Ágrip

Ágrip

GÆÐI OG UMBÓTAVERKEFNI

Improvement of qualified doctors performing ultrasound in every shift at G2 ED

Aaron Palomares og Julia Vallieres Pilon

Bráðamóttöku Landspítala.

aaron.palo.11@gmail.com

Background: Patients are currently waiting unnecessarily in being diagnosed in acute situations. By being able to perform a bedside ultrasound at G2 in the ED will improve waiting time and patient care. That would also help get the patient to the right following imaging and treatment faster. At the beginning of the project in April 2019, there were very few doctors qualified to perform a bedside ultrasound. That was affecting the patients, the department and also the unqualified doctors because of lack of knowledge and confidence.

Objectives: The goal was to reach 80% of shifts covered by a qualified doctor performing bedside US by February 2020.

Methodology: Residents and the attendings should improve knowledge, practice and confidence performing ultrasound through a certified program. The program we chose is a Canadian program. The first part consists of 10 hours of online module followed by test after each module. Then a practice of 10 ultrasounds to get a certificate. The 2nd part of the program is to become and independent practitioner. The process consists of 50 supervised ultrasounds, heart, aorta, lungs, free fluid and uterus. Then the trainee will to complete a written, visual and practical exam. There will also be a change in the monthly schedule for doctors to increase the amount of qualified doctors in every shift.

Results: The project started with only 5 doctors qualified after finishing the US program. Each month one doctor finished the program. From the 7-28th of April there were 0% of shifts covered with qualified doctors. From May 2019 - December 2019 the number of doctors has increased to 12 doctors. Leading to a 97% cover of shifts.

Conclusions: The goal of the project was reached. 97% of shifts were covered in December. More doctors have finished the program. There is an improvement in knowledge, practice and confidence. Certified trainees are now starting to teach ultrasound.


Flokkun hjartalínurita til að flýta greiningu á hjartaáföllum hjá sjúklingum án brjóstverks

Curtis P. Snook1, Hjalti Már Björnsson1, Karl Andersen2, Helga Pálmadóttir1, Helga Rósa Másdóttir1, Ólafía Bergþórsdóttir1

1Bráðamóttöku, 2hjartadeild Landspítala.

slcurtis@landspitali.is

Bakgrunnur: Biðtími eftir bráðri hjartaþræðingu og víkkun á kransæðaþrengingu er mikilvægur þáttur í dánartíðni eftir kransæðastíflu. Einn af gæðastöðlum sem notaður er til að minnka biðtíma er tími frá komu á bráðamóttöku til töku hjartalínurits. Marktækur hluti einstaklinga með ST-hækkun á hjartalínuriti (ST-elevation myocardial infarction eða STEMI) er ekki með brjóstverk við komu á bráðamóttöku. Þessir sjúklingar eru því oft flokkaðir í lægri forgangsflokkvið komu en væru ef brjóstverkur væri til staðar. Þetta getur haft í för með sér töf á að hjartalínurit sé framkvæmt.

Markmið: Bæta við viðmiðum til að fá auka tíðni skimunar hjartalínurita og þar með stytta tíma til greiningar á hjartaáfalli fyrir sjúklinga án brjóstverkjar.

Aðgerð: Notuð verða önnur mikilvæg einkenni fyrir utan brjóstverk við val sjúklinga til skimunar með EKG.

Niðurstöður: Fyrir fyrsta inngrip til að bæta gæði voru spjöld með viðmiðunum búin til og dreift í móttökuherbergjum þar sem flokkunarhjartalínurit er tekið sem og við vinnutölvur lækna og hjúkrunarfræðinga. Í næstu úrbótum voru spjöldin kynnt og ástæður fyrir flokkunarhjartalínuriti sjúklina útskýrðar fyrir starfsfólki.

Ályktanir: Þessi tvö inngripskiluðu ekki árangri. Þetta gæðaverkefni heldur áfram og fleiri inngrip verða reynt.


Stytting biðtíma ungra barna eftir læknisskoðun á bráðamóttöku í Fossvogi

Hildigunnur Þórsdóttir, Þórir Bergsson, Ragnhildur Bjarnadóttir, Hjalti Már Björnsson

Bráðamóttöku Landspítala.

hildiguh@landspitali.is

Bakgrunnur: Bið eftir læknisþjónustu á bráðamóttöku er öllum erfið, sérstaklega ungum börnum. Er talið að börn sem þurfa læknisskoðun á bráðamóttöku í Fossvogi bíði nú of lengi Við teljum að með smávægilegri hagræðingu í skipulagi starfsfólks megi stytta biðtíma ungra barna umtalsvert án þess að skerða þjónustu við aðra og hafa rannsóknir sýnt að slík inngrip skili sér í betri heildarútkomu.

Markmið: Að stytta óþarfa biðtíma barna 0-7 ára, frá komu að skoðun, þannig að 85% aldurshópsins fái læknisskoðun innan 30 mínútna frá innskrift fyrir 1. mars 2020.

Aðferð: Gerð var ferilgreining sem greindi flöskuhálsa í þjónustu við ung börn og kom í ljós að sá stærsti er bið frá innskrift þar til læknir kemur að máli barns. Við beitum PDSA hringum í formi inngripa starfsfólks: 1. Móttökuritarar vísa 0-7 ára gömlum börnum beint inn á deild eftir innskrift. 2. Læknar og hjúkrunarfræðingar sem verða varir við komu ungs barns reyna eftir fremsta megni að sjá barnið sem allra fyrst og gera áform um rannsókn og meðferð. Með skýrslum frá Gagnagátt mælum við tímann frá innskrift þar til læknir hefur skráð sig á sjúkling á skjáborði. Í Gagnagátt köllum við fram tvo hópa; annarsvegar börn 0-7 ára og hins vegar alla 8 ára og eldri svo greina megi hvort inngripið hafi neikvæð áhrif á biðtíma annarra.

Niðurstöður: Run-chart er í smíðum en of fáar mælingar liggja enn að baki til að segja megi til um árangur. Starfsfólk deildarinnar tekur almennt mjög vel í breytt verklag.

Ályktanir: Enn skortir tölulegar upplýsingar til stuðnings okkar breytinga í skipulagi á bráðamóttökunni. Teljum við þó ljóst, af bæði rannsóknum og reynslu í starfi, að markviss stytting óþarfa biðtíma ungra barna eftir læknisskoðun hljóti að skila öllum hlutaðeigandi léttari degi og komi ólíklega niður á öðrum þjónustuþegum. Sóknartækifæri fyrir aðra til svipaðra verka leynast án efa víða annarsstaðar í heilbrigðisþjónustu þessa viðkvæma aldurshóps.


Úrlestur hjartasírita og skráning á slysa- og bráðamóttöku – gæðaverkefni

Signý Sveinsdóttir, Þórdís Edda Hjartardóttir, Ágústa Hjördís Kristinsdóttir, Curtis Pendleton Snook

Bráðamóttöku Landspítala.

thordise@landspitali.is

Bakgrunnur: Í sjúklingahóp bráðamóttöku eru einstaklingar sem koma vegna hjartsláttaróreglu, þeir eru oftar en ekki tengdir við hjartasírita (e. cardiac monitor) en hvað svo. Er verið að lesa úr og skrá hvað kemur fram á þessum hjartasíritum? Tilfinning verkefnastjóra er að þessi þjónusta sé ekki framkvæmd á bráðamóttöku. Samkvæmt sóunarflokkun Ohno (1988) þá er það galli í þjónustu ef skráning á úrlestri hjartasírita er ekki framkvæmd því þá er um að ræða þjónustu sem stenst ekki gæðaviðmið.Þessi þjónusta hefur mikið virði fyrir sjúklingabráðamóttöku því réttur úrlestur hjartasírita flýtir fyrir réttri greiningu af réttum aðila sem myndi þá veita rétta þjónustu. Sjúklingar með grun um hjartsláttartruflanir þurfa eftirlit í hjartasírrita til að fá rétta meðferð við hjartsláttartrufluninni þó að hún sé að ekki að ógna lífi sjúklings þegar hann kemur á bráðamóttöku og einnig til þess að þeir fái greiningu á hjartsláttartrufluninni eða orsökum einkenna sem þeir komu með og þar af leiðandi viðeigandi meðferð ( Sandau o.fl. 2017).

