Fylgirit 113 - sérnámslæknaþing 2023

Rannsóknarráðstefna sérnámslækna 2023 - Ágrip

Gerviliðsýkingar á Íslandi 2003-2020

Signý Lea Gunnlaugsdóttir

Inngangur og markmið: Gerviliðsýkingar eru sjaldgæfur en alvarlegur fylgikvilli liðskiptaaðgerða. Meðferð þeirra er löng og kostnaðarsöm með tilheyrandi byrði fyrir sjúklinginn og heilbrigðiskerfið. Liðskiptaaðgerðum fer fjölgandi og að öllu óbreyttu er fyrirsjáanlegt að gerviliðsýkingum muni fjölga einnig. Gerviliðsýkingar hafa lítið verið rannsakaðar hérlendis og því er markmið rannsóknarinnar að lýsa faraldsfræði þessara sýkinga, áætla nýgengi þeirra og meta hve margar sýkingar má rekja til liðskiptaaðgerðarinnar.

Efniviður og aðferðir: Um er að ræða afturskyggna, lýsandi rannsókn á gerviliðsýkingum á Íslandi 2003-2020. Listi yfir jákvæðar liðvökvaræktanir á tímabilinu liggur fyrir frá sýklafræðideild Landspítala og sýklafræðideildum á landsbyggðinni: Sjúkrahúsinu á Akureyri, HSU, HSS, HSA og HSV. Einnig var fenginn listi af ICD-kóðum fyrir greiningu gerviliðsýkinga á tímabilinu. Sjúklingarnir sem þannig fundust þurftu einnig að hafa fengið meðferð við gerviliðsýkingu, ella var talið að um mengun eða annars konar sýkingu væri að ræða. Upplýsingar um einkenni og tímalengd þeirra, niðurstöður rannsókna og meðferð voru skráðar og er yfirferð þessara gagna langt á veg komin.

Vísindalegt gildi: Ávinningur rannsóknarinnar felst í því að afla aukinnar þekkingar á þessum alvarlegu og kostnaðarsömu sýkingum á landsvísu. Þá standa vonir til að með rannsókninni verði unnt að kanna hvað mætti betur fara í forvörnum og meðferð gerviliðsýkinga. Þannig væri hugsanlega hægt að draga úr umfangi vandamálsins og afleiðingum þess.

Ábyrgðarmaður rannsóknar/aðalleiðbeinandi: Magnús Gottfreðsson

Aðrir samstarfsaðilar:

Elías Guðbrandsson bæklunarlæknir, Landspítala

Helga Erlendsdóttir lífeindafræðingur, sýklafræðideild Landspítala

Ingunn Haraldsdóttir læknanemi, Háskóla Íslands

Kristján Orri Helgason læknir, sýklafræðideild Landspítala

_________________________________________________________________

Lýðgrunduð rannsókn á horfum sjúklinga með primary biliary cholangitis og tengslum sjúkdómsins við aðra sjálfsofnæmissjúkdóma

Kristján Torfi Örnólfsson1,3,4, Birkir Freyr Andrason4, Einar Stefán Björnsson1,2,3

1Landspítali, 2meltingardeild Landspítala, 3lyflækningasviði Landspítala, 4Háskóla Íslands.

Inngangur: Primary biliary cholangitis (PBC) er langvinnur bólgusjúkdómur í litlum gallvegum lifrarinnar sem leitt getur til skorpulifrar. Skortur er á lýðgrunduðum rannsóknum á algengi skorpulifrar meðal PBC-sjúklinga og tíðni andláta af völdum sjúkdómsins. Einnig skortir rannsóknir á algengi annarra sjálfsofnæmissjúkdóma hjá PBC-sjúklingum og áhrifum þeirra á horfur. Tilgangur rannsóknarinnar var að nýta lýðgrunduð gögn til að varpa skýrara ljósi á horfur PBC-sjúklinga og tengsl sjúkdómsins við aðra sjálfsofnæmissjúkdóma.

Efniviður og aðferðir: PBC-sjúklingar greindir 1991-2021 mynduðu rannsóknarþýðið. Gagna um skorpulifur og fylgikvilla hennar var aflað með yfirferð sjúkraskráa. Dánarorsakir voru fengnar úr Dánarmeinaskrá Embættis landlæknis og voru þær staðfestar með yfirferð sjúkragagna. Sjúkdómsgreiningarkóðar voru notaðir til að meta algengi annarra sjálfsofnæmissjúkdóma og voru greiningarkóðar staðfestir með yfirferð sjúkragagna.

