Ávarp

Ávarp

VELKOMIN Á LYFLÆKNAÞING!

Kæru lyflæknar og aðrir þinggestir.

Það er mér sönn ánægja að bjóða ykkur hjartanlega velkomin á XXIII. þing Félags íslenskra lyflækna sem haldið verður í ráðstefnu- og tónlistarhúsinu Hörpu í Reykjavík 30. nóvember og 1. desember 2018.

Það má með sanni segja að lyflækningar séu einhver umfangsmesta sérgrein læknisfræðinnar. Sérgreinin spannar mjög vítt svið og kannski þess vegna hefur höfuðáhersla undanfarinna tveggja áratuga eða svo verið að efla undirsérgreinar lyflækninga, mögulega á kostnað heildarsvips lyflækninga. Víða hefur þetta leitt til vaxandi sjálfstæðis undirsérgreina og hafa sameiginlegir hagsmunir lyflækninga stundum vikið fyrir sérhagsmunum undirsérgreinanna. Nú eru hins vegar blikur á lofti hvað varðar aukið mikilvægi breiðrar nálgunar lyflækninga. Vaxandi fjöldi sjúklinga, oft aldraðra, með fjölþætt vandamál frá mismunandi líffærakerfum kallar á mun yfirgripsmeiri nálgun en veitt er af undirsérgreinunum. Almennar lyflækningar, í fjölbreyttum birtingarmyndum,  hafa öðlast sífellt stærri sess í starfsemi sjúkrahúsa og höfum við ekki farið varhluta af þessari þróun hérlendis.

Þing Félags íslenskra lyflækna hafa um árabil verið mikilvægur vettvangur fyrir kynningu á niðurstöðum vísindarannsókna sem og umfjöllun um nýjungar og áleitin viðfangsefni innan lyflækninga hérlendis. Margir af okkar fremstu vísindamönnum í læknisfræði hafa þreytt frumraun sína á þingum félagsins og finnst okkur því mikilvægt að hlúa sérstaklega að þessum þætti. Sem fyrr verða veitt verðlaun fyrir bestu útdrætti unglæknis og læknanema. Þau eru veitt af Verðlaunasjóði í læknisfræði sem Þórður Harðarson, prófessor emeritus í lyflækningum, og Árni Kristinsson, fyrrum yfirlæknir hjartalækninga á Landspítala, veita forstöðu. Eru þeim færðar bestu þakkir fyrir stuðninginn.

Dagskrá þingsins er annars mjög fjölbreytt og ætti að höfða til sem flestra lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna sem fást við ýmis verkefni lyflækninga í starfi sínu. Þema þingsins í þetta skipti er ferill í lyflækningum. Með þessu viljum við beina kastljósinu að því hversu áhugverðar lyflækningar eru sem valkostur fyrir unga lækna og hversu mikil breidd er innan sérgreinarinnar. Meðal þess sem hæst ber er málþing þar sem fjallað verður um uppbyggingu starfsferils í lyflækningum. Þar mun Rita Redberg læknir, sem er aðalritstjóri JAMA Internal Medicine, fjalla um mikilvægi vísindarannsókna og hvernig best er að bera sig að við að birta vísindagreinar. Þá mun Nicola Montana læknir, forseti Evrópusamtaka lyflækna, vera með framsögu á málþingi um skynsamlega nýtingu úrræða í heilbrigðisþjónustu. Vaxandi kröfur eru um skynsamlega nýtingu fjármuna innan heilbrigðiskerfa, ekki síst þegar nýir og dýrir meðferðarkostir eiga í hlut.

Það hefur komið í ljós á síðustu árum að krabbameinslyfjameðferð getur haft neikvæð áhrif á hjartað jafnvel löngu eftir að meðferð er lokið. Þetta hefur leitt til vettvangs þar sem viðfangsefni hjarta- og krabbameinslækna skarast. Þetta svið kallast „cardio-oncology“ og mun einn helsti sérfræðingur Evrópu á þessu sviði, Daniela Cardinale læknir, fjalla um það sem efst er á baugi á þessum nýja og áhugaverða vettvangi.  Þá verður fjallað um sérfræðinám í ýmsum löndum á málþingi sem ætti að vera sérlega áhugavert fyrir unglækna og læknanema. Nýir sérfræðilæknar bera oft með sér ferska vinda og málþing þar sem þeir segja frá því sem er áhugverðast á hverjum tíma hefur unnið sér fastan sess á lyflæknaþingum undanfarinna ára.

Líkt og á síðastu þingum Félags íslenskra lyflækna verða sérstök málþing um viðfangsefni hjúkrunar á sviði lyflækninga. Er þetta liður í að gera þingið áhugaverðara fyrir hjúkrunarfræðinga og aðrar fagstéttir. Jafnframt teljum við að flest málþingin höfði til fleiri stétta en lækna, svo sem hjúkrunarfræðinga og klínískra lyfjafræðinga, og fyrirlesarar frá báðum stéttum taka þátt. Segja má að þetta sé löngu tímabært skref því aukin samvinna hinna ýmsu fagstétta er lykilatriði í frekari framþróun heilbrigðisþjónustunnar, ekki síst hvað varðar teymisvinnu á legudeildum og göngudeildum.

Fjórir læknar verða gerðir að heiðursfélögum í Félagi íslenskra lyflækna í þetta skipti. Það eru þeir Ari Jóhannesson, Magni Jónsson, Magnús Böðvarsson og Uggi Agnarsson. Þeir hafa auðvitað hver um sig unnið með sínu lagi en eiga það sameiginlegt að hafa verið framúrskarandi klínískir læknar, hafa verið mjög virkir á lyflæknaþingum og  gefið mikið af sér til lyflækninga á fjölbreyttan hátt. Eru þeir allir mjög vel að þessum heiðri komnir.

Þing Félags íslenskra lyflækna er ekki síður mikilvægt í félagslegri eflingu þeirra sem starfa innan lyflækninga. Við ætlum að reyna að bæta þar um betur frá fyrri árum. Það hófst með vel heppnuðu fræðslukvöldi í Petersen-svítunni viku fyrir þingið. Á föstudagskvöldi þingsins munum við hittast á Bryggjunni brugghúsi eftir aðalfund Félags íslenskra lyflækna og skemmta okkur fram eftir kvöldi. Á laugardagskvöldinu verður hátíðarkvöldverður þingsins í Gamla Bíói. Við vonumst til að sjá sem flesta þar í góðum gír.

Það er stórt og á köflum flókið verkefni að halda svona þing. Eins og ávallt hafa margir lagt hönd á plóg við undirbúninginn og færum við þeim öllum bestu þakkir fyrir. Að síðustu viljum við þakka mörgum stuðningsaðilum þingsins, sér í lagi Vistor, sem er gullstyrktaraðili, og Alvogen og Icepharma, sem eru silfurstyrktaraðilar, fyrir þeirra mjög svo mikilvæga framlag.

Fyrir hönd stjórnar Félags íslenskra lyflækna,

Davíð O. Arnar, formaður

 

Stjórn Félags íslenskra lyflækna

Davíð O. Arnar, formaður

Gerður Gröndal, ritari

Sigurður Ólafsson, gjaldkeri,

Friðbjörn Sigurðsson

Runólfur Pálsson

Signý Vala Sveinsdóttir

Örvar Gunnarsson

Bára Dís Benediktsdóttir

Theódóra Baldvinsdóttir

 

Dómnefnd sem metur bestu ágrip og kynningar unglækna og læknanema. Verðlaun veitt af Verðlaunasjóði í læknisfræði sem Þórður Harðarson og Árni Kristinsson stofnuðu.

Helga Ágústa Sigurjónsdóttir, formaður

Karl Andersen

Margrét Birna Andrésdóttir
Þetta vefsvæði byggir á Eplica