Markmið: Að auka tíðni skráningar á úrlestri hjartasírita í meðferðarseðil hjúkrunar og í læknanótum hjá sjúklingum á slysa- og bráðamóttöku í Fossvogi sem leita þangað með komuástæðurnar: hjartsláttaróregla, gáttatif, gáttaflökt, a.fib, a.flutter, hjartsláttartruflanir, hraður hjartsláttur og/eða aukaslög. Stefnt verður að 50% aukningu í skráningu milli tímabila.

Aðferð: Innleiða áherslubreytingar í verklagi lækna og hjúkrunarfræðinga með því að a)vera með áminningum á stöðufundum, b) setja einfaldar útprentaðar leiðbeiningar um úrlestur hjartasírita hjá móðurstöðvum á SBM(A-,B-,C-svæði og G3). c) innleiða breytingu á menningu og minnka óöryggi með daglegu aðgengi að kennslu á móðurstöðina d) fá reynda hjúkrunarfræðinga og lækna til að minna sína nema og samstarfsfólk á úrlestur og skráningu hjartasírita ásamt því að hjálpa þeim við það e) hafa leiðbeiningabók um úrlestur hjartalínurita hjá öllum móðurstöðum á SBM (A-,B-,C-svæði og G3).

Niðurstöður: Í janúar 2020 leituðu 110 einstaklingar á SBM með komuástæður tengdar hjartsláttaróreglu. Meðferðaraðilar þessa sjúklingahóps voru 156 hjúkrunarfræðingar og 142 læknar. Af þeim skráðu 28% hjúkrunarfræðinga hvað kom fram á hjartasírita og 30% lækna. Þegar þetta ágrip er skrifað er ekki búið að skoða áhrif inngrips sem rætt var hér fyrir ofan en vonast er til að skráning hjúkrunarfræðinga og lækna hafi marktækt aukist á næsta mælingatímabili sem er þá marsmánuður 2020. Tekið var vel í innleiðingu áherslubreytinga og starfsfólk almennt ánægt með betri kennslu og leiðbeiningar.


Stytting tíma frá komu sjúklings með brjóstverk þar til hjartalínurit er tekið og það metið af sérfræðilækni

Nils Daníelsson, Hildur Baldursdóttir, Helga Rósa Másdóttir, Ólafía Bergþórsdóttir, Björk Anne Peiser Ívarsdóttir, Curtis Snook, Jón Magnús Kristjánsson

Bráðamóttöku Landspítala.

nils@landspitali.is

Bakgrunnur: Brátt hjartadrep með ST hækkunum (STEMI) er lífhættulegt ástand, skjót greining er því mikilvæg. Margir þessara sjúklinga leita sér læknisaðstoðar vegna brjóstverks, mikilvægt er að tekið sé hjartalínurit af þeim sem fyrst og það metið af sérfræðilækni. Á að gerast á innan við 10 mín. samkvæmt verkferli á Landspítala.

Markmið: Að tryggja skjótt og öruggt ferli að hjartalínuriti og úrlestri þess, hjá sjúklingum í triage flokki 2 sem eru með brjóstverk og leita á Bráðamóttöku. Markmiðið er að hjartalínurit og úrlestur á því gerist á innan við 10 mín. frá komu, og að fyrir 01.08.2020 muni það takast hjá a.m.k. 90% þessara sjúklinga.

Aðferð: Til að fá yfirsýn yfir ferlið var gerð ferilgreining, auk þess sem framkvæmdar voru handvirkar tímamælingar á mismunandi þáttum þessa ferils. Tekið var upp það verklag að í skjáborð sé skráð „skyndimat“ þegar sérfræðilæknir hefur metið hjartalínuritið. Sem mælikvarði á árangur eru sótt gögn úr gagnagátt um hlutfall þessa sjúklingahóps sem hittir lækni á innan við 10 min. Til að bæta flæðið eru gerð afmörkuð inngrip í ferlið, PDSA hringurinn notaður við mat á þessu. Fyrsta inngripið er að sjúkraliðar bera talstöð og þannig hægt að kalla þá fljótt til að taka hjartalínurit.

Niðurstöður: Ekki liggja allar niðurstöður fyrir enn þá. Reyndist það verklag að nota tímasetningu „skyndimats“/skoðun læknis sem mælikvarða á árangur ekki áreiðanlegt. Skoðuð voru gögn um tíma frá komu þar til fyrsta hjartalínurit liggur fyrir. Handvirkar mælingar sýndu að undir 1 mín. leið frá að rit var tekið þar til það var í höndum sérfræðilæknis. Hlutfall sjúklinga þar sem hjartalínurit er tekið á ≤ 9 mín. á tímabilinu 30.09.19 – 02.02.20 er 53%. Fyrstu tvær vikurnar eftir að verklag með talstöð hófst (03.02.20-16.02.20)er hlutfallið 59%.

Ályktanir: Gæðaverkefnið er enn í vinnslu, of stutt er frá fyrsta inngripi til að hægt sé að draga ályktanir á þessum tímapunkti.RANNSÓKNIR

Áverkadauði á Norðurslóðum

Guðrún Björg Steingrímsdóttir, T. Steinvik, L. Raatiniemi, T. Gustavsson, A. Eriksson, T. Dehli, T. Wisborg, H.K. Bakke, Brynjólfur Mogensen

brynmog@landspitali.is

Bakgrunnur: Árlega valda áverkar dauða 5,8 milljóna einstaklinga og eru áverkar einn af þremur helstu orsökum dauða fólks á aldrinum 14-49 ára. Áverkadauði veldur gífurlegu tapi á lífsárum, og kostar bæði einstaklinginn, aðstandendur og samfélagið mikið. Rannsóknir frá Ameríku og Ástralíu hafa sýnt að áverkadauðar eru algengari í dreifbýlari svæðum. Nyrstu svæði Norðurlandanna er bæði dreifbýl og erfið yfirferðar vegna landslags, kulda og breytilegs veðurs. Rannsóknir á áverkadauða á nyrstu svæðum Norðurlanda vantar.

Markmið: Að bera saman tíðni, orsök áverka og staðsetningu áverkadauða í nyrstu svæðum Norðurlandanna.

Aðferð: Rannsóknarsvæðið var allt Ísland og nyrstu svæði Noregs, Svíþjóðar og Finnlands. Samanlagður íbúafjöldi þessara svæða er um 2,4 milljónir manna. Teknir voru með allir þeir einstaklingar sem létust af ytri orsökum á 5 áratímabili, frá 2007 til 2011 á þessu svæði. Ekki voru þó teknir með þeir sem létust meira en 90 dögum eftir áverka, eða þeir sem vantaði allar upplýsingar um. Eitranir af slysni voru ekki teknar með, og eitranir í sjálfsvígstilgangi aðeins teknar með í sérstökum útreikningum um sjálfsvíg. Sama skilgreining á dreifbýli var notuð við rannsóknina. Upplýsingum var safnað úr dánarmeinaskrám, sjúkraskrám og krufningarskýrslum.