Niðurstöður: Alls 255 sjúklingar uppfylltu greiningarskilmerki PBC á rannsóknartímabilinu, 216 konur (85%), miðgildi aldurs við greiningu 62 ár (IQR 52-72 ár) og miðgildi eftirfylgdartíma 8 ár (IQR 4-14 ár). Miðgildi lifunar eftir greiningu var 17 ár (95% öryggisbil 15-19 ár). PBC var undirliggjandi orsök 21/107 (20%) andláta. Samtals 7 af 20 (35%) andlátum karla og 14 af 87 (16%) andlátum kvenna voru af völdum sjúkdómsins, hættuhlutfall 2,7 (P=0,04). Alls 48 (19%) sjúklingar greindust með skorpulifur, þar af 36 (75%) konur. Alls greindust 26 mismunandi sjálfsofnæmissjúkdómar utan lifrar hjá PBC-sjúklingum og 75 (29%) greindust með að minnsta kosti einn þeirra. Algengustu sjálfsofnæmissjúkdómarnir voru heilkenni Sjögrens (n=20, 8%), sóri (n=16, 6%) og iktsýki (n=12, 5%). Enginn sjálfsofnæmissjúkdómanna reyndist hafa marktæk tengsl við dánartíðni.

Ályktanir: Einn af hverjum 5 PBC-sjúklingum þróaði með sér skorpulifur. PBC var dánarorsök 20% sjúklinga og benda niðurstöðurnar til þess að karlar séu í aukinni hættu á að deyja af völdum sjúkdómsins. Aðrir sjálfsofnæmissjúkdómar voru algengir meðal PBC-sjúklinga en ekki var sýnt fram á tengsl þeirra við horfur.

_________________________________________________________________

Tengsl ofbeldissögu kvenna við hjarta- og æðasjúkdóma: lýðgrunduð rannsókn

Rebekka Lynch1*, Sigurbjörg Anna Guðnadóttir1*, Arna Hauksdóttir1, Edda Björk Þórðardóttir1, Gunnar Tómasson1, Jóhanna Jakobsdóttir1, Thor Aspelund1, Unnur Valdimarsdóttir1,2,3

*sameiginlegir fyrstu höfundar

1Miðstöð í lýðheilsuvísindum, Háskóla Íslands, 2Department of Medical Epidemiology and Biostatistics, Karolinska Institutet, Solna, Svíþjóð, 3Department of Epidemiology, Harvard T. H. Chan School of Public Health, Boston.

Inngangur: Hátt hlutfall kvenna verður fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi á lífsleiðinni. Tengsl slíkra áfalla við hjartaáföll og áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma hafa ekki verið skoðuð hjá heilli kvenþjóð.

Efniviður og aðferðir: Áfallasaga kvenna er lýðgrunduð langtímarannsókn. Öllum íslenskum konum á aldrinum 18-69 ára var boðin þátttaka og 31,790 konur tóku þátt (30% þátttökuhlutfall). Þessar konur endurspegla þýðið miðað við gögn Hagstofu Íslands með tilliti til aldurs, menntunar, búsetu og tekna. Lífstíðarútsetning fyrir ofbeldi var mæld með Life Events Checklist for DSM-5 (LEC-5). Konurnar svöruðu spurningum um hæð og þyngd og hvort þær hefðu verið greindar af lækni með hjartaáfall, sykursýki týpu 2 eða háþrýsting. Tengsl lífstíðaralgengi um ofbeldi við lífstíðaralgengi um hjartaáföll og áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma voru könnuð og birt sem algengishlutfall (AH) með öryggisbilum (ÖB).

Niðurstöður: Um 40% kvenna höfðu orðið fyrir líkamlegu og/eða kynferðislegu ofbeldi á lífsleiðinni. Konur útsettar fyrir ofbeldi voru líklegri til að hafa greint frá greiningum hjartaáfalls (AH 1,72, ÖB: 1,38-2,14) og sykursýki 2 (AH 1,28, ÖB: 1,11-1,47), vera með offitu (AH 1,12, ÖB: 1,08-1,16) en ekki að hafa greinst með háþrýsting (AH 1,04, ÖB: 0,99-1,09). Konur sem höfðu orðið fyrir bæði líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi voru líklegri til að vera með sögu um ofangreindar útkomur. Aukið algengi hjartaáfalla meðal kvenna með ofbeldissögu var að litlum hluta útskýrt með hefðbundnum áhættuþáttum, það er reykingum, offitu, sykursýki og háþrýstingi.

Ályktun: Þessi lýðgrundaða rannsókn á íslenskum konum bendir til tengsla milli lífssögu um ofbeldi og algengi hjartaáfalla og áhættuþátta hjarta- og æðasjúkdóma. Algengi var hæst meðal kvenna með mikla ofbeldissögu.

_________________________________________________________________

Stenotrophomonas maltophilia blóðsýkingar á Íslandi

Ólafur Orri Sturluson4, Helga Erlendsdóttir1,2, Kristján Orri Helgason2, Magnús Gottfreðsson1,3, Sigurður Guðmundsson1,3

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2sýklafræðideild Landspítala, 3smitsjúkdómadeild Landspítala, 4sérnámslæknir í almennum lyflækningum á Landspítala.

