttökuskilyrðum. Eftir inngrip leystu 9607 (84%), 8892 (78%), 7402 (65%) og 5459 (48%) út statín, beta-blokka, RAAS-hemil og P2Y12-hemil. Tímaháð vaxtarlíkan greindi 5 til 6 undirhópa með sambærilega meðferðarheldni fyrir hvert og eitt lyf. Tíðni hárrar meðferðarheldni var 80%, 72%, 74% og 71% fyrir statín, beta-blokka, RAAS-hemla og P2Y12-hemla. Yngri einstaklingar og þeir sem notuðu ekki tiltekið lyf fyrir inngrip höfðu auknar líkur á lágri meðferðarheldni. Undirhópar með lága meðferðarheldni innan þriggja ára við statín (HR:1.3, CI:1.1-1.5), RAAS-hemil (HR:1.5, CI:1.3-1.7), og P2Y12-hemil (HR:1.2, CI:1.1-1.4) höfðu aukna hættu á dauða innan tíu ára.

ÁLYKTANIR

Lág meðferðarheldni í kjölfar fyrstu kransæðaþræðingar var algeng og tengdist verri horfum. Vaxtargreining á lyfjanotkun greindi sértæka undirhópa með auknar líkur á lágri meðferðarheldni á mismunandi tímapunktum lyfjameðferðar. Niðurstöður rannsóknarinnar gætu gagnast til íhlutunar í meðferðarheldni einstaklinga með kransæðasjúkdóm.

V42 Eftirliti með amíódarón er ábótavant á Íslandi.

Páll Guðjónsson 1, 2

Axel F. Sigurðsson 3, Þórarinn Guðnason 4, Karl Andersen 1, 2

1 Landspítali háskólasjúkrahús
2 Háskóli Íslands
3 Hjartamiðstöð
4 Læknasetrið

Inngangur: Amíódarón getur valdið alvarlegum aukaverkunum, sérstaklega á lungu, skjaldkirtil og lifur. Amerísku hjartalæknasamtökin (AHA) mæla með klínísku eftirliti á 6 mánaða fresti með hjartalínuriti ásamt skjaldkirtils- og lifrarprufum.

Markmið: Að kanna hvort farið sé eftir ráðlegginum AHA um eftirlit á Íslandi.

Aðferðir: Rannsóknarþýðið samanstóð af öllum sem fengu amíódarón ávísað á Íslandi árið 2014. Gögnum var safnað úr sjúkraskrár- og rannsóknarkerfum LSH, Hjartamiðstöðvar og Læknaseturs. Leitað var eftir ábendingu lyfsins, hver ávísaði, upphafi og lok meðferðar, hjartalínuriti, ásamt lifrar- og skjaldkirtilsblóðprufum. Eftirlit var metið fullnægjandi ef allar þrjár rannsóknir voru gerðar sex mánuðum fyrir 1.mars 2018.

Niðurstöður: 436 sjúklingar, 298 karlar og 138 konur tóku enn amíódarón 1. mars 2018. Eftirlitið var fullnægjandi í 38% tilfella. Ef viðmiðunartímabilið var lengt upp í 24 mánuði þá hækkaði hlutfallið upp í 76% (Tafla 1). Eftirliti var betur háttað ef síðasta lyfjaávísun var frá hjartalækni (46,5%) samanborið við lyfjaávísun frá heilsugæslu (36,8%) eða hjúkrunarheimili (16,7%). Færri rannsóknir voru framkvæmdar með hækkandi aldri og lyfjaávísunum frá hjartalæknum fækkaði (mynd1&2). Meðferðarlengd hafði engin áhrif á gæði eftirlits þegar borin eru saman <5 ár (39%), 5-10 ár (39%) og >10 ár (38%) á meðferð.

Ályktanir:Eftirliti með amíódarón virðist vera ábótavant á Íslandi. Því er sinnt síður hjá eldri sjúklingum án þess að tímalengd meðferðar hafi áhrif. Fjórðungur hefur ekki fengið viðeigandi rannsóknir á tveggja ára tímabili og gæti því verið dottinn úr sérhæfðu eftirliti.