Niðurstöður: Áverkadauðar sem uppfylltu rannsóknarskilyrði voru 4641, þar af 24% lágorku áverkar og 76% háorkuáverkar og sjálfvíg. Tíðni áverkadauða á öllu rannsóknarsvæðinu var 41,3/100.000 íbúa á ári. Sjálfsvíg var langalgengasta orsök áverkadauða á öllu rannsóknarsvæðinu eða 40%. Áverkadauði var algengari í dreifbýli en þéttbýli, bæði lágorku og háorku. Norður-Finnland var með hæstu tíðni lágorku, háorku og sjálfsvígsdauða. Ísland var hins vegar með lægstu tíðni há- og lágorkuáverkadauða.

Ályktanir: Áverkar eru algeng orsök dauða, og algengari í dreifbýli. Sjálfsvíg eru algengust. Norður-Finnland er með hærri tíðni áverkadauða af öllum orsökum en hin Norðurlöndin og líklegt að þar komi samfélags- og efnahagsþættir inn í. Líklegt er að hin lága tíðni áverkadauða í dreifbýli á Íslandi skýrist af lágri tíðni áverkadauða almennt, ásamt fámenni í dreifbýli á Íslandi.


Heimilisofbeldi; klínísk birtingarmynd og kostnaður vegna komu kvenna á Landspítala

Drífa Jónasdóttir1,2, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir3, Sigrún H. Lund4 Eiríkur Ö. Arnarsson5, Eleni Ashikali6, Þórhildur Líndal7, Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir2,8, Brynjólfur Mogensen1,2

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2rannsóknarstofu Landspítala og Háskóla Íslands í bráðafræðum, 3hagfræðideild Háskóla Íslands, 4Decode Genetics, 5Landspítala, 6School of Psychology, University of Sussex, 7Fyrrum umboðsmaður barna, 8hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands.

drifaj@landspitali.is

Bakgrunnur: Það getur verið erfitt að henda reiður á raunverulegt umfang ofbeldisins innan heilbrigðiskerfisins þar sem þolendur láta starfsfólk ekki alltaf vita að um heimilisofbeldi sé að ræða. Í rannsókn frá 2009 voru gögn frá bráðamóttöku Landspítala og Miðstöð Mæðraverndar (MM) greind og kom í ljós að 33% kvenna sem komu á bráðamóttöku og 22% sem komu á MM höfðu einhvern tímann verið beittar líkamlegu ofbeldi í nánu sambandi. Í 11% tilfella var um beinbrot og í 11% tilfella um skurð- eða brunasár að ræða. Rannsókn frá árinu 2010 leiddi í ljós að rúmlega 22% kvenna höfðu verið beittar ofbeldi í nánu sambandi einhvern tímann eftir 16 ára aldur. Rannsóknin sem hér um ræðir er sú fyrsta til að varpa ljósi á umfang, eðli áverka og kostnað heimilisofbeldis vegna koma kvenna á allar deildar Landspítalans.

Markmið: Að rannsaka umfang, eðli og kostnað sem hlýst af þegar karlmenn beita konur heimilisofbeldi eins og það birtist í gögnum Landspítala á árunum 2005-2014.

Aðferð: Rannsóknin var afturskyggn og afmarkaðist við að konan hafi verið 18 ára eða eldri þegar atvik átti sér stað og að gerandi væri núverandi eða fyrrverandi karlkyns maki þolanda. Framkvæmd var textaleit í sjúkrakrám að upplýsingum um aldur og tengsl þolenda og gerenda, legutíma á Landspítala, tegund, staðsetningu og alvarleika áverka. Rekstrartölur frá hagdeild Landspítala lágu til grundvallar kostnaðarútreikningi. Gögn voru greind og sett fram með viðeigandi tölfræði.

Niðurstöður: Komur kvenna á Landspítala vegna heimilisofbeldis voru 1.454, þar af komu 92,6% beint á bráðamóttöku. Meðalaldur var 34 ár og 3,2% voru lagðar inn. Áverkaskor (ISS) sýndi að líkamleg meiðsli voru að mestu minniháttar (92,4%), aðallega staðsett á efri hluta líkamans (64,3%); andliti, höfði og hálsi (37,1%) og efri útlimum (27,2%). Meirihlutinn var yfirborðsáverkar, og algengustu orsakir áverka voru kýlingar, hrindingar og spörk. Endurteknar nýjar komur vegna heimilisofbeldis voru 37,8%. Heildarkostnaður spítalans vegna heimilisofbeldis var rúmar 100 milljónir króna á tímabilinu.

Ályktanir: Heimilisofbeldi reyndist algengt og ofbeldið endurtekið. Líkamlegir áverkar voru þó oftast ekki alvarlegir og staðsettir á efri hluta líkamans. Niðurstöðurnar nýtast til markvissari klínískrar greiningar á vandanum, upplýstari ákvarðanatöku fagfólks og stefnumótun stjórnenda innan málaflokksins.


Hlutverk og reynsla hjúkrunarfræðinga í móttöku brunasjúklinga

Erna Björk Þorsteinsdóttir1,2, Marianne E. Klinke1,2

1Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, 2Landspítala.

ernabjor@landspitali.is

Bakgrunnur: Brunaáverkar eru meðal alvarlegustu áverkum, þeim fylgir veruleg skerðing á lífsgæðum. Brunasár valda um 265.000 dauðsföllum á heimsvísu á ári hverju. Undanfarin 20 ár hafa batahorfur brunasjúklinga batnað en áfram er há dánartíðni meðal þeirra. Rétt mat og meðferð, ásamt snemmkomið inngrip meðferðaaðila minnkar þjáningu og bætir batahorfur sjúklinga. Þekking heilbrigðsstarfsfólks sem taka þátt í mati og umönnun brunasjúklinga er gríðarlega mikilvæg.

Markmið: Að skoða hlutverk og reynslu hjúkrunarfræðinga í móttöku brunasjúklinga á bráðamóttöku Landspítala.

Aðferð: Eigindleg rannsókn og stuðst við grundaða kenningu. Tekið rýnihópaviðtal við einn hóp sem samanstóð af þremur hjúkrunarfræðingum ásamt rannsakanda. Við gagnasöfnun var notað hljóðupptökutæki og stuðst var við hálfstaðlaðan spurningaramma. Spurt var meðal annars út í reynslu hjúkrunarfræðinga á móttöku brunasjúklinga og hlutverk þeirra í móttöku þessa sjúklingahóps. Notast var við kóðun við greiningu gagnanna. Allir þátttakendur skrifuðu undir upplýst samþykki.

Niðurstöður: Viðtalið var kóðað með tveimur yfirflokkum: (1) Samstillt meðferð, (2) Þekkingarleysi. Svo voru fjórir undirflokkar innan flokksins samstillt meðferð: (1.1) Afleiðingar, (1.2) Erfið tilfelli, (1.3) Verkjastilling og (1.4) Samskipti. Þátttakendur voru sammála um að þetta væru erfið og minnisstæð tilfelli. Ekki væri næg fræðsla fyrir starfsfólk á deildinni og væri gagnlegt að bæta það.

Ályktanir: Fylgikvillar sjúklinga með brunaáverka geta leitt til lífshættulegs ástands og jafnvel leitt til dauða. Að taka á móti sjúklingi í lífshættulegu ástandi, tryggja viðeigandi meðferð og öryggi hans er áskorun sem hjúkrunarfræðingar á bráðamóttöku standa frammi fyrir. Nauðsynlegt er að tryggja samþættingu meðferðar og að teymið vinni vel saman. Sjúklingar sem hljóta brunaáverka finna fyrir miklum verkjum og er mjög brýnt að verkjastilla sjúklinginn sem allra fyrst. Hjúkrunarfræðingur er málsvari sjúklingsins og skal gæta þess að sjúklingur hljóti viðeigandi verkjameðferð.