Bakgrunnur: Stenotrophomonas maltophilia er loftháð Gram-neikvæð staflaga baktería með almennt litla meinvirkni en getur þó valdið lífshættulegum blóðsýkingum hjá sumum sjúklingum. Ónæmisbæling og inniliggjandi æðaleggir eru meðal áhættuþátta fyrir blóðsýkingu. S. maltophilia hefur útbreitt sýklalyfjaónæmi, þar á meðal fyrir carbapenem-lyfjum. Trimethoprime/sulfamethoxazole (TMP/SMX) er fyrstu línu meðferð.Tilgangur rannsóknarinnar er að finna hvaða sjúklingahópar fá þessar blóðsýkingar af völdum S. maltophilia á Íslandi. Jafnframt finna hvað væri sameiginlegt með þessum sjúklingum og kanna afdrif þeirra. Gagnagrunnur mun ná yfir allar S. maltophilia blóðsýkingar á Íslandi á 15 ára tímabili.

Aðferðir: Allar jákvæðar S. maltophilia blóðræktanir frá 1/1/2006 til og með 31/12/2021 verða fundnar í gögnum sýklafræðideildar Landspítala og SAK. Klínískum upplýsingum verður síðan safnað úr sjúkraskrám sjúklinganna. Nú þegar er búið að skoða tímabilið 2006-2016.

Niðurstöður: Fyrstu niðurstöður sýna að alls var 41 sjúklingur með blóðsýkingu af völdum S. maltophilia árin 2006-2016 á Landspítala Sjúklingahópurinn var þar helst skipaður krabbameinssjúklingum (36,5%) og vímuefnaneytendum í æð (19,5%). Algengast var að sýkingin væri rakin til æðaleggja (24,5%). Þá var 30 daga dánartíðni fullorðinna með S. maltophilia blóðsýkingu 23% en 40% hjá sjúklingum með hvítkornafæð og var munurinn marktækur (P=0,038). Engin vímuefnaneytandi lést vegna blóðsýkingarinnar. Aðeins 40% allra sjúklinganna voru settir á TMP/SMX en þó fengu fleiri TMP/ SMX á seinni árum tímabilsins.

Umræður og ályktanir: Næsta skref er að útvíkka gagnagrunn svo hann spanni 15 ár og greina allar S. maltophilia blóðsýkingar á Íslandi á tímabilinu. Hugsanlega eru sprautufíklar nýr áhættuhópur hvað S. maltophilia blóðsýkingar varðar. Þá höfðu flestir sjúklinganna þekkta áhættuþætti sem auka líkur á sýkingu, til dæmis æðaleggi og ónæmisbælingu.

_________________________________________________________________

Tengsl sjálfsmótefna við svipgerð og alvarleika sarklíkis. Íslenska sarklíkisrannsóknin

Berglind Árnadóttir1,4, Katrín Þórarinsdóttir3,4,5, Paul Lyons3, Kenneth G C Smith3,
Sigríður Ólína Haraldsdóttir2, Björn Guðbjörnsson3,4,5

1Lyflækningadeild Landspítala, 2lungnadeild Landspítala, 3CITIID University of Cambridge, 4gigtardeild Landspítala, 5rannsóknarstofu gigtarsjúkdóma, 6Háskóla Íslands.

Bakgrunnur: Sarklíki er bólgusjúkdómur af óþekktri orsök með tíðni 4,15/100.000/ár hér á landi. Talið er að samspil erfða og umhverfisþátta spili inn í tilurð sjúkdómsins sem leiðir til brenglaðs ónæmissvars. Þá verða til bólguhnúðar sem geta lagst á hvaða líffæri sem er, þó oftast í brjóstholi og lungum. Greiningarferlið getur verið flókið og langt þar sem svipgerðir sjúkdómsins eru afar ólíkar milli sjúklinga. Notast er við lífmarka (biomarkers) til þess að styðja við greininguna. Þar má nefna angiotensin conversion enzyme (ACE) og lyzozyme. En flestir lífmarkanna hafa lágt næmi og sértæki hvað varðar sarklíki. Sjálfsmótefni gegn frumuboðefnum (cytokines) hafa verið rannsökuð í öðrum bólgu- og sjálfsónæmis-sjúkdómum, svo sem rauðum hundum og Sjögren heilkenni. Lítið er vitað um áhrif þeirra á klínísk einkenni sjálfsónæmissjúklinga. Vitað er til þess að sjálfsmótefni gegn interferon (IFN) týpu I tengist alvarlegri COVID-19 sýkingu. Er tilgangur þessarar rannsóknar að mæla sjálfsmótefni í íslenskum sarklíkissjúklingum og tengja við svipgerð og alvarleika einkenna.

Aðferðir: Til eru blóðsýni 171 sjúklinga með vefjastaðfesta greiningu sarklíkis frá árunum 1981 til 2021. Verða anti-IFN mótefni týpa I, II og III mæld með ákveðinni tækni (magnetic multiplex particle-based assay) erlendis. Að auki verða mæld anti-nuclear antibodies (ANA), anti-cyclic citrullinated peptide antibodies (anti-CCP) og rheumatoid factor (RF) með hefðbundnum hætti á ónæmisfræðideild Landspítala.

