Ágrip þingsins, Vísindi á vordögum 2024
Listi Ágripa
- Næringarástand einstaklinga með sjálfvakta lungnatrefjun
- D-vítamínbúskapur móður á meðgöngu tengist samsetningu þarmaflóru íslenskra barna
- Litningabreytileikar í mergæxli á Íslandi á árunum 2015-2021
- Notkun einstofna mótefna gegn RSV veiru hjá börnum á Íslandi. Fjöldi einstaklinga, árangur og kostnaður fyrir íslenskt samfélag
- Blóðþynningarlyf eru ekki tengd betri lifun hjá einstaklingum með ristil- og endaþarmskrabbamein – 20 ára lýðgrunduð rannsókn
- Ristil- og endaþarmskrabbamein: 20 ára samanburðarrannsókn á einstaklingum yngri og eldri en 50 ára
- Sjúkdómsmynd ASIA-heilkennis og möguleg tengsl þess við silíkonfyllta brjóstapúða
- Greining á lakkrís orsökuðum háþrýstingi með massagreini - einfaldari og ódýrari aðferð
- Tengsl milli fæðingarþyngdar og sólarhringsblóðþrýstings í ungum fullorðnum
- Notagildi erlendra vaxtarrita barna í móðurkviði á Íslandi
- Algengi arfgengra heilkenna í sjúklingum með briskrabbamein á Íslandi 2000-2021
- Blóðkalsíumhækkun í fólki með góðkynja einstofna mótefnahækkun; niðurstöður úr Blóðskimun til bjargar
- Lifrarígræðslur á Íslandi: afturskyggn þýðisrannsókn á ábendingum árin 2013 til 2023
- Sjúklingar með bráða ósæðarflysjun af gerð A ná oftar lifandi í skurðaðgerð á Íslandi
- Ósæðarflysjun af gerð A: Er blönduð aðgerðartækni komin til að vera?
- Þorsti er algengt og óþægilegt einkenni meðal sjúklinga með hjartabilun – þversniðsrannsókn
- Exploring Recurrent Traumatic Brain Injuries (rTBI): A Comprehensive Study from Iceland's Landspítali Emergency Department (2010 - 2021)
- Yeast-derived β-1,3-1,6-glucan increases DC secretion of TNFα and IL-10
- Útkomur meðgangna og fæðinga á Íslandi hjá konum sem urðu þungaðar eftir glasafrjóvgun árin 2019-2021
- Algengi DPYD erfðabreytileika og tengsl við aukaverkanir af völdum 5-FU og capecitabine lyfjameðferðar
- Endurnæringarheilkenni og aðkoma næringarfræðings í meðferð barna og unglinga með átraskanir
- Aðlögun, lækkun greiningarmarka og gilding sterapanels sem inniheldur 17 sterahormón og eitt steralyf
- Líðan sjúklinga 1-, 3-, og 6 mánuðum eftir fyrstu kransæðavíkkun: Samspil sál- og félagslegra þátta
- Advise of aspirin use during pregnancy and adherence to treatment
- Assessing habituation and adaption strategies in postural control
- Mat á viðhorfi til hermikennslu meðal lyfjafræðinema
- Hugbúnaður fyrir mælingar í endurhæfingu: Niðurstöður notendakönnunar
- Lyfjatengt óráð hjá sjúklingum með eða án heilabilunar: Kerfisbundin yfirferð
- Árangur endurhæfingar: Áhrifavaldar við val kvarða til að mæla áhrif taugaeinkenna á ADL færni
- Vægi milli rannsóknarmöguleika og klínísks gildis: ADL hugbúnaðarmælingar
- Long-term use of rituximab increases T cell count in MS patients
- Tengsl fæðu við líkur á mígreniskasti
- Hjartatengdar auka- og eiturverkanir í kjölfar lyfjameðferðar með hjartaoxískum krabbameinslyfjum
- Hjartamýlildi af völdum transthyretin (ATTR) á Íslandi: Faraldsfræðileg rannsókn á landsvísu
- APRT skortur: Innsýn í frumu módel á nýrnaskaða af völdum DHA kristalla
- Frumkomið aldósterónheilkenni - einstaklingsmiðuð eftirfylgd með notkun mótefnalitunar
- Ávísun lyfjameðferða eftir mismunandi svipgerð hjartabilunar við útskrift á hjartadeild Landspítala
- Áhrifaþættir meðferðarheldni hjá sjúklingum með hjartabilun
- Notkun íslenskra máltæknitóla og vélþýðinga í greiningu á Alzheimersjúkdómi
- Bóluefni gegn meningókokkum B gegn meningókokka-stofnum sem íslensk ungmenni bera
- Hálskirtlatökur eru tengdar auknum líkum á því að bera meningókokka
- The adjuvants CAF08b and mmCT enhance the antibody response and promote dose sparing to an influenza vaccine in a neonatal murine model
- Hermun leiðni eiginleika mjóbaksins með FEM og CT myndun til bætingar á tSCS
- Tengsl fjöllyfjameðferðar við heilabilun á meðal eldri einstaklinga árin 2002-2006
- Mína og draumalandið: Kennslutölvuleikur til að undirbúa börn fyrir svæfingu – Forrannsókn
- Skimun fyrir Lynch heilkenni með alhliða litun fyrir mispörunarpróteinum
- Bráðabúnaður og lyf á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni – Heildstæð úttekt
- Unveiling the protective role of androgens in CHD1 deficiency: observations in mice and humans
- Áhætta á primary biliary cholangitis meðal sjúklinga með hvatberamótefni en engin merki um sjúkdóminn
- Möguleg vanstarfsemi heiladinguls eftir heilahristing hjá íþróttakonum. Hverjar þarf að meta nánar?
- Vanstarfsemi heiladinguls og hækkun á prólaktíni hjá íþróttakonum eftir heilahristing
- Bráður nýrnaskaði eftir kransæðahjáveituaðgerð: Áhrif alvarlegra snemmkominna fylgikvilla á horfur
- Radiodensity soft tissue asymmetry as indicator for healthy aging
- Nýtist EEG og stjórnun líkamsstöðu í sýndarveruleika til að skilgreina lífmerki heilahristings?
- Bringubeinslos án miðmætissýkingar eftir kransæðahjáveituaðgerð: Algengi, áhrifaþættir og horfur
- Úthljóðsstraumlindamyndgerð
- Laminarin and their derivatives affect dendritic cell activation and their crosstalk with T cells
- Áhrif ATL2-2 tjáningar á ferla sem eru virkir í T47D brjóstakrabbameinsfrumulínu
- Þróun hæfnisskerðingar hjá börnum og unglingum með áráttu og þráhyggjuröskun í kjölfar meðferðar
- Eftirliti með Amiodarone meðferð er ábótavant á Íslandi
- Fiix stýrt warfarín er áhrifaríkari blóðþynning heldur en DOAC lyf í gáttatifssjúklingum
- Examine and compare various prime-boost immunization approaches during early life
- Þrívíð samræktunar-frumumódel til að meta áhrif sameindalyfja sem virkja ónæmiskerfið gegn krabbameini
- Ofbeldi og áhættuþættir fyrir hjarta- og æðasjúkdóma meðal ungra Svía
- Prevalence of self-reported extremity pain in schoolchildren: A study of sociodemographic differences
- Áhrif BRCA1 splæsiafbrigða á lyfjanæmi brjóstakrabbameinsfrumulínunnar T47D
- Áhrif breytinga á útskriftarviðmiðum fyrirbura á legutíma á Vökudeild Barnaspítala Hringsins
- Ég lifi: Upplifun sjúklinga með langt genginn sjúkdóm og aðstandenda þeirra á heilsufari og lífsgæðum
- Árangur og andleg áhrif skimunar fyrir mergæxli og forstigum þess
- Bráður nýrnaskaði á bráðamóttöku: Framsýn, tilfellamiðuð rannsókn
- Horfur sjúklinga með bráðan nýrnaskaða á bráðamóttöku – Framsýn, tilfellamiðuð rannsókn
- Áhrif æðaþels á svipgerð og lyfjanæmi briskrabbameinsfrumna
- Hugræn færni, heilaheilsa og heilabilun: Tengsl við áhættuþætti hugrænnar öldrunar
1. Næringarástand einstaklinga með sjálfvakta lungnatrefjun
Agnes Hrund Guðbjartsdóttir1,2, Gunnar Guðmundsson3, Áróra Rós Ingadóttir1,2
1Næringarstofu Landspítala, 2matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, 3lungnadeild Landspítala
agneshg@landspitali.is
Inngangur: Erlendar rannsóknir benda til að samband sé á milli næringarástands sjúklinga með sjálfvakta lungnatrefjun (Idiopathic pulmonary fibrosis, IPF) við sjúkrahúsinnlagnir og dánartíðni. Rannsóknir hafa einnig sýnt að vannæring sé algeng meðal IPF sjúklinga. Næringarástand IPF sjúklinga hefur ekki verið rannsakað hér á landi.
Markmið: Að meta næringarástand einstaklinga með IPF á Íslandi við greiningu og að kanna þróun næringarástands við framgang sjúkdómsins. Einnig er leitast eftir að svara eftirfarandi spurningum: 1) Hvert er algengi vannæringar (samkvæmt skimun fyrir áhættu á vannæringu) meðal IPF sjúklinga á Íslandi og 2) Hvaða næringareinkenni eru algeng meðal einstaklinga með IPF.
Aðferðir: Um er að ræða lýsandi afturskyggna rannsókn sem var gerð á 91 sjúkling með IPF sem höfðu greinst og verið í eftirliti á Landspítalanum á tímabilinu apríl 2012 til júní 2023. Upplýsingar um þátttakendur voru sóttar í rafræna sjúkraskrá. Sjúklingar voru skimaðir afturvirkt fyrir áhættu á vannæringu með gildismetnu skimunarblaði. Einnig voru teknar saman upplýsingar um lyfjameðferð, næringareinkenni þátttakenda og 25(OH) vítamín D styrk í blóði. D vítamín skortur var skilgreindur sem 25-OHD gildi <50 nmól/L.
Niðurstöður: Alls voru 91 einstaklingar greindir með IPF á Íslandi (65 karlar og 26 konur) á rannsóknartímabilinu og meðalaldur þeirra við greiningu var 75,2 ± 8,4 ár. Helmingurinn af hópnum, eða 46 sjúklingar, fóru á bandvefshamlandi lyf, 20 á nintedanib, 18 á pirfenidone og 8 prófuðu bæði lyfin. Af þeim 51 sjúklingum sem voru skimaðir fyrir áhættu á vannæringu voru 31 (53,4%) þeirra með sterkar líkur á vannæringu. Þyngdartap fyrsta árið frá greiningu var mælt og 23 (27,5%) sjúklingar léttust 5% eða meira af þyngd sinni. Algengustu næringareinkennin voru minnkuð matarlyst og niðurgangur. Niðurgangur var nánast bara hjá þeim sem voru á antifíbróskum lyfjum en minnkuð matarlyst kom fram hjá báðum hópum.
Ályktun: Á Landspítala er mat á áhættu á vannæringu á sjúklingunum með IPF ekki framkvæmt með kerfisbundnum hætti. Mikilvægt er að vigta alla sjúklinga með IPF með reglulegu millibili sérstaklega þar sem um fjórðungur sjúklinga léttist um 5% eða meira fyrsta árið eftir greiningu. Æskilegt væri að meta áhættu á vannæringu hjá öllum sjúklingum með IPF við greiningu og reglulega á meðan á meðferð þeirra stendur. D-vítamín í formi fæðubótarefnis ætti einnig að verða hluti af meðferðinni.
2. D-vítamínbúskapur móður á meðgöngu tengist samsetningu þarmaflóru íslenskra barna
Agnes Þóra Árnadóttir1,2, Stephen Knobloch1,3, Sigurlaug Skírnisdóttir1, Alexandra Maria Klonowski1, Karla F. Corral-Jara1, Ingibjörg Gunnarsdóttir2,4, Viggó Þór Marteinsson1,2
1Fagsviði örvera, Matís ohf., 2matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, 3Department of Food Technology, Fulda University of Applied Sciences, 4Rannsóknarstofu næringarfræði Landspítala
agnes@matis.is
Inngangur: Lágur styrkur D-vítamíns í blóði getur haft ýmis heilsufarsleg áhrif, þar á meðal á þarmaflóruna. Hins vegar er þeirri spurningu enn ósvarað hvort D-vítamínbúskapur mæðra á meðgöngu tengist samsetningu þarmaflóru barna þeirra eða þróun hennar fyrstu ár ævinnar.
Markmið: Að kanna hvort styrkur D-vítamíns í blóði móður á meðgöngu tengist fjölbreytileika þarmaflóru móður og barns fram að tveggja ára aldri.
Aðferðir: Þátttakendur voru 328 íslenskar mæður og börn þeirra. Styrkur 25-hýdroxývítamíns D (25(OH)D) var mældur við 11.-14. viku meðgöngu. Saursýnum var safnað frá móður eftir fæðingu og börnunum þeirra á mismunandi tímapunktum; áður en barn fékk fasta fæðu, fjórum til sex vikum eftir kynningu á fastri fæðu, við eins og tveggja ára aldur. DNA var einangrað úr saursýnunum,16S rRNA gen baktería mögnuð upp, raðgreind og auðkennd til ættkvísla.
Niðurstöður: Munur var á alfa og beta fjölbreytileika í þarmaflóru ungbarna mæðra sem mældust með lágt (<50 nmól/L) og hátt (≥75 nmól/L) 25(OH)D á meðgöngu. Minni alfa-fjölbreytni var í þarmaflóru ungabarna sem áttu mæður með hátt 25(OH)D fyrir innleiðingu fastrar fæðu og minni beta-fjölbreytni sást fjórum til sex vikum eftir innleiðingu á fastri fæðu samanborið við ungabörn mæðra með lágt 25(OH)D. Bakteríur sem eru gjarnan taldar gagnlegar eins og Christensenellaceae, Bifidobacterium, Bacteroides og Lactobacillus voru í hærra hlutfalli í flóru barna mæðra með háan styrk 25(OH)D en bakteríur sem eru hugsanlega skaðlegar eins og Sutterella mældust í hærra hlutfalli hjá börnum mæðra með lágan styrk 25(OH)D.
Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til þess að D-vítamínbúskapur móður á meðgöngu hafi mögulega þýðingu fyrir samsetningu og þróun þarmaflóru íslenskra ungbarna.
3. Litningabreytileikar í mergæxli á Íslandi á árunum 2015-2021
Anna Karen Richardson1, Sigrún Þorsteinsdóttir1,2, Sigurður Yngvi Kristinsson1,3, Erla Sveinbjörnsdóttir3, Jón Jóhannes Jónsson1,3, Sæmundur Rögnvaldsson1,3
1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Rigshospitalet Kaupmannahöfn, 3Landspítala
akr8@hi.is
Inngangur: Litningabreytileikar eru hluti af meinmyndun mergæxlis og hafa forspárgildi um horfur og hafa í síauknu mæli áhrif á meðferðarval. Því er mælt er með litningarannsókn við greiningu mergæxlis. Tíðni og áhrifaþættir þess að litningarannsókn sé gerð og dreifing litningabreytileika með tilliti til sjúkdómsmyndar, lýðfræðilegra þátta og lifunar hefur ekki verið könnuð á Íslandi.
Markmið: Markmið rannsóknarinnar voru annars vegar að kanna áhrifaþætti þess að sjúklingar fara í litningarannsókn við greiningu og hins vegar að kanna hvernig dreifing litningabreytileika er á Íslandi og tengsl þeirra við birtingamynd, sjúkdómsfría- og heildarlifun.
Aðferðir: Þátttakendur voru þeir sem greindust með mergæxli á árunum 2015 til og með 2021 samkvæmt Krabbameinsskrá Íslands. Þar á meðal voru þátttakendur í yfirstandandi lyfjarannsókn á mergæxli þar sem litningarannsókn var gerð í öllum tilfellum. Gögn úr sjúkraskrám, þ.m.t. niðurstöður litningarannsókna. Notast var við t- og Fisher‘s exact-próf við samanburð á grunneiginleikum þátttakenda. Logistísk aðhvarfsgreining var notuð til þess að kanna áhrif aldurs, búsetu og kyns á það hvort litningarannsókn var gerð. Lifun og sjúkdómsfrí lifun var reiknuð með Kaplan-Meier aðferð og borin saman milli hópa með Cox aðhvarfsgreiningu.
Niðurstöður: Alls fengu 153 greininguna mergæxli á tímabilinu. Meðalaldur við greiningu var 73 ár og aldursspönnin 35 til 97 ár. 57,5% sjúklinga voru karlkyns. Litningarannsókn var gerð hjá 44% einstaklinga með mergæxli utan lyfjarannsóknar. Einstaklingar sem bjuggu nærri Landspítala voru 4,27 sinnum líklegri til að hafa litningarannsókn (gagnlíkindahlutfall (GH) = 4,27, 95% öryggisbil (ÖB): [1,38, 15,4], p = 0,02). Við hver viðbætt tíu aldursár minnkuðu líkur um 66% (GH = 0,34, 95% ÖB: [0,15, 0,65], p=0,0025). Algengustu litningabreytileikarnir voru del(13q) (n=40) og t(4;14) (n=19). Loks sást að sjúkdómsfrí lifun var styttri í einstaklingum með hááhættu litningabreytileika samanborið við enga merkjanlega litningabreytileika (Meðallifun = 2,5 ár vs ekki náð; p = 0,02).
Ályktanir: Litningarannsókn var eingöngu gerð í 44% tilfella utan lyfjarannsóknar. Litningarannsókn var sjaldnar gerð hjá eldri sjúklingum og einstaklingum búsettum fjær Landspítala. Dreifing litningabreytileika var sambærileg og erlendis. Að lokum reyndist sjúkdómsfrí lifun styttri í einstaklingum með hááhættu breytileika. Niðurstöðurnar sýna glögglega mikilvægi litningarannsóknar við mergæxlisgreiningu og benda á sjúklingahópa þar sem má gera betur.
4. Notkun einstofna mótefna gegn RSV veiru hjá börnum á Íslandi. Fjöldi einstaklinga, árangur og kostnaður fyrir íslenskt samfélag
Anna Margrét Stefánsdóttir1, Ásgeir Haraldsson1,2, Valtýr Stefánsson Thors1,2, Þórunn Óskarsdóttir2
1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Barnaspítala Hringsins
ams63@hi.is
Inngangur: RSV er einn algengasti orsakavaldur sýkinga í neðri öndunarvegi og spítalainnlagnar hjá börnum. Flest þeirra ná sér að fullu en hins vegar getur sýkingin haft alvarlegar afleiðingar þá sérstaklega hjá fyrirburum, börnum með langvinna lungnasjúkdóma eða hjartasjúkdóma. Börnum sem er mjög hætt við alvarlegum fylgikvillum af RSV geta fengið einstofna mótefnameðferðina palivizumab.
Markmið: Voru að meta fjölda barna sem fengu palivizumab á árunum 2013-2023 og heildarkostnað meðferðarinnar. Einnig að kanna ábendingar fyrir meðferðinni og afdrif barnanna sem smituðust þrátt fyrir palivizumab.
Aðferðir: Frá gagnagrunni Landspítala fengust upplýsingar um öll börn sem fengu palivizumab á árunum 2019-2023. Allar staðfestar RSV sýkingar voru skráðar, skoðaðar voru komur barnanna á bráðamóttöku og/eða gjörgæslu af völdum RSV og afdrif barnanna skráð. Skráð var innlagnarlengd barnanna á barnadeild eða á gjörgæslu og einnig ef barnið þurfti súrefni.
Niðurstöður: Alls voru 85 börn sem fengu palivizumab. Af 84 börnum voru átta sem smituðust af RSV og lögðust sjö þeirra inn á spítala en eitt þeirra var inniliggjandi vegna annarra ástæðna. Af þessum átta börnum þurftu fimm þeirra súrefnismeðferð. Kostnaður lyfsins auk inngjafa á göngudeild á árunum 2019-2023 hefur verið metinn á 97.034.320kr.
Ályktanir: Þrátt fyrir að hafa fengið palivizumab var þó hluti barnanna sem smitaðist af RSV eða átta einstaklingar. Ókosturinn við gjöf palivizumab er að lyfið er gefið í fimm skömmtum yfir veturinn ásamt tilheyrandi kostnaði og auknu álagi fyrir börnin og foreldrana. Lyfið nirsevimab kæmi til með að veita börnunum samfelldari vörn en hins vegar á eftir að verðleggja það.
5. Blóðþynningarlyf eru ekki tengd betri lifun hjá einstaklingum með ristil- og endaþarmskrabbamein – 20 ára lýðgrunduð rannsókn
Arnar S. Ágústsson1, Sigurdís Haraldsdóttir1,2, Helgi Birgisson3, Sigrún H. Lund1,4
Arnar B. Ingason1, Jóhann P Hreinsson5,6 Einar S. Björnsson1,7
1Læknadeild Háskóla Íslands, 2krabbameinslækningum Landspítala, 3Rannsóknarsetri - krabbameinsskrá, Krabbameinsfélagi Íslands, 4raunvísindadeild Háskóla Ísland, 5deild sameinda- og klínískrar læknisfræði, Sahlgrenska sjúkrahúsinu, 6Háskólanum í Gautaborg,7lyflækningum Landspítala
arnarsn93@gmail.com
Inngangur: Ristil- og endaþarmskrabbamein er þriðja algengasta krabbameinið hérlendis og eru blæðingar um neðri meltingarveg algengasta birtingarmynd þeirra. Margar rannsóknir hafa sýnt hærri tíðni blæðinga orsakaðra af þeim krabbameinum hjá einstaklingum á blóðþynningarlyfjum. Það gæti gefið til kynna að blóðþynningarlyf gætu leitt til snemmgreiningar ristil- og endaþarmskrabbameina sem myndi þá leiða til betri lifunar. Markmið rannsóknarinnar var að skoða lifun einstaklinga á blóðþynningarlyfjum fyrir greiningu og bera saman við einstaklinga sem ekki tóku blóðþynningarlyf.
Aðferðir: Upplýsingar um alla einstaklinga með ristil- og endaþarmskrabbamein á árunum 2000-2019 fengust frá Krabbameinsskrá Íslands. Eingöngu einstaklingar með kirtilmyndandi æxli (adenocarcinoma) voru með í rannsókninni. Viðeigandi klínískar upplýsingar fengust úr sjúkraskrám og Charlson fylgisjúkdómastuðull var reiknaður. Endapunktar voru andlát af öllum orsökum (all-cause mortality) og endurkomufrí lifun hjá einstaklingum á stigi I-III, eftirfylgd lauk 1. október 2022.
Niðurstöður: Samtals 2722 sjúklingar greindust með ristil- og endaþarmskrabbamein á tímabilinu með 223 (8%) sjúklingum sem tóku blóðþynningu fyrir greiningu. Meðaltími eftirfylgdar var 38 mánuðir (FS 64) hjá blóðþynningarhópi en 54 mánuðir (FS 98) hjá samanburðarhópi. Einstaklingar á blóðþynningu voru eldri (76 vs 69, p<0,0001), oftar karlkyns en höfðu sambærilega tíðni fylgisjúkdóma. Sjúklingar á blóðþynningu greindust oftar vegna meltingarvegsblæðingar (81% vs 57% p<0,0001) og höfðu lægra hemoglóbín við greiningu. Ekki var munur á stigun eða fjölda aðgerða milli hópa en blóðþynningarhópurinn fékk sjaldnar lyfjameðferð (20% vs. 33%, p<0,0001). Blóðþynning var ekki tengd við betri lifun í Cox lifunargreiningu hjá pöruðum hópum (ÁHR: 1,12 95% ÖB (0,94 – 1,33), p= 0,20), þegar leiðrétt var fyrir aldri, kyni, fylgisjúkdómum og lyfjameðferð. Blóðþynning var tengd við verri endurkomufría lifun hjá einstaklingum með krabbamein á stigi I-III þegar leiðrétt var fyrir aldri, kyni, fylgisjúkdómum og lyfjameðferð (HR: 1,24 95% CI (1,00 – 1,53), p= 0,0046).
Ályktanir: Sjúklingar á blóðþynningu voru líklegri til að greinast með ristil- og endaþarmskrabbamein vegna blæðingareinkenna og aukins blóðleysis. Blóðþynning var þó hvorki tengd krabbameini á lægra stigi eða betri lifun í þessari rannsókn.
6. Ristil- og endaþarmskrabbamein: 20 ára samanburðarrannsókn á einstaklingum yngri og eldri en 50 ára
Arnar S. Ágústsson1, Sigurdís Haraldsdóttir1,2, Helgi Birgisson3, Sigrún H. Lund1,4, Arnar B. Ingason1, Jóhann P Hreinsson5,6, Einar S. Björnsson1,7
1Læknadeild Háskóla Íslands, 2krabbameinslækningum Landspítala, 3Rannsóknarsetri - krabbameinsskrá, Krabbameinsfélagi Íslands, 4raunvísindadeild Háskóla Ísland, 5deild sameinda- og klínískrar læknisfræði, Sahlgrenska Sjúkrahúsinu 6Háskólanum í Gautaborg,7lyflækningum Landspítala
arnarsn93@gmail.com
Inngangur: Nýgengi ristil- og endaþarmskrabbameina hjá einstaklingum yngri en 50 ára hefur aukist á vesturlöndunum en lýðgrundaðar rannsóknir þó fátíðar. Markmið rannsóknarinnar var að bera saman greiningu, meðferð og horfur yngri og eldri einstaklinga með ristil- og endaþarmskrabbamein á Íslandi.
Aðferðir: Upplýsingar um alla einstaklinga með ristil- og endaþarmskrabbamein á árunum 2000-2019 komu frá Krabbameinsskrá Íslands en klínískar svipgerðarbreytur fengust úr sjúkraskrám. Eingöngu einstaklingar með kirtilmyndandi æxli voru með í rannsókninni. Charlson fylgisjúkdómastuðullinn var nýttur. Endapunktur var samanburður heildarlifunar milli yngri og eldri hópsins, að lok eftirfylgdar 1. október 2022.
Niðurstöður: Samtals 2771 einstaklingur greindust með krabbamein á tímabilinu, þar af 235 (8,5%) yngri en 50 ára. Í yngri hópnum voru marktækt fleiri konur, stig III sjúkdómur algengari og fengu yngri einstaklingar oftar lyfjameðferð (Tafla 1). Enginn munur var á einkennum, greiningaraðferð eða skurðaðgerðum. Mynd 1 sýnir fjölgun í bæði eldri og yngri hóp yfir tímann. Miðgildi eftirfylgdartíma yngri einstaklinga var 71 mánuður ( [FS] 123) á móti 47 mánuðum (FS 92). Yngri hópurinn var ólíklegri til að deyja af öllum orsökum (mynd 2). Í Cox-lifunargreiningu var aldur yfir 50 ára tengdur verri lifun (áhættuhlutfall [ÁH]: 2,42 95% [ÖB] (1,92 – 3,04), p<0,0001) þegar leiðrétt var fyrir kyni, fylgisjúkdómum, stigi og lyfjameðferð.
Ályktanir: Þrátt fyrir sambærilega fjölgun krabbameinstilfella milli eldri og yngri en 50 ára, greindust konur oftar og krabbamein í vinstri ristli var algengara í yngri hópnum. Yngri hópurinn greindist oftar með krabbamein á hærra stigi sem bendir til tafa á greiningu hjá yngri einstaklingum en sá hópur hafði þó betri lifun.
7. Sjúkdómsmynd ASIA-heilkennis og möguleg tengsl þess við silíkonfyllta brjóstapúða
Arnheiður Erla Guðbrandsdóttir1, Björn Rúnar Lúðvíksson1,2, Siggeir Fannar Brynjólfsson2, Sigurveig Þ.Sigurðardóttir1, Kristján Erlendsson2
1Læknadeild Háskóla Íslands, 2ónæmisfræðideild Landspítala
aeg35@hi.is
Inngangur: ASIA er heilkenni sem var lýst af Y. Shoenfeld árið 2011. Heilkennið samanstendur af ónæmismiðluðum sjúkdómum sem koma fram fyrir áhrif ónæmisglæða eins og silíkons. Árið 1962 var byrjað að nota silíkon í brjóstastækkunaraðgerðum þar sem það var talið vera hættulaust efni fyrir líkamann.
Markmið: Kortleggja umfang ASIA-heilkennis í tengslum við silíkon brjóstapúða (SBP) á Íslandi. Meta megin einkenni einstaklinga þar sem grunur leikur á að séu með ASIA-heilkenni í tengslum við SBP. Kanna tengsl ASIA-heilkennis við mögulega áhættuþætti, niðurstöður myndgreiningarannsókna og lífvísa.
Aðferðir: Rannsóknin var lýsandi afturskyggn ferilrannsókn þar sem ekki var notast við viðmiðunarhóp. Skoðaður var valinn hópur 25 kvenna með SBP eða kvenna sem höfðu áður haft SBP. Gagnasöfnunin fólst í því að skoða göngudeildar- og bráðamóttökuskrár kvennanna. Safnað var upplýsingum um einkenni sem samrýmdust ASIA, fyrri heilsufars- og fjölskyldusögu m.t.t. ofnæmis- og/eða gigtarsjúkdóma, líkamsskoðun og einkennum sem gætu bent til ónæmisræsingar ásamt niðurstöðum blóðprufa.
Niðurstöður: Rannsóknarniðurstöðurnar sýndu að aðaleinkenni rannsóknarþýðisins voru síþreyta (84%), stoðkerfisverkir (84%), húðútbrot (64%) og taugaeinkenni (64%). Út frá fyrri heilsufars- og fjölskyldusögu voru vísbendingar um að ofnæmis- og ónæmissjúkdómar geri viðkomandi líklegri til að þróa með sér ASIA-heilkennið. Niðurstöður sýndu að allar konurnar sem teknar voru í líkamsskoðun voru með auma holhandareitla. Blóðprufurnar sýndu undirliggjandi bólguástand þar sem hækkun var á komplement kerfinu ásamt bólguvísum. Í 76% tilfellum var CH50 hækkað, 90% tilfellum var CD40L hækkað og í 75% tilfellum var CD25 hækkað. Niðurstöður sýndu að 92% kvennanna falla undir skilgreiningu ASIA út frá skilmerkjum þess.