Gagnsemi serum tryptasamælinga hjá sjúklingum með möguleg einkenni bráðaofnæmiskasts á bráðamóttöku 2011-2018

Karólína Hansen1, María I. Gunnbjörnsdóttir2, Hjalti Már Björnsson3

1Læknadeild Háskóla Íslands, 2ofnæmisdeild, 3bráðadeild Landspítala.

kah32@hi.is

Bakgrunnur: Bráðaofnæmiskast er nokkuð auðvelt í greiningu í dæmigerðum tilfellum en getur valdið mismunandieinkennum. Til viðbótar við klíníska greiningu læknis hefur verið sýnt fram á að hjá einstaklingum með óljós eða ódæmigerð einkenni sem mögulega eru vegna bráðaofnæmiskasts getur mæling á serum tryptasa verið gagnleg. Einnig nýtist mæling á s-tryptasa til að greina sjúkdóminn mastfrumnager. Byrjað var að kynna s-tryptasamælingar á bráðamóttöku Landspítala árið 2012 en nýjar klínískar leiðbeiningar voru kynntarí byrjun árs 2018.

Markmið: Að kanna tíðni s-tryptasamælinga á bráðamóttöku Landspítala og meta gagnsemi þeirra með tilliti til greiningar á bráðaofnæmiskasti og mastfrumnageri.

Aðferð: Með leyfi siðanefndar heilbrigðisrannsókna á Landspítala voru skoðuð öll tilvik þar sem blóðsýni var sent frá bráðamóttöku til mælingar á s-tryptasa á ónæmisfræðideild á árunum 2011 – 2018.Upplýsingum var safnað úr sjúkraskrám um uppvinnslu og meðferð sjúklinga á bráðamóttöku og hjá ofnæmislækni.

Niðurstöður: Á tímabilinu voru alls 214 sýni send til s-tryptasamælingar. Tryptasi var hækkaður (>12 μg/L) í 36 tilvikum. Konur mynduðu 61,2% hópsins og meðalaldur sjúklinga var 40,6 ár. Í 28,0% tilfella voru einstaklingar með einkenni frá 1 líffærakerfi, 32,7% frá tveimur kerfum, 25,7% frá þremur kerfum og 12,1% með einkenni frá fjórum kerfum. Þrír sjúklingar (1,4%) voru ekki meðneineinkenni.Afþeimsjúklingumsemhöfðueinkennifráeinulíffærakerfivorufjórir (6,8%) með hækkað tryptasa-gildi. Algengi einkenna eftir flokkum var eftirfarandi: húð- og slímhúðareinkenni – 86,4%, hjarta- og æðaeinkenni – 47,7%, öndunarfæraeinkenni – 49,5% og meltingarfæraeinkenni – 36,0%. Af þessum 214 tilfellum voru 126 sem komu í nánara mat ofnæmislæknis. Þar voru 65 tilfelli (51,6%) metin sem bráðaofnæmisköst. Næmni mælinga reyndist vera 40,9% (95% CI 26,3% - 56,8%) og sértæki vera 97,1% (95% CI 84,7% - 99,9%). Ekkert tilfelli leiddi til greiningar mastfrumnagers.

Ályktanir: Mælingar á s-tryptasa hjá sjúklingum á bráðamóttöku með möguleg einkenni bráðaofnæmiskasts virðist veita gagnlegar upplýsingar til greiningar sjúkdómsins. Mælingar á s-tryptasa á bráðamóttöku hafa ekki leitt til fjölgunar greininga á mastfrumnageri.


Mjaðmabrot geta orðið dauðans alvara

Sigrún Sunna Skúladóttir1,2,3, Elísabet Guðmundsdóttir4, Brynjólfur Mogensen5,6, Helga Rósa Másdóttir5, Hlíf Guðmundsdóttir5, Lovísa Agnes Jónsdóttir5, Ingibjörg Sigurþórsdóttir5, Jóhanna E. Torfadóttir7, Þórdís Þorsteinsdóttir5,8

1Rannsóknarstofu Háskóla Íslands og Landspítala í öldrunarfræðum, 2matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, 3bæklunarskurðdeild B5, 4hagdeild Landspítala, 5rannsóknarstofu Háskóla Íslands og Landspítala í bráðafræðum, 6læknadeild Háskóla Íslands, 7Miðstöð í lýðheilsuvísindum, læknadeild Háskóla Íslands,8hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands.

sigrunsskula@gmail.com

Bakgrunnur: Þekkt er að tíðni mjaðmabrota meðal aldraðra eykst með hverju ári, vegna fjölgunar aldraðra. Þau eru talin vera eitt af alvarlegustu brotum sem geta orðið við fall úr standandi hæð hjá öldruðum. Kynjamunur er á dánartíðni. Meðalaldur þeirra sem brotna er 80 ± 5 ár. Kynjahlutfall er 2 til 3 konur á móti hverjum karli.

Markmið: Greina frá þeirri háu dánartíðni sem er hérlendis innan árs frá mjaðmabroti til að skerpa á mikilvægi góðrar móttöku og uppvinnslu þessa sjúklingahóps strax við komu á bráðadeild.

Aðferð: Á árunum 2008 til 2012 leituðu á bráðamóttöku Landspítala 1053 einstaklingar 67 ára og eldri sem höfðu mjaðmabrotnað og fóru í aðgerð. Gerð var afturskyggn gagnarannsókn á þessum hópi og skoðaðir faraldsfræðilegir þættir svo sem aldurskipting, kynjaskipting, dánartíðni, fjöldi sjúkdómsgreininga, hjúskaparstaða og búseta.

Niðurstöður: Þessi rannsókn náði til um 80% af öllu eldra fólki sem mjaðmabrotnuðu á Íslandi á rannsóknartímanum. Konur voru 72% þeirra sem brotnuðu.. Karlar voru oftar giftir (51% á móti 23%, p<0,001). Meðalaldur kvenna var 83 ár en 82 ár hjá körlum. Dánartíðni innan árs var 36% hjá körlum á móti 21% hjá konum. (líkindahlutfall 2,30, 95% vikmörk 1,66-3,18).

Ályktanir: Karlar höfðu á tímabilinu hærri dánartíðni en konur eftir að tekið var tillit til aldurs og annara áhrifaþátta svo sem biðtíma eftir aðgerð og fjölda sjúkdómsgreininga. Huga þarf að forvörnun og sérhæfðri þjónustu þessa sjúklingahóps þegar við komu á bráðamóttöku.


Bæklunar- og brotamóttaka á göngudeild öldrunarlækninga

Anna Björg Jónsdóttir1, Sigrún B. Bergmundsdóttir1, Kolbrún Kristiansen2

1Öldrunarlækningadeild, 2bæklunarskurðdeild Landspítala.

annabjon@landspitali.is

Bakgrunnur: Á hverju ári leitar fjöldi einstaklinga á bráðamóttöku Landspítala eftir byltu sem leiðir af sér mjaðmabrot. Um þriðjungur hópsins útskrifast beint heim af bæklunarskurðdeild án skipulagðrar endurkomu. Eftirfylgd og eftirlit með afdrifum þessa hóps var því ábótavant og farið var í þetta verkefni í því skyni að bæta þjónustu við þá sjúklinga sem eru 67 ára og eldri og útskrifast beint heim af bæklunarskurðdeild. Verkefnið var samvinnuverkefni milli dag-, göngu- og samfélagsdeildar á Landakoti og bæklunarskurðdeilda í Fossvogi.