Ekki er vitað til þess að rannsókn sem þessi hafi áður verið gerð hjá sarklíkissjúklingum. Eins og áður kom fram getur greiningarferli sjúkdómsins verið vandasamt og er það von rannsakanda að niðurstöður gætu hjálpað til við greiningarferli sarklíkis í framtíðinni.

_________________________________________________________________

Árangur meðferðar sykursýki 1 á Landspítala

Ívar Sævarsson1 , Steinunn Arnardóttir2, Rafn Benediktsson2,3

1 Lyflækningadeild Landspítala, 2innkirtladeild Landspítala, 3læknadeild Háskóla Íslands.

Bakgrunnur: Sykursýki af tegund 1 er alvarlegur sjúkdómur með mikla sjúkdómsbyrði. Sjúklingar með sykursýki eru í meiri hættu að þróa með sér hjarta og æðasjúkdóma en aðrir. Rannsóknir hafa sýnt að betri sykurstjórn dregur úr líkum á þeim. Mikilvægt er að vita hvar við stöndum í samanburði við önnur lönd og alþjóðlegar leiðbeiningar. Markmið þessarar rannsóknar verður að skoða áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma sem eru skráðir í reglulegu eftirliti fólks með sykursýki 1 og bera saman við sænska Sykursýkisgagnabankann. Rauntímagögn eru aðgengileg á heimasíðu gagnabankans ndr.nu. Sænska þýðið fyrir 2022 inniheldur 454.011 einstaklinga. Meðaltal HbA1c er 52,7 mmol/mol. Hlutfall sjúklinga með próteinmigu var 11,8% og hlutfall sjúklinga með LDL undir 2,5mmol/L var 73,4%.

Aðferðir: Rannsóknin verður afturskyggn samanburðarrannsókn. Gögn verða fengin úr skráningarkerfum Landspítala, þar með talið lifandi gæðavísum „Fróða“, greind og borin saman við opinber gögn úr sænska sykursýkisbankanum. Sótt verður um leyfi fyrir að nota þær breytur sem koma að gagni við okkar samanburð.

_________________________________________________________________

Samband milli leiðrétts QT bils fyrir aðgerð og dánartíðni af öllum orsökum eftir skurðaðgerðir að hjartaaðgerðum undanskildum

Helena Xiang Johannsdottir1, Ingibjörg J. Guðmundsdóttir1, Sigurbergur Kárason2,3, Martin Ingi Sigurðsson2,3

1Hjartalækningadeild Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands, 3svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala.

Bakgrunnur: Lenging á QT bili (QTc) hefur verið tengd aukinni hættu á hjartsláttartruflunum og dauða hjá almenningi. Hjartalínurit eru tekin sem hluti af áhættumati fyrir skurðaðgerðir á hjarta- og æðasjúkdómum. Markmið rannsókna er að kanna samband milli QTc bils fyrir aðgerð og dánartíðni sjúklinga sem gangast undir skurðaðgerðir að hjartaaðgerðum undanskildum.

Aðferð: Rannsóknin var afturskyggn og náði til allra, 18 ára og eldri, sem gengust undir skurðaðgerðir, að hjartaaðgerðum undanskildum, á Landspítala frá 2. janúar 2005 til 31. desember 2015 og var þeim fylgt eftir til 20. maí 2016. Sjúklingum var skipt í 5 hópa eftir QTc bili fyrir aðgerð ≤379, 380-439 (viðmiðunarhópur), 440-479, 480-519 and ≥520 ms. Meginendapunktur var langtíma lifun og annar endapunktur 30 daga lifun.

Niðurstöður: Rannsóknarhópurinn samanstóð af 10,209 sjúklingum. Sjúklingar með lengra QTc bil höfðu meiri sjúkdómsbyrði, voru líklegri til þess að fara í bráðaaðgerðir og fengu oftar ávísað hjartalyfjum. Eftir að leiðrétt var fyrir ýmsum breytum var áhættuhlutfall fyrir langtíma lifun, miðað við viðmiðunarhóp (QTc 380-439 ms), 0,85 [CI: 0,66-1,09] fyrir QTc ≤379, 1,08 [CI: 0,99-1,17] fyrir QTc 440-479 ms, 1,26 [CI: 1,10-1,43] fyrir QTc 480-519 ms og 0,97 [CI: 0,78-1,21] fyrir QTc ≥520 ms. Aðeins sjúklingar með QTc bil milli 480-519 ms sýndu verri 30 daga lifun miðað við viðmiðunarhópinn.

Ályktanir: QTc milli 480 og 519 ms fyrir aðgerð tengist bæði verri langtíma lifun og 30 daga lifun eftir skurðaðgerðir að undanskildum hjartaaðgerðum. Niðurstöðurnar benda til þess að þetta gæti endurspeglað undirliggjandi áhættu á hjarta- og æðasjúkdómum.