V43 Skjaldkirtilstengdar aukaverkanir amíódarón á Íslandi

Páll Guðjónsson 1, 2

Ari J. Jóhannesson 1, 2, Elías Eyþórsson 1, 2, Axel F. Sigurðsson 3, Þórarinn Guðnason 4, Karl Andersen 1, 2

1 Landspítali háskólasjúkrahús
2 Háskóli Íslands
3 Hjartamiðstöð
4 Læknasetrið

Inngangur:

Amíódarón veldur skjaldvakaofseytingu hjá 1,2-12% og skjaldvakabrest hjá 12-25% notenda þess. Tilgangur rannsóknarinnar var að rannsaka algengi og nýgengi skjaldkirtilstengdra aukaverkana af völdum amiodarone á Íslandi

Efniviður og aðferðir:

Rannsóknarþýðin voru tvö og byggðu á 282 nýjum notendum amíódaróne árið 2014 (tafla 1). Þrír voru útilokaðir vegna ónægra gagna. Skjaldvakaofseytingarhópurinn innihélt eftirstandandi 279 en skjaldvakabrestshópurinn 204 eftir útilokun 17 einstaklinga með undirliggjandi skjaldkirtilssjúkdóm og 58 sem tóku lyfið skemur en 90 daga. Gögnum var safnað frá sjúkraskrár- og rannsóknarkerfum Landspítala, Hjartamiðstöðvar og Læknaseturs. Skjaldvakaofseyting var skilgreind með lækkuðu TSH (<0.30 mIU/L) og hækkuðu fT4 (>22.0 pmol/L) en skjaldvakabrestur með hækkuðu TSH (>4.2 mIU/L) og skipt í sannan ef fT4 var lækkað (<12.0 pmol/L) eða subklínískan ef fT4 var eðlilegt (12.0-22.0 pmol/L). Hópunum var fylgt eftir þar til þeir hættu á amiodarone, létust eða fengu skjaldkirtilsaukaverkun.

Niðurstöður:

Skjaldvakaofseyting sást hjá 24 (8,6%) sjúklingum. Hæsta nýgengið, 9,2%, sást á þriðja meðferðarári og uppsafnað 5 ára nýgengi var 17,9% (mynd1).

Skjaldvakabrestur sást hjá 35 (17,2%) einstaklingum. Sannur skjaldvakabrestur (e. overt hypothyroidism) sást hjá 24 (11,7%) og subklínískur hjá 11 (5,3%). Hæsta nýgengið var á fyrsta meðferðarári, 10,0% og uppsafnað 5 ára nýgengi var 22.7% (mynd 2).

Samanlagðar sáust skjaldkirtilstengdar aukaverkanir hjá 59 (21,1%) manns. Hæsta nýgengið var á þriðja meðferðarári, 11,5%, og uppsafnað 5 ára nýgengi var 36.3% (mynd 3).

Ályktanir

Skjaldkirtilstengdar aukaverkanir af völdum amiodarone sjást hjá rúmlega þriðjungi sjúklinga eftir 5 ára meðferð. Áhættan á skjaldvakaofseytingu er mest á þriðja meðferðarári en hættan á skjaldvakabrest er hæst á fyrsta meðferðarári.

V44 Birt-Hogg-Dubé heilkenni á Íslandi - sjúkratilfelli

Þorri Geir Rúnarsson 1

Leifur Þráinsson 2, Jón Jóhannes Jónsson 3, Brynja Jónsdóttir 4, Viktor Ásbjörnsson 1, Kristján Harðarson 1, Tómas Guðbjartsson 1, 2

1 Læknadeild Háskóla Íslands
2 Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala Íslands
3 Erfða- og sameindalæknisfræðideild Landspítala
4 Lungnadeild Landspítala

Inngangur:Birt-Hogg-Dubé heilkenni stafar af kímlínustökkbreytingu í folliculin-geni (FLCN) sem erfist með ríkjandi hætti og eykur áhættu á loftbrjósti vegna rofs á lungnablöðrum, nýrnafrumukrabbameini og góðkynja æxlum í hársekk, oft í andliti, ásamt ýmsum krabbameinum eins og sortuæxli, ristil-, skjaldkirtils-, kalkkirtils- og vangakirtilskrabbameini. Hér er lýst einu af fáum tilfellum Birt-Hogg-Dubé heilkennis sem greinst hafa á Íslandi.

Tilfelli:Rúmlega fertugur heilsuhraustur reyklaus karlmaður af erlendu bergi leitaði á heilsugæslu með viku sögu um versnandi andþyngsli og takverk. Lungnamynd sýndi 6cm stórt loftbrjóst hægra megin, komið var fyrir brjóstholskera sem síðar var fjarlægður og útskrifaðist viðkomandi heim. Þremur dögum síðar var hann endurinnlagður, með endurkomu loftbrjósts. Tölvusneiðmynd af lungum sýndi fjölmargar blöðrur dreift yfir lungnablöðin beggja vegna ásamt lungnaþembubreytingum. Vegna viðvarandi loftleka var framkæmd brjóstholssjáraðgerð (VATS), þar sem blöðrur í hægri lungnablöðum voru fjarlægðar, ásamt hlutabrottnámi af fleiðru og röspun. Viðkomandi útskrifaðist fimm dögum síðar. Vegna fjölskyldusögu um sjálfsprottið loftbrjóst og nýrnafrumukrabbamein hjá nánum ættingjum, sem sumir höfðu verið greindir með Birt-Hogg-Dubé, var gerð erfðarannsókn sem sýndi stökkbreytingu með arfblendni í folliculin-geni sem staðfesti greiningu Birt-Hogg-Dubé heilkennis. Segulómskoðun af nýrum greindi ekki æxlisvöxt og var ristilspeglun, húð– og skjaldkirtilsskoðun án athugasemda.