Markmið: Markmið verkefnisins var að bjóða öllum sjúklingum 67 ára og eldri sem útskrifast beint heim af bæklunarskurðdeild eftir mjaðmarbrot tíma á dag-, göngu- og samfélagsdeild á Landakoti 6 vikum eftir útskrift, með það fyrir augum að fyrirbyggja frekari byltur og/eða beinbrot og styðja einstaklinga til bættrar heilsu og til áframhaldandi sjálfstæðrar búsetu.

Aðferð: Við útskrift af bæklunarskurðdeild var sjúklingum boðin endurkomutíma á bæklunar- og brotamóttöku. Þar hitti sjúklingur lækni og sjúkraþjálfara sem hvor um sig mátu einstaklinginn og lögðu til úrbætur eftir þörfum.

Niðurstöður: Frá 4. mars 2019 og fram til 31. desember 2019 mættu 31 sjúklingar. Meðalaldurinn var 79 ár og 65 % voru konur. Tveir lögðust inn í framhaldi af komu og 5 komu á dagdeild. Þrettán (42%) voru greindir með beinþynningu og voru settir á meðferð. Sex (19%) náðu aldurstengdum viðmiðum á 10 m gönguprófi og enginn á 5xSTST-prófi. Ellefu (35%) gátu ekki framkvæmt TUG án hjálpartækja eða utanaðkomandi stuðnings. Sex (19%) höfðu dottið eftir útskrift af legudeild. Fimmtán (48%) voru með næringarvandamál og sjö (23%) með áfengisvandamál.

Ályktanir: Það er mat höfunda að markmiðinu hafi allavegana að hluta verið náð. Við náðum að bæta þjónustuúrræðin þó ekki allir hafi þegið boð um að koma. Við vitum líka mun meira um þennan hóp núna og getum með vissu sagt að það sé mikilvægt að bjóða upp á þetta úrræði honum til stuðnings. Varðandi það hvort þetta hafi áhrif til lengri tíma á getuna til sjálfstæðrar búsetu þá verður það efni næstu rannsóknar.


Skaðaminnkun á vettvangi: árangurmatsogmeðferðarviðsýkingum

Elísabet Brynjarsdóttir1, Helga Sif Friðjónsdóttir2

1Frú Ragnheiður – Rauði krossinn í Reykjavík, 2Landspítala.

elisabetb@redcross.is

Bakgrunnur: Sjálfboðaliðaverkefnið Frú Ragnheiður – skaðaminnkun var stofnað árið 2009 af Rauða krossinum í Reykjavík og byggir á hugmyndafræði skaðaminnkunar. Þjónustan fer fram í sérinnréttuðum bíl og á hverri vakt starfar hjúkrunarfræðingur á vettvangi og læknir á bakvakt. Verkefnið sinnir skjólstæðingum á vettvangi sem flestir eru húsnæðislausir og nota vímuefni um æð. Slík notkun vímuefna eykur hættu á bakteríusýkingum og eru húðsýkingar tiltölulega algengar hjá markhóp verkefnisins. Ýmsar hindranir stuðla að því að markhópurinn leitar seint aðstoðar hefðbundinnar heilbrigðisþjónustu sem leiðir oftar en ekki til þess að meðhöndla þarf sýkinguna með sýklalyfjum í æð í innlögn. Hefur þjónusta á vettvangi byggð á hugmyndafræði skaðaminnkunar reynst árangursrík fyrir markhópinn og þannig skapast tækifæri til snemminngrips með tilliti til sýklalyfjameðferðar í hefðbundu töfluformi. Frú Ragnheiður nýtur auki mikils trausts meðal skjólstæðinga sinna og hafa því skapast einstakar aðstæður til þess að þróa þjónustu á vettvangi í samráði við notendur og koma betur til móts við þessar þjónustuþarfir þeirra.

Markmið: Árið 2018 var ákveðið að þróa sýklalyfjameðferð á vettvangi með það markmið að auka aðgengi markhóps að snemminngripi við húðsýkingum. Sýkingin er meðhöndluð í upphafsfasa og komið í veg fyrir að hún þróist yfir í alvarlega eða lífshættulega sýkingu.

Aðferð: Afturskyggn rannsókn byggð á gagnagrunni sýklalyfjameðferðarverkefnis frá 1. apríl 2018 er verkefnið hófst.

Niðurstöður: Frá 1. apríl til 31.des 2108 hófu 25 einstaklingar samtals 40 sýklalyfjameðferðir og fengu viðeigandi eftirfylgd á vettvangi. Samtals 37 (92,5%) sýklalyfjameðferðum var lokið á árangursríkan hátt í gegnum Frú Ragnheiði án aðkomu annarrar heilbrigðisþjónustu. Heildarfjöldi koma vegna sýklalyfjameðferðar voru 186, þar af 34 fyrstu komur og 152 eftirfylgdarkomur.

Ályktanir: Sýklalyfjameðferð á vettvangi fyrir jaðarsetta einstaklinga er mikilvæg viðbót við heilbrigðisþjónustu sem fyrir er. Til að auka líkur á góðri meðferðarheldni markhóps er æskilegt að mat og eftirfylgd sýklalyfjameðferðar fari fram á vettvangi í starfssemi sem jaðarsettir einstaklingar treysta. Vettvangshjúkrun fyrir jaðarsetta einstaklinga á Íslandi dregur úr skaða, eykur lífsgæði og heldur einstaklingum á lífi.


Þættir sem hafa forspárgildi um útskrift aldraðra heim innan 30 daga eftir heildrænt öldrunarmat, meðferð og endurhæfingu

Konstantin Shcherbak, Rakel Valdimarsdóttir, Helga Atladóttir, Pálmi V. Jónsson

Öldrunarþjónustu, meðferðarsviði Landspítala

helgaat@lsh.is

Bakgrunnur: Mikil þörf er á sérhæfðri endurhæfingu fyrir aldraða á Íslandi. Nauðsynlegt er að þekkja forspárgildi þátta sem hafa jákvæð áhrif á endurhæfingu til að vanda val einstaklinga í endurhæfingu og hámarka árangur.

Aðferðafræði: Gögn úr gagnagrunni interRAI Post-Acute-Care (interRAI PAC) frá þremur árum á endurhæfingardeild aldraðra voru greind og aðhvarfsgreining notuð í úrvinnslu. Flestir sjúklinganna komu á endurhæfingardeildina frá bráðadeildum Landspítala til að fara í heildrænt öldrunarmat, meðferð og endurhæfingu, en ástand þeirra leyfði ekki að þeir útskrifuðust beint heim frá bráðadeildum.

Markmið: Að greina þætti sem hafa forspárgildi um útskrift aldraðra heim eftir heildræna meðferð og endurhæfingu innan 30 daga frá innlögn.

Niðurstöður: Gögn 562 sjúklinga við fyrstu komu voru rannsökuð. Meðalaldur var 83,6 ár og 60,1% voru kvenkyns. Alls voru 372 sjúklingar (66%) sem útskrifuðust heim innan 30 daga. Þættir sem voru tengdir útskrift í fjölþátta aðhvarfsgreiningu voru betri niðurstöður IADL- og ADL- kvarða við komu, kvenkyn, lengri vegalengd í göngugetu síðastliðna 3 daga og færri lyf. Truflandi þættir fyrir útskrift voru sjúkdómsgreiningarnar „non-Alzheimers dementia“, krabbamein, hjartabilun, miklir verkir, og þörf fyrir einangrun fyrstu 3 daga í legu. Þetta líkan skýrði ekki allan breytileika í útkomu (pseudo R2=13,3%). Sumir huglægir þættir voru marktækt tengdir útskrift í einþátta aðhvarfsgreiningu, svo sem trú sjúklings á því að hann geti bætt líkamlega færni sína (OR=2,64 [95% CI 1,31-5,33]), trú heilbrigðisstarfsmanns (OR=3,38 [95% CI 1,50-9,77]) á því að sjúklingur gæti bætt líkamlega færni sína, afstöðu stuðningsaðila (umönnunaraðila) sem er jákvæður gagnvart útskrift heim (OR=1,78 [95% CI 1,07-2,96]). Þættir sem hefðbundið talið er að hafi áhrif á endurhæfingu voru ekki endilega marktækt tengdir útskrift, svo sem IADL og ADL geta fyrir veikindi, heimilisaðstæður fyrir veikindi, óráð, þunglyndi og vitræn skerðing.