_________________________________________________________________

Sykursteranotkun á Íslandi á 17 ára tímabili og staða beinverndar hjá langtímanotendum sykurstera

Hulda Hrund Björnsdóttir1, Ólafur Brynjólfur Einarsson3, Gerður Gröndal1,2, Björn Guðbjörnsson1,2

1Landspítali, 2Háskóli Íslands, 3Embætti landlæknis.

Bakgrunnur: Sykursterar eru algeng lyf og aukaverkanir þeirra eru vel þekktar, til dæmis beinþynning. Markmið rannsóknarinnar var að meta algengi ávísana á sykursterum á Íslandi og kanna hve hátt hlutfall einstaklinga sem fá langtímameðferð með sykursterum fá einnig virka beinverndandi lyfjameðferð.

Aðferðir: Rannsóknin var afturskygg gagnagrunnsrannsókn sem náði yfir 17 ára tímabil (2003-2020). Gögn voru fengin úr Lyfjagagnagrunni landlæknis. Allar afgreiðslur af sykursterum í töfluformi voru teknar út úr grunninum. Þeir sem fengu meira en 90 skilgreinda dagskammta af sykursterum á einu ári voru skilgreindir sem langtímanotendur, en einn dagskammtur af prednisolone jafngildir 10mg á dag. Þeir sem fengu samhliða ávísun á bisfosfónat lyfi (± 45 dagar frá afgreiðslu sykurstera) voru skilgreindir á virkri beinverndandi lyfjameðferð.

Niðurstöður: Árlega leystu 9.885 til 15.054 einstaklingar út sykurstera í töfluformi, sem jafngildir að meðaltali 3,8% Íslendinga. Prednisólón var mest afgreiddi sykursterinn. Konur leystu út fleiri ávísanir en karlar (55,8%). Algengi sykursteraávísana hélst stöðug í öllum aldurshópum, nema 90 ára og eldri, þar sem hún jókst.

Af þeim sem fengu sykurstera voru 12,2-18,1% skilgreindir sem langtímanotendur. Beinverndandi meðferð hjá þessum hópi hefur hnignað. Einungis 13,0% langtímanotenda sykurstera fékk virka beinverndandi meðferð árið 2020. Heimilislæknar skrifuðu mest út af sykursterum, þar á eftir sérnámslæknar, gigtarlæknar, almennir lyflæknar og læknanemar.

Ályktun: Notkun sykurstera hefur aukist síðastliðna tvo áratugi þrátt fyrir framfarir í meðferð bólgusjúkdóma. Hlutfall langtímanotenda helst stöðugt en notkun á beinverndandi lyfjum fyrir langtímanotendur fór lækkandi í lok tímabilsins. Því er mikið svigrúm til að bæta beinverndandi meðferð hjá þeim einstaklingum sem þurfa langtímameðferð með sykursterum á Íslandi.

 

_________________________________________________________________

Sértæk mótefnalitun fyrir einhliða frumkomið aldósterónheilkenni (FA)

Hrafnhildur Gunnarsdóttir1,2, Bjarni Agnar Agnarsson1,3, Sigurrós Jónasdóttir1,3, Jón Guðmundsson4, Guðjón Birgisson5, Helga Ágústa Sigurjónsdóttir2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2lyflækningar Landspítala, 3meinafræðideild Landspítala, 4röntgenlækningar Landspítala, 5kviðarholsskurðlækningar Landspítala.

Bakgrunnur: Klínískt mikilvægi sértækrar mótefnalitunar fyrir einhliða frumkomið aldósterónheilkenni (FA) hefur verið óljóst. Einstaklingsmiðuð eftirfylgni gæti verið í sjónmáli. Langtíma útkoma sjúklinga, sem flokkaðir eru byggt á niðurstöðum sértækrar mótefnalitunar, þarfnast nánari skoðunar. Markmið okkar var að meta langtíma útkomu (með notkun PASO skilmerkja) fyrir einhliða FA sjúklinga sem flokkaðir voru út frá mótefnalituninni.

Aðferðir: Rannsóknin var lýðgrunduð og afturskyggn með hátt í 11 ára árlegri eftirfylgd. Rannsóknartímabilið var 2007-2016 á Landspítala. Sjúklingar voru greindir og meðhöndlaðir í samræmi við gildandi verklagsleiðbeiningar frá Endocrine Society, Bandaríkjunum. Allir sjúklingar með einhliða FA sem gengust undir nýrnahettubrottnám á Íslandi á rannsóknartímabilinu (n=26) voru hafðir með. H&E lituð vefjasýni voru lituð með sértækum mótefnum gegn CYP11B1 og CYP11B2. Hvert tilfelli var endurmetið af meinafræðingi og flokkað sem kirtilæxli (adenoma) eða „annað en kirtilæxli“ en sá flokkur samanstóð af ofvexti (adrenal hyperplasia), einhliða örhnútum (unilateral adrenal micronodules) og aldósterón-myndandi frumuklösum (aldosterone producing cell clusters). Aldósterón, renín og kortisól mælingum var safnað, blóðþrýstingsgildi og fjöldi blóðþrýstingslyfja metinn, kalíumuppbót og blóðkalíumgildi skoðuð auk þess sem vefjameinafræðiniðurstöður voru kannaðar fyrir og eftir sértæka mótefnalitun.

Niðurstöður: Í kjölfar sértækrar mótefnalitunar sást kirtilæxli hjá 21 sjúklingi en fimm sjúklingar fengu aðra vefjafræðigreiningu (frumuklasar sáust hjá þremur og örhnútar hjá tveimur). Litunin breytti vefjameinafræðilegri greiningu hjá 27% sjúklinga. Um 80% hvors flokks sýndi hlutasvörun eftir nýrnahettubrottnám (partial clinical success) byggt á PASO skilmerkjum. Enginn þeirra sjúklinga sem höfðu kirtilæxli og sýndu fullan klínískan bata (complete clinical success) við 12 mánaða eftirfylgni (n=4) hlaut bakslag á eftirfylgdartímabilinu.

Ályktanir: Rannsóknin bendir til þess að sértæk mótefnalitun sé nauðsynleg til nákvæmrar vefjameinafræðilegrar greiningar FA. Okkar niðurstöður benda til þess að ákveðinn undirhóp FA sjúklinga megi útskrifa snemma úr eftirliti á öruggan hátt.

_________________________________________________________________

Skjaldkirtilstengdar aukaverkanir amiodarone á Íslandi

Páll Guðjónsson1, Ari I. Jóhannesson1,2, Karl K. Andersen1,2

1Landspítala, 2læknadeild Háskóla Íslands.

Inngangur: Skjaldkirtilstengdar aukaverkanir amiodarone skiptast í skjaldvakabrest hjá 12-17%, upp í 25% ef þögull skjaldvakabrestur er talinn með, og skjaldvakaofseytingu hjá 1,2-10%. Rannsóknin kannar algengi skjaldkirtilstengdra aukaverkana á Íslandi og tengsl við skammtastærð og meðferðarlengd.

Efniviður og aðferðir: Fenginn var listi úr Lyfjagagnagrunni landlæknis sem innihélt þá 1056 Íslendinga sem fengu amiodarone ávísað árið 2014. Gögnum var safnað úr rannsóknum og sjúkraskrám Landspítala, Læknaseturs og Hjartamiðstöðvar. Amiodarone orsökuðum skjaldvakabrest (AOS) var skipt í sannan (hátt TSH, lágt fT4) eða þöglan (hátt TSH, eðl fT4).

Niðurstöður: AOS greindist hjá 218 af 1021 (21,4%). 102 (10%) sannur og 116 (11,4%) þögull. Algengi var svipað milli kynja. Skammtastærð hafði ekki áhrif á tíðni. Áhættan var mest á fyrstu tveimur meðferðarárum, 6,3% og 4,8% og jókst með meðferðarlengd. Eftir 15 ára eftirfylgdartíma höfðu 48,3% þeirra sem hættu aldrei á meðferð greinst með AOS. 53 af 56 manns (94,6%) voru enn á uppbótarmeðferð vegna AOS meira en ári eftir að amiodarone meðferð lauk.

Amiodarone orsökuð skjaldvakaofseyting greindist hjá 103 (10,1%). Áhættan var hærri hjá körlum (12,6%) en konum (5,4%). Hún kom að meðaltali fram eftir 38 mánuði á meðferð og er áhættan mest á 3. og 4. meðferðarári (4,9% og 3,2%). Hættan jókst með hærri skömmtum og meðferðarlengd. Uppsöfnuð áhætta eftir 15 ára eftirfylgd var 17,6%. 36 (35,0%) lögðust inn vegna sjúkdómsins, 9 (8,7%) fóru í skjaldkirtilsbrottnám og hún leiddi 2 (1,9%) til dauða. Fjórir voru með skjaldvakaofseytingu af týpu 1 og 40 með týpu 2.

Ályktanir: Skjaldkirtilstengdum aukaverkunum amiodarone fjölgar með meðferðarlengd. Þögull skjaldvakabrestur er algengari en sannur sem gæti bent til snemmtækrar greiningar eða ofmeðhöndlunar á eðlilegum gildum. Fáir hætta á uppbótarmeðferð eftir að amiodarone meðferð er stöðvuð. Tíðni Skjaldvakaofseytingar vegna amiodarone er há á Íslandi í alþjóðlegu samhengi en lág hjá sönnum AOS.