Ályktanir:Birt-Hogg-Dubé er afar sjaldgæft heilkenni sem er þekkt í u.þ.b. 600 fjölskyldum í heiminum, en er sennilega vangreint. Greining er mikilvæg, en grunur ætti að vakna hjá sjúklingum með sjálfsprottið og oft endurtekið loftbrjóst með dreifðum lungnablöðrum þar sem útbrot geta verið í andliti ásamt krabbameini í nýrum eða öðrum líffærum. Sé greiningin staðfest er æskilegt að bjóða sérstakt krabbameinseftirlit.

V45 Algengi og nýgengi óráðs meðal sjúklinga sem leggjast inn á spítala á vegum sérgreina lyflækna

Julia Alexandra Schintler 1

Anita Weidmann 1, Martin Ingi Sigurðsson 2, Reto Stauffer 1

1 University of Innsbruck
2 Háskóli Íslands

Inngangur: Órað er ástand sem einkennist af bráðum ruglingi við margvísilegar orsakir og getur það haft alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar til skemmri og lengri tíma fyrir batahorfur og langlífi sjúklinga. Markmið rannsóknarinnar var að meta algengi og nýgengi óráð með lyflæknissjúklinga sem leggjast inn á spítala og kanna áhættuþætti.

Aðferðir: Rannsóknarsnið var aftursýn lýsandi rannsókn meðal lyflæknissjúklinga ≥18 ára á Landspítala á tímabilinu 2010–2020. Alls voru 85942 innlagnir og endurinnlagnir teknar með í gagnasafninu sem samanstóð af 1066 breytum. Meginhluti þessarar greiningar var gerður á nýgerðu tveggja ára gagnasafni sem náði yfir 253 breytur.

Niðurstöður: 55495 sjúklinga fengu 3533 óráð (6.4%). Sjúklingar sem fengu óráð voru líklegri til að vera eldri, konur, með aukna sjúkdómsbyrði og hrumleika og taka fleiri lyf. Sjúklingar sem fengu óráð voru líklegri til að vera á flestum lyfjaflokkum og algengustu voru meltingarlyf (58.4% vs 53.3%), blóðþynnandi lyf (50.0% vs 45.5%) og blóðflöguhemjandi lyf (31.6% vs 28.1%). Að auki voru sjúklingar sem fengu óráð með lengri sjúkrahúsdvöl, líklegri til að leggjast inn aftur innan 30 daga og með hærri dánartíðni. Einnig voru sjúklingar sem höfðu fengið óráð árið fyrir innlögn í aukinni áhættu á að fá óráð í innlögninni.

Ályktianir: Algengi og nýgengi óráðs er hátt og fer hækkandi. Leggja þarf aukna áherslu á að greina, fyrirbyggja og meðhöndla óráð með sjúklinga sem leggjast inn á spítala til að draga úr lengd sjúkrahúsdvalar, endurinnlögnum og aukinni dánartíðni. Einnig þarf að flagga sérstaklega sjúklingum sem hafa sögu um óráðvegna aukinnar áhættu á að fá óráð í sjúkrahúslegu.

V46 Lyfjatengt óráð í aðgerðafasa hjá sjúklingum með eða án heilabilunar: Kerfisbundin yfirferð

Rakel Rán Ákadóttir 1, Guðrún Lóa Sverrisdóttir 1

Freyja Jónsdóttir 1

1 Háskóli Íslands

Inngangur: Meðalaldur fólks fer vaxandi í heiminum sem setur verulegt álag á heilbrigðiskerfið. Aukning á eldra fólki helst saman við aukningu á sjúklingum með fylgisjúkdóma. Þessir einstaklingar þurfa oft að fara í skurðaðgerð sem getur aukið dánartíðni, skert lífsgæði og aukið hættu á að þróa með sér óráð.

Markmið: Markmið þessara rannsókna var að yfirfara núgildandi leiðbeiningar og birtar rannsóknir, og setja fram með gagnrýnum hætti birt sönnunargögn um lyf sem notuð eru í aðgerðarfasa og geta framkallað óráð með sérstaka áherslu á sjúklinga með heilabilun.