Ályktanir: Þættir sem finnast í interRAI-PAC mati hafa forspárgildi um útskrift heim innan 30 daga. Val á sjúklingum sem telja sig geta bætt líkamlega færni sína og sem eru ekki með langvinnan sjúkdóm á lokastigi, gæti haft áhrif á niðurstöður.


Fimmtungur með Færni- og heilsumat á Landspítala deyr í bið

Herdís Herbertsdóttir, Jón Eyjólfur Jónsson, Ólafur H. Samúelsson

Meðferðarsviði Landspítala

herdish@landspitali.is

Bakgrunnur: Á Landspítala bíða að jafnaði yfir 100 sjúklingar með færni- og heilsumat (FHM) eftir flutningi í hjúkrunarrými. Sjúklingar bíða á biðdeildum og á almennum legudeildum. Á höfuðborgarsvæðinu hefur fjölgað verulega á biðlista eftir hjúkrunarrými síðan 2014, og hafa tölur sýnt að á þriðja ársfjórðungi 2018 biðu um 80% fleiri (8,9/1000) en árið 2014 (4,9/1000)1). Meðalbiðtími eftir flutningi á hjúkrunarheimili hefur haldist svipaður undanfarin ár, eða í kringum þrír mánuðir, en margir deyja áður en þeir komast á hjúkrunarheimili.

Markmið: Skoða afdrif fólks með FHM á Landspítala með tilliti til kyns, biðtíma og dánartíðni.

Aðferð: Upplýsingar voru unnar úr skrám flæðisdeildar um alla sjúklinga með FHM á Landspítala og voru ekki taldir útskriftarfærir heim.

Niðurstöður: Árið 2019 létust 101 af 528 (19%) með FHM á Landspítala, 55 karlar og 46 konur. 19 af 101 voru með FHM við innlögn en 82 (45 karlar og 37 konur) fengu FHM í legunni. Af þeim sem fengu FHM á Landspítala dóu 45 karlar (28%) og 37 konur (16%). Af þeim sem dóu með FHM létust 18% karla og 11% kvenna innan 7 daga. Samtals 31% karla og 14% létust innan 14 daga og 42% karla og 41% kvenna létust innan 30 daga. Að meðaltali liðu 54 dagar frá FHM að andláti (1-329 dagar, miðgildi 36 dagar).

Ályktanir: Ætla má að umsókn um FHM hafi verið óviðeigandi hjá hluta sjúklinga og þá einkum karla. Áhersla á flutning á hjúkrunarheimili hefur áhrif á viðhorf, meðferð og þjónustu sjúklings. Hætt er við að líknarsjónarmið hafi ekki verið höfð að leiðarljósi við val á úrræði hjá þessum hópi sjúklinga. Þessi háa dánartíðni innan skamms tíma bendir til að mikilvægt sé að fram fari rannsókn sem greini hvað einkennir þessa sjúklinga, dánarorsakir þeirra og forspárþætti um áætlaðar lífslíkur. Niðurstöður slíkrar rannsóknar gætu orðið leiðbeinandi um verklag við val á viðeigandi úrræði.

1) landlaeknir.is/servlet/file/store93/item35783/Bid_eftir_hjukrunarrymi_samantekt.3.arsfjordungur_2018.pdf


Identifying out-of-hospital cardiac arrest patients with no chance of survival

Sigurbergur Kárason et al.

skarason@landspitali.is

(ekkert ágrip)


VEGGSPJÖLD

Aukum gæði og minnkum sóun - Yfirlit yfir frávísanir sýna sem berast til Blóðbankans

Erna Knútsdóttir, Björn Harðarson, Sigurborg Matthíasdóttir, Guðrún Svansdóttir, Ína Björg Hjálmarsdóttir, Anna Margrét Halldórsdóttir

Blóðbankinn, Landspítala.

ernakn@landspitali.is

Bakgrunnur: Áreiðanleiki blóðrannsókna fyrir sjúklinga byggjast meðal annars á gæði sýna. Sé verklagi við sýnatökur fyrir sýni til Blóðbankans ábótavant eykur það hættu á aukaverkunum tengdum blóðinngjöf og jafnvel dauða. Til að tryggja öryggi sjúklinga er stefna Blóðbankans sú að veita ekki undanþágu þegar gæði, merking og/eða rekjanleiki sýna eru ekki ásættanleg. Blóðbankinn skráir slíkar frávísanir sýna til að fá yfirsýn yfir eðli og umfang vandans.

Markmið: Tilgangur þessarar samantektar er að taka saman gögn um uppruna, fjölda og ástæður fyrir frávísunum sýna sem til Blóðbankans berast. Slík gögn geta varpað ljósi á helstu áhættur við sýnatökuferilinn og hvatt til bætts verklags og minni sóunar.

Aðferð: Tekin voru út gögn úr frávikagrunni Blóðbankans um frávik vegna frávísunar sýna á tímabilinu 2014-2018.

Niðurstöður: Blóðbankinn tók á móti 20-23.000 sýnum til greininga árlega á tímabilinu. Um tvö prósent sýna flokkuðust sem gallaðar sýnatökur og var hafnað til að tryggja öryggi sjúklinga. Fjöldi frávika hefur verið heldur vaxandi undanfarin ár, 313 frávik voru skráð árið 2014 en 390 árið 2018. Landspítalinn er stærsti notendahópur Blóðbankans og áttu flest frávik uppruna sinn þar eða um 67%. Algengasta ástæðan fyrir frávísun sýna á rannsóknartímabilinu var að persónuvottun vantaði á beiðnina (35%). Aðrar algengar ástæður voru mismunandi nafn eða kennitala á sýni og beiðni (9,8%), sýni en engin beiðni (9,2%) og ómerkt sýni (9,0%). Alvarlegasta tegund frávika frá réttu verklagi er þegar sýnaglas inniheldur blóðsýni úr öðrum einstaklingi en þeim sem sýnaglasið er merkt og voru það 18 tilvik á tímabilinu eða 1,1%.

Ályktanir: Staðlað verklag og gátlistar eiga að tryggja rétt verklag við sýnatökur. Regluleg endurskoðun á verklagi er hins vegar mikilvæg til að bæta vinnuferla. Skoða þarf ástæður fyrir gölluðum sýnatökum. Er þjálfun ábótavant, er skortur á samskiptum eða er álag of mikið? Er þörf á tæknilausnum sem styðja við rétta sýnatöku og útfyllingu beiðnar? Blóðbankinn hvetur deildir Landspítalans til að bæta ferla við sýnatökur og draga úr þannig sóun og auka öryggi sjúklinga.


Hjúkrunarfræðingar á vettvangi – Fræðileg samantekt og viðtöl um áhrif undirbúnings fyrir brottför á upplifun og líðan

Andri Rafn Sveinsson1, Anna Björk Sigurjónsdóttir1, Ágústa Hjördís Kristinsdóttir1,2,3, Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir1,3

1Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, 2bráðaþjónustu Landspítala, 3rannsóknastofu Landspítala og Háskóla Íslands í bráðafræðum.

thordith@landspitali.is

Inngangur: Tíðni náttúruhamfara í heiminum fer vaxandi. Fjöldi hjúkrunarfræðinga fer á vegum hjálparsamtaka og tekur þátt í mikilvægu starfi á hamfarasvæðum tengdu sjúkum og slösuðum. Mikilvægt er að skoða hvaða þættir í undirbúningi og hæfniþjálfun hafa reynst gagnlegir meðal hjúkrunarfræðinga til að takast á við erfiðar aðstæður og mögulegar afleiðingar slíkra vettvangsstarfa.