_________________________________________________________________

Góðkynja einstofna mótefnahækkun og önnur krabbamein: Lýðgrunduð rannsókn á Íslandi og í Svíþjóð

Sæmundur Rögnvaldsson1,2, Elisavet Syriopoulo3, Sigrún Þorsteinsdóttir1,4, Ingigerður Sverrisdóttir1,5, Elías Eyþórsson1,2, Guðrún Ásta Sigurðardóttir1, Brynjar Viðarsson2, Páll Torfi Önundarson1,2, Bjarni A. Agnarsson2, Margrét Sigurðardóttir2, Ingunn Þorsteinsdóttir2, Ísleifur Ólafsson2, Ásdís Rósa Þórðardóttir1, Gauti Kjartan Gíslason1, Andri Ólafsson1, Petros Kampanis6, Malin Hulcrantz7, Brian G. M. Durie8, Stephen Harding6, Ola Landgren9, Þorvarður Jón Löve1, Ingemar Turesson10, Magnus Björkholm3, Sigurður Yngvi Kristinsson1,2

1University of Iceland, 2Landspítali – The National University Hospital of Iceland, 3Karolinska institutet, 4Rigshospitalet, 5Sahlgrenska University Hospital, 6The Binding Site, 7Memorial Sloan Kettering Cancer Center, 8Cedars-Sinai Samuel Oschin Cancer Center, 9Sylvester Comprehensive Cancer Center, 10Skåne University Hospital.

Bakgrunnur: Krabbamein er algengara í þeim sem hafa fengið önnur krabbamein. Góðkynja einstofna mótefnahækkun (Monoclonal gammopathy of undetermined significance, MGUS) er forstig mergæxlis og skyldra sjúkdóma en orsök þess er ekki vel þekkt. Tengsl MGUS og annarra krabbameina hafa ekki verið könnuð. Markmið þessa verkefnis var að kanna tengsl annarra krabbameina við tíðni MGUS og framgang MGUS yfir í mergæxli og skylda sjúkdóma.

Aðferðir: Notuð voru tvö lýðgrunduð rannsóknarþýði. Annars vegar þýði Blóðskimunar til bjargar lýðgrundaðrar skimunarrannsóknar fyrir MGUS á Íslandi og hins vegar sænskt þýði einstaklinga sem greindust með MGUS á árunum 1987-2013. Í fyrri hluta rannsóknarinnar voru könnuð tengsl þess að hafa MGUS íslenska þýðinu eftir því hvort viðkomandi hafði haft fyrri krabbamein samkvæmt íslensku krabbameinsskránni. Í seinni hluta rannsóknarinnar var einstaklingum í sænska þýðinu fylgt eftir að framgangi MGUS yfir í mergæxli og skylda sjúkdóma samkvæmt sænsku krabbameinsskránni og sænsku sjúklingaskránni.

Niðurstöður: Alls voru 75.422 einstaklingar skimaðir fyrir MGUS í íslenska þýðinu, þar af höfðu 3669 MGUS. Alls höfðu 11.198 þátttakendur fyrri sögu um krabbamein. Þau sem höfðu sög um mergvaxtarkrabbameina (Myeloproliferative cancers) höfðu marktækt aukna hættu á MGUS en ekki þeir sem höfðu fengið önnur krabbamein. Niðurstöðurnar voru svipaðar eftir tímalengd frá fyrra krabbameini. Alls voru 13.790 einstaklingar með MGUS í sænska þýðinu. Eftir 6,1 árs meðaleftirfylgdartíma höfðu 1658 þátttakendur haft framgang á MGUS yfir í mergæxli eða skylda sjúkdóma. Þeir sem höfðu fyrri sögu um mergvaxtarkrabbamein höfðu minni áhættu á því að þróa með sér mergæxli eða skylda sjúkdóma.

Ályktanir: Í þessari rannsókn voru tengsl MGUS og annarra krabbameina könnuð í fyrsta skiptið. Í ljós kom að fyrri saga um mergvaxtarkrabbamein auki líkurnar á því að þróa með sér MGUS en minnki líkur á framgangi MGUS. Niðurstöðurnar hjálpa okkur að skilja tilurð mergæxlis og skyldra sjúkdóma.

_________________________________________________________________

IL2 forgenameðferð og T stýrifrumur draga úr bólgu og liðskemmdum í Staphylococcus aureus liðsýkingu í músum

Berglind Bergmann1*, Ying Fei2, Pernilla Jirholt1, Zhicheng Hu1,2, Maria Bergquist1§, Abukar Ali1, Catharina Lindholm1, Olov Ekwall1,5, Guillaume Churlaud3,4, David Klatzmann3,4, Tao Jin1, Inger Gjertsson1

1Department of Rheumatology and Inflammation Research, Institute of Medicine, Sahlgrenska Academy University of Gothenburg, Gothenburg, Sweden, 2Department of Microbiology and Immunology, GuiZhou Medical University, P.R. China, 3AP-HP, Groupe Hospitalier Pitié-Salpêtrière, Biotherapy (CIC-BTi) and Inflammation-Immunopathology-Biotherapy Department (i2B), Paris, France, 4Sorbonne Université, INSERM, Immunology-Immunopathology-Immunotherapy (i3); Paris, France and 5Department of Pediatrics, Institute of Clinical Sciences, Sahlgrenska Academy University of Gothenburg, Gothenburg, Sweden.