Aðferðir: Aðferðafræði fyrir þessa kerfisbundnu samantekt byggðist á leiðbeiningum Joanna-Briggs og var sett fram samkvæmt PRISMA-staðhæfingu. Aðferðarlýsing um kerfisbundna samantekt var skráð hjá PROSPERO [CRD42023442708] og [CRD42023442726]. Kerfisbundin leit var framkvæmd í alls 16 gagnagrunnum og 113 vefsíðum læknastofnanna með fyrirfram ákveðnum inntöku- og útilokunarskilyrðum.

Niðurstöður: Alls voru 2385 titlar af rannsóknum og 228 af klínískum leiðbeiningum auðkenndar og eftir skimun uppfylltu 120 rannsóknir og 27 klínískar leiðbeiningar leitarforsendur og voru teknar með í kerfisbundnu lokasamantektinni. Lyfjaflokkarnir sem oftast voru nefndir í því samhengi að auka hættu á óráði í aðgerðarfasa í þessari rannsókn voru benzódíazepín, ópíóíðar og andkólínvirk lyf. Nokkrar milliverkanir lyfja eða samsettar lyfjameðferðir voru einnig auðkenndar sem auka hættuna á óráði.

Ályktun: Niðurstöðurnar undirstrika brýna þörf fyrir ítarlegri leiðbeiningum og fleiri klínískra rannsókna til að aðstoða heilbrigðisstarfsfólk við að minnka líkur á óráði hjá sjúklingum í aðgerðarfasa. Núverandi vöntun í þekkingu okkar varðandi örugga og árangursríka valkosti fyrir bæði heilabilunarsjúklinga og sjúklinga sem eru ekki með heilabilun krefjast frekari rannsókna.

V47 Mat á mögulega óviðeigandi lyfjameðferð hjá eldri lyflæknissjúklingum

Freyja Jónsdóttir 1, Martin Ingi Sigurðsson 1

Anna Bryndís Blöndal 1, Aðalsteinn Guðmundsson 2, Ian Bates 3, Jennifer Stevenson 4

1 Háskóli Íslands
2 Landspítali
3 Univeristy collega London
4 Kings College London

Bakgrunnur: Fjöllyfjameðferð er áhættuþáttur fyrir mögulega óviðeigandi lyfjameðferð meðal eldri einstaklinga. Markmið rannsóknarinnar var að meta algengi og nýgengi mögulegra viðeigandi lyfjameðferð meðal eldri lyflækinssjúklinga í tengslum við innlagnir á spítala og tengsl við fjöllyfjameðferð.

Aðferðir: Rannsóknarsnið var aftursýn lýsandi rannsókn meðal lyflæknissjúklinga ≥65 ára á Landspítala á tímabilinu 2010–2020. Mögulega óviðeigandi lyfjameðferð lyflæknissjúklinga árið fyrir innlögn var metin með Beers kriteríum 2019. Þátttakendur voru flokkaðir eftir fjölda lyfja sem þeir tóku árið fyrir innlögn, ekki fjöllyfjameðferð (<5), fjöllyfjameðferð og ofur fjöllyfjameðferð (>10).

Niðurstöður: Meðal 55,859 patients (51,5% konur, meðalaldur [IQR] 80 [73-86] ár. Algengi mögulega óviðeigandi lyfjameðferðar byggt a Beers kríteríum fyrir innlögn var 34.0%, 77.7%, and 96.4% fyrir ekki fjöllyfjameðferð (<5), fjöllyfjameðferð og ofur fjöllyfjameðferð (>10). Algengasta lyfjaávísunin sem metin var mögulega óviðeigandi lyfjameðferð byggt á Beers kríteríum voru lyf sem virka á miðtaugakerfið og meltingarkerfið. Meðal lyfja sem verka á miðtaugakerfið var algengasti lyfjaflokkurinn svokölluð Z-lyf og benzodíazepína. Meðal lyfja sem verka á meltingarkerfið var algengasta mögulega óviðeigandi lyfjameðferðin prótónpumpuhemlum. Nýgengi mögulega óviðeigandi lyfjameðferðar eftir innlöng á spítala var 46,7%. Sjúklingar sem voru voru í aukinni áhættu á að hefja nýja óviðeigandi lyfjameðferð eftir innlögn á spítala voru þeir sem nýta sér lyfjaskömmtun, eru með heilabilun eða eru á fjöllyfjameðferð eða ofurfjöllyfjameðferð. Engin tengls fundust milli mögulega óviðeigandi lyfjameðferðar og klínískra útkoma.

Ályktanir: Hugsanlega óviðeigandi lyfjanotkun er algeng meðal eldri lyflæknissjúklinga og tengist aukinni fjöllyfjanotkun. Leggja þarf aukna áherslu á að endurskoða og endurmeta lyfjameðferð með eldri lyflæknissjúklinga og sérstaklega í kjölfar innlagnar á spítala.




Þetta vefsvæði byggir á Eplica