Aðferð: Blönduð aðferð var notuð, annars vegar kerfisbundin fræðileg samantekt á rannsóknargreinum úr gagnasöfnunum PubMed og CINAHL birtum milli mars 2009 til mars 2019 og hins vegar viðtöl við þrjá hjúkrunarfræðinga. Leitarniðurstöður voru settar fram samkvæmt PRISMA flæðiriti og gæði rannsókna metin. Niðurstöður viðtala voru þemagreind.

Niðurstöður: Sex megindlegar og átta eigindlegar rannsóknir uppfylltu leitarskilyrði. Hjúkrunarfræðingar lýstu óvissu auk verri sálfélagslegri og líkamlegri heilsu við hjálparstörf. Kallað var eftir frekari þjálfun í hamfarahjúkrun, menningarhæfni og teymisvinnu til að undirbúa hjúkrunarfræðinga betur fyrir vettvangsstörf. Auk þess reyndist aukin hætta á að þróa með sér áfallastreituröskun og þunglyndi eftir störf á hamfarasvæðum. Verkleg þjálfun var talin gagnlegri en bókleg kennsla við undirbúning starfa. Í viðtölum við hjúkrunarfræðinga voru fimm þemu greind; grípa tækifærið, óvissa, erfiðir tímar og krefjandi aðstæður, „vitneskja er vopn“ og stuðningur á vettvangi og eftir heimkomu.

Ályktanir: Þörf er á frekari rannsóknum á undirbúningi hjúkrunarfræðinga fyrir starf á hamfarasvæðum. Einnig er þörf á að kanna betur hvaða áhrif starfið hefur á líðan og heilsu hjúkrunarfræðinga. Námskeið í hamfarahjúkrun og menningarhæfni í grunn- og framhaldsnámi gæti reynst hjúkrunarnemum og hjúkrunarfræðingum gagnlegt.


Sjúkraþjálfun á bráðamóttöku Landspítala

Guðbjörg Þóra Andrésdóttir, Þóra Björg Sigurþórsdóttir

Sjúkraþjálfun Landspítala Fossvogi.

gthora@landspitali.is

Inngangur: Aðkoma sjúkraþjálfara á bráðamóttöku Landspítala hefur aukist jafnt og þétt á undanförnum árum í kjölfar skipulagsbreytinga. Stór þáttur í starfi sjúkraþjálfara bráðamóttöku hefur verið að meta grófhreyfifærni og getu til útskriftar. Erlendis hafa sjúkraþjálfarar lengi verið starfandi á bráðamóttöku, oftast sem 2. meðferðaraðili en sums staðar þróast sem fyrsti meðferðaraðili hjá sjúklingum með vægari stoðkerfisvanda.

Markmið: Tilgangur þessarar samantektar er að skoða hvers eðlis helstu verkefni sjúkraþjálfara á bráðamóttöku eru og hvar áherslan liggur.

Aðferðir: Fengin voru gögn frá Hagdeild Landspítala. Skoðaðir voru ICPC (International Classification of PrimaryCare) kóðar þeirra einstaklinga sem sjúkraþjálfarar sinntu á bráðamóttöku árið 2019. Rýnt var nánar í ICPC kóðann, bakverkir/verkir í baki og hlutfalls sem fékk sjúkraþjálfun var skoðað.

Niðurstöður: Sjúkraþjálfarar sinntu 445 komum á bráðamóttöku 2019. Ríflega þriðjungur (172) útskrifaðist heim og 261 (59%) færðist á legudeild. Algengustu þrír ICPC kóðarnir voru bakverkir, fall eða bylta og slappleiki, en fáir í þessum flokkum (8 af 204) fengu fleiri en einn af þessum algengu kóðum. Sjúkraþjálfarar sinntu 67 með ICPC kóða bakverkir/verkur í baki sem var 3,5% af heildarfjölda með þessa flokkun á bráðamóttöku. Heildarfjöldi þeirra sem komu á bráðamóttöku og fengu flokkunina bakverki/verkur í baki og síðan greininguna þjótak/mjóbaksverkur (ICD-54.3-54.5) var 235. Ellefu af þeim hittu sjúkraþjálfara. Tuttugu og tveir í bakverkjaflokknum fengu ICD-greininguna samfallsbrot (ICD-48.5) og hittu þrír þeirra sjúkraþjálfara á bráðamóttöku.

Ályktanir: Markmið með aukinni aðkomu sjúkraþjálfara í þverfaglegu teymi á bráðamóttöku er að nýta þekkingu og sérhæfingu þeirra til að bæta heildræna þjónustu við sjúklinginn. Vísbendingar eru um að stór hluti aðkomu sjúkraþjálfara tengist eldri einstaklingum og mati á færni, en leiðbeiningar og fræðsla til til dæmis einstaklinga með bráða stoðkerfisverki í baki, sé þáttur sem mætti efla. Áhugavert væri að skoða ferli beiðna til sjúkraþjálfara og hvort allar beiðnir skili sér. Einnig hvað ræður beiðni um aðkomu sjúkraþjálfara í ákveðnum tilfellum, svo sem þegar um bakverk er að ræða. En skv. ofangreindum tölum eru sjúkraþjálfarar að hitta hlutfallslega fáa einstaklinga með þjótak/mjóbaksverk (ICD-54.3-54.3) þar sem sérfræðiþekking sjúkraþjálfara varðandi næstu skref í meðferðinni geta nýst vel.


Rangt blóð í sýnaglasi til Blóðbankans – Alvarlegt frávik frá verklagi við sýnatökur

Björn Harðarson, Erna Knútsdóttir, Sigurborg Matthíasdóttir, Guðrún Svansdóttir, Ína Björg Hjálmarsdóttir, Anna Margrét Halldórsdóttir

Blóðbankinn, Landspítala.

bjornh@landspitali.is

Bakgrunnur: Rangt blóð í sýnaglasi (RBS eða wrong blood in tube, WBIT) til Blóðbankans til blóðflokkunar og/eða samræmingarprófs eykur hættu á aukaverkunum og jafnvel dauða tengdum blóðinngjöf. Rangt blóð í sýnaglasi er skilgreint sem: 1) Sýni er dregið frá röngum sjúklingi og er merkt með persónuupplýsingum fyrirhugaðs sjúklings (ranglega dregið). 2) Sýni er dregið frá fyrirhuguðum sjúklingi en merkt með upplýsingum annars sjúklings (ranglega merkt).

Markmið: Tilgangur þessarar samantektar er að taka saman gögn um rangt blóð í sýnaglasi sem höfðu borist til Blóðbankans. Slíkar upplýsingar geta varpað ljósi á helstu áhættur við sýnatökuferilinn og leitt til bætts verklags og aukið þannig öryggi sjúklinga.

Aðferð: Tekin voru út gögn úr frávikagrunni Blóðbankans á tímabilinu 2014-2018 um frávik vegna rangs blóðs í sýnaglasi sem bárust til Blóðbankans.

Niðurstöður: Á rannsóknartímabilinu, þ.e. 2014-2018, bárust Blóðbankanum 20-23.000 sýni til greiningar árlega. Fjöldi skráðra ábendinga vegna þessara sýna og/eða beiðna var 300-400 á ári á tímabilinu og fer heldur vaxandi. Fjöldi tilfella þar sem rangt blóð var í sýnaglasi var á bilinu 1-6 á ári á tímabilinu, en þetta eru alvarlegustu frávikin sem tengjast sýnatökum. Í 68% tilfella var blóð tekið úr fyrirhuguðum sjúklingi en merkt með upplýsingum annars sjúklings.

