Fylgirit 120 - Bráðadagurinn 2024

Bráðadagurinn 2024 – Ávarp formanns undirbúningsnefndar

Bráðadaginn 2024 höldum við undir yfirskriftinni Ofbeldi – framfarir í bráðaþjónustu við þolendur

Ofbeldi er því miður að finna í öllum hópum samfélagsins, óháð stöðu, kyni, þjóðerni, aldri eða öðrum þáttum. Að veita heilbrigðisþjónustu vegna ofbeldis er snúið þar sem þolendur ofbeldis geta verið með ýmis einkenni og leitað sér aðstoðar á ólíkum stöðum í heilbrigðiskerfinu, á starfsstöðvum sem mögulega eru ekki nægilega vel undirbúnar til að veita þessum viðkvæma hópi rétta þjónustu.

Á síðustu árum hafa víða verið gerðar róttækar breytingar á heilbrigðiskerfinu til að reyna að grípa þolendur ofbeldis betur. Ítarlegar rannsóknir hafa verið gerðar til að kortleggja vandann, viðbrögð Neyðarlínunnar – 112 hafa verið endurskoðuð og byggður upp vandaður fræðsluvefur um ofbeldi á 112.is. Á bráðamóttöku Landspítala hefur verið gert mikið átak til að fræða og þjálfa starfsfólk varðandi ofbeldi. Ráðnir hafa verið félagsráðgjafar til deildarinnar sem hafa byggt upp sérstakt teymi til að sinna þolendum ofbeldis í nánum samböndum og fleiri breytingar eru í burðarliðnum.
Er það von allra sem hafa komið að þessum endurbótum að með þeim sé hægt að gera betur en enn þarf að halda áfram og efla þjónustuna.

Á Bráðadeginum 2024 fáum við að heyra erindi frá Eddu Björk Þórðardóttur lektor og sálfræðingi sem mun fræða okkur um heilsufarslegar afleiðingar áfalla. Við heyrum af þjónustu og upplýsingamiðlun Neyðarlínunnar 112 um ofbeldi frá Jönu Maríu Guðmundsdóttur. Þá munum við fræðast um nýtt verklag vegna ofbeldis í nánum samböndum og fáum að heyra mikilvæga rödd þolanda af því hvernig við getum gert betur í þessum málum.

Eftir hádegið verða síðan kynnt áhugaverð vísindaverkefni innan bráðafræða sem snerta á ýmsum áhugaverðum málum. Dagurinn endar síðan á innleggi frá Jakob Birgissyni uppistandara.

Höfundum ágripa, gestafyrirlesurum, undirbúningsnefnd, framkvæmdastjóra bráða- og lyflækningaþjónustu, styrktaraðilum, fundarstjórum og starfsfólki flæðisviðs eru færðar bestu þakkir fyrir mikilsvert framlag til ráðstefnunnar í ár.

Hjalti Már Björnsson, formaður undirbúningsnefndar Bráðadagsins

Yfirlæknir og kennslustjóri á bráðamóttöku Landspítala

Dósent í bráðalækningum við Háskóla Íslands

 

Undirbúningsnefndin:

Hjalti Már Björnsson, formaður undirbúningsnefndar

Anna Helga Ragnarsdóttir Hjúkrunarfræðingur

Ágústa Hjördís Kristinsdóttir Sérfræðingur í hjúkrun og deildarstjóri

Dagný Halla Tómasdóttir skrifstofustjóri

Guðrún Katrín Oddsdóttir Sérnámslæknir

Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir prófessor við HÍ í bráðafræðum og forstöðumaður fræðasviðs í bráðahjúkrun við LSH og HÍ

 




Þetta vefsvæði byggir á Eplica