Fylgirit 118 - þing Geðlæknafélags Íslands 2023

Ávarp formanns

Ávarp formanns Geðlæknafélags Íslands á vísindaþingi

Verið velkomin á áttunda vísindaþing Geðlæknafélags Íslands

Síðasta vísindaþing var haldið fyrir tveimur árum í Landsveit á Suðurlandi. Það þing var haldið í skugga COVID-19 og lengi vel var ekki víst hvort af því gæti orðið. Það hittist síðan svo vel á að faraldurinn var í ákveðinni lægð einmitt þegar þingið fór fram og þegar upp var staðið var það einstaklega vel heppnað og skipuleggjendum til mikils sóma. Ég á ekki von á öðru en að það sama verði upp á teningnum hér í dag.

Geðlæknar á Íslandi eru ekki fjölmenn stétt, rétt um 70 sem eru starfandi í dag. Hér áður fyrr unnu nánast allir geðlæknar á geðdeildum sjúkrahúsa eða voru með stofurekstur en margir blönduðu þessu saman. Síðan hefur orðið sú ánægjulega þróun að allmargir geðlæknar vinna innan heilsugæslunnar og við geðlæknar leikum því stórt hlutverk í hinum þremur meginstoðum geðheilbrigðiskerfisins sem eru sjúkrahús, heilsugæsla og sjálfstætt starfandi sérfræðingar. Fjölbreyttari starfsvettvangur og meira áreiti úr ýmsum áttum gera það hins vegar að verkum að það er mikilvægara en áður að við hittumst, tölum saman og minnum okkur á að við erum einn hópur með sameiginlega hagsmuni.

Öll höfum við það sameiginlega markmið að aðstoða fólk með geðraskanir, að lækna þá þeim sem eru veikir. Til þess að það gangi vel er mikilvægt að hinar þrjár stoðir geðheilbrigðiskerfisins vinni vel saman. Við finnum það mjög fljótt ef ein stoð veikist eykst álagið á hinar og þá er hætta á að einhverjir falli á milli skips og bryggju í kerfinu.

Það er mikið álag á geðheilbrigðiskerfið og það á sjálfsagt ekki eftir að minnka. Skortur á heilbrigðisþjónustu og aukin eftirspurn eftir þjónustu gerir það að verkum að það verður sífellt mikilvægara að tími geðlækna sé sem best nýttur með auknu samstarfi við aðrar fagstéttir og bættri forgangsröðum. Þetta á ekki eingöngu við um geðdeildir og heilsugæslu heldur einnig sjálfstætt starfandi sérfræðinga. Við þurfum að haga okkar vinnu þannig að þeir sem eru í mestri þörf fyrir aðstoð séu settir í forgang. Það eru ekki alltaf þeir sem eru háværastir. Við þurfum að vera óhrædd við að standa á móti straumnum ef við teljum það faglega rétt og skiptir þá engu hvort það er í starfi eða vísindum. Sumt af því sem gert var í nafni geðlæknisfræðinnar áður fyrr hefur ekki staðist tímans tönn.

Dagskráin í dag er fjölbreytt og áhugaverð og ég hlakka til að vera með ykkur. Það sem er rætt utan dagskrár er hins vegar ekki síður mikilvægt. Notum tækifærið og ræðum við okkar félaga, sem við hittum líklega of sjaldan, fáum að heyra hvernig gengur, miðlum okkar hugmyndum og hlustum á aðra með opnum huga. Það er aldrei að vita hvað kemur út úr því, en kannski ekki eins og við áttum von á. Eða svo ég vitni í F. Scott Fitzgerald:

„Engar stórkostlegar hugmyndir hafa fæðst á ráðstefnum en margar heimskulegar hugmyndir hafa dáið þar.“

Ég vil svo að lokum sérstaklega þakka vísindanefndinni fyrir þeirra góða starf. Í henni eru Oddur Ingimarsson, Guðrún Dóra Bjarnadóttir, Halldóra Jónsdóttir, Magnús Haraldsson og Erna Hinriksdóttir. Það er mikil sjálfboðavinna sem fer í að skipuleggja viðburð af þessu tagi. Mig grunar að einhverjir muni hætta í vísindanefndinni eftir þetta þing og vil því hvetja fólk til að bjóða fram krafta sína svo næstu vísindaþing verði jafnglæsileg og þau hafa verið hingað til.

Þakka ykkur öllum fyrir að koma og góða skemmtun!

 




Þetta vefsvæði byggir á Eplica