Ályktanir: Þessi fyrsti áfangi rannsóknarinnar staðfestir greiningu ASIA-heilkennis meðal 25 íslenskra SBP kvenna, auk þess að endurspegla alvarleika þeirra einkenna. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa einnig sterka vísbendingu hvernig ASIA-heilkennið tengist silíkon brjóstapúðum. Niðurstöðurnar benda jafnframt til langvarandi bólgusvars ákveðinna lífvísa í meira mæli en áður hefur verið talið í ASIA-heilkenni tengdu SBP. Áframhaldandi rannsóknir okkar munu beinast að ítarlegri faraldsfræðilegri og mögulegri áhættugreiningu heilkennisins. Ljóst er að þörf er á að rannsaka betur ASIA-heilkennið hér á landi og stuðla að áframhaldandi uppbyggingu á þverfaglegu greininga- og meðferðarsetri sjálfsbólgusjúkdóma á Landspítala. og aðstoða þá við að fá viðeigandi þjónustu í heilbrigðiskerfinu.
8. Greining á lakkrís orsökuðum háþrýstingi með massagreini - einfaldari og ódýrari aðferð
Árni Daníel Árnason1, Baldur Bragi Sigurðsson2, Elizabeth Cook2, Margrét Þorsteinsdóttir3, Sven Wallerstedt4, Helga Ágústa Sigurjónsdóttir1,4,5
1Læknadeild Háskóla Íslands, 2rannsóknarkjarna klínískrar lífefnafræði og blóðmeinafræði, Landspítala, 3lyfjafræðideild Háskóla Íslands, 4Gautaborgarháskóla, 5lyflækningasviði Landspítala
arnid@landspitali.is
Inngangur: Hingað til hefur háþrýstingur (HT) af völdum lakkríss verið staðfestur með því að mæla hlutfallið: frítt kortisól/frítt kortisón með gasgreiningu á súlu (gas chromatography).
Markmið: Athuga hvort greining á þessu hlutfalli í blóðvatni (QS) væri jafnnæm og sértæk eins og greining á þessu hlutfalli í þvagi (QU) með notkun massagreinis (LC-MS/MS) og hvort fylgni sé á milli QS og greiningar á GA (glycyrrhetinic acid) svo hægt sé að greina háþrýsting af völdum lakkríss.
Aðferðir: Þátttakendur voru 125, 117 með eðlilegan blóðþrýsting (NT) og 8 með HT. Meðalaldur var 31,6 ár fyrir allan hópinn (A), 31,1 ár fyrir NT, 39 ár fyrir HT, 31,1 ár fyrir karlmenn (KK, n=72) og 32,2 ár fyrir konur (KVK, n=53). Rannsóknin var framskyggn og tvíblinduð og innbyrtu þátttakendur annað hvort 150 mg af GA í hylkjum í tvær vikur (n=62) eða lyfleysu (n=63). Næm og sértæk aðferð LC-MS/MS var notuð, sem magngreinir frítt kortisól og frítt kortisón, bæði í þvagi og í blóðvatni. Þar að auki var önnur viðurkennd aðferð á starfsstöð Landspítalans (LSH) notuð til að magngreina GA. Meðaltal, auk staðalfráviks, QS, QU og GA í blóðvatni fékkst fyrir hópana. Munur á meðaltali (mdiff) fyrir QS, QU og GA í blóðvatni fyrir og eftir inntöku GA eða lyfleysu, metið með Wilcoxon prófi, fylgni metin með Spearman-fylgniprófi.
Niðurstöður: Fylgni var á milli breytingar á QS og QU í öllum hópum nema HT; A (p<0,001, rho=0,605), NT (p<0,001 and rho=0,610), KK (p<0,001, rho=0,635) og KVK (p<0,001, rho=0,477). Marktækur munur var á breytingu GA hjá öllum hópum sem fengu GA nema HT (n=6). Mdiff GA hjá A var 6,78x105 (±1,04x106, p<0,001), NT: 6,50x105 (±1,00x106, p<0,001), KK: 7,18x105 (±9,15x105, p<0,001) og hjá KVK 6,24x105 (±1,19x106, p=0,0140). Það var jákvætt línulegt samband milli mdiff QS og GA og QU og GA, fyrir alla hópana (p<0,05).
Ályktanir: Út frá þessu má álykta að hin nýja aðferð LC-MS/MS, sem viðurkennd er á starfsstöð LSH, sé næm og áreiðanleg aðferð til þess að meta QS, QU og GA í blóðvatni. Þannig má enn fremur álykta að þessi nýja aðferð sé áreiðanleg til þess að greina lakkrís orsakaðan háþrýsting.
9. Tengsl milli fæðingarþyngdar og sólarhringsblóðþrýstings í ungum fullorðnum
Ásdís H. Sigurðardóttir1, Ólafur S. Indriðason2, Sigurður S. Stephensen1,3, Þórdís J. Hrafnkelsdóttir1,2, Viðar Ö. Eðvarðsson1,3
1Háskóla Íslands, 2lyflækningum Landspítala, 3barnalækningum Landspítala
asdishsi@landspitali.is
Inngangur: Lág fæðingarþyngd hefur verið tengd við aukna áhættu á háþrýstingi síðar á ævinni. Mælt er með að nota sólarhringsblóðþrýstingsmælingar við greiningu háþrýstings en ekki eru til rannsóknir á tengslum fæðingarþyngdar við sólarhringsblóðþrýsting.
Markmið: Skoða tengslin milli fæðingarþyngdar og sólarhringsblóðþrýstings hjá ungum fullorðnum.
Aðferðir: Þátttakendur voru fengnir úr hópi 970 einstaklinga á aldrinum 20-22 ára sem tóku þátt í rannsókn á blóðþrýstingi hjá íslenskum grunnskólabörnum, þá 9-10 ára, árið 2009. Þátttakendur gengust undir mælingu á sólarhringsblóðþrýstingi og 8 stakar blóðþrýstingsmælingar sem voru framkvæmdar í tveimur heimsóknum. Upplýsingar um fæðingarþyngd og meðgöngulengd fengust úr sjúkraskrám Landspítala og voru notuð til að reikna út Z-stigun fæðingarþyngdar út frá á stöðluðum vaxtarritum (Niklasson & Albertsson-Wikland, BMC Pediatrics 2008, 8:8). Z-stigun fæðingarþyngdar var notuð við úrvinnslu gagna. Fylgnistuðull var reiknaður og línuleg aðhvarfsgreining gerð í tölfræðiforritinu R og niðurstöður þar sem p-gildi var undir 0,05 voru taldar tölfræðilega marktækar.
Niðurstöður: Alls tóku 170 einstaklingar þátt í rannsókninni, þar af voru 102 (60%) konur. Meðaltal sólarhringsblóðþrýstingsmælinga var 120/65 ± 9/5 mm Hg hjá körlum og 112/66± 8/9 mm Hg hjá konum. Meðaltal fæðingarþyngdar var 3625 ± 736 g hjá körlum og 3646 ± 592 g hjá konum. Neikvæð fylgni var á milli fæðingarþyngdar og bæði slagbilþrýstings (r= -0.14, p=0,026) og hlébilsþrýstings (r= -0,10, p=0,20) og sólarhringsblóðþrýstings. Þegar kynin voru skoðuð sitt í hvoru lagi var fylgnin eingöngu marktæk milli fæðingarþyngdar kvenna við sólarhrings-slagbilsþrýstings (r=-0,24, p=0,014). Fylgnin milli fæðingarþyngdar og sólarhrings-slagbilsþrýstings var sterkari á daginn (r=-0,26, p=0,013) en á nóttunni (r=-0,16, p=0,097). Línuleg aðhvarfsgreining sýndi marktæk tengsl milli fæðingarþyngdar og bæði sólarhrings-slagbilsþrýstings (beta= -1,7, p=0,02) og sólarhrings-hlébilsþrýstings (beta= -1,2, p=0,01) í ungum konum, leiðrétt var fyrir líkamsþyngdarstuðli. Tengslin voru sterkari fyrir dægurmælingar (slagbilsþrýstingur: beta= -1,8, p=0,02, hlébilsþrýstingur: beta= -1,4, p=0,02) en næturmælingar (slagbilsþrýstingur: beta= -1,4, p= 0,08, hlébilsþrýstingur: beta= -0,79, p= 0,2). Ekki var sýnt fram á marktæk tengsl milli fæðingarþyngdar við sólarhrings-blóðþrýstings hjá körlum.
Ályktanir: Neikvæð tengsl eru milli fæðingarþyngdar og sólarhringsblóðþrýstings í ungum konum og eru tengslin sterkari fyrir dægurblóðþrýsting.
10. Notagildi erlendra vaxtarrita barna í móðurkviði á Íslandi
Áslaug Haraldsdóttir1, Linda Lindström2,3, Alexander Kristinn Smárason4,5, Hulda Hjartardóttir6, Thor Aspelund7, Jóhanna Gunnarsdóttir1,3,6
1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Karolinska Institute, 3Uppsala Háskóla,4heilbrigðisvísindasvið Háskólanum á Akureyri, 5kvennadeild Sjúkrahúsinu á Akureyri, 6kvennadeild Landspítala, 7Miðstöð í lýðheilsuvísindum Háskóla Íslands
johagunn@hi.is
Inngangur: Vaxtarrit eru notuð til að meta hvort stærð fóstra er eðlileg miðað við meðgöngulengd og flokka börn sem fæðast léttari eða þyngri en meðgöngulengd segir til um. Léttburar sem margir hafa orðið fyrir vaxtarskerðingu, eru líklegri en eðlilega stór fóstur til að deyja í móðurkviði. Fósturvaxtarrit sem byggja á stærðarmælingum fóstra í móðukviði með sónar er ekki til fyrir íslenskt þýði, en vaxtarrit sem byggja á fæðingarþyngdum vanmeta vaxtarskerðingu, einkum meðal fyrirbura. Óvíst er hvort erlend fósturvaxtarrit eru viðeigandi fyrir íslensk börn sem fæðast óvenjulega stór.
Markmið: Tilgangur rannsóknarinnar var að bera saman þrjú erlend fósturvaxtarrit til að kanna hve stórt hlutfall íslenskra nýbura flokkast sem léttburar og þungburar og meta nákvæmni vaxtarritanna við að skilja á milli lifandi og andvana fæðinga.
Aðferðir: Gögn Fæðingarskrár voru notuð um allar einburafæðingar á Íslandi 2000-2020. Þrjú erlend fósturvaxtarrit, ný sænsk kúrva, Hadlock og Intergrowth-21, voru notuð til að reikna percentíl fyrir fæðingarþyngd hvers barns miðað við meðgöngulengd. Hlutfall þýðis á 5 centíla bilum var reiknað til að meta hversu vel vaxtarritin falla að íslensku þýði. Jafnframt var hlutfall léttbura (fæðingarþyngd miðað við meðgöngulengd <10. percentíl) og þungbura (>90. percentíl) reiknað fyrir hvert vaxtarrit og lagskipt eftir ríkisfangi móður. Tvíkosta aðhvarfsgreining var notuð til að meta tengsl léttbura við andvana fæðingar og bera saman næmi vaxtarritanna.
Niðurstöður: Hlutföll þýðis á 5 centíla bilum voru á bilinu 3,5% til 7,8% (sænska), 2,5% til 6,0% (Hadlock) og 1,1% til 26,1% (Intergrowth). Hlutfall þýðis sem flokkaðist léttburar samkvæmt vaxtarritunum þremur var 13,5% (sænska), 5,5% (Hadlock) og 2,3% (Intergrowth) en hlutfall þungbura fyrir sömu vaxtarrit var 7,2%, 11,4% og 36,9%. Konur með erlent ríkisfang fæddu oftar léttbura og sjaldnar þungbura. Þegar léttburi var skilgreindur á sama hátt fyrir öll vaxtarritin (<10. percentíl) þá aðskildu þau lifandi og andvana fædd börn með eftirfarandi næmni: 0,504 (sænska), 0,348 (Hadlock) og 0,336 (Intergrowth).
Ályktanir: Ekkert vaxtarritanna flokkaði viðeigandi hlutfall nýbura sem léttbura og þungbura, en það sænska féll best að neðri enda fæðingarþyngda sem er veigamesti hlutinn. Vaxtarritin voru ónákvæm þegar kom að því að skilja á milli lifandi og andvana fæðinga á grundvelli þess að barnið var léttburi.
11. Algengi arfgengra heilkenna í sjúklingum með briskrabbamein á Íslandi 2000-2021
Ásthildur Rafnsdóttir1,2, Vigdís Stefánsdóttir3, Eiríkur Briem3, Kristín Huld Haraldsdóttir1,3, Stefán Haraldsson3, Bylgja Hilmarsdóttir3, Guðbjörg Jónsdóttir1,3, Agnes Smáradóttir3, Sigurdís Haraldsdóttir1,3
1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Íslenskri erfðagreiningu, 3Landspítala
Inngangur: Um 5-10% briskrabbameina eru talin fjölskyldulæg (e. familial pancreatic cancer) en slíkt er skilgreint sem tveir fyrstu gráðu ættingjar með briskrabbamein eða þrír ættingjar með briskrabbamein sömu megin í fjölskyldu. Um 10% briskrabbameina má rekja til arfgengra orsaka og alþjóðlegar leiðbeiningar mæla með erfðarannsókn hjá öllum sem greinast, þar sem hægt er að beita marksækinni krabbameinsmeðferð hjá sjúklingum með ákveðnar erfðabreytingar.
Markmið: Að kanna tíðni arfgengra heilkenna hjá sjúklingum með briskrabbamein og tíðni fjölskyldulægra briskrabbameina á Íslandi á árunum 2000-2021.
Aðferðir: Þýðið samanstóð af öllum sjúklingum sem greindust með kirtilfrumukrabbamein í brisi á Íslandi árin 2000-2021 og var fengið frá Krabbameinsskrá Íslands. Upplýsingar um fjölskyldusögu sjúklinga fengust úr PedigreeAssistant. Niðurstöður klínískra erfðarannsókna fengust úr sjúkraskrá og Shire en arfgerðir í gagnagrunni Íslenskrar erfðagreiningar voru tengdar við sjúklingaþýðið á kóðuðu formi. Gögnin voru unnin í Excel og Rstudio. Viðeigandi leyfi voru fengin.
Niðurstöður: Frá 2000-2021 greindust 773 sjúklingar með kirtilfrumukrabbamein í brisi. Alls hafði 561 sjúklingur (73%) farið í erfðarannsókn, 63% höfðu tekið þátt í rannsóknum hjá ÍE, 2,3% höfðu farið í klíníska erfðarannsókn og 7,4% fóru í hvort tveggja. Samtals báru 57 (10,2%) sjúklingar meinvaldandi kímlínustökkbreytingu. Meinvaldandi kímlínu-stökkbreytingar í BRCA2 voru algengastar en þær fundust hjá 16 (28%) sjúklingum. Næstalgengastar voru meinvaldandi kímlínustökkbreytingar í BRIP1 og ATM. Alls 153 (19,8%) sjúklingar uppfylltu skilyrði um fjölskyldulægt briskrabbamein. Af þeim höfðu 118 farið í erfðarannsókn, og 18 (15,3%) reyndust með meinvaldandi kímlínustökkbreytingu, flestar í BRCA2.
Ályktanir: Af þeim sjúklingum sem höfðu farið í erfðarannsókn reyndust 10,2% með meinvaldandi kímlínustökkbreytingu sem er í samræmi við erlendar rannsóknir. Einungis 15,3% þeirra sjúklinga sem uppfylltu skilyrði um fjölskyldulægt briskrabbamein reyndust með meinvaldandi kímlínustökkbreytingu, en það samræmist erlendum rannsóknum. Helstu styrkleikar þessarar rannsóknar eru að hátt hlutfall sjúklinga hafði farið í erfðarannsókn. Helstu veikleikar eru að nokkrir sjúklingar sem höfðu farið í erfðarannsókn voru aðeins með niðurstöðu úr rannsókn á einu geni. Landspítali tók nýlega upp há-áhættueftirlit fyrir einstaklinga í aukinni áhættu á briskrabbameini, sem hluti af PRECEDE (The Pancreatic Cancer Early Detection Consortium), en markmið rannsóknarinnar er að greina briskrabbamein fyrr í von um að bæta horfur.
12. Blóðkalsíumhækkun í fólki með góðkynja einstofna mótefnahækkun; niðurstöður úr Blóðskimun til bjargar
Ástrún H. Jónsdóttir1, Helga Á. Sigurjónsdóttir1,2, Sigrún Þorsteinsdóttir1,3, Þórir E. Long1,4, Ingigerður S. Sverrisdóttir1,5, Elías Eyþórsson1,2, Jón Þ. Óskarsson1, Runólfur Pálsson1,2, Ólafur S. Indriðason2, Brynjar Viðarsson2, Páll T. Önundarson1,2, Ísleifur Ólafsson1,2, Ingunn Þorsteindóttir2, Bjarni A. Agnarsson1,2, Margrét Sigurðardóttir2, Ásbjörn Jónsson6, Malin Hultcrantz7, Brian G M Durie8, Stephen Harding9, Ola Landgren10, Þorvarður J. Love1,2, Sigurður Y. Kristinsson1,2, Sæmundur Rögnvaldsson1,2
1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Landspítala, 3Rigshospitalet Kaupmannahöfn, 4Skåne University Hospital, Lundi, 5Sahlgrenska University Hospital, 6Akureyri Hospital, 7Memorial Sloan Kettering Cancer Center, New York, 8Cedar-Sinai Samual Oschin Cancer Center, Los Angeles, 9The Binding Site, Birmingham, 10Sylvester Comprehensive Cancer Center, University of Miami
Markmið: Blóðkalsíumhækkun er eitt greiningarskilmerkja mergæxlis. Kalsíum er því reglulega mælt í einstaklingum með góðkynja einstofna mótefnahækkun (e. monoclonal gammopathy of undetermined significance, MGUS). Óvíst er hvort aðrar orsakir blóðkalsíumhækkunar séu sjaldgæfari í einstaklingum með MGUS en í almennu þýði. Markmið rannsóknarinnar voru að kanna orsakir blóðkalsíumhækkunar í fólki með MGUS og hvaða önnur greiningarskilmerki með blóðkalsíumhækkun tengjast virku mergæxli.
Aðferðir: Blóðskimun til bjargar er lýðgrunduð skimunarrannsókn á einstaklingum með mergæxli og MGUS. Rannsóknarþýðið eru þeir þátttakendur sem eru í eftirliti vegna MGUS í Blóðskimun til bjargar og mældust með blóðkalsíumhækkun. Sjúkraskrár þátttakenda voru yfirfarnar í samráði við innkirtlasérfræðing til staðfestu á viðvarandi blóðkalsíumhækkun og undirliggjandi orsök. Aðrir CRAB-þættir voru skráðir ef mergæxli var orsök blóðkalsíumhækkunarinnar.
Niðurstöður: Af þeim 2,546 einstaklingum með MGUS og í virku eftirliti, voru 191 (7,5%) með að lágmarki eina mælda blóðkalsíumhækkun, þar af voru 93 með viðvarandi blóðkalsíumhækkun (48,7%). Frumkomið kalkvakaóhóf var algengasta orsök viðvarandi blóðkalsíumhækkunar (56%) og krabbamein önnur en mergæxli næstalgengasta orsökin (16%). Í þremur einstaklingum var mergæxli orsök viðvarandi blóðkalsíumhækkunar (3%), hjá öllum voru aðrir CRAB-þættir til staðar.
Ályktanir: Undirliggjandi orsakir viðvarandi blóðkalsíumhækkunar í fólki með MGUS voru í takt við það sem sést hefur í almennu þýði. Blóðkalsíumhækkun var sjaldan orsökuð af mergæxli og engin tilfelli einangraðrar blóðkalsíumhækkunar í mergæxli fundust. Þegar blóðkalsíumhækkun mælist í fólki með MGUS ætti fyrst að endurtaka mælinguna og útiloka frumkomið kalkvakaóhóf áður en sjúklingur er sendur í rannsóknir fyrir greiningu á illkynja sjúkdómum, þar með talið mergæxli.
13. Lifrarígræðslur á Íslandi: afturskyggn þýðisrannsókn á ábendingum árin 2013 til 2023
Bjarki Leó Snorrason1, Sigurður Ólafssson2, Einar Stefán Björnsson1,2
1Háskóla Íslands, 2Landspítala
einarsb@landspitali.is
Inngangur: Nýgengi skorpulifrar á Íslandi hefur sögulega verið lágt en þó verið að aukast síðustu tvo áratugi. Frá því að fyrsta lifrarígræðslan var gerð árið 1984 til 2012 var helsta undirliggjandi orsök lifrarígræðslu frumkomin gallrásarbólga, sem var undirliggjandi ástæða í um 20% tilfella.
Markmið rannsóknar: Markmið rannsóknarinnar var að skoða þróun ábendinga fyrir lifrarígræðslu á síðasta áratuginn.
Aðferðir: Í þessari afturskyggnu heilþýðisrannsókn, söfnuðum við gögnum um ábendingar fyrir lifrarígræðslum í fullorðnum einstaklingum á árunum 2013-2023. Upplýsingum úr sjúkraskrám var safnað og niðurstöður bornar saman við gögn úr eldri rannsókn á sama viðfangsefni.
Niðurstöður: Á rannsóknartímabilinu voru 52 lifrarígræðslur (4 endurígræðslur) framkvæmdar á 48 sjúklingum, þar af 30 (63%) karlmönnum. Meðalaldur þýðisins var 54 ár. Meðalnýgengi lifrarígræðslna á tímabilinu var 13.1/1.000.000/ár, sem markaði aukningu frá tímabilinu 2007-2012 (8.9/1.000.000/ár). Aðal ábendingar lifrarígræðslu voru skorpulifur (60,4%), skorpulifur með lifrarfrumukrabbameini (23%), bráð lifrarbilun (4,2%) ásamt samansafni annarra ábendinga (12,5%). Leiðandi orsök lifrarígræðslu reyndist vera fitulifur tengdur efnaskiptavillu (23%), með nýgengi 3.03/1.000.000/ár samanborið við tímabilið 1984-2012 (0.12/1.000.000/ár) og markar 25-falda aukningu. Önnur algengasta orsökin reyndist áfengistengd skorpulifur (21%) og aðrar orsakir samanstóðu af PBC (8,3%), frumkominni trefjunargallgangabólga (8,3%), lifrarbólga C (8,3%), lifrarskaða af völdum lyfja (4,2%) og samansafni annarra orsaka (27%).
Ályktanir: Marktæk aukning hefur orðið á fjölda lifrarígræðsla á síðasta áratug, drifið áfram af aukningu í ígræðslum tengdum efnaskiptavillu og áfengi. Niðurstöður okkar kalla á nánara eftirlit með þeim sem eiga í hættu á að þurfa ígræðslu og hvetja til þróunar á lýðheilsuvísum til þess að stemma stigum við vaxandi þörf lifrarígræðslna á Íslandi.
14. Sjúklingar með bráða ósæðarflysjun af gerð A ná oftar lifandi í skurðaðgerð á Íslandi
Bjarki Leó Snorrason1, Hafþór Ingi Ragnarsson2, Inga Hlíf Melvinsdóttir3, Arnar Geirsson4, Tómas Guðbjartsson1,2
1Háskóla Íslands, 2Landspítala, 3Yale-háskóla, 4Columbia-háskóla
tomasgud@hi.is
Inngangur: Mikilvægt er að sjúklingar með bráða A-ósæðarflysjun nái sem fyrst á sjúkrahús og ekki verði töf á greiningu og lífsbjargandi skurðaðgerð. Hingað til hafa flestar rannsóknir aðeins litið á afdrif sjúklinga eftir skurðaðgerð.
Markmið: Að kanna afdrif allra sjúklinga sem greindust með ósæðarflysjun af gerð A hjá heillri þjóð á 28 ára tímabili.
Aðferðir: Afturskyggn rannsókn á 124 sjúklingum sem greindust með bráða A-ósæðarflysjun 1992-2019. Upplýsingum var safnað úr sjúkraskrám og réttarkrufningum og borin saman fjögur 7 ára tímabil, m.a. hvar sjúklingarnir létust, dánarhlutfall fyrir aðgerð en einnig 30-daga dánarhlutfall og 5 ára heildarlifun eftir aðgerð.
Niðurstöður: Meðalaldur var 65 ár og breyttist ekki milli tímabila frekar en kynjahlutfall (62% karlar) eða háþrýstingssaga (57%) (tafla-1). Helmingi fleiri tilfelli greindust á síðustu tveimur tímabilunum en því fyrsta, og hélst hlutfall sjúklinga sem lést í heimahúsi og í flutningi svipað á tímabilunum en frá 1999-2005 til 2013-2019 lækkaði dánarhlutfall fyrir aðgerð úr 62% í 29% (p=0,019). Fleiri sjúklingar voru því teknir í aðgerð á sömu tímabilum (61 sbr. 27%, p=0,014) og hlutfall þeirra sem létust á spítala fyrir aðgerð lækkaði marktækt (6.5 sbr. 29%, p=0,019). Hins vegar hélst hlutfall sjúklinga sem létust á sjúkrahúsi eftir aðgerð svipað milli tímabila líkt og 30 daga dánartíðni (14-40%) og 5-ára lifun.
Ályktanir: Fleiri sjúklingar með A-ósæðarflysjun ná nú lifandi inn á sjúkrahús en áður og hlutfallslega fleiri eru teknir í lífsbjargandi skurðaðgerð. Niðurstöðurnar benda til þess að afdrif A-ósæðarflysjunarsjúklinga á Íslandi hafi vænkast án þess að skýringin sé augljós, og því frekari rannsókna þörf.
15. Ósæðarflysjun af gerð A: Er blönduð aðgerðartækni komin til að vera?
Bjarki Leó Snorrason1, Katrín Hólmgrímsdóttir1, Birta Rakel Óskarsdóttir1, Syed Usman Bin Mahmood2, Roland Assi2, Arnar Geirsson3
1Háskóla Íslands, 2Yale-háskóla, 3Columbia-háskóla
Inngangur: Ósæðarflysjun er bráðaatburður sem einkennist af rofi innhjúps ósæðar með myndun falsks holrýmis í ósæðarveggnum. Ósæðarflysjanir af Debakey gerð 1 eru venjulega meðhöndlaðar með bráðri opinni ósæðaraðgerð þar sem rishluti er fjarlægður og ígræði komið fyrir. Með tilkomu TEVAR tækni hafa opnast möguleikar á að meðhöndla sjúkdóminn með blandaðri nálgun en útkomur slíkra aðgerða hafa ekki verið fyllilega rannsakaðar.
Markmið: Í þessari rannsókn skoðuðum við hvort ágengari blandaðri aðgerðartækni við bráðri ósæðarflysjun af Debakey gerð 1 leiddi til betri ummyndunar í fjarhluta ósæðar.
Aðferðir: Rannsóknin tók til einstaklinga sem fóru í aðgerð vegna bráðrar ósæðarflysjunar af Debakey gerð 1 á Yale New Haven spítalanum á árunum 2013 til 2022. Gögnum var safnað úr sjúkraskrám og mælingar gerðar á þremur stöðum í ósæðinni á tölvusneiðmynd. Sjúklingum var skipt í hefðbundinn aðgerðarhóp og hybrid hóp. Ósæðarummyndun var metin með tilliti til vaxtarhraða og raunholrýmisþvermáls ósæðar fyrir aðgerð og við endurkomu.
Niðurstöður: Rannsóknin tók til 58 sjúklinga. Hlutfall sjúklinga sem voru meðhöndlaðir með ágengari aðgerð var 33% (19/58). Tölfræðiúrvinnsla sýndi fram á minni vaxtarhraða í fallhluta ósæðar í hæð lungnastofnskró í hybrid aðgerðarhópi með meðalvaxtarhraða upp á -0.15 mm/mánuð samanborið við +0.12 mm/mánuð í hefðbundnum aðgerðarhópi (P=0,047). Marktækur munur reyndist á raunholrýmisþvermáli hybrid aðgerðarhóps á ósæðarsvæði 3 sem óx úr 19,4 mm fyrir aðgerð í 27,1 mm við seinustu endurkomu (P<0,001) en hefðbundinn aðgerðarhópur sýndi ekki merki um vöxt raunholrýmisþvermáls frá 18 mm fyrir aðgerð (P>0,9). Við lungnastofnskró óx raunholrýmisþvermál úr 17 mm fyrir aðgerð í 28 mm við seinustu endurkomu (P<0,001) samanborið við hefðbundinn aðgerðarhóp sem sýndi ekki neina breytingu frá 14 mm fyrir aðgerð (P>0,9).
Ályktanir: Rannsóknin okkar sýndi að ágengari aðgerðar með hybrid tækni leiddi til minni vaxtarhraða ósæðar og aukins þvermáls raunholrýmis sem gefur til kynna hagstæðari ummyndun í fjarhluta ósæðar.
16. Þorsti er algengt og óþægilegt einkenni meðal sjúklinga með hjartabilun – þversniðsrannsókn
Brynja Ingadóttir1,2, Nana Waldréus3, Auður Ketilsdóttir1,2
1Landspítala, 2hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands, 3Karolinska Institutet
brynjain@landspitali.is
Inngangur: Sjúklingar með hjartabilun hafa mörg einkenni og er þorsti eitt þeirra sem getur haft neikvæð áhrif á líðan og daglegt líf. Lítil þekking er á þessu einkenni meðal íslenskra sjúklinga.
Markmið: Að lýsa algengi og tíðni þorsta, hve miklum óþægindum hann veldur og hvaða þættir tengjast þorsta meðal íslenskra sjúklinga með hjartabilun.
Aðferðir: Í þessari þversniðsrannsókn voru þátttakendur einstaklingar með staðfesta hjartabilun sem voru skjólstæðingar göngudeildar hjartabilunar á Landspítala eða Hjartamiðstöðvarinnar. Rannsóknin er hluti af stærri alþjóðlegri rannsókn. Gögnum var safnað með spurningalistanum Óþægindi vegna þorsta (TDS-HF). Listinn samanstendur af 8 fullyrðingum með fimm svarmöguleikum á skalanum mjög ósammála 1 til mjög sammála 5 (möguleg stig 8-40, hærri stig = meiri óþægindi). Þátttakendur svöruðu einnig spurningalista um algengi þorsta lengd (3 spurningar) og mátu styrkleika þorsta á sjónrænum kvarða (0-100 mm, 0 = enginn þorsti, 100 = versti mögulegi þorsti). Loks svöruðu þátttakendur spurningum um einkenni (NYHA) og bakgrunnsþætti. Klínískra gagna var aflað úr sjúkraskrá.
