Ávarp

19. líf- og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands

Gleðilegt nýtt ár!

Það er afar ánægjulegt að bjóða til ráðstefnu heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands um rannsóknir í líf- og heilbrigðisvísindum í upphafi árs 2019. Ráðstefnan er haldin í 19. sinn og fer fram á Háskólatorgi dagana 3. og 4. janúar.

Samtals verða 235 verkefni kynnt, ýmist á formi fyrirlestra eða veggspjalda. Efniviður spannar rannsóknarverkefni starfsmanna og nemenda deilda og rannsóknareininga heilbrigðisvísindasviðs sem staðsettir eru vítt og breitt um bæinn, eða frá Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum að lyfjafræðihúsinu við Hofsvallagötu. Verkefnin eru unnin í víðtæku samstarfi við vísindamenn við innlendar og erlendar stofnanir og oft er um þverfræðilega samvinnu að ræða. Tilteknar málstofur fara fram á ensku til þess að koma til móts við vaxandi fjölda enskumælandi starfsfólks og nemenda.

Fyrri ráðstefnudagurinn hefst á gestafyrirlestri um nýjungar í svæfingalæknisfræði, mikilvægi teymisvinnu og um sjálfboðastörf við framkvæmd opinna hjartaskurðaðgerða á börnum í Afríku. Seinni dagurinn hefst á gestafyrirlestri um rannsóknir í heilsuhagfræði og fjallar um leiðir til að meta heilsu til fjár. Þá verða haldnir tveir hádegisfyrirlestrar sem einkum eru ætlaðir almenningi. Annar fjallar um áhrif mataræðis á geðraskanir barna og hinn um sjúkdómsvaldandi bakteríur í matvælum og fæðuöryggi Íslendinga. Í hádegisfyrirlestri verður jafnframt kynning á hugtakinu lýðvísindi (citizen science) og hvernig fyrirtækið CCP hyggst nýta slíka nálgun við þróun tölvuleikja. Málstofa verður haldin á vegum vísindasiðanefndar um hvenær eigi að miðla nýjum upplýsingum um heilsufar til þátttakenda í vísindarannsóknum.

Heilbrigðismál eru í brennidepli um þessar mundir og tengjast óhjákvæmilega hlutverki og starfi heilbrigðisvísindasviðs um menntun starfsfólks heilbrigðisþjónustu sem og rannsóknavirkni og nýsköpun. Áætlað er að stofna Heilbrigðisvísindastofnun Háskóla Íslands snemma árs 2019. Þar munu vísindamenn fá aukin tækifæri til samstarfs auk frekari stuðnings og þjónustu bæði vegna vot- og þurrrannsókna, sem svo hafa verið nefndar, og vísa til rannsókna á tilraunastofum og til klínískra- og gagnarannsókna. Meðal annars er áætlað að Heilsubrunnur eigi þar heimili, sem í framtíðinni mun styðja við gagnarannsóknir á heilbrigðissviði í samvinnu við heilbrigðisþjónustuna. Starf heilbrigðisvísindasviðs fer fram í nánu samstarfi við Landspítala og önnur sjúkrahús og heilsugæslu. Verið er að leggja drög að stefnu um íslenska heilbrigðisþjónustu til ársins 2030 þar sem ein megináherslan er á eflingu vísinda og nýsköpunar. Þá eru framkvæmdir hafnar við byggingu meðferðarkjarna Landspítala og hönnun stendur yfir á nýju húsnæði fyrir heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands. 

Við færum öllum þeim sem kynna rannsóknir sínar á ráðstefnunni miklar þakkir. Einnig viljum við þakka undirbúningsnefnd, rannsóknastjóra, kynningarstjóra og verkefnastjóra á heilbrigðisvísindasviði fyrir undirbúningsvinnu og framkvæmd ráðstefnunnar. Þá er fundarstjórum og fulltrúum valnefnda þakkað sérstaklega. 

Verið hjartanlega velkomin á ráðstefnuna um rannsóknir í líf- og heilbrigðisvísindum við Háskóla Íslands. Megi ráðstefnan verða vettvangur árangursríkra samræðna, aukins skilnings milli fræðigreina og kveikja/kveikur að nýju samstarfi.

 

Inga Þórsdóttir                                           Kristín Ingólfsdóttir   
prófessor og forseti                                   prófessor og formaður

heilbrigðisvísindasviðs                             undirbúningsnefndar                                                     




Þetta vefsvæði byggir á Eplica