Bakgrunnur: Bráð liðsýking af völdum Staphylococcus aureus (S. aureus) er alvarlegur liðsjúkdómur sem getur valdið varanlegum liðskemmdum innan fárra daga, þrátt fyrir sýklalyfjameðferð. Ónæmiskerfið er nauðsynlegt til þess að vinna bug á sýkingunni, en hins vegar er það sterka ónæmissvar sem virkjast við sýkinguna ein aðalorsökin fyrir sjálfum liðskemmdunum. Í rannsókn þessari var hlutverk IL2 og T stýrifrumna í S. aureus liðbólgu skoðað í vel þekktu músamódeli. Tilgátan var að með því að auka þátt ónæmisstýringar í S. aureus liðsýkingu með stækkun T stýrifrumuhólfsins væri hægt að koma í veg fyrir skaðlega þætti ónæmissvarsins sem valda liðskemmdum án þess að hindra verndandi hlutverk ónæmissvarsins. Gjöf lágskammta interleukin 2 (IL2) hefur sértæk áhrif á T stýrifrumuhólfið og stækkar það en margar rannsóknir á áhrifum lágskammta IL2 meðferðar á ýmsa sjálfsónæmissjúkdóma eru í bígerð.

Aðferðir: S. aureus LS-1 eða Newman var sprautað í æð á C57BL/6 eða NMRI músum sem veldur blóðbornu S. aureus smiti og S. aureus liðsýkingu. Hlutverk IL2 og T stýrifrumna var metið með eftirfarandi leiðum: recombinant adeno-associated veiruvigur (rAAV) stuðlar að innrænni IL2-losun og var sprautað í mýs áður en komið var á smiti, T stýrifrumum var eytt með antiCD25 mótefnum fyrir og eftir að komið var á smiti, T stýrifrumur voru gefnar sem meðferð áður en smiti var komið á, og að lokum var IL2 notað sem meðferð frá degi 3 eftir að smiti var komið á. Dánartíðni, þyngdartap, bólgumiðlar, bakteríuhreinsun og liðskemmdir voru meðal annars þau áhrif íhlutunar sem skoðuð voru.

Niðurstöður: Fjölgun T stýrifrumna með IL2 genameðferð áður en komið er á sýkingu hefur jákvæð áhrif á ónæmissvarið í S. aureus liðsýkingu og olli minni liðskemmdum og bólgusvörun á sama tíma sem bakteríuhreinsun var aukin.

Ályktanir: IL2 genaformeðferð hemur skaðlega þætti ónæmisviðbragðisins í S. aureus liðsýkingu en viðheldur verndandi þáttum þess.

_________________________________________________________________

Tengsl brisbólgu og krabbameins í brisi

María Björk Baldursdóttir1, Ásta Ísfold Jónasardóttir1, Sara Bjarney Jónsdóttir2, Einar Stefán Björnsson1,3

1Lyflækningasvið Landspítala, 2Karolinska sjúkrahúsinu, Stokkhólmi, 3meltingardeild Landspítala.

Inngangur: Briskrabbamein er um það bil 3% af öllum krabbameinum á Íslandi og er nýgengi þess á uppleið. Horfur eru mjög slæmar sökum þess hversu seint það greinist. Sýnt hefur verið fram á tengsl langvinnar brisbólgu og briskrabbameins. Tengsl bráðrar brisbólgu og briskrabbameins eru hinsvegar óljós en einstaka tilfellum hefur verið lýst þar sem erfitt er að greina á milli brisbólgu og briskrabbameins. Skortur er á lýðgrunduðum rannsóknum á tengslum sjúkdómanna.

Efni og aðferðir: Afturskyggn rannsókn var gerð á 1102 sjúklingum með fyrstu bráðu brisbólgu á Íslandi 2006-2015 og 1064 sjúklingum með briskrabbamein sem greindist 1986-2019 sem höfðu ekki áður greinst með brisbólgu. Sjúklingar með krabbamein eftir brisbólgu voru paraðir og bornir saman við sjúklinga með krabbamein án brisbólgu.

Niðurstöður: Alls greindust 23 af 1102 (2%) einstaklingum með krabbamein í brisi í kjölfar fyrstu bráðu brisbólgu (52% karlar, meðalaldur 69 ár). Níu (39%) sjúklingar greindust með briskrabbamein samhliða brisbólgu en 14 (61%) greindust að meðaltali 29 mánuðum eftir að brisbólgan var yfirstaðin (miðgildi 21 mánuðir). Staðsetning meina var ekki mismunandi milli hópa. Reykingar, stigun sjúkdóms við greiningu og tíðni langvinnrar brisbólgu var svipaður milli hópa. Ekki reyndist munur á lifun eftir greiningu brisbólgu hjá hópunum (LogRankTest P=0,92).

Ályktun: Krabbamein í brisi greindist í 2% sjúkinga eftir fyrstu bráðu brisbólgu sem er líklegt að hafa tafið greiningu briskrabbameins í hluta tilfella. Brisbólga virtist þó ekki hafa áhrif á lifun eða stig briskrabbameins við greiningu samanborið við sjúklinga með briskrabbamein án sögu um brisbólgu.

 




Þetta vefsvæði byggir á Eplica