Niðurstöður: Þátttakendur voru 78, meðalaldur 72 (sf 12) ár, 53% konur og 60% voru í NYHA flokki I-II en 36% í NYHA flokki III. Styrkleiki þorsta var Med 29 mm (spönn 7-59) og óþægindi af völdum þorsta Med 20 (spönn 12-29). Flestir sjúklingar (63%) voru þyrstir daglega eða nær daglega og 8 sjúklingar (11%) fundu aldrei fyrir þorsta. Sjúklingar voru aðallega þyrstir á morgnana eða síðdegis (59%) og hjá þriðjungi (31%) þátttakenda stóð þorsti yfir í 12-24 klst. Meira en helmingur sjúklinganna (56%) var með munnþurrk og 40% fundu fyrir óþægindum þegar þeir voru þyrstir. Að vera kona (b = 6,03; 95% CI 1,91 to 10,10) og vera á þunglyndislyfjum (b = 5,92; 95% CI 1,53 to 10,30) spáði fyrir um meiri óþægindi af völdum þorsta.
Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til þess að þorsti sé algengt og óþægilegt einkenni meðal sjúklinga með hjartabilun. Það er því mikilvægt að meta og meðhöndla þorsta og þróa árangursríkar leiðir í meðferð og sjálfsumönnun fyrir sjúklinga í þeim tilgangi.
17. Exploring Recurrent Traumatic Brain Injuries (rTBI): A Comprehensive Study from Iceland's Landspítali Emergency Department (2010 - 2021)
Christina G. Rodririguez1, Ólöf J. Sigurþórsdóttir2, Birgitta Ó. Úlfarsdóttir1, Karl F. Gunnarsson1,3
1Háskóla Íslands, 2Háskólanum í Reykjavík, 3öldrunar- og endurhæfingarsviði Landspítala
Background: Traumatic brain injury (TBI) is a critical global health concern, impacting mortality and disability rates. This study aims to delineate the incidence, demographics, risk factors, and severity of recurrent traumatic brain injuries (rTBIs) using emergency department records.
Methods: A retrospective descriptive study was conducted at Landspitali (Emergency Department), analyzing data from 2010 to 2021. The sample included 10144 TBI patients, with 627 experiencing rTBI (1350 rTBI visits). The study focused on intracranial and cranial nerve injuries, classified using ICD-10 codes. Key variables included rTBI recurrence, age, Glasgow Coma Scale (GCS) severity, level of consciousness (LOC), and demographic factors. Statistical analyses were performed using R, incorporating descriptive statistics, hypothesis testing, inferential tests, and regression analyses.
Results: The study found that males represented a higher proportion of rTBI cases (58.7%)S compared to females (41.3%). Approximately 30% of rTBI patients returned within the first year, a rate three times higher than previously reported. Significant data gaps were noted for GCS and LOC variables, with variations across visits indicating potential confounders like TBI severity and patient age. Regression analyses revealed age as a consistent predictor of rTBI, with increased age correlating with decreased rTBI odds. Gender disparities were evident, with males more likely to experience rTBI. Regional differences in rTBI incidences were also significant, suggesting geographical factors as influential.
Conclusions: The study underscores the need for targeted preventive measures within the first year post-TBI and calls for improved data collection strategies, particularly for GCS and LOC variables. Despite limitations such as small regional samples and uneven age distributions, the findings provide critical insights into rTBI patterns and advocate for further research to enhance prevention and clinical management strategies.
18. Yeast-derived β-1,3-1,6-glucan increases DC secretion of TNFα and IL-10
Dagmar Elsa Jónasóttir1,2, Monica Daugbjerg Christensen2,3,4, Jóna Freysdóttir1,2, Ingibjörg Harðardóttir1,2
1Faculty of Medicine, Biomedical Center, University of Iceland; 2Department of Immunology, Landspítali, 3Department of Biotechnology and Biomedicine, Matís ohf; 4Faculty of Life and Environmental Sciences, University of Iceland
dej2@hi.is
Introduction: The insoluble β-1,3-1,6-glucan derived from baker's yeast, the main ingredient in the food supplement product NutramunityTM, has been claimed to improve immune function.
Aims: The aim of this study was to determine the effects of the insoluble β-1,3-1,6-glucan from baker´s yeast and its oligosaccharide derivatives on immune responses in human dendritic cells (DCs).
Methods: Human DCs were matured and stimulated in the absence or presence of different concentrations of the insoluble β-1,3-1,6-glucan and its oligosaccharide derivatives. Their effects on DC cytokine secretion and expression of surface molecules were determined using ELISA and flow cytometry, respectively.
Results: Maturation and stimulation of DCs in the presence of the insoluble β-1,3-1,6-glucan led to a dose-dependent increase in their secretion of TNFα and IL-10 while maturing and stimulating the DCs in the presence of different oligosaccharide fractions had no effect on the secretion of the four cytokines tested (TNFα, IL-6, IL-12p40, and IL-10). The insoluble β-1,3-1,6-glucan did not lead to statistically significant changes in the percentage of DCs expressing CD141, Dectin-1, CD14, or TLR6, although there was a tendency towards a dose-dependent increase in the percentage of DCs expressing these molecules when incubated with the glucan. Also, the glucan did not lead to statistically significant changes in the percentage of DCs expressing CD86, CD40, PD-L1, or CD1c, although there was a tendency towards dose-dependent decrease in the percentage of DCs expressing them when incubated with the glucan.
Conclusion: Treating DCs with the insoluble β-1,3-1,6-glucan led to increases in their secretion of both the pro-inflammatory cytokine TNFα and the anti-inflammatory cytokine IL-10. These results may reflect the cytokine scenario often seen in inflammatory diseases, where IL-10 is present in conjunction with pro-inflammatory cytokines. However, when DCs were treated with oligosaccharide fractions from the β-1,3-1,6-glucan the effect seen by the native compound was lost, which may be due to the oligosaccharides being smaller and perhaps having different branching structures than the native compound.
19. Útkomur meðgangna og fæðinga á Íslandi hjá konum sem urðu þungaðar eftir glasafrjóvgun árin 2019-2021
Elísabet Mjöll Guðjónsdóttir1, Jóhanna Gunnarsdóttir1,3, Hildur Harðardóttir2, Snorri Einarsson1,2
1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Livio Reykjavík, 3kvennadeild Landspítala
Inngangur: Útkomur meðgangna og fæðinga á Íslandi eftir glasafrjóvgunarmeðferðir hafa aldrei verið kannaðar. Óljóst var hvers vegna konur leita sér meðferðar erlendis og hvernig þær skilja sig frá konum sem leita sér meðferðar á Íslandi.
Markmið: Í fyrsta lagi að gera samanburð á konum sem fengu meðferð hérlendis og erlendis með tilliti til undirliggjandi áhættuþátta, sjúkdómsgreininga á meðgöngu, útkomu fæðingar og heilsu barnsins. Í öðru lagi að kanna hvort meðgöngulengd var áætluð út frá glasafrjóvgunarmeðferð eða ómskoðun, og hvort það hafði áhrif á klíníska ákvarðanatöku um inngrip á meðgöngu og í fæðingu.
Aðferðir: Afturskyggn ferilrannsókn. Rannsóknarþýðið (n=427) var konur sem fæddu barn eftir glasafrjóvgun á árunum 2019-2021. Tveir hópar voru skilgreindir; erlendis (n=46) og Ísland (n=381). Notast var við lýsandi tölfræði og p<0,05.
Niðurstöður: Við samanburð á hópunum erlendis og Ísland var: meðalaldur 38,3 ár og 34,2 ár (p<0,001), erlent ríkisfang 13 (28,3%) og 28 (7,3%) (p=0,002), gjafaegg 18 (39,1%) og 23 (6,0%) (p<0,001), greining á háþrýstingssjúkdómi og/eða meðgöngusykursýki 31 (67%) og 154 (40,4%) (p<0,001). Ómarktækur munur var á öðrum áhættuþáttum og útkomum. Í hópnum Ísland var meðgöngulengd áætluð út frá glasafrjóvgun hjá 247/381, ómskoðun hjá 97/381 og hjá 37/381 var það óvíst. Í sex tilvikum gat skipt máli fyrir ákvarðanatöku hvort meðgöngulengd var áætluð út frá glasafrjóvgun eða annarri aðferð.
Ályktanir: Konur sem leita meðferðar erlendis eru að meðaltali eldri og hærra hlutfall þeirra þarfnast gjafaeggja eða hefur erlent ríkisfang. Hærra hlutfall sjúkdómsgreininga á meðgöngu gæti skýrst af hærri aldri eða gjafaeggjameðferðum, sem hvoru tveggja eru þekktir áhættuþættir. Ekki er hægt að útiloka að val á aðferð við áætlun meðgöngulengdar hafi áhrif á klíníska ákvarðanatöku.
20. Algengi DPYD erfðabreytileika og tengsl við aukaverkanir af völdum 5-FU og capecitabine lyfjameðferðar
Elsa Jónsdóttir1,2, Þórunn Rafnar2, Magnús Karl Magnússon1,2, Sigrún Helga Lund1,2, Kári Stefánsson2, Sigurdís Haraldsdóttir1,3
1Læknadeild Háskóla Íslands, 2deCODE genetics, 3krabbameinslækningadeild Landspítala
Inngangur: 5-fluorouracil (5-FU) og forlyf þess, capecitabine, eru mikilvæg lyf gegn krabbameinum í meltingarvegi, brjóstum og á höfuð- og hálssvæði. Aftur á móti geta lyfin valdið alvarlegum aukaverkunum eins og beinmergsbælingu, niðurgangi, slímhúðarbólgu og æðaspasma í kransæðum. Einstaklingar með erfðabreytileika í DPYD geninu sem valda skertri starfsemi í DPD ensíminu hafa aukna hættu á alvarlegum aukaverkunum af völdum 5-FU og capecitabine.
Markmið: Að kortleggja DPYD erfðabreytileika sem valda DPD skorti í íslensku þjóðinni og tengsl þeirra við alvarlegar aukaverkanir af völdum 5-FU og capecitabine.
Aðferðir: Rannsóknin náði til allra einstaklinga sem fengu 5-FU eða capecitabine lyfjameðferð frá 1. janúar 2002 til 31. desember 2021, alls 2719. Arfgerðarupplýsingar fengust úr gagnavarðveislu Íslenskrar erfðagreiningar. Unnið var með gögn frá Krabbameinsskrá Íslands, LSH gagnagátt, Lyfjagagnagrunni og Dánarmeinaskrá Landlæknisembættis. Klínískum gögnum um aukaverkanir og innlagnir var handvirkt safnað úr sjúkraskrám.
Niðurstöður: Algengi DPYD erfðabreytileika sem valda DPD skorti í íslensku þjóðinni var 4,6%. Samtals báru 111 (4,1%) einstaklingar sem fengu 5-FU eða capecitabine a.m.k. einn DPYD erfðabreytileika sem veldur DPD skorti. Fyrir seinni hluta rannsóknartímabilsins (2011-2020) fengu 13,1% alvarlegar lyfjatengdar aukaverkanir sem leiddu til innlagna. Algengastar voru aukaverkanir tengdar meltingarfærum (7,6%) og beinmergsbæling (5,3%). Óleiðrétt heildarlifun frá upphafi lyfjameðferðar reyndist lakari meðal þeirra sem fengu alvarlega aukaverkun sem leiddi til spítalainnlagnar.
Ályktun: Alls báru 4,6% íslensku þjóðarinnar DPYD erfðabreytileika sem valda DPD skorti og þar með auka hættu á alvarlegum aukaverkunum af völdum 5-FU og capecitabine við útsetningu fyrir þessum lyfjum. Sömuleiðis eru vísbendingar fyrir verri horfum meðal þeirra sem hljóta alvarlega aukaverkun á lyfjameðferð. Þörf er á frekari kortlagningu til mats á tengslum DPYD erfðabreytileika og afdrifa þeirra sem fá capecitabine og 5-FU lyfjameðferðir.
21. Endurnæringarheilkenni og aðkoma næringarfræðings í meðferð barna og unglinga með átraskanir
Elva Björk Bjarnadóttir1, Ingunn Erla Ingvarsdóttir1, Áróra Rós Ingadóttir1,2, Ingibjörg Gunnarsdóttir1,2
1Næringarstofu Landspítala, 2matvæla- og næringarfræðideild, Háskóla Íslands,
elvabbj@landspitali.is
Inngangur: Erlendar rannsóknir benda til hættu á endurnæringarheilkenni (e. refeeding syndrome), hjá börnum og unglingum með átröskun, en hættan hefur ekki áður verið metið hérlendis. Alþjóðlega er lítið vitað um þátttöku næringarfræðinga í meðferð átröskunar.
Markmið: Að kanna tíðni áhættu á endurnæringarheilkenni meðal barna og unglinga með átraskanir sem að lögðust inn á Landspítala. Markmiðið var einnig að kanna aðkomu næringarfræðinga að meðferðinni.
Aðferðir: Úrtak rannsóknarinnar voru börn og unglingar á aldrinum 6-18 ára, sem lögð voru inn á barna og unglinga geðdeild Landspítala (BUGL) frá 1. janúar 2010 til 31. desember 2022 með greininguna átröskun. Við mat á áhættu á endurnæringarheilkenni var notast við viðmið frá American Society for Parenteral and Enteral Nutrition (ASPEN). Upplýsingar um aðkomu næringarfræðings að meðferð voru skráðar úr sjúkraskrám.
Niðurstöður: Niðurstöður eru birtar fyrir 54 börn og unglinga sem höfðu dvalið á barna og unglinga geðdeild BUGL í átröskunarmeðferð. Þar af höfðu 13 dvalið á Barnaspítala Hringsins til eftirlits fyrir meðferð á BUGL fyrstu sólarhringana. Út frá viðmiðum ASPEN töldust 70,4% í mikilli hættu á endurnæringarheilkenni, 3,7 % í meðal áhættu og 5,6% í vægri áhættu á endurnæringarheilkenni. Alls hafði um 20% sjúklinga á BUGL og 80% sjúklinga á Barnaspítala Hringsins fengið ráðgjöf hjá næringarfræðingi eða næringarfræðingur haft óbeina aðkomu að meðferð (veitt ráðgjöf).
Ályktanir: Börn með átraskanir sem að leggjast inn á Landspítala eru líkleg til að vera í mikilli hættu á endurnæringarheilkenni. Þátttaka næringarfræðings í meðferð við átröskunum virðist vera algeng í bráðafasa á Barnaspítala Hringsins, en ekki eins tíð á legudeild BUGL.
22. Aðlögun, lækkun greiningarmarka og gilding sterapanels sem inniheldur 17 sterahormón og eitt steralyf
Embla Björt Berndsen1, Þórdís Rún Pétursdóttir1, Íris Thelma Halldórsdóttir1, Guðrún Louise Maier1, Ásbjörg Ósk Snorradóttir2,3, Guðmundur Sigþórsson1, Baldur Bragi Sigurðsson1
1Rannsóknakjarna – klínískri lífefnafræðideild, Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands,3meinafræðideild Landspítala
baldurbs@landspitali.is
Inngangur: Við magngreiningar sterahormóna á rannsóknastofum í klínískri lífefnafræði hefur í gegnum tíðina yfirleitt verið stuðst við ónæmismælingar (immunoassays (IA)). IA hafa marga kosti, þær er hægt að framkvæma hratt á sjálfvirkum efnagreiningartækjum. Ókostir eru takmarkað næmi og sértæki og viðkvæmni fyrir truflandi þáttum. Síðustu 15-20 ár hefur orðið framþróun í vökvakrómatógrafíu og massagreiningum (LC-MS/MS) og tæknin í auknum mæli innleidd á rannsóknastofur í klínískri lífefnafræði sökum næmni og sértækni. Sterahormónagreining með LC-MS/MS auðveldar nákvæma greiningu og eftirlit með ýmsum sjúkdómum, svo sem nýrnahettuskerðingu, nýrnahettuauka og ákveðnum krabbameinum, með því að veita nákvæma magngreiningu á sterahormónagildum, en í dag er tæknin gullstaðall í sterahormónamælingum. Fjögur sterahormón hafa síðastliðin 5 ár verið mæld með „heimagerðri“ LC-MS/MS aðferð á rannsóknakjarna Landspítala. Vegna nýlegrar reglugerðar Evrópusambandsins um lækningatæki verða rannsóknastofumæliaðferðir að víkja fyrir CE-IVDR vottuðum aðferðum og er slík sterahormónaaðferð á lokastigum innleiðingar á Rannsóknakjarna. Nýja mæliaðferðin leysir af hólmi ákveðnar IA-aðferðir t.d. DHEA-S, eldri LC-MS/MS aðferð og býður upp á möguleika á mælingu sterahormóna sem ekki hafa verið mæld á Rannsóknakjarna áður og næmari testósterón og estradíól mælingar en áður, sem er gagnlegt við greiningu fyrrnefndra sjúkdóma.
Markmið: Lækka greiningarmörk CE-IVDR LC-MS/MS aðferðar fyrir sterahormón, gilda og koma í þjónustu á rannsóknakjarna ásamt því að leysa af hólmi hluta af þeim sterahormónamælinga sem gerðar eru með IA. Auka getu til þátttöku í stórum rannsóknarverkefnum.
Aðferðir: Greiningarmörk aðkeyptrar CE-IVDR lækkuð í samræmi við getu LC-MS/MS tækis á Rannsóknakjarna. Sjálfvirk sýnameðhöndlun þróuð og uppsett. Gilding aðferðar og samanburður við fyrri aðferðir gerð skv. EMA guidelines for bioanalytical validation í samræmi við kröfu Evrópusambandsins. Þátttaka í ytra gæðaeftirliti UK-NEQAS og SKML er viðbótar gæðastimpill.
Niðurstöður: Fyrstu niðurstöður gildingar sýna góða hittni og nákvæmni og eru vel undir matsviðmiðum EMA. Samanburður við eldri LC-MS/MS aðferð er mjög góður, en samanburður við IA-aðferðir mistækur.
Ályktanir: Við höfum með góðum árangri hafið aðlögun og gildingu á sterahormónapanel sem styður við og kemur í stað nokkurra ónæmismælinga, ásamt því að bæta við mælingu á sterahormónum sem ekki hafa verið í boði áður á Íslandi. Aðferðin fer í rútínu á öðrum ársfjórðungi og mun bæta þjónustu rannsóknakjarna verulega.
23. Líðan sjúklinga 1-, 3-, og 6 mánuðum eftir fyrstu kransæðavíkkun: Samspil sál- og félagslegra þátta
Erla Svansdóttir1, Torfi Már Jónsson2, Jón Friðrik Sigurðsson3, Hróbjartur Darri Karlsson4
1Sálfræðiþjónustu, Landspítala, 2Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, 3sálfræðideild Háskólans í Reykjavík, 4lyflækningasviði Landspítala
erlasvan@landspitali.is
Inngangur: Árlega undirgangast 600-700 manns kransæðavíkkun á Landspítala. Kransæðavíkkun getur því verið streituvaldandi fyrir sjúklinga, sökum bráðleika veikindanna og skyndilega breyttra aðstæðna. Eftir útskrift standa sjúklingar frammi fyrir langvarandi lyfjameðferð, fjarveru frá vinnu, hjartaendurhæfingu og lífstílsbreytingum vegna annars stigs forvarna. Eftir greiningu á hjartasjúkdóm er algengt að þunglyndis- og kvíðaeinkenni komi fram sem geta hindrað árangur annars stigs forvarna og skert lífsgæði. Vísbendingar eru um að slík einkenni aukist fyrstu mánuðina eftir kransæðavíkkun.
Markmið: Að kanna stöðu sálrænna þátta meðal sjúklinga 1-, 3- og 6 mánuðum eftir fyrstu kransæðavíkkun, og meta hvort staða þeirra sé ólík eftir félagslegum þáttum/stöðu.
Aðferð: Þátttakendur voru n=33 sjúklingar (M=60,7±6,2 ár) sem undirgengust sína fyrstu kransæðavíkkun á Landspítala frá desember 2021 til maí 2022. Þátttakendur svöruðu spurningalistum um líkamleg einkenni, kvíða, þunglyndi, streitu og hjartatengdum kvíða fyrir útskrift og aftur rafrænt 1-, 3-, og 6 mánuðum eftir útskrift í gegnum RedCap forritið.
Niðurstöður: Þunglyndiseinkenni 6 mánuðum eftir víkkun (M=7.2 ±5.9) mældust hærri samanborið við 1 mánuði (M=4,5 ±5,1, p<0,05) og 3 mánuðum eftir útskrift (M=5,3 ±5,3, p<0,05). Há jákvæð fylgni kom fram milli grunnlínumælinga á þunglyndi, kvíða, streitu, hjartatengdum kvíða og forðun frá hjartaáreynslu við slök lífsgæði 6 mánuðum eftir víkkun (r=0,69, p<0,001 fyrir þunglyndi, r=0,90 fyrir kvíða, p<0,01, r=0,63, p<0,01 fyrir streitu, r=0.53, p<0.05 fyrir hjartatengdan kvíða og r=0.66, p<0.001 fyrir forðun frá hjartaáreynslu). Hjartasjúklingar sem voru ekki í sambandi við útskrift skoruðu hærra á forðun frá hjartaáreynslu bæði 3 mánuðum (M=9.8±5.4 vs. M=3.4 ±4.8, p<0.05) og 6 mánuðum (M=8,0±4,1 vs. M=2,5 ±3,8, p<0,01) eftir útskrift samanborið við sjúklinga sem voru í sambandi. Þeir höfðu einnig hærri þunglyndiseinkenni 3 mánuðum eftir víkkun (M=12.5 ±7.1 vs. M=4,6 ±4,2, p<0,01). Sjúklingar sem ekki voru í sambandi við útskrift sýndu meiri forðun frá hjartaáreynslu 6 mánuðum eftir útskrift (ß=0,42, p<0,01) óháð kyni, aldri, menntun og grunnlínumælingu á kvíða.
Ályktanir: Þunglyndiseinkenni hjartasjúklinga virðast aukast eftir því sem lengra líður frá fyrstu kransæðavíkkun. Andleg líðan fyrir útskrift hefur sterk tengsl við lífsgæði hálfu ári síðar. Einstæðir hjartasjúklingar þurfa mögulega á auknum stuðningi að halda í hjartaendurhæfingu vegna meiri forðunar frá hjartaáreynslu.
24. Advise of aspirin use during pregnancy and adherence to treatment
Fanney Sigurgeirsdóttir1, Eygló H. Haraldsdóttir2, Emma M. Swift3, Helga Helgadóttir4, Hulda Hjartardóttir5, Rannveig S. Sigurvinsdóttir1, Jóhanna Gunnarsdóttir2,5
1Sálfræðideild Háskólans í Reykjavík, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands, 4lyfjafræðideild Háskóla Íslands, 5Landspítala
johagunn@landspitali.is
Background: Preeclampsia is a life-threatening disorder that is treated by delivery, sometimes before term. Aspirin is advised from 12 weeks in high-risk pregnancies because this reduces preterm birth in preeclampsia, but good adherence is imperative. In Iceland, it is unknown to what extent pregnant individuals adhere to aspirin treatment and if the quality of the screening program could be approved.
Aims: The aim of the study was to assess pregnant individuals understanding of the purpose of aspirin use and investigate the prevalence and reasons for inadequate adherence.
Methods: This was a cross-sectional internet survey targeting pregnant individuals in Iceland from September 2023 to February 2024. Participants were asked if they were advised aspirin, if they used it and how frequent the intake was during the week before. The following open-ended questions were included:” Why were you recommended to use aspirin? How does aspirin benefit you? What prevented you from using aspirin?”. Results were described in frequencies and percentages of individuals that were advised to use aspirin. Structured tabular thematic analysis was used for analysis of text responses (sometimes counting >1 theme/individual).
Results: Number of responders was 806 and of those 207 were advised to use aspirin. Four subthemes emerged as reasons for aspirin advise (n=196): Awareness of risk factors, additional explanations, fertility, and unawareness. Five subthemes reflected understanding of the benefit of aspirin use (n=68): Preventing preeclampsia and hypertension, blood thinning qualities, fertility and miscarriage prevention, idiosyncratic explanations, and lack of knowledge. Non-adherence was reported by 11 individuals out of 185 pregnancies that had reached 12 weeks (6%) and two did not answer. Daily intake of aspirin in the week preceding the survey was reported by 128, or 74% of aspirin users (n=172). Reasons for abstaining from purchasing and using aspirin daily were articulated by 19 individuals and three subthemes emerged: Side effects (n=4), forgetfulness (n=12), and fearfulness or “a feeling” (n=6)
Conclusion: According to the understanding of responders, aspirin was advised for other purposes than preterm preeclampsia prevention. The prevalence of non-adherence was low but inadequate adherence was often explained by forgetfulness which could be improved by reminders.
25. Assessing habituation and adaption strategies in postural control
Federica Pescaglia1, Lorena Guerrini1,2, Margherita Mendicino1,3, Carmine Gelormini1, Marco Recenti1, Hannes Petersen4, Paolo Gargiulo1,5
1Institute of Biomedical and Neural Engineering, Reykjavik University, 2Dept. of Engineering, University of Campania L. Vanvitelli, 3Dept. of information Engineering, University of Padova, 4Dept. of Anatomy, University of Iceland, 5Dept. of Science, Landspítali
Introduction: The innovative BioVRSea paradigm revolutionizes postural control (PC) assessment, promising advancements in motion sickness evaluation, quantitative physiology, and the study of pathological conditions like concussion and early-stage Parkinson's). Utilizing virtual reality (VR) to challenge PC responses, BioVRSea exposes subjects to visual and motor stimuli while measuring electromyogram (EMG) and center of pressure (CoP). This study compares BioVRSea responses between sailors and a healthy cohort, aiming to understand muscle activation and CoP changes, focusing on adaptation and habituation strategies.
Methods: BioVRSea recreates a sea environment, placing subjects on a virtual boat with a moving platform. The protocol comprises three phases: visual stimulus exposure, combined visual and movement stimuli, and visual stimulus-only. Twenty-one male sailors, with a minimum three-week sailing experience, were compared with 112 age-matched healthy males. EMG features from Tibialis Anterior (TA), Soleus (S), and Gastrocnemius Lateral (GL) muscles, along with CoP features, were extracted. Statistical analysis included the Shapiro-Wilk test for normality, t-tests for normally distributed data, Mann-Whitney tests otherwise, and Bonferroni correction at a 95% confidence level.
Results: In the adaptation phase, GL right and S left muscles exhibited statistically significant Maximum Power (Pmax) features, particularly during platform movement. CoP analysis revealed 14 significant features during movement adaptation and 8 during habituation. Sailors displayed significant differences in mediolateral and anteroposterior sway during adaptation, with higher mediolateral sway during habituation compared to healthy subjects.
Conclusions: Analysis of the BioVRSea paradigm highlights distinct adaptation strategies between sailor and healthy cohorts, suggesting diverse techniques to acclimate to the virtual environment it presents the BioVRSea simulation.
26. Mat á viðhorfi til hermikennslu meðal lyfjafræðinema
Freyja Jónsdóttir1,2, Helga Kristinsdóttir2
1Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, 2lyfjaþjónustu Landspítala
freyjaj@landspitali.is
Inngangur: Hermikennsla sem kennsluaðferð er í auknum mæli nýtt í heilbrigðisvísindum og hafa nýlegar rannsóknir sýnt fram á mikilvægi. Hermikennsla felst í að herma með tæknibúnaði eða leiknum sjúklingum eftir raunverulegum aðstæðum í öruggu umhverfi, með leiðbeinanda, án þess að heilsu sjúklings sé stefnt í hættu. Til að styðja við árangursríka innleiðingu hermikennslu í lyfjafræðinámi er brýnt að rýna hversu móttækilegir nemar í heilbrigðisgreinum á háskólastigi eru fyrir kennsluaðferðinni.
Markmið: Markmið rannsóknar var að kanna viðhorf lyfjafræðinema til hermikennslu eftir þátttöku í hermikennslu í áfanganum Klínísk lyfjafræði í meistaranámi í lyfjafræði.
Aðferðir: Þátttakendur voru lyfjafræðinemar í Háskóla Íslands í klínískri lyfjafræði vormisseri 2024. Lyfjafræðinemar svöruðu rafrænum spurningarlista í gegnum REDCap að lokinni hermikennslu í Hermisetrinu HermÍS í Eirbergi. Notast var við spurningarlista sem samanstóð af 12 spurningum á Likert-kvarða sem mátu staðhæfingar um hermikennslu, líkt og gagnsemi, raunveruleika og færni. Tveimur opnum spurningum var einnig bætt við. Lýsandi tölfræði var notuð til að greina niðurstöðurnar.
Niðurstöður: Svarhlutfall þátttakenda var 100% (12/12), 75% voru konur. Niðurstöður sýndu að allir þátttakendur voru annað hvort mjög sammála eða sammála því að þau hafi lært mikið af hermikennslunni sem muni nýtast í klínísku starfi og að kennslan muni stuðla að auknu öryggi sjúklinga í klínísku starfi. Einnig töldu allir þátttakendur að faglegt sjálfstraust hafi aukist við kennsluna. Meirihluti þátttakenda (9/12, 75%) töldu hermikennsluna hafa jákvæð áhrif á færni í teymisvinnu. Allir þátttakendur töldu hermikennsluna raunverulega/trúverðuga.
Ályktanir: Lyfjafræðinemar í áfanganum Klínísk lyfjafræði höfðu jákvætt viðhorf til hermikennslu og töldu hana efla faglegt sjálfstraust, stuðla að auknu öryggi sjúklinga og færni í teymisvinnu. Sérstaka áherslu ætti að leggja á að bjóða upp á aukna hermikennslu í lyfjafræðinámi sem og öðrum heilbrigðisfögum.
27. Hugbúnaður fyrir mælingar í endurhæfingu: Niðurstöður notendakönnunar
Garðar Ingvarsson1, Helgi Sigtryggsson2, Guðrún Árnadóttir3,4
1University College London, 2Carnegie Mellon University, Pittsburgh, 3bráða- lyflækninga- og endurhæfingarsviði Landspítala, 4læknadeild Háskóla Íslands
Inngangur: Iðjumatstækið ADL-focused Occupation-based Neurobehavioral Evaluation (A-ONE) er notað til að meta framkvæmdafærni við daglegar athafnir og áhrif taugaeinkenna á framkvæmd þeirra. Nýlega var hannaður notendavænn hugbúnaður sem leyfir skráningu upplýsinga ADL kvarða og þriggja taugaatferliskvarða þess, umbreytingu raðkvarðastiganna í mæligildi og skýrslugerð. A-ONE forritið býður upp á val milli sex tungumála. Reiknilíkön þess útfæra: samruna stiga, umbreytingu raðkvarðastiganna í mæligildi byggð á Rasch greiningu, útreikninga fyrir brottfall mæligilda og reikninga til að kanna tölfræðilega marktækni mæligildamismunar við árangursmat.
Markmið: Að stuðla að frekari þróun A-ONE hugbúnaðarins út frá upplifun og ábendingum notenda.
Aðferðir: Útbúin var þríþætt notendakönnun, bæði á íslensku og ensku, sem samanstóð af bakgrunnsupplýsingum auk krossaspurninga og opinna spurninga, um upplifun af notkun forritsins. Könnunin var send með tölvupósti til tveggja notendahópa til að afla upplýsinga fyrir uppfærslu forritsins. Íslenska útgáfan var send til 15 klínískra iðjuþjálfa á Landspítala og hjá Krafti endurhæfingu ásamt notendaaðgangi að forritinu. Iðjuþjálfarnir höfðu allir setið kynningarnámskeið um notkun hugbúnaðarins. Enska útgáfa könnunarinnar var send átta erlendum leiðbeinendum A-ONE námskeiða (prófessorar, rannsakendur og klínískir iðjuþjálfar) ásamt aðgangi að forritinu. Sumir þeirra höfðu komið að þýðingum upprunalega matstækisins og/eða hugtökum forritsins.
Niðurstöður: Svörun eftir tvær ítrekanir náði 87%. Svörin gáfu til kynna að forritið væri auðvelt í notkun (100%) og sparaði iðjuþjálfum tíma og vinnu (90%). Einnig að umsvifalaus umbreyting raðkvarðaupplýsinga í mælieiningar nýttist vel við árangursmat. Auk þess gáfu svarendur til kynna áhuga fyrir að nýta forritið við vinnu sína og að þeir myndu mæla með notkun þess við samstarfsaðila (100%). Nokkrar uppástungur um endurbætur og lagfæringar komu fram. Þar má nefna viðbót upplýsinga um algengar spurningar og svör í handbók forritsins. Einnig að fjölgun brottfallsgilda væri æskileg og að gagnlegt yrði að hafa fellilista með öllum skilgreiningum A-ONE hugtaka taugaatferliskvarða (77 huglægar; 77 aðgerðabundnar) í forritinu.
Ályktanir: Forritið nýtist við að brúa bilið milli raðkvarða upplýsinga og mælieininga. Það býður upp á umtalsverðan tímasparnað fyrir iðjuþjálfa sem nota A-ONE við mat á ADL og taugaeinkennum sem draga úr framkvæmdafærni. Það auðveldar samanburð mælinga og veitir upplýsingar um tölfræðilega marktækni árangurs. Notkun þess mun hvetja til notkunar mælieininga við árangursmat.
28. Lyfjatengt óráð hjá sjúklingum með eða án heilabilunar: Kerfisbundin yfirferð
Guðný Björk Proppé1, Rut Matthíasdóttir1, Anita E. Weidmann2, Pétur Sigurður Gunnarsson1,3, Freyja Jónsdóttir1,3
1Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, 2lyfjafræðideild Háskólans í Innsbruck, 3lyfjaþjónustu Landspítala
Inngangur: Meðalaldur jarðarbúa fer hækkandi sem leiðir til fjölgunar á eldri einstaklingum með fjölveikindi og tilheyrandi fjöllyfjanotkun. Óráð er klínískt ástand sem einkennist af bráðum ruglingi við margvíslegar orsakir og getur það haft alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar til skemmri og lengri tíma fyrir batahorfur og langlífi sjúklinga. Heilabilun er hnignun á vitrænni starfsemi. Ýmis lyf eru talin geta orsakað þróun óráðs, sérstaklega hjá eldri einstaklingum. Mikilvægt er að heilbrigðisstarfsfólk viti hvaða lyf geta orsakað óráð til að ákvarða viðeigandi lyfjameðferð fyrir eldri sjúklinga í aukinni áhættu á óráði.
Markmið: Markmið yfirferðarinnar var að útvega lista yfir lyf sem hafa hættu á að framkalla óráð og meðferðarúrræði.
Aðferðir: Aðferðarlýsing fyrir þessa kerfisbundnu yfirferð var þróuð samkvæmt PRISMA-P staðhæfingu og skráð hjá́ PROSPERO [ID: CRC42022366025, CRD42022366020]. Framkvæmd var kerfisbundin leit í 13 gagnagrunnum og 96 vefsíðum tauga- eða læknastofnanna með fyrir fram ákveðnum inntöku- og útilokunarskilyrðum. Gæðamat rannsóknanna var framkvæmt með því́ að nota AGREE II sniðmat. Gögnin voru sett fram í frásögn, töflum og myndum.
Niðurstöður: Alls voru 109 rannsóknir og 38 leiðbeiningar sem uppfylltu inntökuskilyrðin og voru notaðar í kerfisbundna yfirferð. Niðurstöður sýndu að ópíóíðar, benzódíazepín og geðrofslyf voru þeir lyfjaflokkar með hæstu fylgni við óráð. Að auki voru 28 aðrir lyfjaflokkar auðkenndir sem auka hættu á að valda óráði. Samsettar lyfjameðferðir voru einnig tengdar við aukna hættu á óráði. Umtalsvert magn gagna var til um lyf sem gætu aukið áhættu á óráði hjá einstaklingum með heilabilun. Aminophylline, berkjuvíkkandi innöndunarlyf, kólínesterasahemlar og memantín voru meðal lyfja sem tengdust óráði af völdum lyfja hjá einstaklingum með heilabilun.
Ályktanir: Niðurstöður rannsóknarinnar undirstrikar mikilvægi þess að huga að hættu á óráði af völdum lyfja hjá́ eldri einstaklingum, sérstaklega þeim sem eru með heilabilun eða aðra áhættuþætti. Niðurstöðurnar eru í samræmi við fyrri rannsóknir sem hafa sýnt að ópíóíðar, geðrofslyf og benzódíazepín eru algengustu lyfin sem tengjast óráði.
29. Árangur endurhæfingar: Áhrifavaldar við val kvarða til að mæla áhrif taugaeinkenna á ADL færni
Guðrún Árnadóttir1,2, Laufey Halla Atladóttir2
1Bráða-, lyflækninga- og endurhæfingarsviði Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands
Inngangur: Gerðar eru kröfur um notkun jafnbila mælieininga til að mæla árangur endurhæfingar. Fjöldi rannsókna hefur verið gerður til að þróa mælikvarða fyrir hugbúnaðargerð iðjumatstækisins ADL-focused Occupation-based Neurobehavioral Evaluation (A-ONE), en það nýtist við mat á framkvæmdafærni og áhrifum taugaeinkenna á framkvæmd daglegra athafna (ADL). Rannsóknir hafa sýnt að einkennamynstur tengd sjúkdómsgreiningum hafa áhrif á atriðastigveldi kvarða hjá mismunandi sjúklingahópum.
Markmið: Samanburður á próffræðilegum mælieiginleikum og atriðastigveldum mismunandi útgáfa taugaatferliskvarða A-ONE. Einnig að vega rannsóknarmöguleika þeirra á móti klínísku notagildi fyrir hugbúnaðarútgáfu.
Aðferðir: Rasch greining var notuð til að fá fram réttmætis- og áreiðanleikagildi hvers undirkvarða fyrir 477 einstaklinga með heilablóðfall (n=241) og heilabilun. Atriðafylkjalíkanið var notað við greininguna, þar sem fyrri rannsókn sýndi að það hentaði Taugaatferliskvarða A-ONE og undirkvörðum hans betur en önnur Rasch líkön. Próffræðilegir eiginleikar hvers kvarða voru ákvarðaðir út frá eftirfarandi Rasch viðmiðum: Innra réttmæti kvarða var (MnSq ≤ 1,4 og z < 2), PCA fyrstu andstæðu ≤ 10%; áreiðanleika stuðull ≥ 0,8 og aðgreiningaskrá (G) ≥ 2 færnilög. Þrepakvarðaviðmiðin voru: Stigatíðni þrepa ≥ 10, hækkun þrepakvörðunar > 1,0 logit og rétt röðun þrepaþröskulda.
Niðurstöður: Sértæku kvarðarnir fjórir: Hægra (n=107) og Vinstra heilablóðfall (n=114), Alzheimer (n=71) og Ósértæk heilabilun (n=129) standast allir greiningaviðmiðin, en dreyfisamsvörun einstaklinga og atriða kemur best út á Hægra heilablóðfallskvarðanum. Samsteypukvarðarnir þrír: Heilablóðfall (n=241), Heilabilun (n=236), Heilablóðfalls- og heilabilunarkvarði (n=477) hafa mjög svipaða próffræðilega eiginleika. Heildarkvarðinn kemur þó best út hvað varðar fjölda atriða, stigaspönn, meðalmælingu einstaklinga og dreyfisamsvörun einstaklinga og atriða. Hins vegar er munur á uppröðun atriða á atriðastigveldum Hægra heilablóðfallskvarða og hinum sértæku kvörðunum þremur og einnig á samsteypukvörðunum Heilablóðfallskvarða og Heilabilunarkvarða.
Ályktanir: Við val á viðeigandi taugaatferliskvörðum fyrir A-ONE hugbúnaðinn voru kostir og gallar mögulegra undirkvarða metnir út frá próffræðilegum eiginleikum, rannsóknarmöguleikum og klínísku notagildi. Heildarkvarðinn auðveldar hvers konar samanburð. Þar sem atriðamismunun tengd sjúkdómsgreiningum kemur fram á kvörðunum var talið æskilegt að bæta við valmöguleikum fyrir Heilablóðfallskvarða og Heilabilunarkvarða í forritið til að koma til móts við frekari rannsóknarmöguleika í stað þess að bjóða upp á fjóra sértæka undirkvarða sem gætu torveldað val í klínískri vinnu iðjuþjálfa og takmarkað samanburð.
30. Vægi milli rannsóknarmöguleika og klínísks gildis: ADL hugbúnaðarmælingar
Guðrún Árnadóttir1,2
1Bráða-, lyflækninga- og endurhæfingarsviði Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands
Inngangur: Nýlega hófst hönnun hugbúnaðar fyrir iðjumatstækið ADL-focused Occupation-based Neurobehavioral Evaluation (A-ONE). A-ONE er notað til að meta framkvæmdafærni við daglegar athafnir og áhrif taugaeinkenna á framkvæmd þeirra. Reiknilíkön þess útfæra: samruna stiga, umbreytingu raðkvarðastiganna í mæligildi byggð á Rasch greiningu, útreikninga fyrir brottfall mæligilda og reikninga til að kanna tölfræðilega marktækni mæligildamismunar við árangursmat. Rasch greining annarra ADL matstækja sýnir að mismunandi sjúkdómsgreiningar hafi áhrif á atriðastigveldi sjúklingahópa.
Markmið: Að kanna möguleika á uppbyggingu undirkvarða ADL kvarða A-ONE. Einnig, að meta hverjir þeirra gætu hentað A-ONE hugbúnaðinum.
Aðferðir: Rasch greining var notuð til að fá fram réttmætis og áreiðanleikagildi hvers undirkvarða fyrir 477 einstaklinga með heilablóðfall (n=241) og heilabilun. Raðkvarðalíkanið var notað við greininguna þar sem fyrri rannsókn sýndi að það hentaði ADL kvarða A-ONE betur en önnur Rasch líkön. Próffræðilegir eiginleikar hvers kvarða voru ákvarðaðir út frá þekktum Rasch viðmiðum. Viðmið fyrir innra réttmæti kvarða var (MnSq ≤ 1,4 og z < 2), PCA fyrstu andstæðu ≤ 10%; áreiðanleikastuðull ≥ 0,8 og aðgreiningaskrá (G) ≥ 2 færnilög. Þrepakvarðaviðmiðin voru: Stigatíðni þrepa ≥ 10, hækkun þrepakvörðunar > 1,0 logit og rétt röðun þrepaþröskulda.
Niðurstöður: Sértæku kvarðarnir fjórir: Hægra (n=107) og Vinstra heilablóðfall (n=114), Alzheimer (n=71) og Ósértæk heilabilun (n=129) standast allir flest greiningar viðmiðanna, sem og samsteypukvarðarnir þrír: Heilablóðfall (n=241), Heilabilun (n=236), Heilablóðfalls- og heilabilunarkvarði (n=477). Þrepavirkni sýndi þó ytra ósamræmi umfram viðmið á einu þrepi Alzheimers kvarðans. Báðir sértæku heilablóðfallskvarðarnir auk Heilabilunar og Heilablóðfalls samsteypukvarðanna sýna innra ósamræmi sniðgæða eins til tveggja atriða umfram 5% viðmiðið. Allir réttmætisstuðlar kvarðanna voru áþekkir. Dreifisamsvörun einstaklinga og atriða auk meðalmælinga var áberandi betri á samsteypukvörðunum.
Ályktun: Við val á viðeigandi kvarða/kvörðum fyrir A-ONE hugbúnaðinn voru kostir og gallar metnir út frá próffræðilegum eiginleikum, rannsóknarmöguleikum og klínísku notagildi. Sértæku kvarðarnir sem gætu reynst vel til rannsókna á sértækum sjúklingahópum reyndust ekki próffræðilega sterkari en samsteypukvarðarnir. Heildarkvarði auðveldar hvers konar samanburð milli sjúkdómsgreininga. Talið var mikilvægt í klínísku umhverfi, þar sem unnið er undir álagi, að takmarka fjölda valmöguleika og því heppilegast að velja próffræðilega sterkasta samsteypukvarðann sem hentar öllum í byrjun. Síðar mætti innlima fleiri undirkvarða og tengja við frekari rannsóknarvinnu.
31. Long-term use of rituximab increases T cell count in MS patients
Gunnar Sigfús Björnsson1, Hildur Sigurgrímsdóttir1,2, Sólrún Melkorka Maggadóttir1,2, Berglind Ósk Einarsdóttir1, Ólafur Árni Sveinsson1,3, Haukur Hjaltason1,3, Sigurveig Þóra Sigurðardóttir2, Björn Rúnar Lúðvíksson1,2, Siggeir Fannar Brynjólfsson1,2
1Læknadeild Háskóla Íslands, 2ónæmisfræðideild Landspítala, 3taugalækningadeild Landspítala
gunnarsb@landspitali.is
Background: Rituximab has been used to treat MS patients in Iceland for over a decade. However, long-term effect of rituximab on the leukocyte population has not yet been elucidated.
Objective: To investigate long-term effect of rituximab on the leukocyte population in Icelandic MS patients and evaluate whether the effect is dose dependent (1000mg vs 500mg).
Methods: Retrospective analysis of flow cytometric data from 349 patients visiting the neurological ward at The National University Hospital of Iceland from 2012 to 2023 for rituximab treatment.
Results: No difference in efficacy of B cell depletion was detected in patients treated with 500mg compared to 1000mg of rituximab. Efficacy of the treatment was neither age nor sex dependent. The persistence of depletion was stable for both doses for 300 days. However, long-term use of rituximab led to an increase in T cell count (p=0,0015) in patients receiving 3-8 doses of rituximab (1.5-8 years of treatment). The increase occurred in both CD4+ (p=0,0028) and CD8+ T cells and led to a decrease in the CD4/CD8 ratio (p=0,004).
Conclusion: Since no difference in B cell depletion was detected between the two patient groups, 1000mg might be an excessive dose. However, the clinical implications of long-term treatment of rituximab and its effect on the T cell pool needs to be explored further. Based on this data a personalized dosing regimen might have therapeutic and financial advantages that should be explored further.
32. Tengsl fæðu við líkur á mígreniskasti
Hadda Margrét Haraldsdóttir1,2, Ólafur Árni Sveinsson3,4, Áróra Rós Ingadóttir1,2, Ingibjörg Gunnarsdóttir1,2
1Næringastofu Landspítala, 2matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, 3taugalækningadeild Landspítala, 4læknadeild Háskóla Íslands
haddam@landspitali.is
Inngangur: Mígreni kveikjur eru ákveðnir umhverfisþættir sem taldir eru geta aukið líkurnar á mígrenikasti. Erlendar rannsóknir sýna að sumir einstaklingar með mígreni tengja köst sín við neyslu ákveðinna fæðutegunda. Engar sambærilegar rannsóknir hafa verið gerðar hérlendis.
Markmið: Að kanna hversu stórt hlutfall einstaklinga með mígreni tengja einkenni sín við neyslu ákveðinna fæðutegunda auk þess að fá yfirlit yfir hvaða fæðutegundir auka helst líkur á mígrenikasti.
Aðferðir: Rafrænn spurningalisti var lagður fyrir tvo hópa (af öllum kynjum, >18 ára), meðlimi í íslenskum Facebook hópi sem nefnist ‚Mígreni‘ og einstaklinga sem voru í meðferð við mígreni hjá taugalækni. Þátttakendur voru spurðir hvort þeir teldu að ákveðin matvæli gætu valdið mígreniköstum. Svarmöguleikar voru aldrei/sjaldan, stundum, oft eða alltaf.
Niðurstöður: Af þeim 466 þátttakendum sem svöruðu spurningunni um hvort þeir teldu að ákveðin matvæli gætu valdið mígreniköstum, sögðu 354 einstaklingar (76%) að neysla ákveðinna tegunda af mat yki oft eða alltaf líkur á mígrenikasti. Hlutfallið var hærra í Facebook hópnum en í taugalæknahópnum (78% á móti 66%, p=0,007). Rauðvín og að sleppa máltíðum/svengd voru algengustu kveikjurnar meðal þátttakenda, þar sem >50% þátttakenda sögðu kveikjurnar oft eða alltaf valda mígrenikasti. Aðrar algengar kveikjur voru hvítvín, lakkrís og reykt kjöt en það voru 20-50% þátttakenda sem nefndu þær sem kveikjur.
Ályktun: Matur virðist algeng kveikja mígrenis og voru helstu fæðutengdu kveikjurnar svipaðar þeim sem greint hefur verið frá í erlendum rannsóknum. Hins vegar hafa fyrri rannsóknir ekki sýnt lakkrís sem algenga fæðukveikju fyrir mígreni og reykt kjöt var algengari kveikja en sést hefur í erlendum rannsóknum.
33. Hjartatengdar auka- og eiturverkanir í kjölfar lyfjameðferðar með hjartaoxískum krabbameinslyfjum
Harpa Ýr Jóhannsdóttir1, Þórunn Kristín Guðmundsdóttir1,2,3, Agnes Smáradóttir3, Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir3,4, Sigurdís Haraldsdóttir3,4, Pétur S. Gunnarsson1,2
1Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, 2Lyfjaþjónustu Landspítala, 3Hjarta-, æða og krabbameinsþjónustu Landspítala, 4Læknadeild Háskóla Íslands
thorunnk@landspitali.is
Inngangur: Hjartatengdar auka- og eiturverkanir eru vel þekktar hjá einstaklingum sem fá lyfjameðferð með antracýklínum (AC) og HER2 blokkum. Greint hefur verið frá auka- og eiturverkunum í kjölfar lyfjameðferðar með ónæmisörvandi einstofna mótefnum (ICIs).
Markmið: Að skoða tíðni og alvarleika hjartatengdra auka- og eiturverkana eftir gjöf krabbameinslyfja í flokki antracýklína, HER2 blokka og ónæmisörvandi einstofna mótefna, sem og að gera fimm ára samantekt á notkun lyfja í flokki AC og HER2 við brjóstakrabbameini og lyfja af flokki ICIs við öllum ábendingum krabbameina. Í tilfellum hjartatengdra aukaverkana var skoðað hvernig brugðist er við þeim, hvernig eftirfylgni er háttað og kanna tengsl undirliggjandi áhættuþátta.
Aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn. Gagnagrunnur fyrir hjartatoxísk krabbameinslyf frá árinu 2003 til 2021 var útbúinn út frá gögnum frá Gagnagátt Landspítala og var gerð fimm ára samantekt frá árunum 2017 til 2021. Hjartatengdum auka- og eiturverkunum var safnað, ásamt meðferð hjartatengdra auka- og eiturverkana, í tengslum við útgefna lyfseðla hjartalyfja. Gögn um eftirfylgni og tengsl áhættuþátta við hjartatengdar auka- og eiturverkanir voru skráð, flokkuð og greind út frá kennitölu.
Niðurstöður: 374 einstaklingar fengu lyf af flokki antracýklína og HER2 blokka við brjóstakrabbameini á árunum 2017 – 2021. Sjö konur (2%) greindust með hjartabilun eftir að lyfjameðferð hófst, fjórar þeirra á innan við 10 mánuðum frá upphafi lyfjameðferðar. Alvarleiki hjartatengdra auka- og eiturverkana voru hjá flestum af gráðu 3 (CTCAE). Tímasetning auka- og eiturverkana voru frá nokkrum dögum upp í tæp fjögur ár frá upphafi lyfjameðferðar. Einkenni hjartabilunar gengu til baka hjá tveimur konum af sjö. 395 einstaklingar fengu lyfjameðferð með lyfjum af flokki ICIs á rannsóknartímabilinu. Tólf einstaklingar (3%) greindust með hjartabilun eftir að lyfjameðferð með ICIs hófst, og átta þeirra á innan við tólf mánuðum frá upphafi lyfjameðferðar. Alvarleiki auka- og eiturverkana voru hjá flestum af gráðu 3 skv. flokkunarkerfi CTCAE.
Ályktanir: Rannsóknin bendir til þess að hjartatengdar auka- og eiturverkanir sem má rekja til lyfjameðferðar með AC, HER2 blokkum og ICIs séu alvarlegar við greiningu. Samanborið við aðrar rannsóknir er tíðni þeirra þó lægri hvað antracyklin og HER2 blokka varðar. Til þess að koma í veg fyrir alvarlegar hjartatengdar auka- og eiturverkanir af völdum hjartatoxískra krabbameinslyfja, er nauðsynlegt að hafa verklag sem skerpir á uppvinnslu og eftirfylgni með einstaklingum sem fá slíka meðferð þar sem einkenni hjartabilunar geta verið langvinn.
34. Hjartamýlildi af völdum transthyretin (ATTR) á Íslandi: Faraldsfræðileg rannsókn á landsvísu
Helena Xiang Jóhannsdóttir1, Ævar Örn Úlfarsson1, Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir1,2, Hekla María Bergmann2, Inga Jóna Ingimarsdóttir1,2
1Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands
helenax@landspitali.is
Inngangur: Hjartamýlildi (cardiac amyloidosis (CA)) stafar af útfellingu amýlóíðpróteina í hjartavöðva sem veldur hjartabilun. Nýleg gögn gefa til kynna að hjartabilun af þessu tagi sé ekki nægilega vel þekkt en framfarir í meðferð hafa aukist á síðustu árum. Takmörkuð þekking er um algengi hjartamýlildi (Transthyretin-CA eða ATTR-CA) á Íslandi. Markmið rannsóknarinnar er að áætla grunnþætti, greiningu og meðferð hjartamýlildis á Íslandi.
Aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og náði til allra einstaklinga sem greindust með ATTR-CA á Íslandi frá 1. janúar 2018 til 31. desember 2023. Þeir voru skráðir í gagnagrunn ICE-Cardiac Amyloid Registry (ICECAR) sem var stofnaður 2023 af hjartabilunarsérfræðingum á Landspítala. Greining var meðal annars byggð á hjartaómskoðun frá brjóstvegg, Perugini stigun á beinaskanni og vefjasýni frá hjarta. Einnig voru fengnar mælingar á fríum léttum keðjum og einstofna próteina (M-component) í blóði og þvagi. Sjúklingarnir voru stigaðir eftir stigunarkerfi National Amyloidosis Centre (NAC) fyrir ATTR-CA.
Niðurstöður: Alls voru 46 sjúklingum greindir með ATTR-CA (karlar n=43, konur n=3, miðaldur 79,3 ár [IQR 74,3-82,8 ár]). Allir sjúklingar greindust með áunnið transthyretin mýlildi í hjarta (ATTRwt) en enginn með arfbundið (ATTRh). Greining var fengin með vefjasýni í 7 tilfellum. Við greiningu höfðu 85% sjúklinga millisleglaþykkt ≥15 mm og 98% sjúklinga voru með ≥12 mm þykknun á afturvegg slegils. Um 59% sjúklinga voru í New York Heart Association (NYHA) flokki I-II. Dreifing sjúklinga eftir útstreymisbroti vinstri slegils (LVEF) var eftirfarandi: minnkað (HFrEF) n=22 (48%), vægt minnkað (HFmrEF) n=6 (13%), varðveitt (HFpEF) n=16 (35%) og óþekkt LVEF n=2 (4%). Heildarfjöldi sjúklinga með NAC-stigun var 45: Stig I 21 (46%), Stig II 13 (29%), Stig III 11 (24%). Um 36% fengu sjúkdómshemjandi meðferð.
Ályktanir: Þrátt fyrir lága NYHA-flokka í rannsóknarhópnum benda niðurstöður til að einstaklingarnir séu eldri við greiningu og með lágt LVEF. Þetta undirstrikar mikilvægi þess að greina sjúkdóminn og hefja viðeigandi meðferð fyrir ATTR-CA snemma.
35. APRT skortur: Innsýn í frumu módel á nýrnaskaða af völdum DHA kristalla
Hildur Rún Helgudóttir1, Runólfur Palsson1,2, Viðar Örn Eðvardsson1,3, Þórarinn Guðjónsson1,4
1Læknadeild Háskóla Íslands, 2nýrnalækningum barna Landspítala 3Barnaspítala Hringsins, 4blóðmeinafræði Landspítala.
hrh@hi.is
Inngangur: Skortur á adenínfosfóríbósýltransferasa (APRT) er sjaldgæfur víkjandi sjúkdómur sem leiðir til aukins útskilnaðar á 2,8-díhýdroxýadeníns (DHA) í nýrum sem leiðir til nýrnasteina og kristalla miðlaðar skemmda í nýrum með tilheyrandi bólgu og bandvefsmyndun. Aðrir kristallar eins og kalsíumoxalat og þvagsýru kristallar hafa verið rannsakaðir í frumuræktarlíkönum en hins vegar hefur DHA ekki enn verið rannsakað í þessum módelum.
Markmið: Þessi rannsókn miðar að því að búa til frumuræktarlíkan til að rannsaka nýrnaskaða af völdum DHA kristalla og til að bera kennsl á kenniprótein sem gætu reynst sem lyfjamörk í meðferð við þessum sjúkdómi.
Aðferðir: Þrjár nýrnaþekjufrumulínur (MDCK, HK-2 og HEK293) voru meðhöndlaðar með DHA í styrkjum sem samsvarar styrk sem finnst í þvagi sjúklinga með APRT skort. Notast var við frumulífvænleika próf, RT-PCR, western blot og ónæmislitanir. Nýrnavefjarsýni frá sjúklingum með APRT-skort og heilbrigðum viðmiðunarhópum voru fengin úr Lífbanka Landspítala háskólasjúkrahúss (VSN 21-117-V1) og svipgerðargreind með ónæmislitun (IHC) fyrir ýmsum kennipróteinum.
Niðurstöður: Eftir 72 klst. ræktun með DHA í styrkleikum 60, 120, 240 og 480 μg/mL minnkaði lífvænleiki allra frumulína. Frumuskrið var metið eftir meðferð með DHA í tveimur mismunandi styrkjum(120 og 480 μg/mL) í 24 klst og sýndu allar frumulínur minna skrið við hæsta styrk. Aukin CD44 tjáning sást í frumulínum eftir meðhöndlun með DHA. Í þrívíddar frumurækt héldu MDCK frumur skautuðum strúktúrum þrátt fyrir uppsöfnun DHA og sýndu ekki aukna bandvefsumbreytingu þekjufruma (e.EMT) samanborið við TGFβ-meðhöndlaðar frumur. MDCK frumur mynduðu skautað frumulag þegar þær voru ræktaðar á transwell pólýesterhimnum og sýndu minnkað rafviðnám (e.TEER) þegar þær voru meðhöndlaðar með DHA (120 og 480 μg/mL). Greining á nýrnavefjasýnunum sýndi aukna tjáningu á Kollagen III og Kollgen I hjá sjúklingum með APRT skort samanborið við heilbrigða samanburðarhópa.
Ályktanir: Á heildina litið benda þessar niðurstöður til þess að DHA hefur áhrif á lífvænleika, frumuskrið og þekjubrest í nýrnaþekjufrumum, sem undirstrikar hlutverk DHA í nýrnatrefjun hjá sjúklingum með APRT skort.
36. Frumkomið aldósterónheilkenni - einstaklingsmiðuð eftirfylgd með notkun mótefnalitunar
Hrafnhildur Gunnarsdóttir1,2, Bjarni A. Agnarsson1,3, Sigurrós Jónasdóttir1,3, Jón Guðmundsson4, Guðjón Birgisson5, Helga Ágústa Sigurjónsdóttir2
1Háskóla Íslands, 2lyflækningum Landspítala, 3meinafræðideild Landspítala, 4röntgenlækningum Landspítala, 5skurðlækningum Landspítala
hrafnhildurg3@gmail.com
Inngangur: Klínískt vægi sértækrar mótefnalitunar (SM) í frumkomnu aldósterónheilkenni (FA) hefur verið óljóst. Einstaklingsmiðuð eftirfylgd fyrir sjúklinga með FA gæti verið í sjónmáli. Brýnt er að skoða langtíma útkomu FA sjúklinga út frá niðurstöðum SM.
Markmið: Að meta með PASO (The Primary Aldosteronism Surgical Outcome) skilmerkjum klíníska útkomu sjúklinga með einhliða FA flokkað eftir útkomu SM.
Aðferðir: Rannsóknin fór fram á Landspítala og var lýðgrunduð áhorfsrannsókn með allt að 11 ára eftirfylgd. Rannsóknartímabilið var 2007-2016. Sjúklingar voru greindir og meðhöndlaðir í samræmi við gildandi alþjóðlega verkferla. Til sundurgreiningar einhliða og tvíhliða sjúkdóms var gerð nýrnahettubláæðaþræðing. Með í rannsókninni voru allir þeir FA sjúklingar sem gengust undir nýrnahettubrottnám vegna FA á Íslandi á rannsóknartímabilinu (n=26), aldur 28-73. H&E lituð vefjasýni voru lituð með sértækum mótefnum gegn CYP11B1 og CYP11B2. Sérhvert tilfelli var endurmetið og flokkað sem kirtilæxli (e. aldosterone producing adenoma, APA) eða annað (e. non-adenoma) en síðarnefndi flokkurinn fól í sér ofvöxt (e. adrenal hyperplasia), einhliða örhnúta (e. unilateral adrenal micronodules, UMN) og aldósterón myndandi frumuklasa (e. aldosterone producing cell clusters, APCC). Gögnum var safnað afturvirkt úr sjúkraskrárkerfi. Helstu breytur voru gildi aldósteróns, reníns, kortisóls og kalíum, fjöldi blóðþrýstingslyfja, kalíumuppbót, blóðþrýstingsgildi og vefjameinafræðilegar niðurstöður.
Niðurstöður: Í kjölfar SM mátti sjá kirtilæxli hjá 21 sjúklingi, APCC hjá þremur og UMN hjá tveimur. SM breytti vefjameinafræðilegri greiningu hjá 27% sjúklinganna. Um 80% beggja undirhópa svöruðu meðferð að hluta skv. PASO skilmerkjum (e. partial clinical success). Enginn APA sjúklinganna með fulla meðferðarsvörun (e. complete clinical success), n=4, fékk bakslag á eftirfylgdartímabilinu.
Ályktanir: Við teljum SM vera forsendu nákvæmrar vefjameinafræðilegrar greiningar FA. Niðurstöður okkar gefa vísbendingu um að ákveðinn hluta FA sjúklinga með kirtilæxli mætti útskrifa snemma á öruggan hátt.
37. Ávísun lyfjameðferða eftir mismunandi svipgerð hjartabilunar við útskrift á hjartadeild Landspítala
Hrafnhildur Hauksdóttir1, Hafsteinn Einarsson2, Ingibjörg Gunnþórsdóttir3, Inga Jóna Ingimarsdóttir3,4
1Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, 2iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild, Háskóla Íslands, 3hjartadeild Landspítala, 4læknadeild Háskóla Íslands
96hauksdottir@gmail.com
Inngangur: Hjartabilun skiptist í þrjár mismunandi svipgerðir eftir útfallsbroti: skert ≤40% (HFrEF), vægt skert 41-49% (HFmrEF) og varðveitt ≥50%(HFpEF). Evrópsku hjartalæknasamtökin ESC ráðleggja HFrEF sjúklingum fjögurra lyfja meðferð; beta blokkara (BB), saltstera/aldósterón viðtakablokkara (MRA), samflutningspróteins natríumglúkósa-2 hemla (SGLT2i), auk eins af eftirfarandi angíótensín breytihvatahemlum (ACEI): angíóntensín II/Neprilysin viðtakahemil (ARNI) eða angíótensín II viðtakablokka (ARB). Sami ávinningur er talinn ná til HFmrEF sjúklinga en einungis SGLT2i hafa sýnt sig að gagnast HFpEF hópnum.
Markmið: Rannsaka lyfjaávísanir vegna hjartabilunarinnlagna eftir svipgerðum og greina ástæður ófullnægjandi lyfjameðferðar.
Aðferðir: Rannsóknarsnið var afturskyggn, lýsandi gagnarannsókn úr Íslenska Hjartabilunargagnagrunninum (IHFR). Efniviður rannsóknarinnar voru allar bráðar hjartabilunarinnlagnir á hjartadeild Landspítalans frá janúar 2020 til júní 2022 (n=2142). Skoðað var hvort marktækur munur væri á lyfjameðferð eftir svipgerð hjartabilunar, sérstaklega meðal HFrEF og HFmrEF.
Niðurstöður: ACEI, ARNI eða ARB var ávísað hjá 65% HFrEF, 54% HFmrEF og 40% HFpEF. Viðmiðunarskammtar náðust í 5–8% tilfella. BB var ávísað hjá 86% HFrEF, 85% HFmrEF og 75% HFpEF. MRA var ávísað hjá 43% HFrEF, 33% HFmrEF og 24% af HFpEF innlögnum. Viðmiðunarskammtur fyrir BB og MRA náðist í 5% og 7% tilvika fyrir HFrEF, 12% og 13% fyrir HFmrEF og 14% og 18% fyrir HFpEF. SGLT2i var ávísað hjá 15% HFrEF, 8% HFmrEF og 5% HFpEF. Lágþrýstingur og langvinn nýrnabilun voru aðalástæður þess að ACEI/ARNI/ARB var ekki ávísað í hópi HFrEF og HFmrEF. Krónísk nýrnabilun var algengasta þekkta orsök þess að MRA var ekki ávísað, þar á eftir kom lágþrýstingur í hópi HFmrEF og HFrEF. Lágþrýstingur og hægtaktur reyndust hindra BB-meðferð óháð svipgerð. Einungis í 8% innlagna í hópi HFrEF fengu fjórfalda lyfjameðferð samkvæmt klínískum leiðbeiningum ESC óháð viðmiðunarskömmtum og í undir 3% innlagna í öðrum hópum.
Ályktanir: Lágt hlutfall þeirra sem leggjast inn með hjartabilun fær ráðlagða lyfjameðferð skv. klínískum leiðbeiningum ESC við útskrift. Algengustu orsakavaldar þess voru lágþrýstingur og skert nýrnastarfsemi, en oft fannst ekki bein skýring.
38. Áhrifaþættir meðferðarheldni hjá sjúklingum með hjartabilun
Ingibjörg Gunnþórsdóttir1,2,3, Karl Andersen1,3, Anna Birna Almarsdóttir4, Anna I. Gunnarsdóttir2, Erla Svansdóttir1, Hafsteinn Einarsson5, Inga Jóna Ingimarsdóttir1,3
1Hjarta-, æða- og krabbameinssviði Landspítala, 2klínísku þjónustusviði Landspítala, 3læknadeild Háskóla Íslands, 4Kaupmannahafnarháskóla, 5tölvunarfræðideild Háskóla Íslands
Inngangur: Hjartabilun er algengur og langvinnur sjúkdómur með hárri dánartíðni en rétt lyfjameðferð er hornsteinn í allri meðferð. Því er lykilatriði til að draga úr einkennum hjartabilunar og seinka framgangi sjúkdómsins, að sjúklingur fylgi meðferðaráætlun. Ekkert réttmætisprófað skortæki sem metur meðferðarheldni sértækt hjá sjúklingum með hjartabilun er aðgengilegt. Til að þróa og hanna nýtt skortæki er mikilvægt að safna upplýsingum um þá þætti sem taldir eru hafa áhrif á meðferðarheldni frá helstu hagsmunaaðilum, þar á meðal sjúklingum og heilbrigðisstarfsmönnum.
Markmið: Að kanna viðhorf heilbrigðisstarfsmanna til þeirra þátta sem þeir telja að hafi áhrif á meðferðarheldni sjúklinga með hjartabilun.
Aðferðir: Spurningakönnun, með bæði lokuðum og opnum spurningum, var send rafrænt til allra hjartalækna og hjúkrunarfræðinga sem unnu á sviði hjartalækninga á Landspítalanum frá október-desember árið 2021. Í könnuninni voru 104 spurningar sem voru flokkaðar niður í 17 þemu tengd meðferðarheldni. Við hönnun og framkvæmd könnunar var CROSS-gátlista fylgt. Mann-Whitney próf var notað til að kanna samanburð á milli hópa og kí-kvaðrat próf fyrir raðaðar flokkabreytur.
Niðurstöður: Af 104 boðuðum þátttakendum tóku 70% þátt. Meirihluti þátttakenda taldi samband á milli sjúklings og meðferðaraðila (97%), val á hentugu lyfjaformi (96%), stuðning heima frá heilbrigðisþjónustu (95%) og lyfjaskömmtun frá apóteki (93%) hafa mikil áhrif á meðferðarheldni. Hjartabilaðir sjúklingar í yngstu og elstu aldursbilunum voru metnir í meiri hættu á slakri meðferðarheldni og þá sérstaklega karlmenn. Flestir þátttakendur töldu sjúklinga í mikilli hættu á slakri meðferðarheldni ef þeir voru með alkóhól- og/eða fíknisjúkdóm (89%), ef þeir þekktu ekki ávinning lyfjanna (89%), ef þeir töldu lyfin vera gagnslaus (88%) og ef vitræn skerðing var til staðar (86%). Ógleði var aukaverkun sem flestir töldu hafa neikvæð áhrif á meðferðarheldni (88%). Stór hluti þátttakenda (73%) vildi að heilbrigðisstarfsmenn myndu meta og skrá meðferðarheldni. Um það bil helmingur þátttakenda (46%) töldu sig meta meðferðarheldni í fleiri en 80% sjúklingaviðtala.
Ályktanir: Heilbrigðisstarfsmenn telja mismunandi sjúklinga- og meðferðartengda þætti ásamt ýmsum þjónustuþáttum í heilbrigðiskerfinu hafa áhrif á meðferðarheldni sjúklinga með hjartabilun. Þessar niðurstöður eru mikilvægt innlegg og munu verða notaðar, ásamt frekari megin- og eigindlegum rannsóknum, við hönnun á nýju sértæku skortæki til að meta meðferðarheldni í þessum sjúklingahópi.
39. Notkun íslenskra máltæknitóla og vélþýðinga í greiningu á Alzheimersjúkdómi
Iris Edda Nowenstein1,2, Marija Stanojevic3, Gunnar Thor Örnólfsson4, Jelena Curcic5, Bill Simpson3, Jennifer Sorinas Nerin5, Bryndís Bergþórsdóttir6, Kristín Hannesdóttir5, Jekaterina Novikova3, María K. Jónsdóttir7,8
1Talmeinaþjónustu Landspítala, 2Málvísindastofnun Háskóla Íslands, 3Cambridge Cognition, 4tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík, 5Novartis, 6læknadeild Háskóla Íslands, 7sálfræðideild Háskólans í Reykjavík, 8minnismóttöku Landspítala
irisen@landspitali.is
Inngangur: Með umfangsmiklum framförum í máltækni undanfarinn áratug hefur orðið til rannsóknarsvið þar sem sjálfvirk tal- og textaúrvinnsla er nýtt í greiningu á ýmsum taugahrörnunarsjúkdómum. Í ljós hefur komið að breytingar í tal- og málhegðun geta birst þegar fólk sýnir ennþá lítil eða jafnvel engin einkenni sjúkdóma á borð við Alzheimer, en sjálfvirk málsýnagreining lofar auk þess góðu í eftirfylgd og mati á árangri meðferðar. Þessi þróun á stafrænni heilbrigðismáltækni hefur þó að mestu átt sér stað fyrir enskumælandi málsamfélög og því er nauðsynlegt að útfæra sambærilegar greiningar fyrir smærri tungumál á borð við íslensku. Til eru tvær leiðir í samhengi klínískrar textagreiningar: 1) Þróun og notkun á íslenskum máltæknitólum eða 2) Vélþýðing textans yfir á ensku áður en enskri máltæknigreiningu er beitt.
Markmið: Í rannsókninni voru bornar saman niðurstöður úr sjálfvirkri klínískri málsýnagreiningu sem byggir annars vegar á beinni úrvinnslu með íslenskum máltæknitólum og hins vegar á óbeinni úrvinnslu með vélþýðingu yfir í ensku.
Aðferðir: Málsýni 48 íslenskra þátttakenda á aldrinum 60-80 ára voru greind annars vegar með íslenska markaranum ABLTagger 3.1 og hins vegar með spaCy-tólum að lokinni vélþýðingu yfir í ensku. Aðferðirnar voru bornar saman með sjö orðflokkabreytum. Tólf þátttakendur höfðu hvorki einkenni né lífmerki Alzheimersjúkdóms (amýlóíð neikvæðir), tólf höfðu engin einkenni en voru með Alzheimerlífmerki (amýlóíð jákvæðir) og 24 voru með annaðhvort væga vitræna skerðingu eða vægan Alzheimersjúkdóm.
Niðurstöður: Þegar borin eru saman meðalhlutföll ólíkra orðflokka eftir því hvort úrvinnslan var bein eða óbein er munurinn lítill, eða á bilinu 0,3-3,9%. Parað t-próf þar sem meðalhlutföll í málsýnum hvers þátttakanda eru borin saman eftir aðferð sýnir þó marktækan mun fyrir allar breytur. Niðurstöðurnar leiða einnig í ljós að samsvörun aðferðanna er misjöfn eftir breytum, þar sem Pearson-fylgnistuðull á raðtölum þátttakenda er á bilinu 0,72-0,98 (r(46), p < 0,001).
Ályktun: Nauðsynlegt er að þróa stafræna heilbrigðismáltækni sem gerir það mögulegt að greina klínísk málsýni á íslensku beint. Greining með vélþýðingu yfir á ensku gæti þó verið árangursrík fyrir einstaka breytur þegar gengið hefur verið úr skugga um málfræðilegt réttmæti.
40. Bóluefni gegn meningókokkum B gegn meningókokka-stofnum sem íslensk ungmenni bera
Íris Kristinsdóttir1,2, Ásgeir Haraldsson1,2, Valtýr Stefánsson Thors1,2
1Barnaspítala Hringsins Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands
Inngangur: Meningókokkar geta valdið lífshótandi sýkingum en geta líka verið hluti af eðlilegri hálsflóru. Bólusetningar gegn meningókokkum C hófust á Íslandi árið 2002, í kjölfarið fækkaði tilfellum ífarandi meningókokka-sýkinga til muna. Hjúpgerð B hefur síðan verið algengasta hjúpgerðin í ífarandi sýkingum á Íslandi, þó tilfellin séu fá. Í Evrópu eru tvö mismunandi bóluefni gegn meningókokkum B (MenB) með markaðsleyfi, Trumenba® sem nýtir faktor H bindiprótein sem mótefnavaka, og Bexsero®, sem er með ytri-frumuhimnublöðru og þrjú yfirborðsprótein meningókokka sem mótefnavaka.
Markmið: Að meta hvort bóluefni gegn MenB hafi virkni gegn þeim meningókokka-stofnum sem íslensk ungmenni bera.
Aðferðir: Hálsstrokum var safnað frá 15-16 ára og 18-20 ára ungmennum. Ræktun og qPCR var notað til greiningar á meningókokkum og qPCR til hjúpgerðargreiningar. Heilgenaraðgreining var gerð á hjúpgreinanlegum meningókokkum. Niðurstöður heilgenaraðgreiningar og MenDeVAR Index á PubMLST voru notuð til að ákvarða virkni MenB bóluefna gegn stofnum sem greindust í einkennalausri sýklun.
Niðurstöður: Meningókokkar fundust hjá 35/722 (4,8%) þátttakendum. Af þeim báru níu (25,7%) hjúpgreinanlega meningókokka: sex báru MenB, tveir meningókokka Y (MenY) og einn meningókokka W (MenW). MenW-stofninn var ekki lífvænlegur þegar kom að einangrun á DNA fyrir heilgenaraðgreiningu og var því ekki raðgreindur. Trumenba® var með fullkomna samsvörun við fjóra MenB stofna og kross-svörun við einn MenB stofn og báða MenY-stofnana. Ekki var hægt að segja til um samsvörun við sjötta MenB stofninn miðað við fyrirliggjandi gögn. Bexsero® var ekki með neina samsvörun við þrjá MenB stofna en ekki voru nægjanleg gögn fyrirliggjandi til að segja til um samsvörun við hina þrjá MenB stofnana og MenY stofnana tvo.
Ályktun: Trumenba® hefur betri samsvörun við yfirborðsprótein MenB stofna sem íslensk ungmenni bera heldur en Bexsero®. Trumenba® hefur einnig kross-svörun við þá MenY stofna sem fundust í einkennalausri sýklun hjá ungmennum á Íslandi.
41. Hálskirtlatökur eru tengdar auknum líkum á því að bera meningókokka
Íris Kristinsdóttir1,2, Ásgeir Haraldsson1,2, Valtýr Stefánsson Thors1,2
1Barnaspítala Hringsins Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands
iriskr@landspitali.is
Inngangur: Neisseria meningitidis (meningókokkar) er baktería sem getur valdið lífshættulegum sjúkdómum, svo sem heilahimnubólgu og sýklasótt, en er líka oft hluti af eðlilegri hálsflóru. Sýklun er undanfari sýkingar en enn er margt á huldu varðandi þætti sem auka áhættu einstaklinga á því að bera meningókokka.
Markmið: Að meta áhrif hálskirtlatöku á áhættuna á því að bera meningókokka.
Aðferðir: Hálsstrokum var safnað frá 10. bekkingum og 18-20 ára menntaskólanemum vorið 2019. Meningókokkar voru greindir með ræktun og qPCR. 16S qPCR var gert til greiningar á bakteríumagni í sýnum. Frá Sjúkratryggingum Íslands og Landspítala fengust upplýsingar um fyrri sögu um hálskirtlatöku og gögn um útleystar sýklalyfjaávísanir 30 dögum fyrir sýnatöku og meningókokka-bólusetningar fengust frá Embætti Landlæknis. Tvíkosta aðhvarfsgreining var gerð.
Niðurstöður: Hálsstrokum var safnað frá 722 ungmennum: 197 10. bekkingum og 525 menntaskólanemum. Af þeim báru 4.8% meningókokka (35/722). Hálskirtlataka hafði verið gerð hjá 88 þátttakendum (12,2%): 10 meningókokka-berum (28,6%) og 78 þátttakendum sem ekki báru meningókokka (11,4%). Ekki var munur á magni né hlutfallslegu magni N. meningitidis í sýnum frá berum sem höfðu farið í hálskirtlatöku samanborið við þá sem ekki höfðu farið í hálskirtlatöku. Hálskirtlataka var tengd við auknar líkur á því að bera meningókokka, bæði í einbreytu aðhvarfsgreiningu (gagnlíkindahlutfall 3,10; 95% ÖB 1,44-6,70; p = 0,004) og eftir leiðréttingu fyrir aldri, kyni, nýlegri sýklalyfjanotkun og meningókokka-bólusetningum (gagnlíkindahlutfall 2,49; 95% ÖB 1,13-5,48; p = 0,024).
Ályktanir: Fyrri saga um hálskirtlatöku eykur líkur á meningókokka-sýklun hjá ungmennum.
42. The adjuvants CAF08b and mmCT enhance the antibody response and promote dose sparing to an influenza vaccine in a neonatal murine model
Jenny Lorena Molina Estupiñan1,2, Poorya Foroutan Pajoohian1,2, Jan Holmgren3,4, Gabriel Kristian Pedersen5, Ingileif Jónsdóttir1,2, Stefanía P. Bjarnarson1,2, Auður Anna Aradóttir Pind1,2
1Faculty of Medicine, School of Health Sciences, University of Iceland, 2Department of Immunology, Landspitali, 3University of Gothenburg, Dept. Microbiology and Immunology, Sahlgrenska Academy 4University of Gothenburg Vaccine Research Institute (GUVAX), 5Statens Serum Institute, Copenhagen
Introduction: Vaccination is one of the most cost-efficient ways to fight infection and eliminate pathogens. However, in cases such as influenza or COVID-19 pandemics, vaccine demands often exceed production capacity, highlighting the need for dose sparing strategies. Adjuvants are immune-stimulating agents used to boost and modulate immune responses to vaccines, more importantly they can reduce the amount of antigen needed.
Aim: To evaluate the dose sparing effects of the adjuvants CAF08b and mmCT on induction and persistence of antibody response to a hemagglutinin (HA) influenza vaccine in neonatal mice. We use the adjuvant alum for comparison, the most widely used adjuvant and licensed in several pediatric vaccines.
Methods: Neonatal mice were immunized subcutaneously with fractional doses of the HA influenza vaccine (2, 1, 0.5 and 0.1 µg) with CAF08b, mmCT or alum and compared with a full dose of HA (4 µg) without an adjuvant. HA-specific IgG antibodies were measured by ELISA in serum collected biweekly up to 8 weeks after immunization, and HA-specific IgG+ antibody secreting cells (ASCs) in bone marrow (BM) were enumerated by ELISpot 8 weeks after immunization.
Results: IgG antibody levels of neonatal mice immunized with a full dose of HA were low. Inclusion of CAF08b or mmCT in the vaccine formulation significantly enhanced IgG antibody responses up to 8 weeks after immunization. Both mmCT and CAF08b enhanced HA-specific IgG antibodies elicited by fractional doses of HA compared with full dose of HA without an adjuvant, where inclusion of mmCT provided 8-fold dose sparing of the vaccine, and CAF08b provided at least 40-fold. Accordingly, both mmCT and CAF08b significantly enhanced HA-specific IgG ASCs in the BM 8 weeks after immunization compared with full dose vaccine only group. On the contrary, mice immunized with fractional doses of HA and alum, elicited HA-specific IgG in serum and IgG ASCs in BM comparable with full dose vaccine alone group.
Conclusion: The adjuvants CAF08b and mmCT enhanced the antibody response to low doses of the vaccine HA in neonatal mice, promoting dose-sparing by reducing the HA dose by at least 40- and 8- fold, respectively, in contrast to alum.
43. Hermun leiðni eiginleika mjóbaksins með FEM og CT myndun til bætingar á tSCS
Jón Andri Árnason1, Ragnhildur Guðmundsdóttir-Korchai1, Þórður Helgason1,2
1Háskólanum í Reykjavík, 2vísindadeild Landspítala
Inngangur: Örvun á mænu í gegnum húð (Transcutaneus spinal cord stimulation, tSCS) er vænleg og ekki ífarandi meðferð til að meðhöndla langvarandi sársauka og auka hreyfigetu hjá einstaklingum sem þjást af mænuskaða (Spinal cord injury, SCI). Nákvæm virkni tSCS hefur enn ekki verið útskýrð að fullu, meðal annars vegna þess að læknisfræðilega aðferðin er sértæk og aðlaga þarf staðsetningu og straumstyrk rafskauta fyrir hvern einstakling.
Markmið: Að veita innsýn í dreifingu rafstraums innan mannslíkamans með því að þróa nýtt ferli til að búa til Bútunnar aðferðar líkan (Finite element model, FEM) af mannslíkamanum.
Aðferðir: Teknar voru tölvusneiðmyndir í hárri upplausn af kviðarholi. Myndirnar voru síðan fluttar inn í Materialize Mimics og þrívíddarlíkön fyrir helstu líkamshluta gerð þ.e.a.s. húð, fitu, vöðva, beinagrind og mænu. Þrívíddarlíkönin voru forunnin í Autodesk Meshmixer til að fjarlægja óæskilega hluta. Þrívíddarlíkönin voru því næst flutt inn í Ansys SpaceClaim þar sem líkönunum var breytt í CAD hluti. Þar var hvert líffæralíkan sameinað aftur til að búa til eitt líkan af kviðarholi manns. Fullbúna líkanið var að lokum flutt inn í Ansys Maxwell 3D til útreikninga. Gerðar voru fimm hermanir. Í fjórum þeirra var jákvæða rafskautið yfir T10, T12, L2 og L4 hryggjaliðnum, og neikvæða óhreyft á S2. Fimmta uppsetningin var með rafskautin á öllum fyrri staðsetningum, en örvunin kom í gegnum T10 rafskautið. Útreikningar tóku að meðaltali 47,4 klukkustundir í borðtölvu (4,6 GHz, 64GB / 2TB diskur).
Niðurstöður: tSCS hermanirnar sýndu merkjanlegan mun á rafstraums dreifingu rafskautanna eftir staðsetningu þeirra, sem er í samræmi við núverandi þekkingu. T10 til S2 uppsetningin var með hæsta rafstraums þéttleika í mænunni, á meðan L4 til S2 var lægst.
Ályktanir: Þessi hermiaðferð, sem nýtist við Ansys Maxwell, hefur þann kost að auðvelt er að breyta uppsetningu rafskautanna til að beina rafstraumnum á valstað og lágmarka á öðrum svæðum. Á þessu stigi takmarkast aðferðin enn af löngum reiknitíma og óæskilegum möskvaþéttileika. Framtíðarvinna í þessu verki felst í styttingu reiknitíma og sannprófun aðferðarinnar.
44. Tengsl fjöllyfjameðferðar við heilabilun á meðal eldri einstaklinga árin 2002-2006
Karen Arnarsdóttir2, Helga Eyjólfsdóttir1,2, Vilmundur Guðnason2,3, Lenore J. Launer4, Hrafnhildur Eymundsdóttir1,5
1Öldrunarlækningdeild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3Hjartavernd, 4National Institute on Aging, 5matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands
Inngangur: Rannsóknir benda til þess að fjöllyfjameðferð (> 5 lyf) og ofurfjöllyfjameðferð (≥10 lyf) sé að aukast á meðal eldri einstaklinga. Það hvort að marktækt samband ríki á milli fjöllyfjameðferðar og aukinnar áhættu á heilabilun hefur verið rannsakað á erlendri grundu en rannsóknarniðurstöðum ber þó ekki saman.
Markmið: Að kanna hvort að tengsl séu á milli fjöllyfjameðferðar og heilabilunar á meðal eldri einstaklinga (65 ára+) í sjálfstæðri búsetu.
Aðferðir: Þversniðsrannsókn á einstaklingum sem tóku þátt í Öldrunarrannsókn Hjartaverndar á árunum 2002-2006. Leitað var í gögnum eftir tengslum fjöllyfjameðferðar (5-9 lyf) og ofurfjöllyfjameðferðar (≥10 lyf) við greiningar á heilabilun. Notast var við tölfræðiforritið SPSS. Kí kvaðrat próf og ANOVA var notað fyrir hlutfallslegan mun á milli hópa. Tvíkosta aðhvarfsgreining, þar sem leiðrétt var fyrir aldri og kyni, var notuð til að meta gagnlíkindahlutfall
Niðurstöður: Alls voru 5764 þátttakendur í rannsókninni. Meðalaldur þeirra sem tóku 0-4 lyf var 76,3 ár (N=3418, 56,5% konur), 5-9 lyf var 77,7 ár (N=1975, 59,1% konur) og ≥10 lyf var 80,1 ár (N=371, 61,7% konur). Þegar búið var að leiðrétta fyrir aldri og kyni þá var hópurinn sem tóku 5-9 lyf 57% líklegri til að vera með greiningu heilabilunar. Þeir sem tóku ≥10 lyf voru 2,7 falt líklegri til að vera með greiningu heilabilunar.
Ályktanir: Fjöllyfjameðferð og ofurfjöllyfjameðferð auka líkurnar á heilabilun á meðal eldri einstaklinga. Niðurstöður eru mikilvægar í ljósi þess að heilabilun er vaxandi lýðheilsuvandamál sem veldur mikilli þjóðhagslegri byrði þar sem henni fylgir bæði kostnaður og áhrif á lífsgæði einstaklinga sem glíma við sjúkdóminn. Þar sem um þversniðsrannsókn er að ræða er ekki hægt að gera ráð fyrir beinu orsakasambandi en niðurstöður gefa til kynna að þörf sé á frekari langtímarannsóknum.
45. Mína og draumalandið: Kennslutölvuleikur til að undirbúa börn fyrir svæfingu – Forrannsókn
Karítas Gunnarsdóttir5, Aðalheiður Stefánsdóttir2, Anna Ólafía Sigurðardóttir1,3, Berglind Brynjólfsdóttir1, Katrín Jónsdóttir4, Brynja Ingadóttir1,3
1Landspítala, 2Reykjavíkurborg, 3Háskóla Íslands, 4Núna Trix ehf.
Inngangur: Erlendar rannsóknir sýna að allt að 65% barna eru kvíðin fyrir aðgerð m.a. vegna óvissu um aðgerðarferlið. Fræðsla hjálpar börnum að aðskilja ímyndun frá raunveruleika, dregur úr óvissu og eykur trú barna á að þau geti tekist á við það sem framundan er. Kennslutölvuleikir eru hagkvæm og skemmtileg leið til að koma fræðslu til skila, en myndræn framsetning og gagnvirkni höfðar til ungra barna. Framboð af slíku fræðsluefni er takmarkað.
Markmið: Að prófa nothæfni og gagnsemi kennslutölvuleiks fyrir börn.
Aðferðir: Sérhannaður kennslutölvuleikur, Mína og Draumalandið var hannaður af þverfaglegum hópi rannsakenda, heilbrigðisstarfsfólks og tölvunarfræðinga og í samstarfi við tölvuleikjafyrirtæki í Finnlandi, börn í markhópnum og foreldra þeirra. Börnum á aldrinum 4 – 8 ára sem voru á leið í svæfingu á Landspítala, var síðan boðið að spila leikinn í viku fyrir aðgerð. Foreldrar fylltu út spurningalista um nothæfni og gagnsemi, ásamt dagbók í hvert sinn sem barnið spilaði leikinn og börnin mátu leikinn með broskörlum (skemmtilegur – allt í lagi – leiðinlegur) eftir hverja spilun. Tekin voru viðtöl við foreldra um reynslu þeirra af tölvuleiknum.
Niðurstöður: 19 börn tóku þátt (meðalaldur 6 ára). Börnin spiluðu leikinn að meðaltali 3,9 sinnum (spönn 2 – 6) fyrir aðgerðina. Það tók börnin um 20 – 30 mínútur að spila leikinn. Í heild var leikurinn spilaður 58 sinnum. Í 69% tilvika fannst þeim leikurinn skemmtilegur. Allir foreldrar voru sammála/mjög sammála um að auðvelt væri að tileinka sér leikinn (100%) og að barnið ætti auðvelt með að skilja hvað ætlast væri til að það gerði (89%). Þannig áttu flest börnin auðvelt með að spila leikinn, fannst hann skemmtilegur og náðu að halda athygli í þann tíma sem tók að klára spilun. Í viðtölum og könnun um gagnsemi kom fram að meirihluta foreldra (95%) fannst leikurinn gagnast barninu, þeim fannst börnin tilbúnari til að takast á við það sem framundan var eftir spilun hans og töldu hann gefa þeim sjálfum verkfæri til að undirbúa börnin fyrir aðgerðarferlið.
Ályktanir: Kennslutölvuleikur er fýsilegur kostur til að miðla fræðslu til ungra barna fyrir svæfingu. Þörf er á stærri rannsókn til að kanna áhrif leiksins á kvíða og aðra útkomuþætti.
46. Skimun fyrir Lynch heilkenni með alhliða litun fyrir mispörunarpróteinum
Katla Rut Robertsdóttir Kluvers1, Agnes Smáradóttir2, Jón Gunnlaugur Jónasson1,2, Þórður Tryggvason2, Pétur Snæbjörnsson1,3, Vigdís Stefánsdóttir2, Ásgeir Thoroddsen2, Sigurdís Haraldsdóttir1,2
1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Landspítala, 3Netherlands Cancer Institute
katlar@landspitali.is
Inngangur: Skimun fyrir Lynch heilkenni (LS) með ónæmislitunum fyrir mispörunarviðgerðarpróteinum (e. mismatch repair; MMR) hófst á meinafræðideild Landspítala árið 2017 í greindum ristil-, endaþarms- (REKM) og legbolskrabbameinum (LBKM) og árið 2021 í magakrabbameinum (MKM).
Markmið: Markmið rannsóknarinnar er að kanna árangur skimunar fyrir LS árin 2020-2022 þ.m.t. litunarhlutfall æxla, hlutfall æxla með vöntun á MMR-próteinum (e. MMR deficiency; dMMR), hlutfall LS og hvort réttum uppvinnsluferlum var fylgt.
Aðferðir: Rannsóknin er aftursýn. Fenginn var listi frá Krabbameinsskrá yfir öll greind REKM og LBKM árin 2020-2022 og MKM árin 2021-2022. Farið var inn í sjúkraskrár og upplýsinga aflað um meinafræðiþætti, niðurstöður litana og hvort réttum litunar- og meðferðarferlum var fylgt. Arfgerðir sjúklinga í gagnagrunni Íslenskrar erfðagreiningar voru tengdar við sjúklingaþýðið á kóðuð formi innan veggja fyrirtækisins til að reikna næmi og sértæki vefjalitunar. Vísindasiðanefndarleyfi (VSN 20-046) var veitt.
Niðurstöður: Af 522 REKM voru 429 (82,2%) lituð og af þeim voru 63 (14,7%) dMMR. Af 102 LBKM voru 88 (86,3%) lituð og af þeim voru 19 (21,6%) dMMR. Af 26 MKM voru 18 (69,2%) lituð en engin voru dMMR. Réttu verkferli var fylgt í 90,5% tilvika hjá REKM og 94,7% tilvika hjá LBKM og vísanir í erfðaráðgjöf gerðar í öllum tilvikum nema einu. Næmi vefjalitunar reyndist 80% og sértæki 85,4%.
Ályktanir: Skimun fyrir LS með ónæmislitun fyrir MMR-próteinum greindi réttilega einstaklinga með LS í 80% tilvika. Réttu verkferli var fylgt oftar og eftirfylgd með tilvísunum í erfðaráðgjöf var hærri en á fyrstu þremur árum skimunar. Rannsóknin bætir við vaxandi grunn upplýsinga um gæði skimunar fyrir LS á Íslandi.
47. Bráðabúnaður og lyf á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni – Heildstæð úttekt
Kári Ingason1, Hjalti Már Björnsson1,2, Þóra Elísabet Kristjánsdóttir2,3
1Læknadeild Háskóla Íslands, 2bráðamóttöku Landspítala, 3Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins
kai9@hi.is
Inngangur: Læknar á landsbyggðinni gegna mikilvægu hlutverki þegar verða slys eða bráð veikindi og við þessi störf þurfa þeir að nota sérhæfðan búnað, bæði til greiningar og meðferðar sjúklinga. Í óformlegum samtölum við landsbyggðarlækna hefur reynst vera nokkur breytileiki í því hvaða búnaður er til staðar á hverri heilbrigðisstofnun.
Markmið: Markmið rannsóknarinnar voru að athuga hvaða bráðabúnaður og bráðalyf eru tiltæk á öllum heilbrigðisstofnunum landsbyggðarinnar.
Aðferðir: Hannaður var staðlaður spurningalisti yfir búnað og lyf sem talin eru nauðsynleg í bráðaþjónustu. Gagnasöfnun fór fram með fjarfundarviðtölum við yfirlækna og yfirhjúkrunarfræðinga, heimsóknum og aðsendum lyfjalistum hverrar stöðvar.
Niðurstöður: Gerð var heildstæð úttekt á 50 starfsstöðvum heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni. Svarhlutfall fyrir tiltækan bráðabúnað var 100% og svarhlutfall bráðalyfja 90%. Engir staðlar reyndust til staðar í læknishéruðum um bráðabúnað eða lyf. Hjartastuðtæki voru til taks hjá 96% stöðva, en hjartalínuritstæki hjá 80% þeirra. Ómskoðunartæki voru ekki víða utan sjúkrahúsa, eða hjá 8 af 25 heilsugæslustöðvum. Mikill breytileiki var í aðgengi að tækjum til einfaldari blóðrannsókna. Skortur á ákveðnum öndunarvegabúnaði var áberandi í niðurstöðum þar sem 74% allra stöðva áttu kokrennur, meðan nefrennur fundust hjá 54% stöðva. Barkarennur og barkakýlissjár voru víða til staðar, en 8% allra stöðva höfðu aðgang að myndabarkasjám. Víða vantaði leiðara í barkarennur. Mikill breytileiki var á því hvort öndunarvegur ofan raddbanda væri tiltækur og af hvaða gerð. Rúmlega 20% stöðva höfðu búnað til barkaskurðar. Almennt voru helstu bráðalyf tiltæk á flestum heilbrigðisstofnunum en nokkur breytileiki milli þeirra. Læknatöskur voru almennt ekki staðlaðar og breytilegt hvaða búnaður og lyf voru í þeim.
Ályktun: Í þessari tæmandi rannsókn um stöðu bráðabúnaðar á landsbyggðinni reyndist vera mikill breytileiki á hvaða búnaður var til og líklegt er að nú sé útbúnaður heilbrigðisstofnana með tilliti til bráðabúnaðar á mörgum stöðum háður frumkvæði og áhuga ólíkra lækna. Víða reyndist vanta einfaldan og ódýran búnað og líklega er hægt að bæta bráðaþjónustu á landsbyggðinni marktækt með því að tryggja að staðlaður bráðabúnaður og lyf séu tiltæk á öllum starfsstöðvum.
48. Unveiling the protective role of androgens in CHD1 deficiency: observations in mice and humans
Kimberley Jade Anderson1, Sara Þöll Halldórsdóttir2, Hans Tómas Björnsson1,2,3,4
1Dept. of Genetics and Molecular Medicine, Landspítali, 2Louma G. Laboratory of Epigenetic Research, Faculty of Medicine, University of Iceland, 3McKusick-Nathans Dept. of Genetic Medicine, Johns Hopkins University School of Medicine; Baltimore, 4Dept. of Pediatrics, Johns Hopkins University, Baltimore
kimberley@landspitali.is
Introduction: Pilarowski-Bjornsson Syndrome (PILBOS, OMIM: 617682) is a neurodevelopmental disorder first described by our group. It is characterised by growth retardation, hypotonia, autism spectrum disorder (ASD) and intellectual disability, caused by variants in the chromatin remodeler gene CHD1. Initially identified exclusively in females, PILBOS stands in stark contrast to the male bias typically observed in ASD.
Aims: This study aimed to develop a mouse model recapitulating key features of PILBOS and to investigate whether female overrepresentation in PILBOS could be explained by a protective role of androgens.
Methods: We used CRISPR-Cas9 to generate a mouse model harbouring a patient-specific PILBOS variant (Chd1R616Q/+) and performed an in vitro nucleosome remodelling assay to test the effect of the variant. We manipulated testosterone levels in mice of both genotypes by orchiectomy of males and testosterone supplementation of females. Using embryonic neural progenitor cells (NPCs) isolated from these mice, we evaluated proliferation and performed RNA sequencing. Using the gnomAD database, we analysed human CHD1 missense variants for sex differences in allele frequencies.
Results: CHD1R618Q exhibited deficient chromatin remodelling in vitro. Heterozygous mice displayed female-limited weight and motor deficits, and increased anxiety-like behaviour. Consistent with a protective role of androgens, orchiectomy of male mice at postnatal day 15 unveiled a weight phenotype previously masked in mutant males. Conversely, testosterone supplementation in Chd1R616Q/+ female mice led to rescue of the phenotype. Moreover, Chd1R616Q/+ NPCs showed a proliferation defect in vitro, and testosterone treatment of pregnant dams normalised proliferation in the embryonic mouse cortex. In vitro treatment of NPCs with dihydrotestosterone induced a widespread rescue of the transcriptional changes caused by Chd1R616Q/+, suggesting that androgens may counteract CHD1 dysfunction by promoting an opposing transcriptional program. Finally, using the gnomAD database, a dataset mostly devoid of individuals with rare genetic disorders, we identified significant enrichment of missense alleles in CHD1 within the male population compared to females (p = 1.906e-08), suggesting that males may be protected from the disease phenotype even at the population level.
Conclusions: These findings unveil a novel mechanism underlying sex-specificity in PILBOS and pave the way for future investigations into sex-specific contributions to neurodevelopment.
49. Áhætta á primary biliary cholangitis meðal sjúklinga með hvatberamótefni en engin merki um sjúkdóminn
Kristján Torfi Örnólfsson1, Einar Stefán Björnsson1,2
1Lyflækningasviði Landspítala, 2meltingarlækningadeild Landspítala
krisorno@landspitali.is
Inngangur: Mótefni gegn hvatberum (e. antimitochondrial antibodies, AMA) eru til staðar hjá yfir 90-95% sjúklinga sem uppfylla greiningarskilmerki fyrir primary biliary cholangitis (PBC). Lítið er hins vegar vitað um afdrif þeirra sjúklinga sem reynast hafa slík mótefni en uppfylla þó ekki greiningarskilmerkin.
Markmið: Að nýta lýðgrunduð gögn heillar þjóðar til að varpa skýrara ljósi á afdrif þeirra sem mælast með mótefni gegn hvatberum en uppfylla ekki greiningarskilmerki PBC.
Aðferðir: Allir sjúklingar með jákvæðar AMA mælingar á Ónæmisfræðideild Landspítala 2006-2020 voru með í rannsókninni. Kannað var hvort AMA jákvæðir sjúklingar sem ekki uppfylltu greiningarskilmerki PBC þegar AMA mælingin var framkvæmd (viðvarandi hækkun á alkalískum fosfatasa eða breytingar sem samræmast PBC á lifrarsýni) uppfylltu þau síðar.
Niðurstöður: Alls höfðu 348 sjúklingar jákvæða AMA mælingu á rannsóknartímabilinu. Fullnægjandi gögn fundust fyrir 283 (81%) til að unnt væri að meta hvort greiningarskilmerki PBC væru þá uppfyllt. 190/283 (67%) voru greindir með PBC eða voru með hækkun á alkalískum fosfatasa þegar mótefni gegn hvatberum fundust fyrst. Fyrir þá 93 sjúklinga sem ekki uppfylltu greiningarskilmerki PBC voru fullnægjandi gögn til staðar fyrir 59 (63%) til að unnt væri að meta hvort sjúkdómurinn hefði síðar komið fram. Miðgildi eftirfylgdartímans var 4,8 ár (fjórðungaspönn (e. interquartile range) 2,7 – 9,0 ár). Af þessum 59 sjúklingum reyndust 22 (37%) þróa með sér viðvarandi hækkun á alkalískum fosfatasa og voru 10 sjúklingar (17%) greindir með PBC. Alls 6 sjúklingar (10%) þróuðu með sér viðvarandi hækkun á alkalískum fosfatasa án augljósrar skýringar og voru því hugsanlega með PBC án þess að fá greiningu. Þá þróuðu 6 sjúklingar (10%) með sér viðvarandi hækkun á alkalískum fosfatasa af öðrum orsökum en PBC.
Ályktanir: Um fimmtungur sjúklinga sem voru með mótefni gegn hvatberum, en uppfylltu ekki greiningarskilmerki PBC í upphafi, þróaði með sér sjúkdóminn eftir u.þ.b. 5 ára eftirfylgni. Sjúklingar með hvatberamótefni og eðlileg lifrarpróf þarfnast því náinnar eftirfylgdar.
50. Möguleg vanstarfsemi heiladinguls eftir heilahristing hjá íþróttakonum. Hverjar þarf að meta nánar?
Lára Ósk Eggertsdóttir Claessen1,2, Hafrún Kristjánsdóttir4, María K. Jónsdóttir5, Sigrún Helga Lund6, Ingunn S. U. Kristensen5, Helga Ágústa Sigurjónsdóttir1,3
1Læknadeild Háskóla Íslands, 2bráðalækningum Landspítala 3lyflækningasviði Landspítala, 4íþróttafræðideild Háskólans í Reykjavík, 5sálfræðideild Háskólans í Reykjavík, 6raunvísindadeild Háskóla Íslands
laraclaessen@gmail.com, laraoec@landspitali.is
Inngangur: Heilahristingur getur leitt til vanstarfsemi í heiladingli (algengi 13 – 48%). Þrátt fyrir að konur virðist vera útsettari fyrir langvarandi áhrifum heilahristings hafa rannsóknir á vanstarfsemi heiladinguls eftir heilahristing aðallega miðað að skoðun karlkyns þátttakenda.
Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að skima íþróttakonur sem hafa fengið einn eða fleiri heilahristing fyrir mögulegri vanstarfssemi í heiladingli. Samkvæmt okkar bestu vitund er rannsóknin sú fyrsta sem einbeitir sér að skoðun íþróttakvenna í þessu samhengi.
Aðferðir: Fyrstu tveir hlutar rannsóknarinnar voru framkvæmdir af sálfræðideild Háskólans í Reykjavík (sálfræðilegt og taugasálfræðilegt mat). Í þriðja hluta rannsóknarinnar fóru 151 íþróttakonur á aldrinum 18 til 45 ára í viðtal og skoðun hjá lækni. Blóðprufur til til skimunar vegna mögulegrar vanstarfsemi heiladinguls voru teknar hjá 133 (88,1%) af þeim 151 konum sem tóku þátt í þriðja hluta rannsóknarinnar en 18 konur (11,9%) fóru ekki í blóðprufur (brottfall n = 9, ófrískar n = 9). Eftirfarandi blóðprufur voru teknar klukkan 8 að morgni: insulin like growth factor 1 (IGF1), kortisól, prólaktín, thyroid-stimulating hormone (TSH), thyroxin (fT4), follicle stimulating hormone (FSH), luteinizing hormone (LH), estrógen og prógesterón. Íþróttakonum sem voru endurtekið með niðurstöður blóðrannsókna utan viðmiðunarmarka var vísað til frekari uppvinnslu á vegum innkirtlalæknis vegna mögulegrar vanstarfsemi í heiladingli.
Niðurstöður: Niðurstöður blóðrannsókna voru utan viðmiðunarmarka hjá 88 konum (66,2%). Blóðgildi IGF1 var neðan miðlínu viðmiðunarmarka hjá 55,6% og prólaktín ofan viðmiðunarmarka hjá 22,6%. Kortisól var neðan viðmiðunarmarka hjá 6,0% og skjaldkirtilshormón voru utan viðmiðunarmarka hjá 11,3%. Kynhormón voru neðan viðmiðunarmarka hjá einni konu en ekki var þörf á frekari uppvinnslu þar sem hún var á hormónagetnaðarvörn. Niðurstöður blóðrannsókna voru líklegri til þess að vera utan viðmiðunarmarka hjá yngri konum (OR 0,94; CI 0,95 – 0,99) og þeim sem höfðu fleiri einkenni heilahristings (OR 1,15; CI 1,01 – 1,33).
Ályktanir: Niðurstöður blóðrannsókna voru utan viðmiðunarmarka hjá 66,2% íþróttakvenna. Algengast var að IGF1 væri neðan miðlínu viðmiðunarmarka sem gæti bent til vaxtarhormónskorts. Prólaktín var hækkað hjá 22,6% sem gæti bent til skaða á heiladingli eða undirstúku. Lægri aldur og aukinn fjöldi heilahristingseinkenna gætu spáð fyrir um hvaða konur þarf að skima fyrir mögulegri vanstarfsemi í heiladingli eftir heilahristing.
51. Vanstarfsemi heiladinguls og hækkun á prólaktíni hjá íþróttakonum eftir heilahristing
Lára Ósk Eggertsdóttir Claessen1,2, Hafrún Kristjánsdóttir4, María K. Jónsdóttir5, Sigrún Helga Lund6, Ingunn S. U. Kristensen5, Helga Ágústa Sigurjónsdóttir1,3
1Læknadeild Háskóla Íslands, 2bráðalækningum Landspítala, 3lyflækningasviði Landspítala 4íþróttafræðideild Háskólans í Reykjavík, 5sálfræðideild Háskólans í Reykjavík, 6raunvísindadeild Háskóla Íslands
laraclaessen@gmail.com, laraoec@landspitali.is
Inngangur: Heilahristingur getur leitt til vanstarfsemi heiladinguls sem getur haft alvarlegar afleiðingar ef rétt greining og meðferð á sér ekki stað. Konur hafa verið minna rannsakaðar m.t.t. vanstarfsemi heiladinguls í kjölfar heilahristinga en karlar.
Markmið: Markmið rannsóknarinnar er að meta algengi vanstarfsemi heiladinguls eftir heilahristing í þýði íþróttakvenna. Samkvæmt okkar bestu vitund er rannsóknin sú fyrsta sem einungis nær til íþróttakvenna.
Aðferðir: Blóðrannsókn til skimunar vegna mögulegrar vanstarfsemi í heiladingli var gerð hjá 133 konum. Niðurstöður voru endurtekið utan viðmiðunarmarka hjá 88 konum sem var vísað í frekari uppvinnslu hjá innkirtlalækni. Ef thyroid-stimulating hormone (TSH), eða thyroxin (fT4) voru utan viðmiðunarmarka, voru mótefni gegn thyroxin peroxidase (anti-TPO) mæld. Ef mótefnamælingar voru neikvæðar var segulómskoðun á heiladingli framkvæmd. Segulómskoðun af heiladingli var einnig framkvæmd ef prólaktín var endurtekið fyrir ofan viðmiðunarmörk. Þegar kortisól mældist lægra en 350 mmól/L í blóðprufum að morgni var adrenocorticotropic hormón (ACTH) mælt og Synacthen próf framkvæmt. Ef insulin like growth factor 1 (IGF1) var neðan miðgildis viðmiðunarmarka og einkenni um vaxtarhormónskort til staðar var growth hormone releasing hormone – arginín (GHRH-arginín) próf framkvæmt. Insúlín þolpróf (ITT) var gert hjá einni konu vegna mikilla einkenna sem bentu til vaxtarhormónskorts.
Niðurstöður: Truflun á heiladinguls hormónum var greindist hjá 16 íþróttakonum (12,2%). Sex (4,5%) voru með vanstarfsemi í heiladingli. Vaxtarhormónskortur greindist hjá tveimur (GHRH – arginín próf n = 1 og ITT n = 1) og vanstarfsemi í skjaldkirtilshormóna öxli hjá fjórum. Tíu (7,6%) konur voru með hækkað prólaktín og af þeim greindust fjórar konur með hefðbundið prólaktínóma. Lyfjameðferð var hafin hjá 13 konum (9,8%), þrjár konur með prólaktínóma voru einkennalausar og voru því ekki settar á lyfjameðferð en eru í eftirliti hjá innkirtlalækni. Ekki var marktækur munur á milli kvenna með eða án truflunar á starfsemi heiladinguls.
Ályktanir: Truflun á heiladingulsstarfsemi greindist hjá 12,2% kvenna og er þetta því mikilvæg afleiðing heilahristinga. Sex konur (4,5%) voru með vanstarfsemi í heiladingli. Prólaktín hækkun hjá sex konum sem ekki greindust með hefðbundið prólaktínóma gæti bent til skaða á heiladingli eða undirstúku.
52. Bráður nýrnaskaði eftir kransæðahjáveituaðgerð: Áhrif alvarlegra snemmkominna fylgikvilla á horfur
Leon Arnar Heitmann1, Nanna Sveinsdóttir1, Sólveig Helgadóttir2, Ólafur Skúli Indriðason3, Tómas Guðbjartsson1,4, Daði Helgason5
1Faculty of Medicine, University of Iceland, 2Dept. of Anesthesiology and Intensive Care, Landspítali, 3Dept. of Nephrology, Landspítali,4Dept. of Cardiothoracic Surgery, Landspítali, 5Dept. of Nephrology, Skåne University Hospital, Lund
LeonHeitmann97@gmail.com
Inngangur: Bráður nýrnaskaði (BNS) er alvarlegur fylgikvilli kransæðahjáveituaðgerðar og tengist verri horfum. Óljóst er hve mikið tengsl BNS við verri horfur skýrast af öðrum alvarlegum snemmkomnum fylgikvillum (ASF) samhliða BNS.
Markmið: Kanna tíðni og afdrif BNS eftir kransæðahjáveituaðgerð og meta áhrif samhliða ASF á skamm- og langtímahorfur.
Aðferðir: Afturskyggn rannsókn á öllum sem undirgengust kransæðahjáveituaðgerð á Landspítala milli 2001-2022 (n=2248). BNS stigaðist samkvæmt kreatínínhluta KDIGO-skilmerkjanna. ASF tóku til miðmætissýkingar, bringubeinsloss, heilaslags, alvarlegs blóðtaps, hjartadreps eða fjöllíffærabilunar eftir aðgerð. Borin voru saman afdrif BNS, ASF og hvoru tveggja út frá heildarlifun og hjartatengdum dauða. Líkindaskorspörun var notuð til að auka samanburðarhæfni hópa. Cox-aðhvarfsgreining var notuð til að meta áhrif BNS á eins, fimm og tíu ára horfur eftir útilokun þeirra sem höfðu ASF.
Niðurstöður: Alls greindust 347 (15,4%) með BNS, þar af 248 (11,0%) á stigi 1, 48 (2,1%) á stigi 2 og 51 (2,3%) á stigi 3. Tíðni ASF var 503 (22,4%), en 145 (6,5%) hlutu bæði ASF og BNS. Sjúklingar með BNS höfðu aukna hættu á langvinnum nýrnasjúkdómi eftir aðgerð (HH:2,7, ÖB:2,3-3,2). Eftir líkindaskorspörun tengdist BNS auknum líkum á 1-árs (HH:2,45; ÖB:1,37-4,40), 5-ára (HH:1,85; ÖB:1,31-2,61), og 10-ára dauða (HH:1,77; ÖB:1,39-2,24), samanborið við sjúklinga án BNS. Eftir frekari útilokun þeirra sem höfðu samhliða ASF tengdist BNS einungis verri 10-ára heildarlifun (HH: 1,58; ÖB:1,18-1,97) og hjartatengdum dauða (HH: 1,64, ÖB: 1,39, 1,89).
Ályktanir: Í fjarveru annarra alvarlegra fylgikvilla tengdist BNS þróun á langvinnum nýrnasjúkdómi og verri langtímahorfum, en ekki verri skammtímahorfum. Tengsl BNS við verri skammtímahorfur virðast að hluta til miðluð af ASF.
53. Radiodensity soft tissue asymmetry as indicator for healthy aging
Marco Recenti1, Alfonso Maria Ponsiglione1,2, Carlo Ricciardi1,2, Magnus Kjartan Gislason1, Milan Chang3, Paolo Gargiulo1,4
1Institute of Biomedical and Neural Engineering, Reykjavik University, 2Dept. of Electrical Engineering and Information Technology, University of Naples “Federico II”, 3 The Icelandic Gerontological Research Institute, Landspítali, 4Dept. of Science, Landspítali
Introduction: Non-Linear Trimodal Analysis (NTRA) has emerged as a powerful tool, extracting 11 soft tissue radiodensity distribution features from single-leg CT scans, proven effective in predicting comorbidities and cardiac pathophysiologies. When obtained from both legs as asymmetry indicators (AsyInd), NTRA exhibits significant variability across age groups. This study utilizes NTRA AsyInd to investigate potential associations with lifestyle factors and to identify diabetes and hypertension prevalence among a substantial cohort of elderly individuals.
Methods: The AGES-Reykjavik dataset, comprising 3157 aging individuals (mean age: 80.06), was utilized. From mid-thigh CT scans, 11 NTRA parameters were extracted, characterizing fat, muscle, and connective tissue distributions in terms of Amplitude (N), Location (μ), Width (σ), and Skewness (α). Differences between legs produced the 11 AsyInd. A binary Lifestyle Index (LI) categorized subjects based on BMI<30, regular physical activity, and no smoking history. Statistical analysis, including Shapiro-Wilk normality tests and Mann-Whitney tests, was employed to assess AsyInd's ability to differentiate between healthy and non-healthy lifestyle groups and comorbidity presence.
Results: Among the 11 AsyInd, fat N, muscle μ, and connective tissue N and μ were statistically significant in distinguishing healthy and unhealthy lifestyle groups, with fat N exhibiting the most significant discriminative power (p-value<0.001). In differentiating comorbidity groups, fat N and connective tissue μ were statistically significant.
Conclusions: Fat N and connective tissue μ NTRA AsyInd emerged as noteworthy indicators, discriminating both lifestyle and comorbidity conditions effectively. This study contributes to developing a quantitative metric for understanding the influence of soft tissue composition on elderly wellbeing.
54. Nýtist EEG og stjórnun líkamsstöðu í sýndarveruleika til að skilgreina lífmerki heilahristings?
María K. Jónsdóttir1,2, Ingunn S. U. Kristensen1, Deborah Jacobs1, Hafrún Kristjánsdóttir1, Helga Á. Sigurjónsdóttir2, Lára Eggertsdóttir Claessen2,3, Hannes Petersen3, Paolo Gargiulo1
1Háskólanum í Reykjavík, 2Landspítala, 3læknadeild Háskóla Íslands
Inngangur: Flestir jafna sig að fullu innan 2 til 4 vikna eftir að hafa fengið heilahristing. Öðru máli gegnir um einstaklinga, sem hafa fengið endurtekna heilahristinga og ná ekki að jafna sig á milli áverka, eins og t.d. íþróttamenn. Þetta eykur líkurnar á að einkenni verði viðvarandi. Ekki fá allir íþróttamenn læknisfræðilega greiningu heilahristings og oft liggur ekki ljóst fyrir hversu marga heilahristinga þeir hafa fengið. Þær aðferðir sem nú þarf að treysta á við greiningu heilahristings í þessum hópi eru sjálfsmat og frásagnir íþróttamanna. Í fyrri rannsóknum okkar unnum við að því að auka áreiðanleika þessa sjálfsmats. Kostur væri þó ef hægt væri að þróa lífmerki til stuðnings klínískri greiningu heilahristings.
Markmið: Markmiðið var að þróa lífmerki heilahristings með því að skoða lífeðlisfræðileg merki (EEG, EMG, hjartslátt) og líkamsstöðu á hreyfanlegri þrýstiplötu í sýndarveruleika (BioVRSea), líkt og þátttakandi væri úti á rúmsjó. Mælingar byggðust á þeim mun sem sást í kyrrstöðu og þegar þrýstiplatan hreyfðist.
Aðferðir: Þátttakendur voru 54 íþróttakonur sem kepptu, eða höfðu keppt, í íþróttum með mikla heilahristingsáhættu (s.s. fótbolti og handbolti). Meðalaldur var 38,4 (sf = 7,7; ekki marktækur munur á hópum) og höfðu 28 (48,1%) sögu um heilahristing, en 26 ekki (51,9%) (eigin frásögn). Allir konurnar svöruðu SCAT-5 heilahristingseinkennalista og munur var á hópunum í alvarleika einkenna (t-gildi, - 7,18; p<0,05). Leyfi VSN lá fyrir (17-183-S1).
Niðurstöður: Með BioVRSea rannsóknarrammanum var hægt að aðgreina konur með sögu um heilahristing frá þeim sem sögðust ekki hafa fengið heilahristing. Einkum var það munur í aflþéttleika (e. spectral density) þeta og delta tíðni sem aðgreindi hópa og munurinn kom fram í breytingum milli hvíldarástands og viðbrögðum við hreyfingu í sýndarveruleika. Sömuleiðis áttu íþróttakonur með heilahristing og jafnvægisvanda í meiri erfiðleikum með að bregðast við hreyfingu plötunnar (p = 0,019). Með vélnámsaðferðum (e. machine learning) var hægt að aðgreina þátttakendur með heilahristingssögu frá hinum. Þar fékkst um 95% nákvæmni með því að sameina SCAT-5 og BioVRSea breytur.
Ályktanir: Unnt var að aðgreina hópa með og án sögu um heilahristing með því að nota BioVRSea rannsóknarrammann. Rannsóknir á stærri hóp íþróttamanna, konum og körlum, eru fyrirhugaðar.
55. Bringubeinslos án miðmætissýkingar eftir kransæðahjáveituaðgerð: Algengi, áhrifaþættir og horfur
Martin Silverborn1,2, Leon Arnar Heitmann1,3, Nanna Sveinsdóttir1,3, Sigurjón Rögnvaldsson1, Tómas Þór Kristjánsson1, Tómas Guðbjartsson1,
1Department of Cardiothoracic Surgery, Landspitali, 2Department of Cardiothoracic Surgery, Sahlgrenska University Hospital, Gothenburg, 3Faculty of Medicine, University of Iceland
LeonHeitmann97@gmail.com
Inngangur: Bringubeinslos án miðmætissýkingar (Non-infectious sternal dehiscence, NISD) er óalgengur en alvarlegur fylgikvilli kransæðahjáveituaðgerðar, sér í lagi vegna yfirvofandi hættu á miðmætissýkingu. Fyrri rannsóknir hafa tilgreint tíðni NISD milli 0.4 – 1% eftir bringubeinsskurð, en lítið er vitað um áhættuþætti og áhrif á horfur.
Markmið: Kanna nýgengi NISD eftir aðgerð og kortleggja snemm- og síðkomnar horfur þeirra sjúklinga.
Aðferðir: Afturskyggn rannsókn á öllum sem gengust undir kransæðahjáveituaðgerð á Landspítala milli 2001–2020 (n=2300). Útilokaðir voru þeir sjúklingar sem uppfylltu skilyrði fyrir miðmætissýkingu (n=20). Tilfelli NISD voru metin afturvirkt úr sjúkraskrám þeirra sem undirgengust enduraðgerð vegna einkenna bringubeinsloss og staðfest ef neikvæðar ræktanir úr miðmæti fyrir og eftir enduraðgerð lágu fyrir. Afdrif þeirra sem hlutu NISD voru borin saman við sjúklinga án einkenna bringubeinsloss.
Niðurstöður: Alls greindust 20 (0,88%) tilfelli af NISD yfir 20 ára rannsóknartímabil, þar af 16 (80%) á fyrri helmingi tímabilsins. Árleg meðalbreyting á nýgengi NISD reyndist ekki marktæk (-0,97%; 95% ÖB: -1,4% – 0,59%). Miðgildi tíma að enduraðgerð var 12 dagar (spönn: 4 – 240) og voru 18 (90%) tilfelli lagfærð með vírum að hætti Robicsek, en tvö (10%) með títanplötu. Þeir sem hlutu NISD eftir aðgerð voru eldri, fjölveikari og höfðu lengri legutíma eftir aðgerð í samanburði við aðra. Tíðni skamm- og langtíma fylgikvilla, sem og heildarlifun reyndist sambærileg milli hópanna tveggja.
Ályktanir: Nýgengi NISD eftir aðgerð var lágt og í samræmi við erlendar rannsóknir. Þrátt fyrir marktækt lengri spítalalegu eftir aðgerð voru skamm- og langtímaútkomur NISD sambærilegar við þá sem ekki hlutu bringubeinslos.
56. Úthljóðsstraumlindamyndgerð
Matthías Orri Ísaksson1, Davíð Arnljótur Karlsson1, Þórður Helgasson1,2
1Verkfræðideild Háskólanum í Reykjavík, 2Landspítala
matthias16@ru.is
Inngangur: Ómskoðun er óífarandi og aðlögunarhæf læknisfræðileg myndgreiningartækni sem veitir rauntíma sjónmyndir af innri líffærum, sem gerir hana að mikilvægu greiningartæki. Meginreglan um ómskoðun felur í sér sendingu og móttöku á hátíðni hljóðbylgjum, sem eru utan heyrnarsviðsins. Hljóðbylgjurnar fara í gegnum mannslíkamann og skerast mörk mismunandi vefja, sem leiðir til myndunar bergmálsmerkja. Þessi bergmál eru síðan unnin af tölvu, sem leiðir til nákvæmra sónarmynda, einnig þekktar sem ómskoðunarskannanir. Læknisfræðileg myndgreining með ómskoðun býður upp á fjölda lykilkosta, þar á meðal að útiloka hættu á geislun sjúklings, sem gerir það hentugt fyrir endurteknar rannsóknir og er öruggt fyrir viðkvæma sjúklinga, þar með talið barnshafandi konur og ungabörn. Ómskoðunartækni býður upp á rauntíma myndgreiningargetu, sem gerir kleift að meta heilsu líffæra, vöðva og blóðrásar. Hljóðstraumshrifin vísa til notkunar á þrýstingsbylgjum sem valda breytingum á leiðni vegna þrýstingsbreytinga í vöðvum, sem leiðir til hljóðrafs víxlverkunar (Acusto electric interactions (AEI)) merkisins. Hægt er að nota AEI merkið til að búa til rauntíma þrívíddarmynd sem kallast úthljóðsstraumlindarmyndgerð (Ultrasound current source density imaging ((UCSDI)).
Markmið: Megin markmið rannsóknarinnar var að nema straums- og spennubreytinguna sem átti sér stað þegar úthljóði var beint á straumlind.
Aðferðir: Útbúa þurfti til mælibox, nema, formagnara og Faraday búr. Mælingaboxið og neminn voru smíðaðir með gagnsæju akrýl plexígleri. Þeir voru smíðaðir með öllum fræðilegum breytum til að hámarka niðurstöður mælinga. Hanna þurfti formagnara til að draga úr bakgrunnshljóð sem femto magnarinn myndi magna upp. Sendarinn sendi úthljóðsbylgju í gegnum hólf á nema sem var hannaður, þar sem hægt var að mæla spennubreytingu sem átti sér stað vegna þrýstibylgna. Formagnarinn myndi síðan sía út óþarfa hávaða áður en hann fór inn í femto magnarann til að magna spennubreytinguna og merki kom á sveiflusjánna.
Niðurstöður: Margar tilraunir voru gerðar til að fá merkið sem leitast var eftir. Nokkrar mælingar pössuðu við gildi frá útreikningum.
Ályktanir: Mælingar fóru fram úr væntingum þar sem merkið sem leitast var eftir er mjög erfitt að finna og sjá breytinguna í spennunni þar sem útreiknuð breyting nemur 500µV.
57. Laminarin and their derivatives affect dendritic cell activation and their crosstalk with T cells
Monica Daugbjerg Christensen1,2,3, Leila Allahgholi4, Justyna Dobruchowska5, Ólafur Friðjónsson1, Antoine Moenaert1,2, Hörður Guðmundsson1, Eva Nordberg Karlsson4, Guðmundur Ó. Hreggviðsson1,2, Jóna Freysdóttir3,6
1Dept. of Biotechnology and Biomedicine, Matís ohf., 2Faculty of Life and Environmental Sciences, University of Iceland, 3Dept. of Immunology, Landspítali; 4Div. of Biotechnology, Dept. of Chemistry, Lund University; 5Dept of Chemical Biology and Drug Discovery, Utrecht Inst. for Pharmaceutical Sciences, Bijvoet Center for Biomolecular Research, Utrecht University, 6Faculty of Medicine, Biomedical Center, University of Iceland
monica@matis.is
Introduction: Laminarin is a low-molecular-weight polysaccharide found in brown seaweed. It has been attributed with diverse range of bioactivities, including immunomodulation. However, differences in extraction methods and sample preparation pose concerns about disruption of the native structure, impurities, and high ash content, which can lead to non-homogeneous and often contradictory bioactivity results.
Aims: The aim of the study was to unravel the structure-function relationship of native laminarin molecules derived from three species of brown seaweed, and their oligosaccharide-derivatives as potential immunomodulatory agents, using human dendritic cell (DC) model.
Methods: Human DCs were matured and stimulated in the absence or presence of laminarin and enzymatic generated oligosaccharides from three species of brown seaweed and the effects determined by measuring cytokine secretion of the DCs by ELISA, their expression of surface molecules by flow cytometry and their ability to activate and differentiate allogeneic CD4+ T cells.
Results: Laminarin from Laminaria hyperborea and the small and simple-branched oligosaccharide L.h-F5 increased IL-6 and IL-10 secretion by DCs. Treating the DCs with the small oligosaccharides L.h-F5 and L.h-F4 and the more complex-structured oligosaccharide from Saccharina latissima (S.l-F3) led to reduced TNFα secretion. Co-cultures of DCs treated with laminarin from L. hyperborea and CD4+ T cells led to increased IL-17 and IL-10 secretion. Co-culturing S.l-F3-treated DCs but not L.h-F5-treated DCs with CD4+ T cells led to reduced 12p40 and IFNγ secretion. None of the three laminarin polymers had effect on cell viability or expression of surface molecules on the DCs.
Conclusion: Treating DCs with laminarin from L. hyperborea led to increased secretion of IL-6, which may explain how the DCs induced increased IL-17 secretion by the co-cultured CD4+ T cells. Reduction in TNFα secretion by DCs treated with the small oligosaccharides L.h-F4, L.h-F5 and S.l-F3 may be attributed to their similar range of degree of polymerization. The difference between the effect of S.l-F3- and L.h-F5-treated DCs on IFNγ secretion in co-culture experiments may be due to the higher branch-content of S.l-F3. In summary, these data demonstrate that different sizes and branching patterns of laminarin have different impacts on the maturation and stimulation of DCs and how they subsequently affect T cell activation and differentiation.
58. Áhrif ATL2-2 tjáningar á ferla sem eru virkir í T47D brjóstakrabbameinsfrumulínu
Nataliya Shabatura1, Bylgja Hilmarsdóttir1,2, Íris Thelma Halldórsdóttir1, Gunnhildur Ásta Traustadóttir1,2, Inga Reynisdóttir1,2
1Meinafræðideild Landspítala, 2lífvísindasetri Háskóla Ísland
Inngangur: Brjóstakrabbamein (brkm) er algengasta krabbamein sem greint er í konum á heimsvísu. Nýverið sýndum við að ATL2-2 umrit Atlastin 2 (ATL2) gensins var meira tjáð í brjóstaæxlum en í heilbrigðum brjóstavef. Einnig sýndi há tjáning marktæka fylgni við þætti sem tengjast verri horfum brkm sjúklinga og boðferla sem stjórna frumuhringnum, m.a. G2/M fasa. ATL2 er staðsett í himnu frymisnetsins, er svokallað himnusamrunagen sem tengir píplur í net. Ójafnvægi í frymisneti er algengt í ýmsum sjúkdómum, m.a. krabbameini. ATL2 framleiðir tvö fulllengdar umrit ATL2-1 og ATL2-2. ATL2-1 er undir nákvæmri stjórn, en ATL2-2 er sívirkt. ATL2-2 og systurpróteinið ATL3 eru tjáð í mun minna magni en ATL2-1, en bæði virkja þau himnusamrunavirkni ATL2-1. Oftjáning ATL2-2 leiðir til þess að frymisnetið fellur saman.
Markmið: Að kanna hvort og hvernig yfirtjáning ATL2-2 hefur áhrif á skrið, íferð og tjáningu ATL2-2 í frumuhringnum.
Aðferðir: Rannsóknirnar voru gerðar í estrógen jákvæðu brkm-frumulínunni T47D, sem er með tvö eintök af ATL2 geninu. Tjáning ATL2-1 og ATL2-2 voru könnuð í RNA-Seq gögnum, með qPCR og mótefnalitunum á western blot. Einnig var könnuð próteintjáning ATL1, ATL3 og Calnexin, sem er merkiprótein fyrir frymisnetið. Tjáning ATL2 var könnuð í T47D með breytingar í útröð 11 eftir CRISPR/Cas9 meðhöndlun. ATL2-2 verður yfirtjáð í T47D frá stýrli sem stjórnar tjáningarmagni próteinsins. Frumuvöxtur, tjáning ATL2-2 í frumuhring, skrið og íferð verður kannað með hefðbundnum aðferðum.
Niðurstöður: RNA-Seq gögn úr T47D sýndu meiri tjáningu ATL2-1 umrits en ATL2-2. Þetta verður staðfest með qPCR. ATL2 próteinið er tjáð í T47D, en ekki er hægt að greina á milli ATL2-1 og ATL2-2 þar sem stærð þeirra er nánast sú sama. Bæði ATL3 og Calnexin eru tjáð í T47D, en óljóst með ATL1, sem er aðallega tjáð í heila. Fylgst var með vexti T47D í Incucyte og var tvöföldunartími frumulínunnar um 30 klst.
Ályktanir: Miklar breytingar verða á frymisnetinu áður en fruman skiptir sér í tvær dótturfrumur eða frumur losna úr prímeræxli og meinvarpast. Næstu skref munu beinast að því að kanna hvort tjáning ATL2-1 og ATL2-2 breytist í frumuhringnum og hvort hærri tjáning ATL2-2 ýti undir skrið eða íferð
59. Þróun hæfnisskerðingar hjá börnum og unglingum með áráttu og þráhyggjuröskun í kjölfar meðferðar
Orri Smárason1,11, Davíð R.M.A Højgaard2, Sanne Jensen2, Eric A. Storch3, Guðmundur B. Arnkelsson1,11, Lidewij H. Wolters4,5, Nor Christian Torp6,7, Karin Melin8,9, Judith Becker Nissen2, Katja Anna Hybel2, Per Hove Thomsen2, Tord Ivarsson10, Guðmundur Skarphéðinsson1,11
1Dept. of Child and Adolescent Psychiatry Landspítali, 2Dept. of Child and Adolescent Psychiatry, Aarhus University Hospital, 3Baylor College of Medicine, 4Accare Child Study Center, Groningen, 5Dept. of Clinical Psychology and Experimental Psychopathology, University of Groningen, 6Akershus University Hospital, Oslo, 7Dept. of Child and Adolescent Psychiatry, Vestre Viken Hospital, Drammen, 8Inst. of Health and Care Sciences, Sahlgrenska Academy, University of Gothenburg, 9Region Västra Götaland, Sahlgrenska University Hospital, Dept. of Child and Adolescent Psychiatry, Gothenburg, 10University of Gothenburg, 11University of Iceland
orris@landspitali.is
Inngangur: Áráttu- og þráhyggjuröskun hjá börnum (ÁÞR) er langvinn geðröskun sem veldur oft alvarlegri hæfnisskerðingu. Meðferð við ÁÞR dregur í flestum tilfellum töluvert úr einkennum röskunarinnar en lítið er vitað um hvernig hæfni barna með ÁÞR til að taka þátt í daglegu lífi þróast til lengri tíma eftir meðferð.
Markmið: Að kanna langtímaþróun hæfnisskerðingar hjá börnum með ÁÞR í kjölfar hugrænnar atferlismeðferðar.
Aðferðir: 266 börn og unglingar með ÁÞR (meðalaldur 12.8 ár, 51,3% stúlkur) fengu hugræna atferlismeðferð (HAM) í 14 vikur. Þeir sem voru enn með miðlungs til alvarleg einkenni eftir HAM (n=53, 19.9%) fengu framhaldsmeðferð (ýmist lyfjameðferð eða áframhaldandi HAM). Undirliggjandi þroskalíkan (e. latent class growth analysis) var notað til að bera kennsl á ólíka ferla hæfnisskerðingar þátttakenda yfir þriggja ára tímabil. Eiginleikar ólíkra ferilklasa (e. trajectory classes) voru svo bornir saman. Til að bera kennsl á breytur sem spáð gætu fyrir um aðild að hverjum og einum ferilklasa var notast við aðhvarfslíkan. Ólíkir ferlar hæfnisskerðingar voru svo bornir saman við sambærilega ferilklasa byggða á alvarleika ÁÞR einkenna úr fyrri rannsókn.
Niðurstöður: Breytingar á hæfnisskerðingu voru á þrenna vegu. Stærsti undirhópurinn sem fannst í undirliggjandi þroskalíkaninu (70,7%) hóf meðferð með nokkuð væga hæfnisskerðingu sem minnkaði nokkuð yfir meðferðartíman og hélst væg í eftirfylgd. Annar undirhópurinn (24,4%) hóf meðferð með mikla skerðingu á starfshæfni sem minnkaði svo hratt á meðferðartímanum. Þriðji og minnsti undirhópurinn (4,9%) hóf meðferð með miðlungs mikla skerðingu á hæfni sem hélst stöðug og minnkaði ekki yfir meðferðartímann. Það sem helst aðgreindi hópana var alvarleiki ÁÞR einkenna við upphaf meðferðar og ólíkar fylgiraskanir
Ályktanir: Hæfnisskerðing sem hlýst af ÁÞR einkennum minnkar verulega við meðferð hjá meirihluta barna, óháð alvarleika við upphaf meðferðar. Framfarir í hæfni virðast koma í kjölfar þess að það dregur úr einkennum. Lítill undirhópur hélst þó á sama stigi starfshæfnisskerðingar allan meðferðar- og eftirfylgdartímann. Sá hópur skar sig eingöngu úr að því leyti að hann hafði meira af ADHD einkennum.
60. Eftirliti með Amiodarone meðferð er ábótavant á Íslandi
Páll Guðjónsson1,2, Axel F. Sigurðsson3, Þórarinn Guðnason4, Karl Andersen1,2
1Háskóla Íslands, 2Landspítala, 3Hjartamiðstöð, 4Læknasetri
Inngangur: Amiodarone getur valdið alvarlegum aukaverkunum, sérstaklega á lungu, skjaldkirtil og lifur. Þess vegna mæla amerísku hjartalæknasamtökin (AHA) með eftirliti á 6 mánaða fresti með hjartalínuriti (EKG) og blóðprufum til mats á skjaldkirtils- og lifrarstarfsemi hjá öllum, ásamt rannsóknum af lungum ef einkenni gefa tilefni til.
Markmið: Að kanna hvort farið sé eftir ráðlegginum AHA um eftirlit á Íslandi.
Aðferðir: Rannsóknarþýðið samanstóð af öllum sem fengu amiodarone ávísað á Íslandi árið 2014. Leitað var eftir aldri, kyni, ábendingu lyfsins, upphafi og lok meðferðar, EKG, lifrar- og skjaldkirtilsblóðprufum. Eftirlit var metið fullnægjandi ef allar þrjár rannsóknir voru gerðar sex mánuðum fyrir 1.mars 2018.
Niðurstöður: 436 sjúklingar, 298 karlar og 138 konur voru á lyfinu 1. mars 2018. Allar rannsóknir voru til staðar í 38% tilfella og engar hjá 22%. Ef viðmiðunartímabilið var lengt úr 6 upp í 24 mánuði þá jókst hlutfall þeirra með fullnægjandi eftirlit upp í 76%. Ef ábending meðferðar var hjartsláttaróregla frá sleglum, þá voru 45% með allar rannsóknir samanborið við 37% ef ábendingin var gáttatif eða -flökt. Færri rannsóknir voru gerðar með hækkandi aldri. Í yngsta aldurshópnum , <65 ára, voru 52% með fullnægjandi eftirlit, sbr. við 28% í 85< ára. Meðferðarlengd hafði engin áhrif á gæði eftirlits þegar borin eru saman <5 ár (39%), 5-10 ár (39%) og >10 ár (38%) á meðferð. Þegar þeir 308 sjúklingar með ábendinguna gáttatif voru skoðaðir sértaklega þá voru 43 (14%) í gáttatifi á síðasta EKG. Ekki var brugðist við því í 22 (51%) tilfella.
Ályktanir: Eftirliti með amiodarone virðist vera ábótavant á Íslandi. Miðað við að 24% sjúklinga hafi ófullnægjandi eftirlit á 24 mánaða tímabili þá virðast þeir hafa dottið úr sérhæfðu eftirliti. Eldri sjúklingar fara síður í ráðlagðar rannsóknir án þess að lengd meðferðar hafi áhrif. Eftirlit virðist betra ef ábending meðferðar er hjartsláttaróregla frá sleglum sbr. við gáttatif eða -flökt. Hjá þeim sem gætu verið í viðarandi gáttatifi var meðferð amiodarone ekki endurmetin í helmingi tilvika þrátt fyrir þekktar alvarlegar aukaverkanir lyfsins.
61. Fiix stýrt warfarín er áhrifaríkari blóðþynning heldur en DOAC lyf í gáttatifssjúklingum
Páll T. Önundarson1,2, Arnar B. Ingason1, Brynja R. Guðmundsdottir1, Ragnar Pálsson1, Arnar S. Ágústsson1, Edward Rumba1, Daníel A. Pálsson1, Indriði Reynisson1, Sigrún Helga Lund1, Jóhann P. Hreinsson3, Einar S. Björnsson1,2
1Landspítala, 2Háskóla Íslands, 3Sahlgrenska sjúkrahúsinu í Gautaborg
pallt@landspitali.is
Inngangur: Segavarnandi áhrif warfaríns byggja á stýrðri minnkun virkra storkuþátta (“faktora”, F) II og X. Utan Íslands, hefur warfaríni þó til þessa dags verið stýrt með prothrombin tíma (PT) samkvæmt uppgefnum stöðluðum PT-kvarða (international normalized ratio, PT-INR), sem er jafn næmur fyrir áhrifum lækkunar á storkuþáttar II, VII og X. Vegna stutts helmingunartíma FVII getur PT-INR sveiflast hratt þótt lækkun á FII og FX sé innan meðferðargilda. Þetta leiðir til rangra ályktana um blóðþynningu warfaríns sem ruglar skömmtun og magnar upp breytileika þynningarinnar. Fiix-prófið, fundið upp á Landspítala og notað þar frá 2016, mælir eingöngu lækkun á FII og FX. Miðað við hefðbundna PT-warfarinmeðferð fækkar Fiix-stýrt warfarin (Fiix-warfarin) blóðsegum (BS) verulega án aukningar meiriháttar blæðinga (MB).
Markmið: Leiðir Fiix-warfarin meðferð til bætts árangurs blóðþynningar miðað við beina storkuhemla (DOAC lyf) í gáttatifssjúklingum.
Aðferðir: Nýgengi BS and MB var rannsökuð í öllum 6,417 einstaklingum með gáttatif sem bjuggu á Stór-Reykjavíkursvæðinu 2014-2019 og voru blóðþynntir til langs-tíma (>6 mánuði) með Fiix-warfarin (n=1257), PT-warfarin (n=1904), apixaban (n=1171), rivaroxaban (n=1536) eða dabigatran (n=549). Sjúklingarnir fundust í lyfjagagnagrunni landlæknis. Allir BS og MB sem greind voru með ICD-10 númeri og/eða voru meðhöndluð á Landspítala voru rannsökuð. Öll áföll voru yfirfarin af reyndum rannsakendum. Aðalendapunktar voru heildarfjöldi BS, heildardauðsföll og MB skv. skilmerkjum ISTH. Líkindaskorsvigtun (inverse probability of treatment weighting) var notuð til að samræma mismunandi lyfjameðferðarhópa vegna mismunandi bakgrunnsþátta. Áföll vigtaðra hópa voru borin saman með Cox aðhvarfsgreiningu.
Niðurstöður: Vigtað nýgengi BS með Fiix-warfarini var 1,1% á meðferðarár, lægra en með PT-warfarini (1,9%, adjusted hazard ratio (AHR) 1,86 [95% confidence interval (CI) 1,19-2,91]), apixaban (1,9%, AHR 1,94 [1,13-3,32]), dabigatran (2,2%, AHR 2,19 [1,18-4,06]) or rivaroxaban (1,6%, AHR 1,58 [0,96-2,61]). Nýgengi MB var 2,7% á meðferðarár með Fiix-warfarini, svipað eins og með öðrum blóðþynningarlyfjum (PT-warfarin 2,5%; AHR 0,89 [0,65-1,22], apixaban 2,4%; AHR 0,86 [0,57-1,30], dabigatran 2,2%; AHR 0,77 [0,48-1,23], og rivaroxaban 3,0%; AHR 1,07 [0,76-1,50]). Dauðsfallatíðni var tölulega lægst í Fiix-warfarín hópnum og tölfræðilega marktækt lægri en í rivaroxaban hópnum.
Ályktanir: Fiix stýrt warfarín var áhrifaríkasta segavarnarlyfið í gáttatifssjúklingum án aukinnar blæðingatíðni. Taka ætti upp Fiix stýringu warfarín í stað hefðbundinnar stýringar.
62. Examine and compare various prime-boost immunization approaches during early life
Poorya Foroutan Pajoohian1,2, Audur Anna Aradottir Pind1,2, Jenny Lorena Molina Estupiñan1,2, Dennis Christensen3, Thorunn A. Olafsdottir1, Ingileif Jonsdottir1, Stefania P. Bjarnarson1,2
1Faculty of Medicine, School of Health Sciences, University of Iceland, 2Department of Immunology, Landspitali, 3Statens Serum Institute, Copenhagen
Introduction: The mucosal IgA antibody plays a crucial role in the initial defense, while systemic immunity relies on the significance of the IgG antibody. To optimize the desired immune response triggered by vaccination, heterologous prime/boost strategies have been suggested.
Objective: The study aims to assess if heterologous route prime-boost immunization can induce strong and persistent humoral immune responses.
Methods: We immunized neonatal mice with a pneumococcal conjugate vaccine, Pn1-CRM197, and two adjuvants, by heterologous subcutaneous (s.c.) priming with CAF01 followed by intranasal (i.n.) booster with mmCT, or two homologous immunizations, either s.c. or i.n. Blood and saliva were collected at different time points and spleen, bone marrow (BM) and lungs two or five weeks post-booster to assess anti-Pn1 immune responses.
Results: Homologous s.c. immunization induced higher serum and lung IgG anti-Pn1. Homologous i.n. immunization induced higher serum IgA anti-Pn1 five weeks post-booster. Homologous s.c. immunization induced higher IgG anti-Pn1 antibody secreting cells (ASCs) in BM and spleen but lower IgA anti-Pn1 ASCs than other immunization strategies. By increasing dose of vaccine in booster of heterologous immunization, we observed increasing IgG and IgA anti-Pn1 levels in serum.
Conclusion: Altogether, with the vaccine and adjuvants tested, IgG anti-Pn1 responses induced by heterologous s.c.-i.n. immunization was inferior to homologous s.c. immunization, it induced higher IgA anti-Pn1 response than homologous s.c. immunization. Interestingly, by increasing the vaccine dose in the booster (0.25 µg to 4 µg) in heterologous s.c./i.n. immunization, a stronger IgG anti-Pn1 response can be reached.
63. Þrívíð samræktunar-frumumódel til að meta áhrif sameindalyfja sem virkja ónæmiskerfið gegn krabbameini
Rakel Ragnheiður Jónsdóttir1, Petra Hlavatá2, Sigurður Rúnar Guðmundsson2, Gunnhildur Ásta Traustadóttir1,2
1Sameinda- og frumulíffræði, meinafræðideild Landspítala, 2lífvísindasetri Háskóla Ísland
Inngangur: Marksækin krabbameinsmeðferð snýst um að ráðast gegn krabbameinsfrumum án þess að skaða eðlilegar frumur. Sameindalyf með sækni í ákveðna vaka á yfirborði krabbameinsfrumna eru dæmi um marksækin krabbameinslyf. Ein gerð slíkra sameindalyfja eru einstofna mótefni (e. monoclonal antibodies) sem virkja ónæmiskerfið gegn krabbameinsfrumunum. Eitt helsta vandamálið við notkun mótefna í krabbameinsmeðferð er hversu illa þau komast inn í krabbameinsæxli, aðallega vegna stærðar og lögunar mótefnanna. Vegna þessa hafa verið þróaðar annars konar sértækar ónæmisörvandi prótínsameindir, sem eru minni og hagkvæmari í framleiðslu. Til að meta áhrif sameindalyfja á krabbameinsfrumur í rækt er mikilvægt að hafa frumumódel sem líkir eftir krabbameinsæxlum og samspili þeirra við umhverfi sitt. Við höfum þróað frumumódel í þrívídd úr brjóstakrabbameinsfrumum og bestað aðferðir til myndgreiningar á þrívíða frumumódelinu í lagsjá (e. confocal microscopy). Við höfum sýnt að með myndgreiningu má nota frumumódelið til að meta hvort og hversu djúpt sameindalyf með sækni í ákveðna viðtaka á yfirborði krabbameinsfrumnanna, kemst inn í krabbameinsæxli.
Markmið: Í þessari rannsókn ætlum við að setja upp samræktunar (e. co-culture) frumumódel í þrívídd með annars vegar brjóstakrabbameinsfrumum og hins vegar NK frumum og nota frumumódelið til að meta getu sértækra prótínsameinda til að virkja NK frumurnar gegn krabbameinsfrumunum.
Aðferðir: Þrívíða frumumódelið verður meðhöndlað með prótínsameind sem er merkt með flúrljómandi merki. Dreifing merktu sameindarinnar verður síðan mynduð með lagsjá og dreifing hennar innan frumumódelsins greind. Til að fylgja eftir ónæmisfrumunum í samræktinni verða þær litaðar með rauðum flúrljómandi lit en með hjálp lentiveira verða gerðar krabbameinsfrumur sem tjá grænt flúrljómandi prótín en þannig verður hægt að fylgjast með lífvænleika þeirra í þrívíðu frumuræktinni.
Niðurstöður: Þrívíð krabbameinsfrumumódel líkja eftir krabbameinsæxlum í líkamanum. Flúrljómandi prótínsameind með sækni í viðtaka á yfirborði krabbameinsfrumna kemst dýpra inn í þrívíða frumumódelið en mótefni með sömu sækni.
Ályktanir: Með þrívíðri samrækt krabbameinsfrumna og ónæmisfrumna má líkja eftir krabbameinsæxlum í líkamanum og samspili þeirra við ónæmiskerfið en þannig má meta hvort og hversu djúpt sameindalyf komast inn í æxli og meta getu þeirra til að virkja ónæmiskerfið gegn krabbameinsfrumunum.
64. Ofbeldi og áhættuþættir fyrir hjarta- og æðasjúkdóma meðal ungra Svía
Rebekka S. Lynch1, Nancy Pedersen2, Þór Aspelund1, Arna Hauksdóttir1, Filip K. Arnberg3, Unnur Valdimarsdóttir1,2,4
1Miðstöð í lýðheilsuvísindum Háskóla Íslands, 2Dept. of Medical Epidemiology and Biostatistics, Karolinska Institute, 3National Centre for Disaster Psychiatry, Dept. of Neuroscience, Uppsala University, 4Dept. of Epidemiology, Harvard T. H. Chan School of Public Health, Boston
Inngangur: Ýmiskonar áföll hafa verið tengd aukinni áhættu á hjarta- og æðasjúkdómum. Ofbeldi er algengt áfall en áhrif þess á áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma hefur aðallega verið rannsakað hjá konum.
Markmið: Að kanna sambandið á milli sögu um ofbeldi og áhættuþátta fyrir hjarta-og æðasjúkdóma og bólguþáttarins C-Reactive prótín.
Aðferðir: LifeGene er sænsk langtímarannsókn sem notaði slembiúrtak til að bjóða einstaklingum á aldrinum 18-45 þátttöku á árunum 2011-2016, með 20% þátttökuhlutfall. 26,182 einstaklingar svöruðu netkönnun um félagslega stöðu, sögu um ofbeldi og heilsufar og mættu á rannsóknarstöð þar sem líkamsþyngdarstuðull, blóðþrýstingur og blóðprufur til að mæla langtímasykur, bólguþáttinn C-Reactive prótín, ApoB/ApoA1 hlutfall og heildarkólesteról voru teknar. Lífssaga um ofbeldi var mæld með Life Stressor Checklist-Revised, sem inniheldur sjö spurningar. Við notuðum Poisson aðhvarfsgreiningu til að reikna algengishlutfall (AH) og línulega aðhvarfsgreiningu (B) með öryggisbilum (ÖB) fyrir samfelldar útkomur til að skoða sambandið á milli ofbeldis og áhættuþátta fyrir hjarta-og æðasjúkdóma eftir leiðréttingu fyrir aldri, menntun og hjúskaparstöðu.
Niðurstöður: 23% kvenna og 15% karla höfðu orðið fyrir ofbeldi á lífsleiðinni. Einstaklingar sem höfðu orðið fyrir ofbeldi voru líklegri til að reykja (AH 1,87, ÖB: 1,67 – 2,08), að hafa verið greindir með háþrýsting (AH 1,32 ÖB: 1,16, 1,50) og að vera með hærri líkamsþyngdarstuðul (B 0,36 ÖB: 0,25 – 0,48) og bólguþættinum C-Reactive prótín (B 0,09 ÖB: 0,03 – 0,14) en ekki var munur á langtímasykri, apoB/ApoA1 hlutfalli eða heildarkólesteróli. Kynjamunur var óverulegur.
Ályktanir: Í hraustu, ungu þýði sænskra einstaklinga er aukning á áhættuþáttum fyrir hjarta-og æðasjúkdóma meðal einstaklinga sem hafa orðið fyrir ofbeldi, óháð kyni.
65. Prevalence of self-reported extremity pain in schoolchildren: A study of sociodemographic differences
Scott Gribbon1, Guðrún Kristjánsdóttir2, Rúnar Vilhjálmsson2
1Department of Endocrinology Landspitali, 2Faculty of Nursing University of Iceland
Introduction: Information from the Health Behaviours of School Children study, a WHO collaborative cross-national study of Icelandic school children shows year on year increasing numbers of children's self-reported pain. Pain affecting the arms and legs of children and adolescents is common necessitating frequent visits to outpatient departments. Under-recognized child and adolescent pain can entrench chronicity, affecting emotional, psychological, and physical functioning during childhood and beyond. Knowledge contributing to our understanding of the epidemiology of extremity pain in children is needed if we are to construct management plans that are fit for purpose.
Objectives: This paper sought to describe the sociodemographics of the prevalence of extremity pain in Icelandic schoolchildren.
Methods: The study is based on data from the Icelandic contribution of international research network Health Behaviour of School-aged Children (HBSC). The study population was all students in Iceland in Grades 6, 8 and 10 (participation rate = 84%, n= 11019). Participants completed anonymous standardized questionnaires during one school lesson.
Results: There was an overall prevalence of 22.4% weekly extremity pain increasing to 40.7% for monthly pain. Girls had an overall significantly higher prevalence of 23.3% (p=.007) weekly extremity pain compared to boys, with grade 10 girls having the highest reported weekly pain (27.4%, p=<.001). A worrying 18.5% of grade 10 children who did not live with a parent reported daily extremity pain, rising to 36.9% (p=.002) for weekly extremity pain in the same group. 24.1% (p=.047) of grade 10 children from a lower socio-economic status reported weekly extremity pain. Being older, not living with one's parents and coming from a lower socio-economic status were all associated with higher frequencies of extremity pain.
Conclusion: The high prevalence of extremity pain among Icelandic schoolchildren should be viewed as a public health concern. Health professionals, school administrators, and stakeholders must consider sociodemographic antecedents in the formulation of effective pain managements strategies.
66. Áhrif BRCA1 splæsiafbrigða á lyfjanæmi brjóstakrabbameinsfrumulínunnar T47D
Sif Heiðarsdóttir1, Birkir Orri Viðarsson1, Inga Reynisdóttir1,2, Aðalgeir Arason1,2, Rósa B. Barkardóttir1,2, Bylgja Hilmarsdóttir1,2
1Sameindameinafræðieiningu, meinafræðideild Landspítala, 2lífvísindasetri Háskóla Íslands
Inngangur: Meðfæddar stökkbreytingar í BRCA-genum valda áhættu á að fá krabbamein, einkum í brjóstum og eggjastokkum. Þekkt er að meinvaldandi breytingar geta valdið splæsiröskun umrita BRCA1 gensins þar sem tjáning á styttri BRCA1 umritum (BRCA1 ∆11 og ∆11q) eykst, en tjáning á fulllengdar BRCA1 umriti (FL-BRCA1) minnkar. Þekkt er að algjört tap á BRCA1 tjáningu auki næmni æxla við PARP hindrum, en frekari rannsókna er þörf á hvaða áhrif ólík BRCA1 umrit hafa á lyfjanæmi brjóstakrabbameinsfrumna.
Markmið: Markmið þessa verkefnis var að búa til frumumódel til að skoða áhrif einstaka BRCA1 splæsiafbrigða á lyfjanæmi brjóstakrabbameinsfrumna.
Aðferðir: Útsláttur genatjáningar (KO) BRCA1 með CRISPR/Cas9 aðferð, ræktun T47D brjóstakrabbameinsfrumna, BRCA1 splæsiafbrigði yfirtjáð með lentivírus, Sanger raðgreining, qRT-PCR og western blot (WB) notuð til að mæla tjáningu BRCA1 og lyfjanæmisprófanir framkvæmdar með PARP hindra.
Niðurstöður: CRISPR/Cas9 aðferð var notuð til að slá út tjáningu BRCA1 í T47D og útsláttur gensins staðfestur með WB. Í framhaldi voru frumurnar skoðaðar m.t.t. til lyfjanæmis fyrir PARP hindrum. Lyfjanæmisprófanir með clonogenic assay þar sem frumur voru meðhöndlaðar með PARP hindranum olaparib sýndu fram á að frumur með tap á BRCA1 eru næmari fyrir PARP hindrum. Clonogenic assay sýndi einnig fram á að frumur með tap á BRCA1 uxu hægar en viðmiðunarfrumur. Í framhaldi var fulllengdar BRCA (BRCA1-FL) og stutt BRCA1 umrit (BRCA1-∆11q) yfirtjáð í T47DBRCA1-KO frumum. qRT-PCR og WB niðurstöður sýndu að yfirtjáning tókst, og var hún 3-7 föld miðað við viðmiðunarfrumur. Til að skoða hvaða áhrif mismunandi BRCA1 splæsiafbrigði hafa á lyfjanæmi brjóstakrabbameinsfrumna voru frumur meðhöndlaðar með olaparib. Niðurstöður sýndu að lyfjanæmi T47D gekk til baka að hluta bæði þegar FL og ∆11q splæsiform voru yfirtjáð í frumunum.
Ályktanir: Í rannsókninni tókst að búa til frumumódel þar sem tjáning BRCA1 hefur verið slegin út. Enn fremur var sýnt fram á að tap á tjáningu BRCA1 gerir frumurnar næmar fyrir PARP hindrum og að lyfjanæmi gengur til baka að hluta til þegar ólík splæsiafbrigði BRCA1 eru yfirtjáð. Framtíðar rannsóknir munu snúa að því að nota frumumódelið til að rannsaka frekar áhrif mismunandi BRCA1 splæsiforma á lyfjanæmi og svipgerð brjóstakrabbameinsfrumna.
67. Áhrif breytinga á útskriftarviðmiðum fyrirbura á legutíma á Vökudeild Barnaspítala Hringsins
Sigrún Júlía Finnsdóttir1, Elín Ögmundsdóttir2,3, Elísabet Halldórsdóttir2,3, Rakel Björg Jónsdóttir2,3, Snorri Freyr Donaldsson2, Þórður Þórkelsson2, Óli Hilmar Ólason2
1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Barnaspítala Hringsins, 3hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands
Inngangur: Árið 2015 var útskriftarviðmiðum breytt á Vökudeild Barnaspítala Hringsins með það að markmiði að hafa áhrif á legutíma fyrirbura (stytta legutíma). Útskriftarviðmið sem áður voru m.a. miðuð við að fyrirburinn hefði náð amk 2200gr þyngd og gæti drukkið alla næringu um munn og væri að þyngjast var breytt í að barn gæti enn nærst með sondu að hluta til við/eftir heimferð og væri a.m.k. 1800gr.
Markmið: Markmið rannsóknar var að kanna áhrif breyttra útskriftarviðmiða á legutíma barna á Vökudeild.
Aðferðir: Upplýsingar fengust úr Vökuskrá Barnaspítala Hringsins, sjúkraskrám barnanna og CIS-gjörgæslukerfi Vökudeildar. Rannsóknartímabilið var tvískipt, annars vegar börn fædd á árunum 2015 til 2019 og hins vegar viðmið fædd á árunum 2009 til 2013. Tilfelli og viðmið voru pöruð eftir meðgöngulengd.
Niðurstöður: Rannsóknarhópurinn samanstóð af 98 börnum. Tilfelli og viðmið voru sambærileg með tilliti til fæðingarþyngdar, Apgar einkunnar við eina og fimm mínútur, kyns og hvort móðir fékk stera fyrir fæðingu. Marktækur munur var á legutíma á milli tímabila þar sem börn útskrifuðust að meðaltali 13 dögum fyrr eftir breytingar á útskriftarviðmiðum. Legutími var að meðaltali 81 dagur eftir að verklagi var breytt og 93 dagar hjá viðmiðunarhópi (p=0,01) Eftir upptöku göngudeildareftirlits útskrifuðust 44,9% (n=22) af Vökudeild með sondu en aðeins 10,2% (n=5) barna í viðmiðunarhóp.
Ályktanir: Marktæk fækkun varð á meðalfjölda legudaga á Vökudeild eftir að útskriftarviðmiðum var breytt. Benda niðurstöðurnar til þess að verklagið sem innleitt var árið 2015 hafi skilað þeim árangri að börn útskrifist fyrr heim af Vökudeild.
68. Ég lifi: Upplifun sjúklinga með langt genginn sjúkdóm og aðstandenda þeirra á heilsufari og lífsgæðum
Svandís Íris Hálfdánardóttir1, Valgerður Sigurðardóttir1
1Líknardeild og líknarmiðstöð Landspítala
Inngangur: Rannsóknin iLIVE (Ég lifi) er samstarfsverkefni 11 landa þar sem markhópurinn er sjúklingar með langt gengna sjúkdóma og skertar lífslíkur og aðstandendur þeirra. Stærsti hluti rannsóknarinn er hóprannsókn með spurningalistum og var gögnum safnað frá 1425 einstaklingum. Fáar rannsóknir hafa verið gerðar á þessu þýði í íslensku samfélagi.
Markmið: Að afla aukinnar þekkingar varðandi áhyggjur, væntingar og óskir sjúklinga á síðustu mánuðum lífs og aðstandenda þeirra sem og efla þekkingu m.a. varðandi einkenni sjúklinga á síðustu mánuðum lífs, mat á lífsgæðum og skilning á heilsufari.
Aðferðir: Sjúklingar á Landspítala sem metnir voru á síðustu mánuðum lífs svöruðu spurningalista sem og náinn aðstandandi sjúklings. Upplýsinga var m.a. aflað um skilning á heilsufari og mat á lífsgæðum. Spurningar sem sneru að heilsufari voru fjórar og teknar úr þremur gagnreyndum spurningarlistum, SF-36, EORTC QOL C15 og IPQ-R. Að auki voru bakgrunnspurningar.
Niðurstöður: Alls svöruðu 115 sjúklingar spurningum um heilsufar og 89 aðstandendur. Um 43% sjúklinga mátu heilsufar sitt sæmilegt, 31,9% mátu það lélegt en mjög gott/afbragðsgott voru 4,5%. Svarmöguleikar um eigið mat á lífsgæðum var á bilinu mjög léleg (1) til afbragðsgóð (7). Tæp 46% sjúklinga upplifðu lífgæðin vera á bilinu 1-3. Rúm 40% mátu lífsgæði sín síðastliðna viku vera 4-6, afbragðsgóð 1,8%. Tæp 80% voru sammála/mjög sammála um að hafa góðan skilning á heilsufari sínu, 8% ósammála/algerlega ósammála og nærri 10% hvorki né. Um 50% sjúklinga mátu það algjörlega rétt að heilsan færi versnandi, 31% voru óvissir og 4.4% töldu það að mestu/algjörlega rangt. Rúm 93% aðstandenda voru sammála/mjög sammála um að hafa góðan skilning á heilsufari ástvinar, 4,5% hvorki sammála né ósammála. Um 60% töldu algjörlega rétt að heilsufar ástvinar myndi versna, 27% að mestu rétt en 11,2% óvissir. Um 68% aðstandenda mátu lífsgæði sín sl. viku vera 5-7 en 10,6% 1-2.
Ályktanir: Niðurstöður benda til þess að þátttakendur, bæði sjúklingar og aðstandendur, séu almennt vel upplýstir um sjúkdómsástand hins sjúka. Aðstæður hafa hins vegar veruleg neikvæð áhrif á lífsgæði sjúklings og því mikilvægt er að auka þekkingu heilbrigðisstarfsmanna á þeim þáttum sem þarf að sinna til þess að bæta líðan og velferð einstaklinga sem eru á síðustu mánuðum lífs.
69. Árangur og andleg áhrif skimunar fyrir mergæxli og forstigum þess
Sæmundur Rögnvaldsson1,2, Sigrún Thorsteinsdóttir1,3, Jón Þ. Óskarsson1, Elías Eyþórsson1,2, Guðrún Á. Sigurðadóttir1, Brynjar Viðarsson2, Páll T. Önundarson1,2, Bjarni A. Agnarsson1,2, Margrét Sigurðardóttir2, Ísleifur Ólafsson1,2, Ingunn Þorsteinsdóttir2, Andri S. Björnsson4, Inga Wesman4, Gauti K. Gíslason1, Jón Sigurðsson1, Andri Ólafsson1, Ingigerður S. Sverissdóttir5, Þórir E. Long1,6, Robert Palmason1,6, Signý V. Sveinsdóttir2, Friðbjörn Sigurðsson7, Ásdís R. Þórðardóttir1, Ásbjörn Jónsson7, Runólfur Pálsson1,2, Ólafur S. Indriðason2, Elín R. Reed1, Guðlaug K. Hákonardóttir1, Hlíf Steingrímsdóttir1, Malin Hultcrantz8, Brian GM Durie9, Stephen Harding10, Thor Aspelund1, Ola Landgren11, Þorvarður J.Love1,2, Sigurður Y. Kristinsson1,2
1Faculty of Medicine, Univ. of Iceland, 2Landspítali, 3Rigshospitalet, Copenhagen, 4Faculty of Psychology, Univ. of Iceland, 5Sahlgrenska Univ. Hospital, 6Skåne Univ. Hospital, 7Akureyri Hospital, 8Myeloma Service, Dept. of Medicine, Memorial Sloan-Kettering Cancer Center, 9Samuel Oschin Comprehensive Cancer Institute, 10Binding Site Group Ltd., Birmingham, 11Myeloma Program, Dept. of Medicine, Univ. of Miami
srognvald@hi.is
Inngangur: Mergæxli er krabbamein í beinmerg sem þróast úr forstigum sínum á mörgum árum. Nýlegar rannsóknir benda til að með því að meðhöndla mergæxli á forstigi megi bæta horfur. Forstig mergæxlis eru einkennalaus og snemmbúin meðferð möguleg hjá aðeins um 5%. Skimun gæti verið leið til að finna einstaklinga með forstig, fylgja þeim eftir og meðhöndla þegar við á og gefa fleirum möguleika á snemmbúinni meðferð. Skimun getur þó fylgt ýmiss skaði og ekki síst áhyggjur og andleg vanlíðan.
Markmið: Markmið rannsóknarinnar Blóðskimunar til bjargar er að kanna hvort það sé ávinningur af skimun og hvaða skaðsemi, þ.m.t. andleg áhrif, gæti hlotist af því.
Aðferðir: Öllum íbúum á Íslandi fæddum 1975 og fyrr var boðin þátttaka 75.422 þátttakendur skimuð með rafdrætti og mælingu á fríum léttum keðjum. Þeir sem höfðu forstig mergæxlis var slembiraðað í þrjá arma: armur 1 hélt áfram eins og hann hafi ekki verið skimaður en armar 2 og 3 voru kallaðir inn til mats og eftirlits. Þeir sem greindust með virks meræxlis eða hááættu forstig var boðin meðferð. Samhliða þessu svöruðu þátttakendur spurningalistum um kvíða- og þunglyndiseinkenni.
Niðurstöður: Alls greindust 3.487 með áður óþekkt forstig mergæxlis og var slembiraðað í armana þrjá. Alls hafa 42 þátttakendur greinst með mergæxli og 68 með skylda klínískt markverða sjúkdóma en enginn munur milli arma (p=0,58). Alls höfðu 216 og 4 þátttakendur í örmum 2 og 3 (skimunar armar) annars vegar og armi 1 greinst með mallandi mergæxli sem er lengra gengið forstig meræxlis (p<0,001). Þátttakendur í skimunararmi sem fengu mergæxli eða skylda sjúkdóma greindust að meðaltali ári fyrr (2 vs 3 ár p=0,02). Þau sem fengu mergæxli í skimunarörmum höfðu lægri tíðni líffæraskemmda (Gagnlíkindahlutfall (GH): 0,11; 95% öryggisbil: 0,002-0,96; p=0,03) og bráðrar birtingarmyndar (GH: 0,25; 95%ÖB: 0,05-0,98; p=0,047). Tíðni alvarlegs þunglyndis og kvíða reyndist marktækt lægri hjá þeim sem voru í skimunar örmunum (p<0,001; p=0,02).
Ályktanir: Skimun fyrir forstigi mergæxlis leiðir til fyrri greiningar á mergæxli og skyldum sjúkdómum og að líffæraskemmdir séu umtalsvert minni við greiningu. Skimun virðist þó ekki leiða til aukins kvíða eða þunglyndis. Skimun gæti breytt ásynd mergæxlis og leitt til straumhvarfa í meðferð sjúkdómsins.
70. Bráður nýrnaskaði á bráðamóttöku: Framskyggn, tilfellamiðuð rannsókn
Telma H. Ragnarsdóttir1,2, Margrét Kristjánsdóttir2, Gísli Gíslason1,2, Ólafur Samúelsson2, Vicente S. B. Ingelmo2, Margrét Ó. Tómasdóttir1,3, Runólfur Pálsson1,2, Ólafur S. Indriðason1
1Háskóla Íslands, 2Landspítala, 3Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins
telmhuld@landspitali.is
Inngangur: Við bráðan nýrnaskaða (BNS) verður hröð versnun á nýrnastarfsemi, oftast á klukkustundum eða dögum. BNS tengist verri horfum og hefur verið rannsakaður ítarlega hjá inniliggjandi sjúklingum en mun minna er vitað um BNS utan spítala.
Markmið: Að skoða áhættuþætti og orsakir BNS meðal sjúklinga sem leita á bráðamóttöku (BMT).
Aðferðir: Um er að ræða framsýna, tilfellamiðaða rannsókn þar sem kreatíníngildi allra sjúklinga er leituðu á BMT Landspítala voru metin með tilliti til BNS á tímabilunum 1. Janúar til 3. Mars 2020, 19. maí til 21. september 2020 og 1. Febrúar til 15. júní 2021. Gera þurfti hlé á rannsókninni vegna Covid-19 á milli tímabilanna. Öllum sjúklingum sem uppfylltu KDIGO-skilmerki fyrir BNS var boðin þátttaka í rannsókninni. Viðmið (1:2) voru valin með tilliti til aldurs, kyns og komutíma á BMT. Þátttakendur undirrituðu upplýst samþykki og voru spurðir um heilsufarssögu, venjur og lyfjanotkun, þar á meðal notkun lausasölulyfja. Sjúkraskrá var yfirfarin með tilliti til sjúkdómsgreininga og lyfjaávísana. Hópar voru bornir saman með hefðbundnum tölfræðilegum aðferðum.
Niðurstöður: Alls voru greind BNS 602 tilfelli í 574 einstaklingum á tímabilinu, þar af tóku 488 þátt (512 tilfelli). Meðalaldur (±staðalfrávik) BNS tilfella var 67,1±16,6 ár og viðmiða 67,2 ±16,2 ár; 48% þáttakenda voru konur. BNS hópurinn notaði marktækt meira en viðmiðunarhópurinn af bólgueyðandi verkjalyfjum (e. non-steroidal anti-inflammatory drugs (NSAIDs) (26,0% vs 18,0%, p=0,001) í vikunni fyrir komu á BMT, sér í lagi NSAID án lyfseðils (23,3% vs 15,9%, p<0,001). Í fjölþáttagreiningu voru marktæk tengsl við uppköst (OR 2,62 95%CI 1,95-3,53), niðurgang (OR 1,35, 95%CI 1,04-1,75), þvagteppu (OR 1,86 95%CI 1,32-2,62), NSAID notkun (OR 1,60, 95%CI 1,18-2,23), notkun þvagræsilyfja (OR 1,48 95%CI 1,12-1,99) og notkun ACE/ARBi (OR 1,49 95%CI 1,12-1,99) en ekki voru marktækur tengsl við sykursýki, háþrýsting, æðasjúkdóma eða langvinnan nýrnasjúkdóm.
Ályktanir: Þessar niðurstöður benda til mikilvægs hlutverks vökvaskorts, notkunar NSAID-lyfja og ACE/ARBi í þróun á bráðum nýrnaskaða utan spítala. Mikil notkun NSAID lyfja í lausasölu er áhyggjuefni upplýsingar um mögulega fylgikvilla meðferðar ættu að vera kynntar við kaup slíkra lyfja án lyfseðils.
71. Horfur sjúklinga með bráðan nýrnaskaða á bráðamóttöku – Framskyggn, tilfellamiðuð rannsókn
Telma H. Ragnarsdóttir1,2, Margrét Kristjánsdóttir2, Gísli Gíslason1,2, Ólafur Samúelsson2, Vicente S. B. Ingelmo2, Margrét Ó. Tómasdóttir1,3, Runólfur Pálsson1,2, Ólafur S. Indriðason1
1Háskóla Íslands, 2Landspítala, 3Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins
Inngangur: Bráður nýrnaskaði (BNS) er algengur og alvarlegur fylgikvilli bráðra veikinda og hefur neikvæð áhrif á batahorfur. BNS hefur verið rannsakaður ítarlega hjá inniliggjandi sjúklingum en lítið er vitað um BNS utan spítala.
Markmið: Að skoða innlagnir og dánartíðni sjúklinga sem greindust með BNS á bráðamóttöku Landspítala.
Aðferðir: Um er að ræða framsýna, tilfellamiðaða rannsókn þar sem kreatíníngildi allra sjúklinga er leituðu á BMT Landspítala voru metin með tilliti til BNS á tímabilunum 1. Janúar til 3. Mars 2020, 19. maí til 21. september 2020 og 1. febrúar til 15. júní 2021. Gera þurfti hlé á rannsókninni vegna Covid-19 á milli tímabilanna. Öllum sjúklingum sem uppfylltu KDIGO-skilmerki fyrir BNS var boðin þátttaka í rannsókninni ásamt pöruðum viðmiðum (1:2). Þátttakendur undirrituðu upplýst samþykki og voru spurðir um sjúkra- og heilsufarssögu og lyfjanotkun. Þáttakendum var fylgt eftir í rafrænu sjúkrarskrákerfi í eitt ár eftir bráðamóttöku heimsóknina og skoðuð var innlagnartíðni og afdrif.
Niðurstöður: Alls voru greind BNS 602 tilfelli í 574 einstaklingum á tímabilinu, þar af tóku 488 þátt (512 tilfelli). Meðalaldur (±staðalfrávik) BNS tilfella var 67,1±16,6 ár og viðmiða 67,2 ±16,2 ár; 48% þátttakenda voru konur. BNS hópurinn var marktækt líklegri til að vera lagður inn á sjúkrahús (77,1% vs 59,9% p<0,001) og innlagardagar voru fleiri (8,0 ± 10,9 dagar vs 4,9 ± 15,4 dagar p<0,001). BNS tilfelli voru marktækt líklegri til að deyja í spítalalegu (6,3% vs. 2,4%, p<0,001), á fyrstu 90 dögum eftir komu á BMT (11,1% vs 4,9%, p<0,001) og einu ári eftir komu á BMT (17,4% vs 11,2%, p<0,001). Ekki var marktækur munur á endurinnlögnum innan mánaðar (14,9% vs 12,4%) eða eins árs (40,8% vs 38,6%).
Ályktanir: Sjúklingar með BNS voru marktækt líklegri til að þurfa innlögn á spítala, þurftu lengri legutíma og höfðu hærri dánartíðni en viðmiðunarhópurinn.
72. Áhrif æðaþels á svipgerð og lyfjanæmi briskrabbameinsfrumna
Tryggvi Helmutsson Lugmayr1, Hafdís Björk Þórðardóttir1, Sigrún Agatha Árnadóttir1, Soffía Guðmundsdóttir1, Inga Reynisdóttir1,2, Rósa Barkardóttir1,2, Gunnhildur Ásta Traustadóttir1,2, Þórarinn Guðjónsson2,3, Bylgja Hilmarsdóttir1,2
1Sameindameinafræðieiningu, meinafræðideild Landspítala, 2lífvísindasetri Háskóla Íslands, 3læknadeild Háskóla Íslands
Inngangur: Briskirtilskrabbamein er lífshættulegur sjúkdómur þar sem fimm ára lifun er undir 10% og lítil framför hefur orðið á horfum sjúklinga seinustu áratugi. Nýleg þróun í öræxlarækt í þrívídd hefur gert vísindamönnum kleift að rækta sjúklingasýni sem endurspegla betur aðstæður innan líkamans og gefur því betri mynd af raunverulegu lyfjanæmi og genatjáningu æxlisins. Í flestum tilfellum er æxlið ekki skurðtækt en þá eru sýni tekin með nálarsýni eða skorin eftir að lyfjameðferð er hafin. Erfitt hefur reynst að rækta sýni sem tekin eru undir þessum kringumstæðum og því miðar þessi rannsókn að því að skoða notkun æðaþelsfrumna í samrækt með krabbameinsfrumum til þess að styðja við vöxt æxlisfrumnanna.
Markmið: Markmið þessa verkefnis var að rannsaka lifun æðaþels í þrívíðri rækt og áhrif æðaþelssamræktar á lyfjanæmi og genatjáningu briskrabbameinsfrumulínanna CAPAN-1 og MiaPaca-2.
Aðferðir: Ræktun frumna í tvívíðu og þrívíðu ræktunarumhverfi, genatjáning könnuð með háhraðaraðgreiningu og qPCR. Lyfjameðhöndlun og lyfjanæmispróf gerð á frumulínum.
Niðurstöður: Niðurstöður rannsókna á lifun æðaþelsfrumna í þrívíðri rækt með CellTiterGlo, tjáningu CD31 æðaþelsmarkers og mælingu á GFP jákvæðni frumna sýndu að æðaþelsfrumur fjölga sér ekki í þrívíðri rækt og að lifun þeirra í þrívíðu geli er takmörkuð. Lyfjanæmi frumulínanna var mælt í tvívíðri og þrívíðri rækt þar sem æðaþeli var einnig bætt í ræktina. Í þrívíðu lyfjaprófunum, var marktækt minna næmi í samræktum CAPAN-1 og æðaþelsfrumna fyrir lyfinu Olaparib og í samrækt MiaPaca-2 og æðaþelsfrumna fyrir lyfinu Oxaliplatin, samanborið við lyfjanæmi frumuræktar án æðaþels. Í framhaldi var ný aðferð þróuð þar sem sett voru upp þrjú ræktunarskilyrði: tvö með mismunandi langri samrækt með æðaþelsfrumum og einnig einrækt krabbameinsfrumulína. Niðurstöður sýndu að enginn marktækur munur var á lyfjanæmi frumulínanna eftir ræktunarskilyrðum og uppsetningin hentar vel til lyfjanæmisprófa. Einnig var skoðað hvaða áhrif æðaþel hefur á genatjáningu briskrabbameinsfrumna, en niðurstöður verkefnisins leiddu í ljós breytta tjáningu á völdum genum þegar æðaþeli var bætt í ræktuna, en þau áhrif ganga til baka að hluta til þegar frumum er endursáð án æðaþels.
Ályktanir: Heilt yfir sýna niðurstöður verkefnisins að æðaþels ýtir undir vöxt briskrabbameinsfrumna í þrívíðri rækt og að aðferðin hentar vel þegar ætlunin er að nota krabbameinsfrumurnar í áframhaldandi rannsóknir, s.s. lyfjanæmisprófanir.
73. Hugræn færni, heilaheilsa og heilabilun: Tengsl við áhættuþætti hugrænnar öldrunar
Vaka Valsdóttir1,2, Brynja Björg Magnúsdóttir1,3, Milan Chang2, Hlynur Stefánsson1, María K. Jónsdóttir1,3
1Háskólanum í Reykjavík, 2rannsóknarstofu Háskóla Íslands og Landspítala í öldrunarfræðum, 3sálfræðiþjónustu Landspítala
Inngangur: Auknar lífslíkur hafa leitt til aukinnar tíðni heilabilunar. Talið er að á heimsvísu séu um 57 milljónir manna með heilabilun og að 2050 verði fjöldinn 153 milljónir. Gera verður ráðstafanir til að takmarka þennan fjölda og bæta lífsgæði stækkandi hóps eldri einstaklinga.
Markmið: Hér voru notuð faraldsfræðileg gögn úr AGES-Reykjavik rannsókninni til að kanna þá þætti sem tengjast hugrænni öldrun og til að meta líkurnar á því að einstaklingur fái heilabilun.
Aðferðir: AGES-Reykjavik rannsóknin var hönnuð til að kanna áhættuþætti sem tengjast sjúkdómum og fötlun hjá eldra fólki. Rannsóknin stóð yfir á árunum 2002 til 2011 og náði til 5764 einstaklinga (42% karlar) á aldrinum 66 til 98 ára. Gögnin innihalda yfir 600 breytur, m.a. segulómskoðun, taugasálfræðipróf, bakgrunnsupplýsingar (s.s. menntun og tómstundir) og ýmsar lífeðlisfræðilegar mælingar. Fyrir þessa rannsókn var hluti AGES-Reykjavik gagnasafnsins greindur í þremur aðskildum vísindagreinum. Í fyrstu greininni var línuleg aðhvarfsgreining notuð til að bera saman hvernig áhættuþættir fyrir hugræna öldrun tengdust hugrænni frammistöðu annars vegar og heilaheilsu hins vegar. Í annarri greininni var lógístískri aðhvarfsgreiningu beitt til að meta tengsl þekktra áhættuþátta hugrænnar öldrunar við heilabilun. Í þriðju greininni var könnuð frammistaða þriggja ólíkra vélnámsaðferða; lógístískrar aðhvarfsgreiningar, slembiskóga og tauganeta, við mat á tengslum áhættuþátta og heilabilunar.
Niðurstöður: Niðurstöður fyrstu greinarinnar sýndu að áhættuþættir tengdust ekki hugrænni frammistöðu og meinafræði heilans á sama hátt. Sérstaklega voru breytanlegir áhættuþættir tengdir hugrænum forða, svo sem menntun, þátttaka í tómstundastarfi, fjöltyngi og jákvætt mat á eigin heilsu, tengdir hugrænni frammistöðu en ekki meinafræði heilans. Niðurstöður annarrar greinarinnar bentu til þess að þættir tengdir hugrænum forða (menntunarstig, þátttaka í tómstundastarfi og jákvætt mat á eigin heilsu) væru líklegri en aðrir áhættuþættir til að tengjast minni líkum á heilabilun. Niðurstöður þriðju greinarinnar voru að af vélnámsaðferðum skilaði slembiskóga reiknirit betri árangri en lógístísk aðhvarfsgreining og tauganet við að meta tengsl áhættuþátta og heilabilunar.
Ályktanir: Í heild leggja niðurstöður þessarar ritgerðar áherslu á mikilvægi þess að efla þætti sem tengjast hugrænum forða þar sem þeir gegna mikilvægu hlutverki þegar kemur að hugrænni frammistöðu og áhættunni á að þróa með sér heilabilun.