Ályktanir: Örugg blóðinngjöf veltur á ströngum stöðluðum aðferðum og gátlistum. Upphaf blóðinngjafarferilsins er vönduð sýnataka. RBS er alvarlegt frávik frá verklagi við sýnatökur og getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir sjúkling. Hlutfall Íslendinga í blóðflokki O er 54% og A flokki 33% þannig að töluverðar líkur er á að RBS sé ekki uppgötvað. Sjúklingur þarf að eiga eldri blóðflokk á skrá svo misræmi uppgötvast. Alvarlegasta afleiðingin er að sjúklingur fái inngjöf blóðs í röngum ABO blóðflokki, sem getur verið lífshættulegt. Skoða þarf ástæður fyrir gölluðum sýnatökum og leita úrbóta til að tryggja öryggi sjúklinga.


Cardiopulmonary Resuscitation in Adults Over 80: Outcome and the Perception of Appropriateness by Clinicians

Patrick Druwé, Dominique D. Benoit, Koenraad G. Monsieurs, James Gagg, Shinji Nakahara, Evan Avraham Alpert, Hans van Schuppen, Gábor Él, Sofie A. Huybrechts, Nicolas Mpotos, Luc-Marie Joly, Theodoros Xanthos, Markus Roessler, Peter Paal, Michael N. Cocchi, Conrad Bjørshol, Jouni Nurmi, Pascual Piñera Salmeron, RadoslawOwczuk, Hildigunnur Svavarsdóttir, Diana Cimpoesu, Violetta Raffay, Gal Pachys, Peter De Paepe,og Ruth Piers, on behalf of the REAPPROPRIATE study group.

hildig@sak.is

Background: The treatment of cardiac arrest in older patients poses significant clinical and ethical challenges. Worldwide, as life expectancy increases, more people are surviving to an older age. As a consequence of the aging of the population, clinicians are confronted with a rising number of out-of-hospital cardiac arrests (OHCAs).

Objectives To determine the prevalence of clinician perception of inappropriate cardiopulmonary resuscitation (CPR) regarding the last OHCA encountered in an adult 80 years or older and its relationship to patient outcome.

Methodology: A sub-analysis of an international multicenter cross-sectional survey (REAPPROPRIATE) of out-of-hospital CPR attempts registered in Europe, Israel, Japan and the United States in adults 80 years or older. A total of 611 clinicians, of whom 176 were doctors, 123 nurses and 312 emergency medical-technicians/paramedics.

Results: The last CPR attempt among patients 80 years or older was perceived as appropriate by 320 (52.4%) of the clinicians; 178 (29.1%) were uncertain about the appropriateness and 113 (18.5%) perceived it as inappropriate. The survival to hospital discharge for the “appropriate” subgroup was 8 of 265 (3.0%), 1 of 164 (.6%) in the “uncertain” subgroup and 2 of 107 (1.9%) in the “inappropriate” subgroup; 503 of 564 (89.2%) CPR attempts involved non-shockable rhythms. CPR attempts in nursing homes accounted for 124 of 590 (21.0%) of the patients and were perceived as appropriate by 44 (35.5%) of the clinicians; 45 (36.3%) were uncertain about the appropriateness and 35 (28.2%) perceived the CPR attempt as inappropriate. The survival to hospital discharge for the nursing home patients was 0 of 107 (0%); 104 of 111 (93.7%) CPR attempts involved non-shockable rhythms. Overall, 36 of 543 (6.6%) CPR attempts were undertaken despite a known written do not attempt resuscitation decision; 14 of 36 (38.9%) clinicians considered this appropriate, 9 of 36 (25.0%) were uncertain and 13 of 36 (36.1%) considered this inappropriate.

Conclusions: The findings show that despite generally poor outcomes for older patients undergoing CPR, many clinicians do not consider these attempts at resuscitation to be inappropriate. A debate is needed to ensure that first we do not harm older patients by futile CPR attempts.


Forgangsröðunarkerfi á bráðamóttöku

Jón Andri Guðjónsson1,2, Tómas Eldjárn Vilhjálmsson1,2, Ingibjörg Sigurþórsdóttir1,3, Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir2,3

1Bráðamóttöku Landspítala, 2hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, 3rannsóknastofu Landspítala og Háskóla Íslands í bráðafræðum.

thordith@landspitali.is

Bakgrunnur: Örtröð á bráðamóttöku er alþjóðlegt vandamál. Hún getur lengt dvalartíma sjúklinga og haft neikvæð áhrif á útkomu þeirra. Undanfarna áratugi hafa verið reyndar mismunandi útgáfur af kerfum fyrir, í eða eftir forgangsröðun með það að markmiði að bæta flæði sjúklinga og stytta dvalartíma. Hjúkrunarfræðingar spila lykilhlutverk í forgangsröðun, í því felst að forgangsraða sjúklingum í rétta flokka og í kjölfarið að koma þeim í rétt ferli innan bráðamóttöku. Til að sjúklingum sé raðað í viðeigandi flokk er mikilvægt að hjúkrunarfræðingur búi yfir viðunandi hæfni til að ákvarðanataka verði sem nákvæmust.

Markmið: Í fyrsta lagi að skoða mismunandi íhlutanir fyrir, í og eftir forgangsröðun til að kanna áhrif þeirra á flæði og dvalartíma sjúklinga. Í öðru lagi að kanna hvernig hæfni hjúkrunarfræðinga tengist nákvæmni í forgangsröðun.

Aðferð: Gagnaöflun fór fram með kerfisbundinni leit með notkun á orðalista MeSH í gagnasafni PubMed, leitað var eftir rannsóknum á ensku frá árinu 2009-2019. Stuðst var við PRISMA flæðirit við greiningu heimilda.

Niðurstöður: Samtals stóðust 17 rannsóknir inntökuskilyrði. Þrettán rannsóknir sýndu hvaða áhrif mismunandi íhlutanir höfðu á dvalartíma sjúklinga. Fjórar rannsóknir fjölluðu um tengsl á hæfni hjúkrunarfræðinga við nákvæmni í forgangsröðun. Hefðbundin forgangsröðunarkerfi náðu oft ekki ein og sér að anna flæði sjúklinga með ásættanlegu móti. Íhlutun fyrir, í eða eftir forgangsröðun gat annað flæði sjúklinga betur og leitt til þess að þeim var fyrr komið í viðeigandi ferli miðað við bráðleika. Þegar skoðuð voru tengsl milli hæfni og nákvæmni hjúkrunarfræðinga í forgangsröðun þá virtist starfsreynsla og menntun ekki vera veigamestu þættirnir. Mest jákvæð áhrif á nákvæmni í ákvarðanatöku í forgangsröðun var regluleg upprifjun verkferla.

Ályktanir: Íhlutanir fyrir, í og eftir forgangsröðun virðast geta stytt dvalartíma sjúklinga á bráðamóttökum. Mikilvægt er að gera ráð fyrir rúmum aðlögunartíma við innleiðingu nýrra íhlutanna. Þrátt fyrir aukna reynslu og menntun hjúkrunarfræðinga sem sinna forgangsröðun er ekki sjálfsagt að það skili sér í aukinni nákvæmni þegar kemur að ákvarðanatöku. Í því samhengi er mikilvægt að horfa á verkferla forgangsröðunarkerfa sem nauðsynlegan þátt í því að meta bráðleika sjúklinga á áreiðanlegan hátt.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica